Steinþór Kristjánsson fæddist 18. janúar 1931 í Geirakoti, Sandvíkurhreppi. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Fossheimum á Selfossi 13. apríl 2021.

Foreldrar hans voru Guðmunda Þóra Stefánsdóttir, húsfreyja í Geirakoti, f. 1.1. 1901, d. 5.12. 1995, og Kristján Þórður Sveinsson, bóndi í Geirakoti, f. 5.9. 1891, d. 2.8. 1990.

Systkini Steinþórs eru: Sveinn, f. 17.4. 1925, d. 21.10. 2015, maki Aðalheiður Edilonsdóttir, f. 26.9. 1933; Katrín, f. 14.5. 1926, maki Gudmund Aagestad, f. 7.6. 1928, d. 13.10. 2017; Stefán, f. 27.4. 1927, d. 22.5. 1970, maki Anna Borg, f. 20.10. 1933, d. 11.11. 2018; Sigrún, f. 24.1. 1929, maki Gunnar Marel Kristmundsson, f. 5.11. 1933; Ólafur, f. 26.2. 1949, maki María Ingibjörg Hauksdóttir, f. 16.5. 1953.

Steinþór ólst upp í Geirakoti og byggði síðan hús við Fossheiði 3 á Selfossi og bjó þar allt þar til hann flutti á hjúkrunarheimilið Fossheima á Selfossi árið 2014. Hann vann öll venjuleg sveitastörf og var á vertíð fyrst á Stokkseyri og síðar í Njarðvíkum og Þorlákshöfn. Eftir það eignaðist hann vörubíl og vann sjálfstætt sem vörubílstjóri alla starfsævina. Steinþór hafði einlægan áhuga á tónlist, söng í kórum og sótti tónleika og söngskemmtanir þegar færi gafst.  Starfsfólki Fossheima á Selfossi eru færðar sérstakar þakkir fyrir einstaka umönnun og hlýju í hans garð.

Útför hans fer fram frá Selfosskirkju í dag, 23. apríl 2021, klukkan 13.30. Streymt verður á vef Selfosskirkju.

Streymishlekk má nálgast á: https://www.mbl.is/andlat/


Það má segja að staða mín í systkinahópnum sé nokkuð sérstök. Fimm eldri systkinin fæddust í þéttri röð, elsti bróðirinn Sveinn er fæddur 1925, síðan hin nánast árlega og Steinþór rak lestina 1931. Síðan liðu 18 ár þar til ég örverpið leit dagsins ljós. Þegar Steini bróðir fæddist voru foreldrar okkar nýfluttir ofan úr Gnúpverjahreppi og byrjuð búskap í Geirakoti sem þá var leigujörð. Húsakynni þættu ekki beysin nú á dögum, ekkert rafmagn enginn sími, vatn sótt í brunn og sem dæmi um aðstæður þá er mér sagt að pabbi hafi birgt sig upp með nokkrum birkihríslum úr Þjórsárdal til að hafa með sér niður í Flóa til að nota í uppkveikju undir pottunum fyrstu dagana í Geirakoti. Þegar þau fluttu var bíll fenginn til að flytja búslóðina en ekki var Votmúlavegurinn (vegur 310) breiðari en svo að þegar bíllinn var kominn spölkorn inn á veginn stóð hann fastur með hjólin út fyrir beggja megin.

Þetta var það Ísland sem Steini fæddist inn í og bættist svo heimskreppan mikla ofan á. Reyndar beit kreppan sú ekki svo mikið á eignarlausa bændur þar sem búskapurinn var að mestu sjálfsþurftarbúskapur sem gekk út á að hafa í sig og á af því sem landið gaf. Þegar ég komst á legg var þetta svo gjörbreytt. Komið var nýtt íbúðarhús og myndarlegur bústofn og Steini bróðir fyrir löngu útskrifaður úr barnaskólanum á Selfossi þar sem stunduð var metnaðarfull barnauppfræðsla en vegna fámennis voru nokkrir árgangar saman í bekk. Steina sóttist námið vel en fékk snemma áhuga á vélum og verklegum framkvæmdum. Faðir okkar keypti snemma dráttarvél, amerískan traktor af gerðinni W4 með 24 hestafla bensínvél. Vél þessi kom á járnhjólum alsettum gaddaspyrnum sem hentuðu vel við jarðvinnslu. Pabbi var nítjándualdarmaður og lét sér fátt finnast um tækninýjungar. Var því upplagt að Steini tæki að sér vélvæðinguna og árum saman fór strákurinn milli bæja á W4 með herfi og plóg í eftirdragi og braut land til ræktunar fyrir bændur. Steini fór líka ungur til sjós fyrst á Stokkseyri og síðan hjá frændfólki okkar í Njarðvíkum. Þar bjó móðursystir okkar Guðlaug í Þórukoti en maður hennar var Björn útvegsbóndi sem gerði út bát í samvinnu við granna sinn Magnús í Höskuldarkoti. Samkvæmt frásögnum bróður míns var þetta mikill þroskatími fyrir unglinginn og óx honum kraftur og áræðni sem hann bjó að allar götur síðan. Þarna var hann sveitapilturinn strax dubbaður upp í að vera mótoristi. Og þarna vandist hann á að vera hluti af teymi harðsnúinna karla sem þurftu að taka á öllu til að snúa á náttúruöflin.

Eina sögu sagði bróðir mér frá þessum tíma: þeir höfðu lent í slæmu veðri og eftir mikinn barning var komið í land og veiðarfærunum dröslað upp á bryggju í einni flækju og klömbruðum af frosti. Skipstjóri vildi að skipverjar tækju til við að greiða úr flækjunni þar sem von var á góðu fiskeríi. Þeir voru þá þegar útkeyrðir og kaldir og færðust undan, var það látið kyrrt liggja. Hillir þá undir tvær konur og voru það Lauga móðursystir og kona Magnúsar í Höskuldarkoti. Réðust þær til atlögu við netadræsuna og greiddu úr öllu saman. Fljótlaga upp úr þessu keypti Steini sér sinn fyrsta vörubíl. Hann festi sig í sessi í bransanum og ég unglingurinn fylgdist með aðdáun með þegar hann kom sér upp nýrri og stærri bílum. Hann stóð við bakið á yngsta bróðir sínum og sá til þess að ég tæki bílpróf, tók mig með á menningarviðburði og fékk ég jafnvel að fljóta með þegar Steini efndi til frægra ferðalaga með félögum sínum um fjarlæg héruð. Þessi ferðalög voru sennilega upphafið af rútubílaútgerð Guðmundar Tyrfingssonar en hann ók þeim félögum í vípontrukki sínum sem nú stendur fyrir utan höfuðstöðvar G.Tyrfingssonar á Selfossi og er skreyttur jólaljósum ár hvert. Þegar ég fékk þá hugmynd tvítugur að aldri að byrja búskap í Geirakoti og byggja upp útihús, tók Steini það að sér óbeðinn að gerast byggingarstjóri enda gerði hann sér grein fyrir því að ég væri vart marktækur sökum æsku að redda því sem með þyrfti eða að ég yfirhöfuð hefði verksvit, nýkominn úr skóla. Hann réð smiði og iðnaðarmenn sem hann þekkti og voru úrvalsstarfskraftar og fjós og útihús risu af grunni. Ég minnist þess að þegar búið var að steypa upp fjósveggina og komið undir haust, að Steina fannst hægt ganga að slá utan af, það lægi á að losa timbrið svo hægt væri að klæða þakið með því, taldi hann léttvægt að sinna þyrfti bústörfum dag hvern og eyða í það verkfærunum sínum sem voru sleggja og járnkarl.

Af fítonskrafti ruslaði hann síðan niður mótunum og þegar yfir lauk lágu haugar af naglaspýtum,uppistöðum og borðum í hrærigraut ofan í uppgreftrinum í grunninum. Það tók síðan litla bróður marga daga að vinna sig í gegnum hrúguna og naglhreinsa. Steini sá nánast um alla aðdrætti í Sandvíkurhreppi á þessum árum. Hann keyrði áburð og varning fyrir bændurna og sá til þess að hlöð og heimreiðar væru í skammlausu ástandi. Hann þótti mildur rukkari þegar kom að því að innheimta aksturinn innan sveitar. Með auknum vélarekstri tókst hann á við stærri verkefni, t.d. vann hann ásamt nokkrum félögum að gerð línuvegar yfir hálendið á Kaldadal og niður í Skorradal. Ég veit til þess að verkfræðingar hjá Landsvirkjun fengu mikið álit á þessum sveitamönnum sem með fremur fábrotinn vélakost kláruðu þessa vegagerð hagkvæmt og örugglega. Lengi unnu þeir saman að jarðvegsframkvæmdum, Steini og Sigurður Karlsson (Siggi Kalla), og var þeim vel til vina. Þegar skammdegi og frost tálmaði störf lögðu þeir gjarnan trukkum og gröfum og dvöldu langdvölum á Kanaríeyjum. Steini hafði komist upp á lag með að fara þangað í árdaga ferðamennsku á eyjunum og líkaði vel. Hann var ótrúlega víðförull, hafði komið til Kúbu og Havaí, Balí og í Íslendingabyggðir í Kanada. Þá eru ótalin öll kórferðalögin en kórastarf var líf og yndi bróður míns. Ég komst að því að ávallt var vænlegt til að létta lund Steina þegar þungbær ellin sótti á, að rifja upp ferð hanns til Ísraels með Kirkjukór Keflavíkur. Þetta mun hafa verið á níunda áratugnum þegar Kirkjukór Keflavíkur bauðst að taka þátt í alþjóðlegu kóramóti í landinu helga um jól. Frænka okkar Gróa Hreinsdóttir spilaði undir með kórnum og falaði Steina til ferðarinnar þar sem vantaði bassa í kórinn. Auðvitað varð þetta mikil sigurför eins og ætíð verður þegar Íslendingar spreyta sig á erlendri grund. Það var Steina ógleymanlegt þegar þau sungu Ave Maria eftir Sigvalda Kaldalóns á mótinu og blikaði tár á hverjum hvarmi í salnum. Síðar tók Steini þátt í að flytja Messias eftir Händel í Langholtskirkju. Stjórnandi Langholtskirkjukórsins bauð félögum í kirkjukórum landsins að taka þátt í þessum tónleikum ef þeir treystu sér í það. Nokkrir þáðu boðið og fékk Steini sendar nótur og upptökur með bassalínunum á spólu til undirbúnings. Spilaði hann síðan spólurnar stöðugt í vörubílnum næstu vikur en aðeins var ein æfing með öllum þátttakendum saman fyrir tónleikana sem tókust með ágætum. Fyrir nokkrum árum fórum við Steini saman í Hörpu að hlýða á flutning á Messiasi og fyrir milligöngu Steina sem þekkti hverja einustu nótu í verkinu skynjaði ég hvað þetta er mikið listaverk en því miður vantar mig töluvert á tónlistargreind bróður míns.

Þegar Steini komst á eftirlaunaaldur seldi hann vörubílinn og önnur atvinnutæki og tók þá við tími sem hann nýtti vel til ferðalaga bæði utanlands og innan. Hann átti að baki farsælan feril á þjóðvegum landsins sem má kallast blessun því eknir kílómetrar eru örugglega taldir í miljónum og vegirnir voru framan af holóttir malarslóðar sem buðu upp á forarhvörf á vorin en á sumrin hristist umferðin áfram í rykmekki. Steini var ekki fjölskyldumaður og bjó einn í húsi sínu við Fossheiði á Selfossi. Hann átti stóran frændgarð og minnast systkinabörnin hans sem frændans sem oft gaf veglegar og óvæntar gjafir. Sérstakt samband varð snemma milli Steina og systurdóttur hans Guðmundu. Stelpan var snemma frökk í tilsvörum og framgöngu og þróaðist það með tímanum í að frænka varð sérfræðingur í að eiga samskipti við Steina á léttum og góðum nótum. Árum saman eyddi hann jólakvöldum á heimili Guðmundu. Þegar Steini missti heilsuna fyrir rúmum 10 árum var það Guðmunda sem studdi hann best og veitti honum fylgd gegnum heilbrigðiskerfið sem er umhverfi sem er einhleypum körlum sem sjaldan hafa kennt sér meins frekar framandi. Síðustu árin var Steini á hjúkrunarheimilinu Fossheimum. Þar var hann í góðum og öruggum höndum starfsliðsins sem af fagmennsku gengur til þeirra vandasömu verka að gera vistmönnum dvölina sem besta. Þegar ég leit inn til Steina á Fossheima undanfarin ár dáðist ég ævinlega að því hvað þessar starfsstúlkur komu fram við bróður minn af mikilli ástúð,natni og léttleika. Hafið innilegar þakkir fyrir.

Ólafur Kristjánsson