Sigríður Ingimarsdóttir fæddist á Flugumýri í Skagafirði 5. Júní 1935.  Hún lést á Sjúkrahúsi Skagfirðinga 13. mars.  Foreldrar hennar voru hjónin Ingimar Jónsson f.27.3.1910 á Flugumýri, d.4.12.1955 og Sigrún Jónsdóttir f.6.3.1911 á Vatni á Höfðaströnd d. 22.3.19

Sigríður ólst upp í stórum systkinahópi á Flugumýri og var elst í röð átta systkina en þau eru Jón, f. 19.1. 1937, Sigurður f.11.7.1938 d.21.12.2017, Lilja Amalía, f. 24.7. 1939, Steinunn, f. 26.3. 1942, Guðrún, f. 1.6. 1943, Sigrún, f. 4.10. 1945, og Ingimar, f. 16.4. 1951.

Þann 3. Júní 1961 kvæntist Sigríður, Jóni Rögnvaldi Jósafatssyni frá Sauðárkróki f.19.3.1936 d.17.6.1999.  Synir þeirra eru: 1) Ingimar Jónsson, f. 5.2.1961, búsettur í Garðabæ. Kona hans er Ingibjörg Rósa Friðbjörnsdóttir, f. 13.11. 1963. Synir þeirra eru Atli Björn, f. 2.11. 1987, kona hans Helga Hafdís Gunnarsdóttir, börn þeirra, Bjartur Darri, Rut og Kara Lind.  Jón Rúnar, f. 17.2. 1993, unnusta Ingibjörg Thelma Leopoldsdóttir og Davíð, f. 23.7. 1994.

2) Jósafat Þröstur Jónsson, f. 16.7. 1965, búsettur á Sauðárkóki.   Synir hans eru:  Logi Már, f. 12.7. 1989,  móðir hans er Hrafnhildur Kjartansdóttir, Jón Rúnar f.5.9.2008, móðir hans er Lotte Christensen.

Sigríður ólst upp á Flugumýri og gekk þar í flest störf en jafnframt fór hún á vertíð til Vestmannaeyja og Keflavíkur og þá var hún tvö sumar kokkur á síldarskipi. Hún sótti nám  í húsmæðraskólanna á Löngumýri og Ísafirði.  Eftir að hún hóf búskap á Sauðárkróki vann hún hjá Fiskiðjunni og Skyldi, í mötuneyti Sláturhúss KS og Fjólbrautaskóla Norðurlands Vestra.  Þá rak hún um tíma verslun á Sauðárkróki.  Hún var söngelsk og söng í Kirkjukór Sauðárkrókskirkju,  ásamt fleiri kórum.

Útför Sigríðar fer fram frá Sauðárkrókskirkju 29. mars 2021 kl. 14.

Stytt slóð á streymi:

https://tinyurl.com/v57u3u2d

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Við amma Lilla vorum miklir vinir og í síðasta sinn sem við töluðum saman fann maður að hennar karakter var lengra í burtu. Töluverður tími hafði þá sennilega liðið frá því að henni fannst sinn tími kominn en þrátt fyrir það þá litaði hennar sterki karakter alltaf okkar samtöl. Amma var af gamla skólanum og kenndi okkur strákunum margt, meðal annars nokkur blótsyrði. Hún hélt sérstakt bókhald um vaxtalag barnabarna sinna og var það iðulega fyrsta mál á dagskrá er við hittumst, sem var oftast með nokkuð löngu millibili. Nonni minn þú hefur fitnað, heyrði ég nokkrum sinnum á síðustu árum.

Hún var engin venjuleg amma og allir vinir okkar sem hittu hana þótti hún stór skemmtileg. Hún hafði tekið upp á því að fylgjast með fótbolta og í kringum seinni ár Alex Ferguson með United hringdi hún sennilega í einhvern okkar eftir hvern einasta leik. Okkar maður var flottur í dag, sagði hún alltaf ef uppáhalds leikmaðurinn hennar, Ryan Giggs, kom við sögu eða Giggsarann eins og hún kallaði hann. Hún þoldi ekki Luis Nani en var mjög hrifin af Rooney og Persie en það voru líka aðrir sem hún var hrifin af. Hún elskaði Leo Messi og þótti Drogba (sem amma bar fram hárrétt, ólíkt Ingimari syni hennar sem bar það alltaf fram sem Drobga með b-ið á undan g-inu) og Mourinho skemmtilegir. Ég held hún hafi svolítið haldið með Chelsea þá þegar Eiður var með þeim. Svo ef að amma þekkti ekki nöfnin á leikmönnunum þá bjó hún þau bara til, Carlos Tevez kallaði hún gjarnan Litla Skratta og Emil Heskey alltaf trukkinn. Hún var svo sérstakur greinandi á persónunni Christano Ronaldo og gat oft hreinlega sagt mér hvað hann Ronaldo væri að hugsa.

Vinum okkar fannst magnað hvað hún var vel inn í enska boltanum og horfði hún nú á nokkra leiki með þeim. Hún fann sig vel í umræðum með okkur strákunum og sagði okkur sögur frá því hún vann á Siglufirði einmitt með strákunum. Oft notaði hún fáránleg orð yfir það þegar ég eða Davíð vorum á leið útúr húsi að kvöldi til, þá spurði hún til dæmis hvort við værum að fara á stredderí sem þýddi það að hún var að spyrja okkur hvort við værum að fara að djamma, svo hló hún mikið.

Oft í gegnum tíðina spurði ég hana hvort hún vildi ekki bara flytja suður í Garðabæ til okkar en svarið var alltaf það sama, hún vildi vera framfrá eins og hún kallaði sveitina sína á Flugumýri. Á Flugumýri höfðum við bræðurnir ótakmarkað aðgengi að lyklunum af Nissan Almerunni hennar langt áður en við fórum að læra á bíl, enda minnti sú gamla okkur á hvers konar vitleysa það væri að skylda fólk í ökukennslu, hún hafði sjálf keyrt í sína eigin fermingu. Hún dröslaðist með okkur upp á ruslahaugana fyrir ofan Krókinn þar sem við söfnuðum merkjum af ónýtum bílum, brutum rúðurnar á þeim og sprengdum málningarfötur. Svo þegar heim var komið gerði hún Dennusamloku.

Þegar amma kom í bæinn þá var fastur liður í okkar æsku að fara með henni á Stjörnutorg í Kringlunni þar sem hún keypti pítsur fyrir okkur. Hún rataði merkilega vel í minningunni, þó að stundum kæmi fyrir að við Davíð værum efins um leiðarvalið. Heldur þú að ég rati ekki vitleysingurinn þinn var þá iðulega það sem hún sagði. Í seinni tíð vorum það svo við sem keyrðum hana um höfuðborgarsvæðið aðallega í leit að garni þar sem hún gat að manni fannst, eitt heilli eilífð í velja eitthvað til að prjóna úr. Eitt eftirminnilegt atvik á akstursferli ömmu var þegar við vorum í bíl með henni á leið af Króknum yfir í Varmahlíð, eða að minnsta kosti í þá átt. Þetta gerðist við píanóhúsið, þar sem undirritaður er ekki sérstaklega vel kunnugur staðháttum. Ömmu fannst bílstjórinn á undan sér keyra hálf hægt og við því var ein lausn, að taka fram úr. Amma var þá sennilega þegar kominn í fimmta gír á Almerunni sem taldi ekkert sérlega mörg hestöfl og mjakaðist löturhægt framúr bílnum sem gaf ekkert eftir. Framar á veginum, kom bíll úr gagnstæðri átt sem nálgaðist afar hratt. Í minningunni munaði hálfri sekúndu á því að bílarnir hefðu farið saman og urðum við farþegarnir mjög skelkaðir. Amma var stein hissa á þessari vitleysu og minnti okkur á að hún hefði keyrt í nærri sextíu ár.

Hún eyddi oftast jólunum með okkur fjölskyldunni en amma var sérfróð um hvernig best væri að skjóta rjúpur, og bar allar rjúpur sem hún át við það hvernig sjálfur Ryan Giggs rjúpnaskyttnanna í hennar augum Afi Nonni, skaut þær, eða það er í vængina. Svo þegar ég borðaði ekki sundursoðna rjúpuna, sem sjálfur Suðu-Sigfús hefði sennilega ekki étið nema í neyð, þá hneykslaðist amma mikið og útskýrði hvernig afi þinn hefði snúið sér í gröfinni ef hann sæi til þín. Á síðustu árum þegar ég var farinn að steikja rjúpurnar sjálfur á pönnu, án þess að þær kæmust í snertingu við soðið vatn, þá var amma alltaf farin að borða hluta af þeim svoleiðis og líkaði mjög vel ef ekki betur en soð-aðferðin. Hún hafði nefnilega þrátt fyrir að vera stundum þver, ákveðinn eiginleika að aðlagast umhverfinu, fara sínar eigin leiðir og vera ánægð með sitt.

Hún var rosalega ánægð með barnabörn sín og studdi okkur alltaf í öllu sem við gerðum. Hún var sérlega ánægð með það að við strákarnir spiluðum flestir á hljóðfæri og hafði oft orð á því hvað afi hefði verið stoltur af okkur, bæði fyrir það og annað. Á síðustu árum var hún dugleg að spyrja hvort ég ætlaði nú ekki að drífa mig að gifta mig, eignast börn eins og Atli og hvern andskotann Davíð og Logi Már væru nú að gera konulausir. Að segja sína skoðun á málunum er eitthvað sem ég held að við strákarnir höfum frá ömmu að miklu leyti. Hún var nokkuð kaldhæðin og gat hlegið rosalega af okkur og okkar uppátækjum. Hún varð sjaldan reið eða þreytt á okkur og leyfði okkur að brasa við flest allt þegar við vorum hjá henni. Allir eyddum við tímunum saman með henni og Páll Ísak sem er nær því að vera bróðir okkar en frændi kynntist því svo að dvelja hjá henni og svo tóku Mikki, Bjartur og Jón Rúnar frændi minn við ásamt auðvitað krökkunum á Flugumýri.

Amma var besti vinur okkar og eigum við henni mikið að þakka. Það verður mikill söknuður að henni en fyrst og fremst er maður þakklátur fyrir allar stundirnar með henni. Nú tuttugu og tveimur árum eftir að afi Nonni fór þá sameinast þau á ný. Þegar þetta er skrifað styttist í að ég fljúgi yfir eldgosið sem nýlega hófst. Það er táknrænt að vita af jörðinni opna sig, hún þurfti greinilega að rýma til fyrir og búa til pláss fyrir stóran karakter. Amma var engin venjuleg kona. Hún var elst átta systkina, var kokkur út á sjó og sá United vinna Newcastle 6-1 á Old Trafford.

Jón Rúnar Ingimarsson.