Elín Sigurjónsdóttir fæddist 12. september 1929 á Búðum í Fáskrúðsfirði. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 29. mars 2021. Foreldrar hennar voru Sigurjón Guðmundsson, sjómaður og vélstjóri, f. 21. mars 1906, d. 6. júní 1931, og Guðbjörg Stefánsdóttir, f. 20. september 1900, d. 23. júní 1960.
Systkini Elínar voru Drengur Hallgrímsson, f. 3. nóvember 1926, d. 4. nóvember 1926, Sigurjón Sigurjónsson, f. 1. maí 1931, d. 13. janúar 1935, og Edda Stefáns Þórarinsdóttir, f. 28. maí 1939.
Þann 23. maí 1953 giftist Elín Gísla Bjarnasyni frá Uppsölum í Blönduhlíð í Skagafirði, f. 3. júlí 1930, d. 30. maí 2009, þau skildu.
Synir þeirra voru: 1) Ævar Gíslason, f. 7. september 1953, d. 23. febrúar 2011, ógiftur og barnlaus. 2) Kári Gíslason, f. 22. nóvember 1956, giftur Bryndísi Dagbjartsdóttur, sonur þeirra er Arnór, hann er giftur Katrínu Björgu Þórisdóttur. Einnig á Kári soninn Halldór Inga, móðir hans er Hafdís Magnea Magnúsdóttir. Halldór er giftur Guðrúnu Sigríði Pálsdóttur og eiga þau þrjá syni. 3) Árni Gíslason, f. 17. maí 1967, giftur Sigurborgu Ísfeld, sonur þeirra er Þorsteinn og dóttir þeirra er Hildur Magnea. Þorsteinn er í sambúð með Erlu Rún Ingólfsdóttur, þau eiga þrjú börn. Hildur er gift Korie Andrew Harrison, áður átti Sigurborg dótturina Evu Ísfeld, hún á tvö börn.
Elín fæddist og ólst upp á Fáskrúðsfirði til 15 ára aldurs, þá flutti hún til Akraness og átti heimili hjá Sveini, föðurbróður sínum, þar til hún hafði lokið námi. Elín tók gagnfræðipróf frá Gagnfræðaskólanum á Akranesi 1946 og kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1951.
Fljótlega eftir að námi lauk fluttu hún og Gísli á Bíldudal og bjuggu þar frá 1952 til 1956. Þau fluttu til Akureyrar 1956 og þar bjó Elín alla tíð upp frá því.
Elín vann aðallega við afgreiðslustörf áður en hún gerðist kennari, hún var kennari við Barnaskólann á Bíldudal 1952-1956 og kennari við Barnaskóla Akureyrar 1958-1999.
Elín var félagi í Kvenfélagi Akureyrarkirkju og Soroptimistaklúbbi Akureyrar, þar sem hún var heiðursfélagi.

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju 12. apríl 2021,
klukkan 13. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu verða einungis nánustu aðstandendur viðstaddir athöfnina. Hægt verður
að nálgast streymi á Facebook-síðunni Jarðarfarir í Akureyrar-
kirkju - Beinar útsendingar.

Stytt slóð á streymi: https://tinyurl.com/mj3w8kut

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Með þakklæti og hlýju minnumst við Elínar ömmusystur okkar sem í dag er borin til hinstu hvílu á Akureyri. Dagurinn er bjartur og fallegur og fuglarnir syngja sitt fegursta lag. Það er einstaklega viðeigandi þar sem Ella hafði sérstakt dálæti á fuglum, hún naut þess að ganga um bæinn sinn og njóta fegurðar náttúrunnar og fylgjast með fuglunum. Ella var kennari og var haustið hennar uppáhaldsárstími, þá fannst henni allt einhvern veginn lifna, þegar bærinn fylltist af ungu fólki sem var að koma í framhaldsskólana og á gangstígum bæjarins voru börn á leið í skólann. Vinátta okkar Ellu frænku minnar hófst einmitt haustið 1998 þegar ég, þá 16 ára gömul, var að hefja mína framhaldsskólagöngu og fékk leigt í kjallaranum í Vanabyggðinni ásamt vinkonu minni. Oft hef ég hugsað til þess hversu þolinmóð hún var við okkur vinkonurnar og hvað hún hafði mikið umburðarlyndi fyrir ungum sveitastelpum sem voru að feta sig áfram á eigin fótum. Aldrei talaði hún um ónæði eða hávaða frá okkur, þrátt fyrir að það kæmi fyrir að við fengjum til okkar gesti eftir háttatíma og þrátt fyrir að það væri ekki alltaf ró og næði í kjallaraíbúðinni í Vanabyggðinni. Ella talaði ósjaldan um það hversu gaman það hefði verið að finna matarlyktina úr kjallaraíbúðinni meðan við vinkonurnar bjuggum þar og sagðist hún ekki minnast þess að neinn af leigjendum hennar í gegnum tíðina hefði verið eins duglegur að elda eins og við vinkonurnar. Oft sagði hún: Það var bara verst hvað þið voruð alltaf duglegar að fara heim um helgar. Mörgum árum seinna fékk maðurinn minn svo leigt í kjallaranum hjá Ellu þegar hann hóf sitt háskólanám við Háskólann á Akureyri. Þá myndaðist einnig vinasamband þeirra á milli og höfum við fjölskyldan notið trausts og hlýju Ellu frænku alla tíð. Hún fylgdist alltaf vel með okkur og lét sig það varða hvað við værum að gera, hvernig heilsufarið var hjá okkur og hvernig börnunum okkar vegnaði og fékk hún þessar upplýsingar mjög reglulega hjá systur sinni, ömmu okkar, en þær töluðust við á hverju kvöldi um langt árabil. Ella var nægjusöm og nýtin kona, hún var mjög stolt af fólkinu sínu og alltaf hafði hún eitthvað nýtt að segja okkur af fólkinu sínu þegar við hittumst. Þá ekki síst af barnabörnunum og langömmubörnunum, hún náði mjög vel til barna og gaf sér alltaf tíma til að hlusta á hvað börnin höfðu að segja og gefa þeim færi á að komast inn í samræðurnar þegar verið var að tala saman. Mér er mjög minnisstætt eitt skipti þegar við fjölskyldan komum til Akureyrar og heimsóttum Ellu. Við vorum svo að fara að snúast í bænum eins og gengur, þá spurði sonur okkar, sem þá var þriggja ára, hvort hann mætti ekki bara vera eftir og leika við Ellu meðan við værum að snúast. Ella var þá komin yfir áttrætt og fannst það nú lítið mál, þau gætu nú líkast til leikið sér saman meðan við værum og snúast. Svo settist hún á gólfið með drengnum og lék við hann meðan við vorum að snúast í bænum. Þegar Hörður bróðir minn fór svo í framhaldsskóla á Akureyri atvikaðist það að hann fór með sendingu frá ömmu til Ellu frænku, svo fór hann að aðstoða hana með eitt og annað stöku sinnum og úr varð að milli þeirra myndaðist traust og gott vinasamband. Hún talaði oft um það að hún skildi bara ekkert í því hvernig svona ungur drengur nennti að gefa sér tíma til að snúast með gamla frænku sína, en hann fór gjarnan með hana í bæinn á föstudögum til að kaupa dönsku blöðin, skutla henni í búð eða í bankann og eitt og annað. Þegar Ella varð níræð vorum við fjölskyldan svo heppin að fá að fagna þeim tímamótum með henni og fá að undirbúa veislu henni til heiðurs. Þá var Hörður bróðir minn hennar helsti aðstoðarmaður í að leigja sal og undirbúa partíið, hún tók ekki annað í mál en að hafa hann sér við hlið í veislunni og kynna hann fyrir öllu fólkinu sínu. Í fyrra þegar Hörður útskrifaðist sem stúdent kom hún og fagnaði þeim tímamótum með okkur í sveitinni heima hjá foreldrum okkar og mikið sem hún var stolt af frænda sínum. Hún var alltaf mjög stolt af því þegar fólkið hennar sótti sér menntun og hvatti okkur áfram til náms. Hún var afar ánægð þegar ég sagði henni frá því að ég ætlaði að fara í Háskólann og mennta mig sem grunnskólakennari. Námið mitt tók tíma sinn, allan tímann hvatti hún mig áfram, spurði mig út úr og fylgdist með hvernig mér gengi án þess þó að láta mig finna það að ég þyrfti nú að fara að drífa í því að ljúka þessu námi. Þegar svo að því kom að ég lauk náminu samgladdist hún mér innilega og lét mig vita af því hve stolt hún væri af mér og glöð fyrir mína hönd.


Við fjölskyldan þökkum fyrir trausta og góða vináttu Ellu frænku gegnum tíðina og vottum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúð.




Þyrey Hlífarsdóttir og fjölskylda Hörður Hlífarsson