Mikael Már Pálsson fæddist 23. september 1980 í Gautaborg. Hann lést í Reykjavík 2. mars 2021.
Dóttir Mikaels er Aðalrós Freyja f. 1. september 2008.
Foreldrar hans eru Jódís H. Runólfsdóttir f. 24. júlí 1957 og eiginmaður hennar Páll Indriði Pálsson f. 4. febrúar 1956. Faðir Mikaels er Páll Jónsson f. 21. júlí 1955, kona hans er Sigurrós Svavarsdóttir f. 19. september 1953.
Mikael er einn tveggja systkina ásamt einum hálfbróður. Systkini Mikaels eru Auður María Pálsdóttir f. 29. júlí 1979, sambýlismaður hennar er Thor Jochumsen f. 14. nóvember 1983. Börn þeirra eru þær, Emma Hallgrímsdóttir f. 2006, Embla Jochumsen f. 2014 og Ellý Jochumsen f. 2015. Bróðir Mikaels er Jón Gauti Pálsson f. 25. apríl 1985, sambýliskona hans er Rán Reynisdóttir f. 1. desember 1982. Börn þeirra eru Jódís Edda f. 2017 og Eldur Gauti Mikael f. 2018, Urður Erna Kristinsdóttir f. 2010 og Ýmir Atli Kristinsson f. 2013. Hálfbróðir Mikaels er Daníel Már Pálsson f. 26. mars 1988 og sambýliskona hans er Hrafnhildur Agnarsdóttir f. 10. janúar 1993.
Mikael er fæddur í Svíþjóð þar sem fjölskyldan bjó fyrstu tvö æviár hans. Fjölskyldan fluttist síðan til Reykjavíkur og bjó hann öll sín uppvaxtarár í Hlíðunum. Hann var öll sín grunnskólaár í Hlíðaskóla. Mikael var mikill íþróttamaður og æfði hann bæði handbolta og fótbolta af miklu kappi með Val öll sín uppvaxtar og unglingsár. Hann fylgdist ávallt vel öllum íþróttum og var dyggur stuðningsmaður Vals alla tíð ásamt því að vera stoltur Arsenal maður.
Mikael var mikil félagsvera og ævintýragjarn og það var alltaf gaman í kringum hann. Hann var magnaður, sterkur og áhrifamikill karakter og snerti líf flest allra sem hann hitti. Hann var mikill sjarmur og fólk heillaðist af honum hvar sem hann kom. Mikael var mikill fjölskyldumaður. Hann var einstaklega barngóður og börn soguðust að honum, hann tók þeim sem jafningjum og fannst ekki leiðinlegt að leika við og fíflast með þeim. Hann var yndislegur stóri frændi og í miklu uppáhaldi hjá systkinabörnum sínum. Augasteinninn hans var svo dóttir hans Freyja sem hann var svo ákaflega stoltur af. Mikael átti einnig fóstursoninn Styrmi til margra ára sem hann tók sem sínum eigin og sleppti aldrei takinu á.
Útför Mikaels Más Pálssonar fer fram 18. mars frá Háteigskirkju kl.13:00
Elsku Mikki, ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja.
Ætli það sé ekki best rifja upp þegar ég kynntist þér fyrst 10 eða 11 ára í
gegnum íþróttirnar í Val. Þú gerðir lífið strax skemmtilegra.
Prakkarastrikin og uppátækin sem þér datt í hug voru endalaus.
Hvernig við skemmtum okkur við að sprengja póstkassa með kínverjum, hvernig
við gerðum greyið Sigrúnu á neðri hæðinni í Mávahlíðinni alveg geggjaða með
gauragangi eða þegar við fengum alla leigubílstjórana á eftir okkur fyrir
að negla snjóboltum í bílana þeirra. Þetta er bara brot af þeim uppátækjum
sem ég man.
Fyrir þér varð að vera gaman allar stundir og spennan í botni. Því voru
uppátækin okkar yfirleitt langt yfir strikið. Sem ungur drengur sem þurfti
ekki að taka ábyrgð eða spá í afleiðingar gjörða sinna var ekki hægt að
finna betri leikfélaga en þig Mikki. Skemmtilegustu minningar æsku minnar
koma úr Mávahlíðinni þar sem við gátum grallarast allar helgar og greyið
hann Jón Gauti, yngri bróðir þinn, sem þurfti oft að vera skotspónn
uppátækjanna hjá okkur.
Ég man að strax þá, alveg sama hvort við vorum að keppa í vító eða spila
Ólsen Ólsen, vildir þú alltaf veðja upp á pening. Það skipti engu máli hvor
vann, það var alltaf double or nothing í næsta, og þegar þú sást að maður
var orðinn brúnaþungur og leiður yfir að skulda þér 3-400 kall, sem var
stórfé á þessum aldri, þá bara gafstu manni það.
Þetta snerist aldrei um peninginn, þér var skítsama um hann. Það var
spennan við veðmálið sem þú varst háður strax þá. Allt varð að vera svo
helvíti spennandi til að vera gaman, og að fá að vera með þér á þeirri
vegferð sem barn var stórkostlega skemmtilegt ferðalag.
Sem íþróttamaður varstu náttúrlega fáránlega hæfileikaríkur, bæði í
handbolta og fótbolta.
Ég gleymi því aldrei þegar einn þjálfarinn ætlaði að setja þig í A-liðið í
einhverju mótinu og þú sagðir við hann að þú vildir frekar vera í B-liðinu,
því vinir þínir væru þar og þú vildir frekar spila með þeim. Töffari, en
þetta lýsti þér svo vel.
Eftir það var engin spurning í hvaða liði þú spilaðir. En það vantaði ekki
keppnisskapið í þig Mikki og þú þoldir ekki yfirvald. Því er kannski engin
furða að þér og dómarastéttinni kom aldrei vel saman. Ég man þegar við
vorum í 6. flokki og það var ekki gert ráð fyrir að dómarar væru með
spjöld. Því þurfti dómarinn stundum að bregða á það ráð biðja þjálfarann
vinsamlegast að taka þig út af, ef illa gekk.
Ef vel gekk varstu besti gæinn á vellinum og varst með brandarana á hreinu
og hrókur alls fagnaðar, en ef við vorum undir þá var yfirleitt stutt í
rauða spjaldið hjá þér.
Líklega áttu óstaðfest Íslandsmet í rauðum spjöldum innan
boltaíþrótta.
Í hópi varstu frábær og það dýrkuðu þig allir. Þrátt fyrir alla stríðnina
og öll lætin í þér þá fékkstu alla strákana í liðinu til að hlæja og brosa
og varst aldrei illkvittinn við neinn. Þú hafðir þann eiginleika að það var
ekki hægt að vera illa við þig og ekki undir nokkrum kringumstæðum hægt að
sleppa því að hlæja að ruglinu í þér.
Svo urðum við eldri og íþróttirnar hurfu smám saman og aðrir tímar tóku
við.
Jón, bróðir þinn, sagði við mig um daginn að það hefði ekkert verið til
staðar til að grípa þig þegar sportið fór og ég er svolítið sammála því.
Því í raun og veru vorum við báðir ofvirkir og hvatvísir strákar sem fengum
útrás í gegnum íþróttirnar. Í dag hefðum við báðir verið greindir með ADHD
snemma og settir á lyf, en það var ekkert til þegar við vorum litlir og því
hjálpuðu íþróttirnar mikið. Skólakerfi hentaði þér illa, ekki af því að þú
ættir erfitt með að læra heldur leiddist þér og þú varst bara allt of
ofvirkur til að geta setið kyrr heilu og hálfu dagana. Ég gleymi því aldrei
þegar við sátum í þýskutíma í Iðnskólanum og þér drulluleiddist og gast
ekki setið kyrr og fórst að atast í mér og reyta af þér brandara og
kennarinn þurfti á endanum að vísa þér út, ekki af því þú værir dónalegur
eða leiðinlegur heldur af því að skólastofan grenjaði úr hlátri út af
ruglinu í þér og kennarinn gat ekkert kennt á meðan.
Á endanum bað hún þig um að mæta ekki aftur og þú varst guðslifandi feginn,
því ef það var eitthvað sem þú gast ekki hugsað þér var það að sitja kyrr
og gera eitthvað sem þér fannst ekki skemmtilegt. Það var í rauninni ekki
hægt að ætlast til þess af þér. Um daginn las viðtal við virtan doktor í
geðlæknisfræði sem talaði um að drengir í dag, sem væru mjög ofvirkir og
með athyglisbrest, enduðu oft á Vogi eða í fangelsunum, en sagði jafnframt
að þessir einstaklingar hefðu oft skarað fram úr áður fyrr. En samfélag sem
krefðist langrar kyrrsetu í skólum og meiri kyrrsetu heima fyrir en áður,
hentaði þessum hóp svo illa að hann lenti i vanda. Mikið var mér hugsað til
þín og okkar allra sem höfum fetað þessa slóð. Á öðrum tíma, í öðru lífi,
hefðir þú getað orðið svo margt. Langt yfir meðallagi í báðar áttir.
Greindur, skemmtilegur, fyndinn með mikla persónutöfra og mikill
íþróttamaður, en samfélagið einhvern veginn sló ekki í takt við þig. En svo
fórum við báðir í rokkið, enda virtist það skemmtilegra en þetta hefðbundna
og umfram allt miklu meira spennandi og án ábyrgðar. Mikið vorum við ungir
og vitlausir að sjá ekki fórnarkostnaðinn framundan, en hvernig er það hægt
svo sem, spyr maður sig.
Og það var oft gaman Mikki, partíin og djammið var ekki leiðinlegt þegar
við vorum ungir. Flestar sögurnar af þér frá þeim tíma eru því miður ekki
prenthæfar, þótt þær fái alla sem þær heyra til að grenja úr hlátri. Það
var þín náðargjöf, að fá fólk til að hlæja og gleðjast - sama hvað. En þú
og peningar voru aldrei góð blanda. Þú barst enga virðingu fyrir peningum,
þeir voru bara miðar til þess að skemmta sér meira og veðja meira. Því
meira sem þú áttir af þeim, því stærri voru veðmálin. Alltaf all in - þú
þekktir ekkert annað. En þetta er dýrt helvítis sport, svo andskoti dýrt að
þetta fór að setja þig í fangelsi því það var engin önnur leið að fjármagna
þetta allt.
Seinustu 15 árin varstu inni og út úr fangelsi og alltaf varstu
harðákveðinn í að koma út og snúa lífi þínu við. En þú bara hataðir
hversdagsleikann, meikaðir hann ekki, hann var svo boring og það þurfti
svo mikla þolinmæði í hann. Það var farið að hægjast á okkur vinunum með
árunum og við komnir sjálfir í þennan gráa hversdagsleika og vorum að segja
þér: hei, þetta er ekki svo slæmt Mikki ... hægðu á þér og vertu gamall
sauður eins og við.
En það var alltaf eitthvert ævintýri og kick framundan og svo er ég
hættur.
Svo eignaðistu hana Freyju. Þú ljómaðir þegar þú talaðir um að hafa hitt
hana eða talað við hana. Þig langaði svo að vera til staðar fyrir hana en
bara gast það ekki. Gast ekki sett fíknina til hliðar. Ég hef aldrei
nokkurn tímann hitt mann eins og þig þegar kom að persónutöfrum og
sölumannshæfileikum. Eftir að við vinirnir drógum okkur í hversdagsleikann
þá sá maður þig fara á milli hópa og það elskuðu þig allir strax. Þú gast
selt einhverjum sama hlutinn níu sinnum, en hann kom samt til þín og keypti
hann í 10. skiptið. Viðkomandi sagði svo eftir að hafa ekki fengið hlutinn
afhentan þá, frekar en í hin níu skiptin: Djöfull er hann Mikki
skemmtilegur gæi.
Þú kallaðir það kennslugjald fyrir að kynnast rebbanum og það er svo satt,
það kostaði að kynnast þér en maður fékk bara svo mikið í staðinn líka. Það
skipti engu máli þótt maður segði við einhvern, sem þú varst búinn að
dáleiða með persónutöfrum þínum, að varast að eiga í peningamálum við þig,
aðilinn gerði það samt. Þú skellihlóst alltaf þegar ég var að furða mig á
þessu og sagðir: Rebbi er ennþá með þetta. Ef þú hefðir ekki verið svona
mikill fíkill þá hefðir þú verið besti sölumaður á hvaða sviði sem er. Enda
var ég alltaf reyna að segja þér að fara að nota þessu hæfileika í
fasteignir eða bíla eða bara eitthvað, þegar þú varst edrú. En það hefði
krafist langtímahugsunar, og þessi grái hversdagsleiki - hann var bara of
boring, ekki nógu spennandi.
Þín náðargjöf var að geta lesið fólk og fengið það til að hlæja, þess vegna
elskuðu þig allir.
En þig skorti því miður allt innsæi hvað sjálfan þig varðaði, hvernig þú
ættir að laga þig sjálfan og eiga við þína eigin bresti. Mikið vildi ég að
því hefði ekki verið svona ójafnt skipt hjá þér.
Ég stakk upp á því við þig að þú skelltir þér í fallhlífarstökk eða
eitthvað álíka þegar þú varst að reyna að vera edrú, því þetta
hversdagslega var bara ekki nóg fyrir þig.
Þetta þurfti alltaf að vera svo andskoti spennandi til að þér fyndist þú
vera lifandi. Og ekki skorti þig kvenhylli. Ég man þegar maður var ungur,
óöruggur, bólugrafinn unglingur með þér og skítsmeykur við kvenfólkið. Þá
sá maður þig segja bara eitthvað sjúklega fyndið og óviðeigandi við þær,
skellihlæjandi og undir eins heilluðust þær af þér.
Þú varst svo spennandi Mikki. Eins og eitthvert villt dýr sem þær langaði
að temja. Jesús góður, þær elskuðu þig mikið þessar konur sem þú varst með.
Þær elskuðu þig allar og reyndu að temja þig, en það var bara ekki hægt.
Hvað þær reyndu, en þú varst bara ótemja og ekki hægt að tjóðra þig
niður.
Snilldin við þig Mikki, var sú að það gat enginn einn átt þig, en á sama
tíma fannst öllum þeir eiga þig. Oft man ég eftir atvikum þar sem þú varst
með drulluna algerlega upp á bak gagnvart einhverri og ég hélt þú værir
algjörlega búinn að klúðra málunum, en þá sagðirðu bara: Pési boy þetta er
easy, og fékkst þær til að skellihlæja eftir reiðilesturinn og málið
leyst.
Ef þú varst kominn algjörlega út í horn og það virkaði ekki þá settir þú
upp hvolpasvipinn sem ég hafði fengið að kenna á og sagðir fyrirgefðu og
allir bráðnuðu. Þú varst svo andskoti góður í að segja fyrirgefðu og það
var svo erfitt að vera fúll út í þig í meira en fimm mínútur. En það var
farið að síga á þig, Mikki, síðustu árin. Maður fann að vonin var að fara
og þig langaði ekki að lifa svona mikið lengur. Þig langaði svo í þetta
venjulega líf en hafðir einhvern veginn ekki verkfærin til að komast
þangað. Hvatvísin og spennufíknin gat bara ekki vikið fyrir skynsemi og
hversdagsleika. Þú varst orðinn þreyttur andlega, líkaminn orðinn lélegur
og bara gleðin farin úr partíinu. Áþreifanlega fann maður hvað gleðin og
hláturinn sem einkenndi þig alltaf hafði vikið fyrir skömm og reiði út í
sjálfan þig og alla og það var komið myrkur yfir þig.
Vinirnir voru farnir í hversdagsleikann og fólkið var ekki alveg tilbúið að
kaupa sama hlutinn af þér tíu sinnum þegar sjarminn var farinn af þér í
þjáningunni.
Partíið var búið og þú vissir að þú gætir ekki haldið áfram í þessum
lífsstíl. En það er svo skrítið Mikki ... ég hafði aldrei meiri trú á því
að þú mundir ná að verða edrú en akkúrat þegar eymdin var orðin mest hjá
þér. Þú gast ekki lengur blekkt þig með brosinu og því að þetta væri gaman
og hlaust að sjá að eina leiðin væri að verða edrú og gamall eins og við
hinir. Síðustu mánuðina átti maður von á því að þú færir any day og því
var það svo mikil himnasending þegar þú komst til Svíþjóðar í meðferð. Þú
hljómaðir svo vel og maður fékk þá von í hjartað að þetta gengi. Enda hefði
það verið svo svakalega í þínum anda að koma með flautukörfu á síðustu
sekúndu og vinna leikinn þannig. Þú varst heimsmeistari í að breyta
gjörtöpuðum leik í jafntefli eða sigur, og það var bara fyrri hálfleikur
búinn og comebackið eftir í þeim seinni. En leikurinn var flautaður af í
hálfleik og bettið ógilt. En það varð ekki, elsku vinur, og það harma ég
svo innilega, því maður missti aldrei trúna á því að þú næðir þessu. Ekki
löngu fyrir andlát þitt þá sagðirðu við mig að ef þú næðir þessu ekki núna
þá vildir þú frekar kveðja sem fertugt legend sem hægt væri að minnast
sem töffara og gleðigjafa frekar en að lifa áfram svona og verða að
aumingja. Því hugga ég mig við það elsku vinur að þú fékkst að fara á þínum
forsendum. Því þú varst legend í heimi þar sem fáir verða legend. Þín
er minnst sem gleðigjafa í heimi þar sem gleðin er ekki við völd og við
grátum þig öll, meira að segja allt fólkið sem þú seldir sama hlutinn tíu
sinnum, það grætur, því þú varst einstakur, stærri en lífið sem karakter,
meingallaður en stórkostlega skemmtilegur og fyndinn og vildir alltaf allt
fyrir alla gera en gast bara einhvern veginn ekki sætt þig við
hversdagsleikann. Þegar gleðin var farin úr augunum á þér þá sat eftir
hvatvísin og spennufíknin og hún kláraði þetta fyrir þig, elsku
Mikki.
Ég mun hugsa til þín í hvert skipti sem ég sé óþekka krakka sem láta sér
ekki segjast, ég mun hugsa til þín þegar ég sé stríðnisglampann í augum
dóttur minnar, ég mun hugsa til þín í hvert skipti sem ég sé Arsenal spila
í sjónvarpinu og ég mun hugsa til þín í hvert skipti sem ég sé einhvern
fara all in við spilaborðið með rusl á hendi, ég mun hugsa til þín í
hvert skipti sem ég hlusta á Don't go breaking my heart með Elton
John.
Þú skildir eftir svo margar ógeðslega fyndnar og skemmtilegar sögur af þér
og munt alltaf kalla fram hlátur og bros þegar við minnumst þín. Elsku
Mikki, ég kveð þig með tárin í augunum en vitandi að þér líður betur og ert
þarna uppi með Himma að rokka feitt. Þú tekur á móti okkur með gott partí
þegar okkar tími kemur.
Faðir, sonur, bróðir, legend, stjarna, sjarmör, húmoristi, vinur og ekki
allra síst forfallinn gambler af guðs náð og því finnst mér við hæfi að
kveðja þig með versi úr lagi sem fékk mig alltaf til að hugsa um þig. Elsku
Jódís og Páll, Auður, Jón Gauti, Danni, Freyja og Bangsi innilegar
samúðarkveðjur til ykkar. Minning um góðan dreng lifir að eilífu í hjörtum
okkar.
You've got to know when to hold 'em
Know when to fold 'em
Know when to walk away
And know when to run
You never count your money
When you're sittin' at the table
There'll be time enough for countin'
When the dealin's done
x
Every gambler knows
That the secret to survivin'
Is knowin' what to throw away
And knowin' what to keep
'Cause every hand's a winner
And every hand's a loser
And the best that you can hope for
Is to die in your sleep"
x
And when he'd finished speakin'
He turned back toward the window
Crushed out his cigarette
Faded off to sleep
And somewhere in the darkness
The gambler he broke even
But in his final words
I found an ace that I could keep
Þinn vinur,
Pétur Axel Pétursson.