Guðjón Elí Bragason fæddist 13.júní 2002.  Hann lést á Barnaspítala Hringsins 19.mars 2021.

Guðjón Elí var sonur Braga Guðjónssonar og Jóhannu Maríu Ævarsdóttur.

Bróðir hans var Elfar Máni Bragason.

Streymt verður frá útför, stytt slóð:

https://tinyurl.com/nz8w3wy6

Virkan hlekk á slóð má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Sandó-Lansó og United bar oft á góma í spjalli okkar sl.ár. Guðjón kastaði þessu oft fram og hann bar mikinn hlýhug til þessara orða. Fyrst skildi ég ekki alveg hvað Sandó var, en var fljótur að átta mig á að hann dýrkaði heimabæ sinn. Á Lansó dvaldi hann reglulega, og þá á barnaspítalanum og þrátt fyrir að vera kominn á aldur til að færa sig yfir á aðra deild þá fékk hann undanþágu til að dvelja þar sem aldursforseti. Guðjón var afar þakklátur, og dásamaði starfsfólkið

hástöfum og talaði um dvöl sína einsog hann væri á 5 stjörnu hóteli. Guðjón eignaðist stóran vinahóp meðal starfsmanna. Guðjóni var afar skemmt er ein hjúkkan hugðist lauma hundinum hans inná deildina gegn öllum reglum og fannst honum það vera alveg meiriháttar að fá hundinn sinn í heimsókn...sem að vísu svaf mest alla heimsóknina. Honum þótti afar vænt um samtölin sem hann átti við starfsfólkið sem oft sótti hann heim á stofu, þrátt fyrir að þau væru í hvíld eða í fríi.

Það voru nokkur höggin sem Guðjóni tókst að skjóta á mig vegna gengis minna manna í Liverpool, er allt virtist ganga upp hjá United. Gallharður United maður og sárlasinn sendi hann mér skilaboð í einum af mörgum tapleikjum okkar sl. vikur Það er nú alveg hægt að hressa sig við að horfa á þennan leik og tók skjáskot af sjónvarpinu þar sem Liverpool var að tapa nokkuð stórt...Mér þótti afar vænt um það, og ekki síst í ljósi þess að Guðjóni var skemmt. En þessu fylgdi engin alvara því Guðjón var allra, og vildi öllum vel.

Ofarlega í minni eru allar þær heimsóknir er hann kom í sauna til okkar feðga, þar sem við borðuðum saman og spjölluðum. Drukkum helling af sódavatni og stigum út til að kíkja á stjörnurnar og eða norðurljósin. Samtölin í saununni voru um heima og geyma. Og er Samúel Kári var með okkur, þá var meira spjallað um fótbolta og fyrirhugaða ferð okkar til Noregs þar sem við ætluðum að sjá leik með Samma.

Guðjón var fróðleiksfús og spurði oft hnitmiðaðra spurninga um ákveðin atriði og má þar nefna fasteignakaup, leigumarkaðinn og fjárfestingar. Hann hafði skýra sýn á hvað hann vildi gera í framtíðinni. Þá hafði hann mikinn áhuga á innanhús-hönnun, arkítektúr og sköpun. Guðjón var fullur tilhlökkunar en móðir hans hafði keypt nýtt húsnæði og var hann uppnuminn af að skipuleggja og hanna útisvæðið. Ég var víst kallaður palla-gaurinn af hjúkkunum, þar sem við ræddum oft teikningar hans sem hann hafði smíðað í símanum sínum. Hann var alveg með á hreinu hvernig þetta átti að vera. Mér þótti afskaplega vænt um elju hans og þrautseigju að gefast aldrei upp!

Jákvæðari einstakling hef ég aldrei áður hitt á mínum 50ára lífsferli, en 15.mars sl. átti ég stórafmæli, og er klukkan var gengin yfir miðnætti þá hringir Guðjón, og sagðist ekki hafa kunnað við að hringja á afmælisdeginum og trufla mig. Þetta var svo líkt honum að hugsa um aðra og taka tillit. En glaður sagði ég honum að símtal hans hafi verið besta afmælisgjöf sem ég hefði getað fengið!

Guðjóni fannst afar gaman að fara heim til afa og ömmu með pabba sínum til að horfa á enska boltann. Og var honum títtrætt um hversu gott bakland hann hefði frá ömmum sínum og öfum. Hann var hreykinn af pabba sínum og hlakkaði til að geta leitað ráða hjá honum um lán og slíkt þar sem hann væri traustur endurskoðandi. Móðir hans var honum sem klettur og er mér minnistætt að hann frestaði stundum samtölum okkar þar til hún væri búin að sýna honum myndir af góðgæti í myndsímanum er hún skrapp út í búð að versla fyrir hann. Guðjóni þótti afar vænt um fjölskylduna sína og var hann fullur tilhlökkunar að fylgjast með bróður sínum í boltanum í framtíðinni. Foreldrar Guðjóns sinntu honum svo sannarlega af mikilli alúð og kærleika í gegnum veikindin!





Þrátt fyrir alvarleg veikindi þá kvartaði Guðjón aldrei og þó svo gildin væru langt frá því að vera í lagi.

Þá hélt hann alltaf í þá trú að hann næði að komast út úr þessu. Það er svo stutt síðan hann sagði mér frá því að það væri búið að bjóða honum tvær vinnur í sumar, en ætlaði að afþakka þær því að hann taldi það ekki vera sanngjarnt vinnuveitendunum eða þá þeim aðilum sem ekki fengu vinnu að hafa mann sem væri ekki alveg 100 prósent í starfi. Hjartalag var með þeim hætti hjá Guðjóni að maður fylltist hlýju og kærleika við að ræða við hann.

Hann var svo stoltur af fjölskyldu sinni og Sandó og þar var sko best að búa. Ég fann vel fyrir þessu og enn betur er ég fór á rúntinn daginn eftir að Guðjón kvaddi og sá að allir bæjarbúar sem eiga flaggstöng höfðu flaggað til minningar um elsku Guðjón. Einnig var flaggað víðsvegar í Keflavík og segir það margt um hvaða dreng Guðjón hafði að geyma. Traustur drengur með fallegt hjarta og tæra sál.

Það er stórt skarð rofið í Sandó samfélagið og Suðurnesin. Ég er afskaplega þakklátur fyrir að hafa orðið svo lánsamur að kynnast Guðjóni Eli. Hlýju hans og kærleika mun ég kappkosta að hafa að leiðarljósi um ókomna framtíð.Að endingu vil ég kveðja með einni af setningum Guðjóns; takk fyrir,sjáumst soon. Fjölskyldu Guðjóns, ættingjum, vinum og öllum í Sandó sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Gunnar Már Másson