Stefán Ragnar Egilsson fæddist 3. október 1954 á Selfossi. Stefán andaðist sunnudaginn 28. mars 2021. Foreldrar Stefáns voru Egill Guðjónsson bifreiðarstjóri, f. 15. janúar 1921, frá Berjanesi, d. 16. febrúar 1994, og kona hans, Guðrún Pálsdóttir, húsfreyja frá Litlu Reykjum, f. 20. ágúst 1924, d. 1. mars 1983. Stefán átti átta systkini en þau eru: Svanborg f. 1946, Páll f. 1947, Guðjón f. 1952, Pálmi f. 1956, Gunnar f. 1957, Guðríður f. 1960, Sigrún f. 1962 og Sigríður f. 1964.

Stefán kvæntist Katrínu Ríkharðsdóttur þann 10. desember 1977. Katrín var fædd í Ólafsvík þann 17. janúar 1956 og starfaði lengst af við umönnun barna. Katrín lést eftir skamma baráttu við krabbamein þann 1. janúar 2015. Einkadóttir þeirra hjóna, Stefáns og Katrínar, er Hafdís Björk, f. 10. júlí 1977, gift Sigurvini Breiðfjörð Pálssyni, f. 21. júlí 1975. Dætur þeirra eru þær Ísabella Breiðfjörð, f. 9. desember 2009, og Ísafold Breiðfjörð, f. 13. desember 2011. Foreldrar Katrínar voru Ríkharður Jónsson, fiskmatsmaður, f. í Saksun í Færeyjum þann 13. október 1931, d. 15. janúar 2005, og kona hans Ingveldur Magnúsdóttir húsfreyja, f. í Ólafsvík þann 21. desember 1930, d. 13. janúar 2011. Katrín var einkabarn þeirra hjóna.

Stefán var fæddur og uppalinn á Selfossi og lauk þar grunnskólaprófi. Stefán lauk jafnframt 2. stigi vélstjóra frá Vélskóla Íslands árið 1985. Stefán tilheyrði stórum og nánum hópi systkina sem kennd eru við Rauðholtið þar sem þau ólust upp. Þau Stefán og Katrín kynntust og hófu búskap í Ólafsvík árið 1974 og bjuggu þar allt til ársins 2004 þegar þau fluttu til Hafnarfjarðar í næsta nágrenni við dóttur sína. Gestkvæmt var á heimili þeirra alla tíð og héldu þau hjónin fallegt heimili sem sinnt var af alúð og natni. Stefán starfaði í 30 ár hjá útgerðinni Valafelli í Ólafsvík, lengst af sem yfirvélstjóri á Ólafi Bjarnasyni SH-137. Áður hafði Stefán starfað við vélavinnu og verið til sjós. Í Ólafsvík voru þau hjónin virkir þátttakendur í félagsmálum bæjarins til margra ára. Eftir að þau hjón fluttust til Hafnarfjarðar á árinu 2004 starfaði Stefán sem verkstjóri hjá Íslenska gámafélaginu og undi sér þar vel þar til hann lét af störfum vegna heilsubrests árið 2014. Hin síðari ár var Stefán í fullu starfi sem afi tveggja dýrmætra augasteina sem voru líf hans og yndi. Hann sinnti heimalærdómi þeirra Ísabellu og Ísafoldar, íþróttamótum og æfingaskutli af einstakri þolinmæði og ást.

Útförin fer fram frá Ástjarnarkirkju 12. apríl 2021 klukkan 13. Í ljósi aðstæðna verður aðeins nánasta fjölskylda viðstödd. Streymt verður frá athöfninni á eftirfarandi slóð:

https://www.sonik.is/stefan

Virkan hlekk má nálgast á: https://www.mbl.is/andlat

Elsku hjartfólgni og ljúfi pabbi minn, ég er svo engan veginn tilbúin að sleppa leiðandi hönd þinni um lífið. Söknuðinn og tregaskarðið sem fjarvera þín skilur eftir í hjarta mínu mun einungis tíminn milda. Við þekkjum það pabbi minn hvað það er að sakna, mér finnst ekki svo langt síðan að ég sat og skrifaði minningarorð með þér til mömmu en nú skrifa ég minningarorðin mín til þín.

Hjarta þitt hefur oft valdið mér áhyggjum. Ekki að nokkuð hafi skort á hjartagæsku þína, af henni áttir þú gnægð. Þú áttir stærsta hjartað og afar fallega sál sem gaf óendanlegar og óeigingjarnar gjafir til okkar sem stóðu þér næst. Það skar þig í hjartað að horfa á mömmu í veikindum hennar og að fylgja henni síðasta spölinn. Alltaf saknaðir þú hennar jafn heitt. Hjarta þitt þoldi hins vegar illa það álag sem lagt var á okkur á þeirri stund og það varð veikara og veikara með árunum. En þú gerðir allt sem þú mögulega gast og meira til, til að gefa mér og mínum fleiri stundir með þér. Þú vildir vera okkar bakhjarl eins og alltaf og lifa með okkur. Þú tókst heilsuna föstum tökum, hugðir vel að þér og náðir ótrúlegum framförum. Þú gerðir þetta allt á seiglunni eins og svo margt annað því dugnaðarforkur varstu með sanni. Fyrir mörgum árum fann ég þessi orð sem töluðu til mín og ég hef geymt þau öll þessi ár vitandi að einn daginn kæmi að þeirri stundu að ég þyrfti að kveðja þig. Nú er komið að þessari stund.

Harmþrungin við horfðum
þig hverfa á annan stað,
hve heitt sem við þér unnum
ei hindrað gátum það.

Hjarta, úr gulli hannað,
hætt var nú að slá
og vinnulúnar hendur
verki horfnar frá.

(Þýtt Á.Kr.Þ.)


Efst í huga mér er þakklæti, þakklæti fyrir yndislegan pabba sem vildi allt fyrir mig og mína gera. Við pabbi áttum einstakt samband. Við skildum svo vel hvort annað, áttum gott skap saman. Það var aldrei neitt ósagt. Hann vissi hve heitt ég elskaði hann og ég vissi hve heitt hann elskaði mig og okkur fjölskylduna. Við sögðum það oft. Hann bar okkur á höndum sér alla tíð, þau mamma bæði.

Minningabrotin raðast saman í huganum um einstakan ljúfling sem hann pabbi var. Fyrir þá sem ekki þekktu hann vel var hann kannski hrjúfur á yfirborðinu en fyrir þau okkar sem þekktu hann þá var hann einstakt ljúfmenni sem mátti ekkert aumt sjá. Pabbi hafði einstakt jafnaðargeð og þolinmæði sem kom sér oft vel þegar tvær litlar afastelpur voru annars vegar, já, eða óþolinmóð dóttir hans. Hann pabbi var þúsundþjalasmiður og einstaklega handlaginn, reddaði öllu, sama hvað það var. Hann var góður á allar vélar, tól og tæki nema þá kannski tölvur en þá var hringt í tengdasoninn. Hann pabbi líkti oft hjartanu sínu við vél. Hann talaði sitt vélstjóramál við hjartalæknana, þrífa pípurnar, herða á hjartslættinum, rafvenda í takt og svona það þurfti bara að strjúka hjartanu, svona eins og vel smurðri ljósavél.

Pabbi var góður á græjur, hann vildi mikið sound og mikinn hávaða til að hlusta á öll sín uppáhaldslög sem voru fjölmörg og hann hafði fjölbreyttan smekk og gaman af tónleikum. Pabbi var maður verka, natinn og vandvirkur í því sem hann tók sér fyrir hendur. Hvað framkvæmdir varðar þá skyldu þær framkvæmdar strax og ætli Sigurvin minn sé ekki sammála því að ég hafi erft þann eiginleika hans honum til mikillar gleði. Við Sigurvin nutum oft góðs af framkvæmdagleði og vinnusemi pabba. Ef það vantaði að tengja ljós á pallinn eða álíka þá var nóg að spyrja pabba um hvort hann ætti vír, daginn eftir voru öll ljós á pallinum tengd. Einn daginn sagði ég pabba að ég væri til í að það væru fleiri útdraganlegar skúffur í fataskápunum okkar Sigurvins, næsta dag þegar ég kom heim úr vinnunni var búið að tæma fataskápana og setja upp skúffur, en ekki hvað, og áfram gæti ég lengi talið. Svo voru það bílarnir okkar, þeir eiga auðvitað alltaf að vera hreinir. Okkar bílar voru alltaf hreinir, pabbi sá til þess. Pabba fannst jafnframt einstaklega gaman að keyra bíla, finna hve vel þeir lágu á veginum og hve fljótir upp þeir væru, svo var hann sérlegur einkabílstjóri minn og fannst ekki leiðinlegt þegar við feðgin stússuðumst eitthvað saman.


Pabbi var svo heppinn að kynnast skvísunni henni mömmu á sveitaballi fyrir vestan og náðu þau fjörtíu árum saman. Ég átti ástríka og ljúfa æsku í faðmi foreldra minna. Þegar kom að því að ég hóf nám við Verzlunarskóla Íslands og yfirgaf æskuslóðirnar sextán ára, þá var það mömmu og pabba erfiður tími. Við töluðum þó alltaf saman í síma á hverjum degi, ég, mamma og pabbi og þannig var það æ síðan. Loks kom svo að því að heimasætan hitti strák rétt um tvítugt. Pabbi og mamma tóku Sigurvini strax opnum örmum. Sigurvin varð pabba og mömmu sem sonur og áttu þau alltaf góðan vinskap og ást til hvert annars. Ég hef alltaf gert mér grein fyrir því hve ómælda þolinmæði og skilning Sigurvin hefur gefið okkur verandi giftur einkadóttur ástríkra foreldra og er honum afar þakklát.

Í gegnum árin voru það ferðalög sem voru ein helsta ástríða foreldra minna. Ávallt voru þau búin að baka bakkelsi og brauð, ekki má nú heldur gleyma hangikjötinu og sviðunum áður en haldið var af stað á vit ævintýranna í góðra vina hóp einhvers staðar undir bláhimni. Árið 2004 ákváðu foreldrar mínir að flytjast nær okkur Sigurvini og var yndislegt að fá þau til okkar í næstu götu í Hafnarfirðinum. Ekki fækkaði samverustundunum eftir að tvær litlar prinsessur komu í heiminn. Ísabella fæddist árið 2009 og Ísafold árið 2011, tveir litlir desemberenglar sem beðið hafði verið eftir í langan tíma. Mamma var yndisleg amma og pabbi yndislegur afi.

Foreldrar mínir voru ætíð höfðingjar heim að sækja um jól sem á öðrum tíma og pabbi hélt þeirri hefð við eftir að mamma féll frá. Það skipti engu hvort það voru skötuboðin með nóg af heimabökuðu rúgbrauði, síld og gúmmelaði, kjötsúpupartíin, fish and chips-boðin á hátíðardögum eða bara soðin ýsa á þriðjudegi. Allt var svo snyrtilegt og fínt hjá honum pabba, hann skreytti eins og mamma hafði gert og jólin komu til okkar með ömmubrauðinu sem hann bakaði, hvítkálinu, jólaóróunum og óteljandi gjöfunum sem hann gaf okkur en þó aðallega með faðminum hans sem var svo hlýr. Nýársnóttin var okkur alltaf erfið eftir að mamma kvaddi okkur, við áttum þá hefð saman að fara alltaf að leiði hennar þegar líða fór á nýársnóttina en pabbi hugsaði einstaklega vel um leiðið hennar mömmu. Kvöld eftir kvöld var kveikt á kertum og alltaf voru blóm í kerum og fórum við öll ósjaldan öll saman upp í garð og minntumst hennar. Eftir andlát mömmu þá tók pabbi að sér að vera bæði amma, afi og besti vinur augasteinanna sinna, Ísabellu og Ísafoldar. Hann var þeim jafnframt eins og þriðja foreldrið og sinnti uppeldi þeirra til jafns við okkur, skipti þá engu hvort það væri heimalærdómur, æfingaskutl, mótaraðir í fimleikum, körfubolta eða fótbolta, alltaf var afi til staðar. Hann afi var líka einstaklega góður í að: þurrka tár, leysa úr vandamálum, kyssa á bágt, laga dót, lita með, nudda tásur og klóra bakið, já, og aðeins meira klór á bakið. Ísabella og Ísafold sakna afa síns afar heitt og lífið verður svo sannarlega tómlegt og erfitt hjá okkur öllum án hans. Hann pabbi var nefnilega jafnmikill afi afanna eins og pabbi pabbanna, þetta voru stóru hlutverkin hans í lífinu sem hann tók fulla ábyrgð á og sinnti framúrskarandi vel ásamt því að elska og varðveita minningu hennar mömmu. Hann var okkur öllum jafnframt einstakur vinur.

Pabbi minn, þú ert og verður alltaf í huga okkar og hjarta, alltaf elskaður, alltaf saknað og alltaf minnst. Ég er svo innilega þakklát fyrir allt það sem þú gafst mér, minningarnar saman og að þú hafir verið pabbi minn. Berðu henni
mömmu ást okkar.


Heyr mína bæn

mildasti blær,

berðu kveðju mína yfir höf,

syngdu honum saknaðarljóð.



Vanga hans blítt,

vermir þú sól

vörum mjúkum kysstu hans brá,

ástarorð, hvísla mér frá.
(Ólafur Gaukur)




Þín elskandi dóttir

Hafdís Björk Stefánsdóttir.