Höfundurinn Skáldsaga Juan Pablos Villalobos er gáskafull og segir sögu fátækrar fjölskyldu í Mexíkó með augum eins barnsins í hópnum.
Höfundurinn Skáldsaga Juan Pablos Villalobos er gáskafull og segir sögu fátækrar fjölskyldu í Mexíkó með augum eins barnsins í hópnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Juan Pablo Villalobos. Jón Hallur Stefánsson þýddi og ritar eftirmála. Angústúra, 2021. Kilja, 182 bls.

Þessi gáskafulla en beitta stutta skáldsaga eftir Juan Pablo Villalobos, Ef við værum á venjulegum stað , er önnur saga hans sem kemur út í hinum afbragðsgóða þýðingaflokki forlagsins Angústúru. Sú fyrsta, Veisla í greninu , kom út fyrir rúmum þremur árum og er sögð af dreng í eiturlyfjagreni sem skýrir hryllilegan heiminn sem hann hrærist í með frumlegum og skapandi hætti. Í þessari bók nú rær höfundurinn á nokkuð svipuð mið og beitir álíka frásagnaraðferð, miðlar söguheiminum gegnum vitund óþroskaðs ungmennis. Slyngur þýðandi bókarinnar, Jón Hallur Stefánsson, útskýrir í eftirmála að bækurnar séu hlutar þríleiks sem Villalobos hafi þegar lokið, með ótengdum en efnislega skyldum frásögnum úr mexíkóskum veruleika. Vonandi ratar þriðja og síðasta sagan líka á íslensku.

Í eftirmálanum bendir Jón Hallur á að frásögn Ef við værum á venjulegum stað falli vel að skilgreiningum á skálkasögum, hinum píkaresku skáldsögum sem hófust með sögunni af Lasarusi frá Tormes sem kom út á sextándu öld og Guðbergur Bergsson íslenskaði listavel á sínum tíma. „Eins og skálkasögurnar er skáldsaga Villalobos fölsk sjálfsævisaga ungmennis af lágum stigum sem streðar við að komast ofar í þjóðfélagsstigann, beitir við það vafasömum meðulum og þjónar mismunandi herrum sem allir eru fávísari en litli þrjóturinn slyngi sem sér í gegnum þá og gangvirki þjóðfélagsins í leiðinni,“ (173) skrifar Jón Hallur í fínni skýringu sinni.

Sögumaðurinn Óreó er næstelstur sjö systkina, barna framhaldskólakennara sem hefur gefið börnunum nöfn úr grískum goðsögum og eyðir kvöldum í rifrildi við fólkið á sjónvarpsskjánum, og móður sem sífellt er að matbúa misrýrar ostafyllur sem barnahjörðin gleypir í sig. Heimili fjölskyldunnar er í ókláruðu húsi sem var byggt á hæð í jaðri bæjar og leit út eins og skókassi með loki, sem var þak úr asbestplötum. Og þrátt fyrir að foreldrarnir reyni að sannfæra sjálfa sig og börnin um að þau tilheyri millistéttinni þá veit Óreó betur, hann sér að þau eru fátæk, og sú sýn styrkist þegar pólskættaður sæðingarmaður og fjölskylda hans byggja glæsihýsi við hlið skókassans og árekstrar á milli heimilanna, og ólíkra menningarheima, hefjast.

Frásögnin er fjörleg og miðlað á gáskafullan hátt af ungæðislegum sögumanninum, sem útskýrir ástand mála fyrir okkur lesendum sem sjáum samt að ekki er allt sem sýnist í þessum grimma heimi pólitískra átaka, fátæktar og allrahanda erfiðleika. Systkini týnast og Óreó og elsti bróðirinn halda út í heim að leita þeirra, hjá geimverum að þeir halda, og þannig kynnist Óreó hinum stærri heimi. Hann lendir líka í steininum og í allskyns öðrum ævintýrum, eins og skálkar gera í sögum. En hag og öryggi fjölskyldunnar er ógnað og smám saman virðast henni öll sund vera að lokast, þegar sögumaðurinn í æði sýrukenndum en bráðskemmtilegum lokakafla tekur á það ráð að kalla á „guðinn í vélinni“ til að bjarga málum, þar sem engin önnur leið virðist út úr ógöngunum.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson