Tómas Gunnar Sæmundsson fæddist í Hrútatungu í Hrútafirði 30. mars 1945. Hann lést á lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi 18. mars 2021. Foreldrar hans voru Sæmundur Björnsson, f. 29. janúar 1911, d. 11. mars 2002, og Þorgerður Steinunn Tómasdóttir, f. 5. júní 1906, d. 17. júní 1974. Systkini Gunnars voru Sólveig Sigurbjörg, f. 6. maí 1933, d. 8. maí 1985, og Tómas Gunnar, f. 5. apríl 1942, d. 1. janúar 1943. Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Sigrún Erna Sigurjónsdóttir, f. 1. apríl 1943. Börn þeirra eru 1) Sigurjón, f. 18. ágúst 1975, 2) Þorgerður, f. 7. október 1978, maki Guðmundur E. Jóhannesson. Synir þeirra eru Gunnar Þór, Haukur Ingi og Ellert Helgi. 3) Arndís, f. 3. september 1981, maki Frímann B. Baldursson. Börn þeirra eru Tómas Birgir og Erna Bjarklind.
Gunnar ólst upp og bjó lengst af í Hrútatungu. Hann og Sigrún eiginkona hans tóku þar við búi foreldra Gunnars og ráku sauðfjárbú. Samhliða því var hann mjög virkur í félagsmálum og nefndarstörfum af fjölbreyttum toga bæði í heimahéraði og á landsvísu. Hann tók þátt í starfi ungmennafélaganna í héraði og vann mikið fyrir Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár. Hann lét til sín taka í málefnum bænda, m.a. var hann búnaðarþingsfulltrúi frá 1986 til 2007 og sat í stjórn Bændasamtaka Íslands frá 1998 til 2007. Einnig vann hann um áratuga skeið við vegaeftirlit og snjómokstur á Holtavörðuheiði, fyrst sem lausamaður, svo sem fastráðinn starfsmaður Vegagerðarinnar og að lokum sem verktaki. Hann var mjög handlaginn og tók að sér margvísleg smíðaverkefni fyrir nágranna og sveitunga. Í frístundum hafði hann gaman af ferðalögum og veiðiskap með fjölskyldu og vinum. Sumarið 2016 fluttu Gunnar og Sigrún búferlum á Selfoss en þar dundaði hann áfram við smíðar á meðan heilsan leyfði. Útför Gunnars fer fram frá Selfosskirkju í dag, 26. mars 2021, klukkan 11. Streymi frá útför má finna á:
Virkan hlekk á streymi má finna á:
Að alast upp í Hrútatungu ásamt pabba, mömmu, afa og systrum mínum tel ég til forréttinda sem ég mun varðveita í hjarta mínu alla ævi. Pabbi lagði alla tíð upp með að búa fyrirmyndarbúi og skein það í gegn á öllum sviðum. Alltaf reyndi hann að halda hreinu og snyrtilegu í kringum sig og var gamalt dót og drasl þyrnir í hans augum. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum bauð sveitarfélagið upp á það að fólk gæti tekið til hjá sér og komið því rusli sem til féll í ruslagáma sem voru settir niður hjá gamla Staðarskála. Pabbi nýtti tækifærið vel og tók mikið til og henti. Það varð eiginlega kappsmál hjá honum að henda sem mestu, bæði til að nýta tækifærið og taka til og ekki síður til að hasast í starfsmönnum sveitarfélagsins með það að þurfa að láta tæma gámana sem oftast. Einnig lagði hann mikið upp úr því að hafa húsakostinn sem snyrtilegastan. Var málað á nokkurra ára fresti og alltaf var málað með bláum lit á húsþökin. Annað kom ekki til greina. Hann lagði líka mikla áherslu á að hafa allt í kringum sig vel upplýst. Var með þeim fyrstu sem setti upp útilýsingu með flúrljósum á íbúðarhúsið í sveitinni og fagnaði því mikið þegar boðið var upp á að setja upp tvo ljósastaura heima á hvern bæ. Á þeim tíma sem hann og mamma bjuggu í Hrútatungu var aldrei auð stund hjá honum. Byggði hann upp allan húsakost þar frá grunni. Hann hafði unun af því að smíða, bæði úr timbri og ekki síður úr járni. Tók hann að sér hin ýmsu smíðaverkefni fyrir nágrannana, t.d. byggði hann við íbúðarhúsið á Hvalshöfða og svo byggði hann við veiðihúsið tvisvar sinnum en stoltið hans og það verkefni sem hann var einna ánægðastur með var þegar hann byggði nýja Hrútatungurétt ásamt Ásgeiri frá Brautarholti og öðrum sveitungum sínum. Einnig lagði hann mikla vinnu í að rækta upp túnin og byggja upp bústofninn með styrkri hjálp mömmu. Uppáhaldstúnin hans voru fram með þjóðveginum suður frá bænum. Þau tún fengu venjulega allt það besta og sem dæmi smíðaði hann úr járni, fáum árum áður en hann hætti að búa, nýjar hliðgrindur inn á túnin. Einnig vann hann alla þá vinnu sem bauðst í nágrenninu og jafnvel víðar.
Í fjölda ára sinnti hann eftirliti og mokstri á Holtavörðuheiði ásamt mörgu öðru. Fyrst var hann með mági sínum Jóni Ólafssyni en svo fór hann að snúast einn í kringum þetta ásamt hjálp frá vegagerðarmönnum í Borgarnesi þar á meðal Jóni sem þá var fluttur í Borgarnes ásamt systur pabba, Sólveigu (Veigu). Vann mörg ár á jarðýtu við mokstur á heiðinni en fór svo þegar árin liðu að sinna daglegu eftirliti á jeppa meðfram vinnunni á ýtunni. Einnig var hann fenginn til að manna og sjá um tæki fyrir hönd Vegagerðarinnar sem þá voru staðsett í Hrútatungu t.d. dráttarvél með snjóblásara og veghefli en alla tíð var jarðýtan hans uppáhaldstæki. Sagði hann þegar hann komst á jarðýtu á seinni árum að hann væri orðinn ungur í annað sinn. Oft áður en tækninýjungar, sem við tökum sem sjálfsögðum hlut í dag, t.d. textavarp og net ásamt símaþjónustu Vegagerðarinnar, komu til sögunnar, hringdi síminn stanslaust heima þar sem fólk var að hringja og spyrja um veður og færð. Seinustu árin sem hann sinnti mokstri og eftirliti var ég með honum, fyrst á pallbílum með snjótennur, en undir það síðasta vorum við komnir með vörubíl með snjótönn.
Pabbi var á margan hátt tæknilega sinnaður. Hann var fljótur að tileinka sér tækninýjungar bæði í tölvum og svo öðrum tækjum bæði í landbúnaði og svo líka við smíðar og þvíumlíkt. Hann fjárfesti í sinni fyrstu tölvu kringum 1984 og þótt hún hafi kannski ekki verið merkileg eftir á var þetta eitthvað sem heillaði hann. Stóð hann svo fyrir því nokkrum árum síðar með stuðningi Búnaðarsambandsins að menn tóku sig saman og keyptu tölvur til hægðarauka. Sá hann mikla framtíð í þessum tækninýjungum. Svo þegar netið kom datt hann á kaf í það. Notaði það til að fylgjast með fréttum, veðri, stofnaði Facebook-aðgang til að geta fylgst með fjölskyldu og vinum og svo notaði hann netið fyrir tölvupóst og til að afla sér upplýsinga um vörur og þjónustu. Sem dæmi um hvað pabbi leit á góðan netaðgang sem áríðandi hlut var að fyrir nokkrum árum þegar netþjónustuaðilinn sem þjónustaði Hrútafjörð gaf það út að þeir ætluðu að hætta að þjónusta svæðið gekk hann í það ásamt fleirum að tryggja að þeir myndu ekki fara og að auki myndu þeir bæta búnaðinn svo fólkið í sveitinni gæti náð meiri hraða og betri tengingu. Hann var að ómögulegur ef netið virkaði ekki.
Einnig elskaði hann góð verkfæri. Lagði mikið upp úr því að eiga það sem hann vantaði þegar hann var í framkvæmdahug og talaði stundum um að hann væri verkfærasjúkur. Vinnuvélar endurnýjaði hann reglulega og fór það mikið í taugarnar á honum þegar eitthvað bilaði, sérstaklega í kringum heyskap en heyskapur var það verkefni í kringum bústörfin sem honum þótti einna skemmtilegasti tími ársins. Gat það tekið mikið á skapið þegar eitthvað bilaði í miðjum þurrki. Það voru ófá skiptin sem hann renndi með hraði til Reykjavíkur til að sækja varahluti til að láta hlutina ganga.
Bíla endurnýjaði hann mjög reglulega og keyrði mikið bæði fyrir Vegagerðina, sig sjálfan og oft líka í þeim tilfellum þar sem hann var að ferðast vegna Bændasamtakanna. Vildi hann alltaf eiga nýlegan og traustan bíl.
Hann, ásamt okkur í fjölskyldunni, ferðaðist mikið innanlands. Það voru ófá skiptin sem lagt var af stað á sumrin milli slátta þegar spáð var góðu veðri og flakkað um landið. Svo núna á seinni árum eftir að hann flutti á Selfoss fórum við mamma og hann í dagsbíltúra um Suðurlandið og tengd svæði.
Ekki ferðaðist hann mikið erlendis. Hann hafði alla tíð þráð að komast til Færeyja og Skotlands en ekkert varð úr því. En hann náði að fara til Grænlands ásamt Guðmundi tengdasyni sínum, föður Guðmundar, Jóhanni og fleiri góðum ferðafélögum úr Borgarnesi. Pabbi átti eftir að lifa á þessu ferðalagi lengi.
Pabbi var forfallinn veiðimaður. Margar af sínum bestu stundum átti hann með stöngina einhvers staðar úti í góðu vatni eða á. Uppáhaldsáin var náttúrulega Hrútafjarðará og Síká og það voru ófá skiptin sem hann tók einn til tvo veiðidaga á leigu á sumrin og tók okkur í fjölskyldunni með til að veiða. Var hann til margra ára í stjórn veiðifélagsins og í mörg ár var hann formaður þess. Vann hann einnig mikið fyrir veiðifélagið. Átti hann mörg uppáhaldsvötn. Þar má t.d. nefna Holtavörðuvatn, Veiðivötn og Arnarvatn. Náði hann að smita sum ef ekki öll af barnabörnin þegar þau náðu aldri af veiðibakteríunni og það var síðast í sumar sem hann fór að veiða og veit ég hann naut hverjar stundar í botn með krökkunum og fjölskyldunni þrátt fyrir það að heilsan væri orðin léleg. Einnig var hann fyrirtaksskytta sem sást best á því að einn af síðustu vetrunum sem hann var í Hrútatungu datt hann á lagið að leggja út æti fyrir tófu ekki langt frá bænum og setti þar upp ljós. Svo þegar hann varð var við að tófa væri komin í ætið laumaðist hann út í vélaskemmu þar sem hann var búinn að koma sér upp skotlúgu á vegginn og skaut á þær þar sem þær sáust í ljósinu. Það var töluverður fjöldi af tófum sem hann náði þennan vetur.
Einnig var hans ástríða félagsmál og sérstaklega seinni ár í þágu bænda með störfum fyrir Búnaðarfélag Íslands og síðar Bændasamtök Íslands. Einnig þegar hann var yngri var hann mikið að starfa fyrir Ungmennafélagið í Staðarhreppi og Ungmennasambandið í V-Hún. Einnig starfaði hann mikið fyrir Búnaðarsamband Vestur-Húnvetninga. Ferðaðist hann t.d. víða um landið til að kynna fyrir bændum þau verkefni sem voru honum hugleikin. Það voru ófá skiptin sem hann lagði land undir fót um hávetur til að ferðast meðal annars vestur á firði eða austur á land en hann taldi það ekki eftir sér. Þótti gaman að ferðast og hitta fólk. Að alast upp með honum þýddi að oft var hann ekki heima en þá steig mamma inn og fyllti í skarðið og sinnti þeim verkum sem þurfti að sinna af æðruleysi og atorku oft með hjálp afa meðan hans naut við.
Þegar ég komst á unglingsár fékk ég oft að fylgja honum til Reykjavíkur þegar hann átti erindi og brást það ekki að þegar ég þurfti að nálgast bíllyklana til að geta beðið eftir honum úti í bíl fann ég hann oft í hrókasamræðum við einhvern á skrifstofum Bændasamtakanna. Stundum fór maður svo út í bíl og beið heillengi eftir honum en þá hafði hann gleymt sér í spjalli. Pabbi hafði alltaf unun af því að spjalla og rökræða við fólk um hin ýmsu málefni. Ég hugsa stundum um það að þarna lærði maður að bíða í rólegheitum. Hann þurfti að taka sinn tíma í að spjalla. Síminn var hans helsta tæki til þess og man ég hvað hann tók miklu ástfóstri við GSM-símann þegar hann fékk hann. Aldrei var hann upptekinn þegar einhver hringdi og var það jafnvel til vandræða þegar einhver var í heimsókn og það var hringt í hann á sama tíma. Oft settist hann við símann og spjallaði við þann sem hringdi meðan gesturinn beið.
Pabbi var mjög hreinskilinn maður og sagði sína skoðun á mönnum og málefnum. Margir virtu hann mikils fyrir það en sumir áttu erfitt með að þola þessa hreinskilni hans. Oft myndaðist traustur vinskapur hjá honum og öðrum en stundum brast sá vinskapur og tók pabbi það oft mjög nærri sér.
Eitt traustasta vinafólk hans og mömmu alla tíð voru þau Árni og Sigurlaug frá Bálkastöðum. Einnig var Lárus Jón frá Borðeyri (Nonni Lár) einn traustasti vinur hans og heyrðust þeir reglulega nánast fram á síðasta dag. Átti pabbi oft til með að bralla ýmislegt með þeim hvort það voru ferðalög veiði eða eitthvað annað sem kom upp á. Eigum við fjölskyldan þessu fólki mikið að þakka fyrir þennan vinskap. Sérstaklega síðustu ár og mánuði.
Pabbi sá ekki sólina fyrir barnabörnum sínum. Töluverðu áður en fyrsta barnabarnið kom viðurkenndi hann fyrir mér hvað hann þráði að þau færu að koma og þegar það fyrsta fæddist var hann í skýjunum. Eftir það bættust fjögur barnabörn við. Þetta voru augasteinarnir hans. Hann tók þau t.d. með sér í veiði ásamt ýmsu fleiru. Eins og barnabörnin var pabbi gotterísgoggur og brást það ekki að td um páska fór hann á stúfana og fann það stærsta páskaegg sem hann gat fundið og deildi því svo með krökkunum. Alltaf gat hann skemmt sér yfir því krakkarnir tóku sér fyrir hendur því sjálfur gat pabbi verið mikill prakkari og var hann endalaust stoltur af þeim.
Mörg áföll dundu á pabba í gegnum lífið. Með þeim stærstu var þegar kviknaði í hlöðunni heima í Hrútatungu í haustið 2004. Fékk það mikið á hann og var hann að sumu leyti ekki samur aftur eftir það. Árið eftir var það svo að hann fór einn morgun að hausti út til að hræra upp í djúpkjallaranum í hlöðunni að hann fékk gaseitrun, var fluttur með þyrlu til Reykjavíkur og var mjög tvísýnt um hann um tíma. En hann náði sér aftur á strik eftir þetta og var kominn á fulla ferð nokkrum vikum seinna. Oft hef ég hugsað um það að þarna í þessum áföllum hefði pabbi þurft að fá áfallahjálp en að mörgu leyti held ég að hann hefði verið of stoltur til að geta þegið svoleiðis hjálp.
Það var svo árið 2015 að það uppgötvaðist að pabbi væri búinn að fá krabbamein aftur. Hafði hann fengið krabbamein í nýra rúmlega 30 árum áður og kom í ljós að það hafði tekið sig upp aftur og dreift sér í meðal annars í lungun. Tók þá við mikill óvissutími og átti pabbi þess vegna von á að vera allur innan skamms tíma. Fóru þá pabbi og mamma að huga að því að hætta búskap og selja. Var jörðin og allt það sem henni fylgdi auglýst til sölu. Tóku þá við óvissutímar um hvort það tækist að selja og hvaða fólk myndi kaupa. Gladdi það þau mikið að Jón Kristján frændi okkar steig fram og var tilbúinn að kaupa og halda áfram búskap. Veit ég að pabba og mömmu létti mjög við að af þessu gæti orðið. Voru þau mjög sátt við að einhver í fjölskyldunni vildi taka við. Fluttu hann og mamma í framhaldi til Selfoss þar sem þau komu sér fyrir. Keyptu þau sér raðhús og iðnarbil þar sem pabbi dundaði sér síðustu árin við smíðar og tengd efni því ekki gat hann hugsað sér að hætta að vinna og taka því rólega.
Einnig gekk hann í það að gefa út endurminningar sínar eftir að þau fluttu á Selfoss í samstarfi við Bjarna Harðar hjá bókaútgáfunni Sæmundi. Fékk hann líka ráðleggingar og aðstoð frá mörgum góðum vinum sínum t.d. Erlendi Jónssyni, Sveini Runólfssyni og mörgum fleirum. Ég veit að pabbi var mjög stoltur af þessari bók sinni og var mjög sáttur við að koma henni út.
Það var svo fyrir fáum árum síðan að pabbi greindist með parkinsons. Hafði hann fengið lyf sem héldu krabbameininu niðri en að mörgu leyti var það parkinsons-veikin sem fór verst með hann. Hún lagðist á háls, andlit og talfæri þannig að síðasta ár og rúmlega það átti hann mjög erfitt með að tala og undir það síðasta gat hann ekki borðað og tjáð sig nema skrifandi. Fyrir mann sem alltaf hafði haft mikla unun af að borða góðan mat, spjalla og ræða málin var þetta mjög erfitt og undir það síðasta veit ég að þú varst farinn að þrá að fá friðinn.
Við fjölskyldan munum sakna þín óendalega mikið sérstaklega barnabörnin þín og á ég erfitt með að hugsa mér framtíðina án þín. Við hringdumst á á hverjum degi og veit ég að ef það brást varðst þú órólegur. Einnig varst þú mjög órólegur og stressaður þegar ég veiktist og lagðist inn á spítala síðasta sumar þótt þú reyndir að láta á engu bera.
Þú stríddir við erfið veikindi þessi síðustu ár sem að lokum bundu enda á þessa lífsferð þína og vona ég að þú hafir fundið friðinn í faðmi Þorgerðar ömmu og Sæmundar afa, Veigu systur þinnar sem þú leist alltaf mjög upp til, Tómasar Gunnars bróður þíns ásamt öllum ættingjum og vinum þínum. Vonandi kemst þú á góðar veiðislóðir á þeim stað sem þú ert og nýtur þeirrar vegferðar sem þú ert kominn á.
Ég veit að það er margt sem ég gæti sett meira niður á blað og það hvolfast yfir mig minningarnar þegar ég skrifa þetta en einhvern tímann verður maður að hætta og ljúka skrifunum. Það vissir þú oftast manna best.
Við systkinin munum gera okkar allra besta til að passa upp á mömmu.
Þinn elskandi sonur
Sigurjón Tómasson