Dagmar Didriksen, fædd Petersen, fæddist í Kollafirði í Færeyjum 20. júlí 1929. Hún lést 3. mars 2021. Foreldrar hennar voru Emil og Anna Kathrina Petersen. Hún var 6. í röðinni af 13 systkinum og lifa hana Arngrím og Frida Petersen.

Hinn 3. desember 1949 giftist hún Schumann Didriksen, f. 16. nóvember 1928. Hann lést 22. janúar 2000.

Börn þeirra eru: 1) Rúna, f. 1950, gift Ásmundi Jóhannssyni, f. 1941, d. 3. desember 2020. Börn þeirra eru Hanna Kristín, Ingvar, d. 1987, Dagmar og Ragnheiður. Börn Ásmundar eru Jóhann, Eva og Sif. 2) Óskírður, f. 20. ágúst 1951, d. 6. október 1951. 3) Bjarma, f. 1952, gift Guðmundi Gunnarssyni, börn þeirra Gísli Gunnar og Ingvar Emil. 4) Siri, f. 1959, hennar börn eru Ragnar, Bjarma og Pétur. 5) Rita, f. 1962, gift Ásmundi Pálmasyni. Hennar börn eru Vivian, Anní og saman eiga þau Andra Snæ. 6) Schumann, f. 1969, kvæntur Heidi Didriksen og þeirra börn eru Levi, f. 21. júní 1995, d. 11. mars 1996, Lára Sif og Beinta María. 7) Júlíus, f. 1971, barn hans er Isobel Eldey.

Dagmar kom hingað til Íslands 1946 með bróður sínum Janusi til að vinna á bóndabæ á Suðurlandi. Verandi í stórum barnahóp var snemma nauðsyn að sjá fyrir sér og hún var alltaf vinnusöm. Hún tók bílpróf árið 1949 og var með fyrstu konum í Færeyjum til að fá ökuréttindi.

Heimkomin til Færeyja kynntist hún Schumann sem var skipstjóri og bjuggu þau sér heimili í Þórshöfn. Í kjölfar tímabundinna veikinda Schumanns tók Dagmar til þess ráðs að taka að sér ráðskonustarf á vertíð í Grindavík í janúar 1960 og tók með sér Siri sem þá var nokkurra mánaða gömul. Í júní sama ár ákveða þau síðan að flytjast búferlum til Reykjavíkur. Dagmar fór þá að vinna sem kokkur hjá Hjálpræðishernum, sem þá var gesta- og sjómannaheimili. Hún tók líka þátt í ýmsum sjálfboðastörfum svo sem sumardvalarheimili fyrir börn á vegum hersins og fleira. Í sumarleyfum vann hún við fiskvinnslu og önnur tilfallandi störf.

Árið 1968 ákváðu þau að kaupa litla skóverslun við Aðalstræti. Ári síðar fluttist verslunin út í Kirkjustræti og saman hófust þau handa um að byggja upp verslun sem varð þeirra lífsstarf. Þau auglýstu á heilsíðum í dagblöðunum og upp úr því þróaðist sú hugmynd að gera póstlista sem sendur var um allt land. Dagmar var potturinn og pannan í þessu öllu, tók myndir og ritstýrði og voru fjölskyldumeðlimir settir í fyrirsætustörf.

Þau byggðu hús á Laugavegi 95 og þangað flutti verslunin 1980 og var þar lengst af en viðskipti og verslun áttu hug hennar allan. Eftir andlát Schumanns ákvað Dagmar að halda áfram rekstri, þó í smærri mynd, og lét hún af störfum 85 ára gömul en átti það til að mæta af og til eftir það til að fylgjast með.

Barnabörn þeirra urðu 16 og barnabarnabörn eru 20.

Útför Dagmarar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 19. mars 2021, klukkan 15, allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Hjartahlýtt þakklæti til þín elsku amma.

Í dag verður þú jarðsungin elsku amma. Þessi stund er á svo margan hátt einstök. Einstök vegna þess að við kveðjum þig í þeirri mynd sem við þekktum þig og sameinumst sem fjölskylda í fallegri stund tileinkaðri þér þar sem við búum til minningar þér til handa. Fjölskyldan var þér allt og þú elskaðir að vera umkringd okkur og við elskuðum að vera í þinni návist.
Á meðan ég sit hérna í hljóði og horfi yfir farinn veg þá eru svo margar myndir sem koma upp í hugann. Þú sást fyrir því að við fengum öll sterka fjölskyldumynd með gjafmildi, elju, hugrekki og þolinmæði. Fjölskylduhittingur í Fellsmúla og seinna Grundarlandi var ekki bara vikulegur heldur mörgum sinnum í viku fyrir utan jól, páska og aðrar hátíðir. Þú eldaðir, vaskaðir upp, keyptir í matinn og gafst okkur að borða. Þið afi deilduð öllu ykkar með okkur og þar var enginn sparnaður hvorki í mat, gjöfum, tíma né viðveru. Þú kenndir mér með verkum ekki með orðum en þó varstu alltaf tilbúin að setjast niður með mér ef mig vantaði að tala eða deila. Þú hefur alltaf hvatt mig áfram og styrkt stoðir mínar með einföldum útskýringum á að horfa fram á veginn og sleppa takinu á því sem ég sá engan tilgang í meir. Þú hvattir mig í að læra af fortíðinni og leyfa framtíðinni að vera aðalatriðið. Þú varst alltaf fyrst til að fyrirgefa, fyrst til að brosa og þú leyfðir engu að spilla fyrir, að sama skapi kenndir þú mér líka að eltast ekki við neitt sem ekki vildi vera. Þú hafðir útsjónarsemi, gáfur og vilja á við heila þjóð og á sama tíma sem þú lést ekkert fram hjá þér fara léstu líka allt kyrrt liggja. Þú leyfðir öllu að eiga sinn farveg og sást enga ástæðu til þess að hanga neitt í liðinni tíð. Þú kenndir mér að taka ábyrgð og skilja að við komum inn í lífið til þess að stækka. Þú huggaðir á mjúklegan hátt og sem lítil fékk ég að skríða upp í fangið á þér og vagga með þér í fanginu í Omma viovi. Þú gladdist með mér við hvert skref sem ég tók og hélst í höndina á mér þegar ég var við það að gefast upp. Ég gat alltaf leitað til þín. Margar sögurnar af samskiptum okkar sitja í minningabankanum; allt frá því hvernig ég ætti að henda burt áliti annarra og í það hvernig ég ætti að krydda hrygginn og þvo þvottinn. Þú kenndir mér að spinke og spare vil altid vare men sus og snús gör tömt hús. Þú sagðir mér einfaldlega að kaupa mér þvottaefni og vera í hreinum fötum og drýgja tekjurnar með hófsemi og framsýni því að engin erfið tíð myndi endalaust vara. Þú kenndir mér að setja á mig rauðan varalit, ganga bein í baki og bursta í burtu angist og sálarkvein og sagðir mér að hamingjan lægi innra með okkur. Þú gafst mér von, kærleika, ást, elsku og frið í hjarta. Þú horfðir á mig með tiltrú og blést burt áhyggjum mínum og minntir mig stöðugt á að ég væri nóg. Eitt sinn þegar ég var alveg vonlaus einu sinni sem oftar kom ég til þín í pepp. Að venju horfðir þú á mig í forundran og sagðir: Hanna mín ... þetta er ekkert mál ... Tú bara fert út í horn med rumpuna, brettir upp ermar og svo bara syndir þú skriðsund skref fyrir skref út úr horninu þar til að allt í einu ertu búin að öllu sem þú þarft að gera. Ég horfði á þig til baka og bara vissi að það sem þú varst að segja var rétt og fór full af krafti til baka í verkefnið og kláraði það með stæl. Ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér af afa og Kollafjarðarklaninu eða öllum þínum systkinum sem farin eru. Ég er nokkuð viss um að pabbi og Ingvar hafi verið í þeim hópi líka. Ég er pínu sorgmædd en ég ætla ekki að dvelja lengi þar, þar sem lífið bíður eftir mér og svo margt sem ég þarf enn að læra. Ég veit að þú ert með mér og ég treysti á að þú leiðir mig í gegnum lífið áfram því sannarlega sleppi ég ekki takinu á þinni styrku hendi. Amma ég spila Ömma Ludvik hún er stór og sterk og svo er hún altid glad ... í tilefni af deginum. Ég skála í ákavíti og opna öllara og klæðist rauðu. Þú gafst mér allt það sem ég hefði getað óskað mér af ömmu og ég bara vona að ég geti orðið þetta fyrir mín barnabörn þegar þau koma.


Sjáumst á ný elsku amma mín,

Hanna Kristín Didriksen.