Garðar Jónsson fæddist 21. janúar 1966 í Reykjavík. Hann lést 1. mars 2021 á sjúkrahúsi Akraness. Foreldrar hans eru: Alma Garðarsdóttir frá Hrísey, f. 7.1. 1946, og Jón Guðmundsson frá Barðastöðum á Snæfellsnesi, f. 27.4. 1944, d. 18.7. 2016. Systkini Garðars eru: Herdís, f. 4.4. 1969, maki Sigurgeir Ragnar Sigurðsson. Þau eignuðust fjögur börn; Ósk, f. 4.4. 1969, maki Torfi Sigurjón Einarsson. Þau eiga fjögur börn; Guðmundur Þór, f. 29.10. 1976. Hann á þrjú börn.
Garðar kvæntist Ólínu Ingibjörgu Gunnarsdóttur hinn 30. maí 1998. Þau skildu 2012. Börn þeirra eru: 1) Jón Gunnar, f. 7. maí 1987. Kvæntur Lilju Guðmundsdóttur. Börn þeirra eru Ylfa Nótt og Fannar Kaprasíus. 2) Hafþór Ingi, f. 25. október 1991. Í sambúð með Meliku Sule. Sonur hans er Davíð Leó. Móðir Davíðs er Heiðdís Júlíusdóttir. 3) Lilja Bjarklind, f. 26. september 1996. Í sambúð með Oliver Darra Bergmann Jónssyni. Börn þeirra eru: Ólafur Darri Bergmann, Viktor Leví Bergmann og Steinar Theó Bergmann. 4) Stefán Kaprasíus, f. 18. nóvember 1998.
Garðar ólst upp í Garðabæ til átta ára aldurs en þá flutti fjölskyldan upp á Akranes. Þar bjó Garðar til ársins 2016 en þá flutti hann í Kópavog og þaðan til Sandgerðis árið 2019. Garðar dvaldi sem barn mikið hjá ömmu sinni og afa í Hrísey og hafði sterkar taugar þangað. Hann hóf sinn starfsferil í Hrísey, vann í frystihúsinu og var til sjós. Einnig var hann til sjós frá Akranesi. Auk sjómennsku vann Garðar ýmis störf um ævina, t.d. við málningarvinnu, smíðar, beitningu, sölustörf og fleira. Árið 1993 hóf hann störf í Járnblendiverksmiðjunni og vann ýmis störf þar til ársins 2012. Hann var rekstrarstjóri í Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum. Síðustu ár starfaði hann sem öryggisstjóri flugskýlis hjá Icelandair í Keflavík.
Garðar vann við andleg málefni í fjölda ára. Hann hélt fjölmörg námskeið og fundi fyrir sálarrannsóknarfélög víða um land auk þess sem margir leituðu til hans þar fyrir utan.
Útför Garðars fór fram 12. mars 2021.
Jæja Ásta mín, hvernig gengur? skrifaðir þú í skilaboðum í mars á síðasta ári, mikið vildi ég að ég hefði fengið þessi skilaboð í dag, ári seinna. En þinn tími var víst kominn og ég held þú hafir vitað það lengi, þó svo þú hefðir kannski ekki hátt um það. Mig dreymdi draum aðfaranótt laugardags 20. feb. þar sem þú komst í heimsókn bara rétt til að kveðja. Atburðarás þessa draums og orð stóðu mér svo ljóslifandi fyrir sjónum þegar ég vaknaði morguninn eftir, ég var svo þakklát að ég sagði upphátt Takk Garðar minn og góða ferð. Ég ætla ekki að útlista þennan draum og atburðarás nákvæmlega hér, en ég spurði þig í þessum draumi: Máttu ekki vera að því að stoppa aðeins, ég ætla aðeins að klára, svo getum við sest niður og spjallað aðeins? Svarið var: Nei, Ásta mín, ég ætla ekki að stoppa neitt, kom bara til að kveðja og þakka samfylgdina. Ha, ætlar þú að fara núna strax? spyr ég. Já, þú veist það, ég þarf að fara núna og vildi bara kveðja. Ég var miður mín en vissi engu að síður að þetta var rétt. Ertu viss? Þarf það að vera núna? spyr ég þótt ég viti svarið inni í mér. Já, það er að koma að þessu, var svarið. Við kvöddumst og ég þakkaði sömuleiðis samfylgdina Við sjáumst, var það síðasta sem þú sagðir þegar þú labbaðir út. Þegar við kvöddumst var tilfinningin eins og þetta hafi alltaf verið vitað mál og ekkert við því að gera, annað en að þakka fyrir þann tíma og lærdóm sem var gefinn. Í draumum varstu yfirvegaður og ákveðinn en kvaddir engu að síður með smá trega, vegna þess sem þú skilur eftir. Dagurinn 1. mars var svo óvenjuþungur, mér leið eins og ég væri hálflasin, þróttlaus og óútskýranleg depurð yfir mér sem ég engan veginn áttaði mig á af hverju stafaði, þar til ég fékk skilaboð frá Diddu minni sama kvöld með fréttum af andláti Garðars, skilaboðin sem ég var búin að bíða eftir og hélt ég væri tilbúin, en raunin var önnur. Ég var ekki tilbúin eins og eftlaust flestir aðrir þennan dag.
Okkar fyrstu kynni voru fyrir þó nokkuð mörgum árum alla vega 17 ár plús ef
ég reikna út frá aldri barnanna minna. Þar sem þú á fundi spurðir hvort ég
vildi prófa að koma í hring í næstu viku, því það myndi gera mér gott. Ég
svaraði játandi á þeim tíma en sá allt annað fyrir mér og hafði allt annan
skilning á þessum hring en reyndin var. Ég hefði líklega ekki sagt já á
þeim tíma ef ég hefði vitað hvað ég var að fara út í, enda varstu ekkert að
útskýra það neitt sérstaklega fyrir mér, og kannski af ásettu ráði.
Það var tekið á móti mér inn í þitt starf af yndislegu fólki sem ég lít á
sem vini mína í dag og á ég þér elsku vinur og þeim mikið að þakka í dag.
Meira en þið hvert og eitt ykkar gerið ykkur grein fyrir. Áður en ég náði
að snúa mér við var ég farin að vera sitjari hjá þér eins og hinir í
hringnum og taka þátt í þínu miðilsstarfi. Mér var þó fljótlega settur
stóllinn fyrir dyrnar. Ásta, þú hefur alltaf val, annaðhvort lærir þú að
lifa með þessu eða þú verður veik. Þetta var sagt með bros á vör og
glettni í augunum. Hvað viltu? Ég var kjaftstopp en svaraði engu að síður
hvorugt, þú brostir og sagðir: Allt í lagi, sjáum til, en mundu, það eru
bara þessir tveir kostir. Þú lést ekki þar við sitja og ýttir mér áfram í
mínum þroska með einstakri ákveðni og náðargáfu fyrirlesara. Þú kenndir mér
margt í þínu starfi og sem einstaklingur og studdir við bakið á mér allar
götur síðan eins og aðrir sem voru hluti af þínum hópi á þessum tíma. Þú
hafðir endalausa þolinmæði og trú á mér, sem ég hafði ekki sjálf. Þrátt
fyrir að ég flyttist búferlum utan fylgdist þú með í fjarlægð á þinn hátt.
Þú veist að ekkert fer fram hjá gamla, stendur i einum skilaboðum frá þér
þar sem ég hafði tveimur kvöldum fyrr verið að segja frá þínu starfi og
fræðslu og spurði því í þessu samtali okkar hvort þú hefðir fengið
skilaboð. Því þarna var orðið langt síðan við höfðum talað saman síðast.
Orka er hlutlaust afl, sem þú gefur gildi, eru líka orð frá þér og mikill
sannleikur.
Elsku vinur, þitt lífsverk á ekki lengri ævi gætu ekki margir leikið eftir,
það var í raun ótrúlegt hversu yfirvegaður þú varst í þinni andlegu vinnu,
þó svo það hafi ekki verið þér eðlislægt at gera neitt á rólegu nótunum.
Það var mikill hraði í þínu lífi alla tíð og ekki tími til að hangsa og
gera ekki neitt. Hér eru eflaust margir sem þekktu Garðar, og ekki bara
Garðar miðil, sem myndu taka undir.
Það er með mikilli sorg sem ég kveð þig elsku vinur og stórt skarð hefur
myndast á mörgum stöðum, fleiri en þú sjálfur hefur nokkurn tímann gert þér
grein fyrir. Þú hafðir einstaka nærveru og hlýju að bera sem persóna og
gafst ötullega af þér til þeirra sem þurftu á því að halda. Þú hefur
líklega gefið sjálfum þér minnst, líka þegar þú þurftir mest á því að
halda. Þú vonandi lærir það núna á nýjum stað, af þér reyndari mönnum sem
þú eflaust ert búinn að hitta nú þegar. Þar sem tekið hefur verið á móti
þér opnum örmum af fjölskyldu og vinum, bæði börnum og fullorðnum.
Ég sé þig fyrir mér lausan við verki og allar þær hömlur sem líkaminn setur okkur. Þitt innra eðli ætti að njóta sín núna, þar sem tíminn er hugtak og ferðalag á milli staða tekur ekki meira en sekúndubrot. En hvíldu þig nú aðeins elsku vinur, því það eru fjölmargir fyrrverandi vinnuveitendur sem bíða í röð og vilja ná af þér tali.
Mig langar að koma því að, að fjölskyldan var Garðari mjög mikils virði sem
sýndi sig meðal annars í að hann sagði oft eftir fundi og í öðrum umræðum:
Ég gæti ekki verið í þessu, ef ég ætti ekki góða fjölskyldu og góða konu.
Þessi orð segja mikið um þann skilning og stuðning sem hann fann og fékk
hjá sínum allra nánustu, sem eflaust sáu og kynntust þeirri hlið á Garðari
sem ekki var öðrum ætlað að sjá. Það krefst mikils af einstaklingi og
fjölskyldu að vinna þá vinnu sem margir þekktu Garðar af, sem Garðar
miðil.
Garðar var hugulsamur og einstaklega hjálpsamur og fljótur til ef eitthvað
var. Þessa sögu hef ég heyrt frá móður minni eins oft og nafnið hans hefur
borið á góma, líka áður en ég kynntist Garðari sjálf eða vissi hver hann
var. Garðar vann eitt sinn með pabba sem veiktist alvarlega á þeim tíma.
Eins og sagan segir er bankað upp á heima hjá okkur og mamma fer til dyra,
þarna var búið að flytja pabba á sjúkrahús. Fyrir utan stendur ungur maður
og kynnir sig sem Garðar, hann segir að hann sé vinnufélagi pabba míns og
vildi bara athuga hvort hann gæti gert eitthvað til að aðstoða, koma með
eitthvað úr vinnuskápnum, sækja eitthvað eða þess háttar. Þess var þó ekki
þörf þarna, en mamma gleymir þessu aldrei, hún þakkaði fyrir hugulsemina og
sagðist skila kveðju þegar hún færi til pabba. Þarna var Garðar ungur maður
að vinna við smíðar hjá Akri. Mamma hefur sjálf mörgum árum seinna aftur
þakkað Garðari hugulsemina og sagt hversu mikils hún mat þetta á þessum
tíma, en ég efast um að Garðar hafi sjálfur sagt sérstaklega frá þessu.
Hvíl í friði kæri vinur við sjáumst í sumarlandinu.
Elsku Jón Gunnar, Hafþór, Lilja og Stefán, þið vitið betur en allir aðrir
að pabbi ykkar fylgist með ykkur, börnunum ykkar og fjölskyldum áfram og
enn þá meir en hann hafði tök á meðan hann var hér.
Ég trúi að í augum pabba ykkar séuð þið, hvert og eitt ykkar, hans stærstu
og bestu verk í lífinu, þrátt fyrir alla hans hæfileika til að skapa bæði
listaverk og annað á öllum mögulegum sviðum.
Kæra Alma og aðrir ástvinir Garðars og fölskyldur.
Ég votta ykkur innilega samúð og bið góðan guð að vaka yfir ykkur, styðja og styrkja á þessum erfiðu tímum söknuðar og sorgar.
Ásta Laufey Ágústsdóttir, Danmörku.