Björg Lára Jónsdóttir fæddist á Lækjarbakka í Ólafsvík 13. mars 1935. Hún lést 29. apríl 2021 á Dvalarheimilinu Jaðri. Foreldrar hennar voru hjónin Ingveldur Lárensína Guðný Helgadóttir, f. 3.7. 1894 í Ólafsvík, d. 13.6. 1958, og Jón Thorberg Jóhannesson, f. 30.11. 1885 á Ytrafelli í Dalasýslu, d. 30.8. 1936. Systkini Bjargar Láru voru Helga Rósa Ingvarsdóttir, f. 2.6. 1915, d. 3.2. 1996, Jóhannes, f. 31.12. 1918, d. 9.8. 1936, og Hallveig Kristólína ljósmóðir, f. 9.10. 1921, d. 12.10. 1977.

Björg Lára giftist hinn 28. september 1958 Kristjáni Helgasyni, f. 15.9. 1934. Foreldrar hans voru hjónin Helgi Thorberg Kristjánsson vélstjóri, f. 20.9. 1904, d. 9.9. 1976, frá Ytra-Skógarnesi og Petrína Kristín Jónsdóttir, f. 13.8. 1909, d. 22.3. 2002, ólst upp á Hellnum. Afkomendur Bjargar Láru og Kristjáns eru: 1) Helgi, f. 1958 kvæntur Oddnýju Björgu Halldórsdóttur, f. 1956, dóttir þeirra Helga Björg, f. 2000. Fyrir átti Oddný Björg Birgittu, f. 1978, eiginmaður hennar er Högni Baldvin Jónsson, synir þeirra Jón Oddur, Baldvin Þór og Vilberg Kári. 2) Jóhannes, f. 1959, börn hans a) Andri, f. 1983, barnsmóðir Sigríður Helgadóttir, b) Olga Kristín, f. 1983, barnsmóðir Lilja Jónína Héðinsdóttir, hennar börn eru Aþena Lilja og Baltasar Sölvi, c) Marteinn, f. 1996, barnsmóðir Ruth Snædahl Gylfadóttir, fyrrv. eiginkona. 3) Lára, f. 1961, gift Þorsteini Ólafs, f. 1957, börn þeirra a) Þór Steinar, f. 1985, sambýliskona Elva Hrönn Eiríksdóttir, sonur hennar Róbert Logi, b) Björg Magnea, f. 1988, sambýlismaður Liam McIllhatton, c) Kristján Már, f. 1993, sambýliskona Ástrós Óskarsdóttir. Fyrir átti Þorsteinn dótturina Elínu Birgittu, f. 1980, d. 1996. 4) Olga, f. 1963, gift Torfa Sigurðssyni, f. 1963, dætur þeirra a) Hugrún, f. 1983, sambýlismaður Guðmundur Róbert Guðmundsson, b) Tinna, f. 1988, eiginmaður Sveinn Ingi Ragnarsson, synir þeirra Torfi Snær, Hrannar Ingi, Bergur Breki og Kristján Kári, c) Telma Aníka, f. 1989, sambýlismaður Sindri Snær Harðarson, d) Sandra Ýr, f. 1999, sambýlismaður Sindri Frostason.

Björg Lára lauk landsprófi frá gagnfræðaskóla Austurbæjar. 18 ára gömul  var hún síðasti farkennari Fróðárhrepps. Hún fór í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Síðan heimavinnandi og sinnti uppeldi barna sinna. Kennari við Barna- og unglingaskólann í Ólafsvík í mörg ár, síðast sem stuðningskennari. Starfaði einnig í versluninni Hvammi og í versluninni Þóru í Ólafsvík.

Björg Lára var virk í starfi Kvenfélags Ólafsvíkur, Lionsklúbbsins Ránar og í slysavarnadeildinni Sumargjöf, auk þess sem hún var dyggur stuðningsmaður Víkings Ólafsvík og sótti leiki liðsins víða um land. Þau hjónin ferðuðust víða um landið og um heiminn bæði á landi og á legi.

Útför Bjargar Láru verður gerð frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 15. maí 2021, klukkan 14. Streymt verður frá útförinni. Hlekkurinn er

https://youtu.be/YK9OOy6ub_8

Streymishlekk má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Yfir mömmu ríkti friður og ró þegar hún kvaddi. Hún hafði lifað lífinu æðrulaus og fallega bæði í orði og í verki.

Móðir mín var á öðru ári árið 1936 þegar faðir hennar lést aðeins þremur vikum eftir að Jóhannes bróðir hennar fórst með línubátnum Erninum GK 5, aðeins átján ára gamall. Jóhannes hafði ráðið sig á vertíð og hugðist vera fyrirvinnan á heimilinu þar sem faðir þeirra var orðinn heilsulaus. Foreldrar þeirra þau Lára og Beggi voru stödd í Gröf í Breiðuvík ásamt móður minni, þar sem amma Lára vann sem kaupakona í heyskap, þegar sagt var frá því í hádegisfréttum í útvarpinu að Örninn GK hefði farist með allri áhöfn. Sonur hjónanna í Gröf var einnig háseti um borð í Erninum þegar hann fórst. Amma Lára taldi best að fara strax til Ólafsvíkur meðan doðinn væri mestur og fékk lánaða hesta og var maður fenginn til að fylgja henni með afa og mömmu bundna við sig yfir Egilsskarðið sem þótti erfitt yfirferðar.

Eftir lát Begga afa ákvað Lára amma, að einsetja sér að lifa fyrir litlu dóttur sína, hana Björgu Láru, sem bar nafn foreldra sinna og að hjálpa öðrum sem áttu um sárt að binda.

Engir styrkir eða bætur voru í boði á þessum tíma og atvinnuástand erfitt sökum kreppunnar sem þá ríkti.

Lára amma átti góða að. Rósa móðir hennar, langamma mín, sem bjó með Guðmundi syni sínum og Fanneyju hálfsystur ömmu, tók mömmu að sér árið 1939 þegar Hraðfrystihús Ólafsvíkur var stofnað og amma hóf vinnu þar. Mamma var hjá þeim frá sunnudagskvöldi fram á föstudagskvöld en hjá móður sinni um helgar þar sem vinnutíminn var langur.

Mamma minntist þessa tíma með bliki í augum og væntumþykju. Minnisstæður var henni þó sá dagur er hún flutti til baka að Lækjarbakka, þá fimm eða sex ára gömul, með brúðuna sína í fanginu ásamt litlum kistli með eigum sínum í.

Þá hafði sú breyting orðið á að Helga systir mömmu var þá trúlofuð Oliver Kristjánssyni (afabróður mínum í föðurætt) og ákveðið hafði verið að þau myndu hefja búskap á Lækjarbakka hjá ömmu og mamma kæmi til þeirra.

Mamma minntist þess hve hún hafi verið feimin við Olla í fyrstu því henni þótti hann svo fallegur. Þetta fyrirkomulag var gæfuspor fyrir móður mína, þarna eignaðist hún góða fjölskyldu. Helga og Olli reyndust henni alla tíð sem bestu foreldrar og börnin þeirra sem hennar bestu systkini.

Mamma var afburðanámsmaður og þráði að læra meira eftir hefðbundna skólagöngu í Ólafsvík. Rósa amma hennar sótti það stíft að mamma gæti fengið að mennta sig meira. Hún hafði kennt henni að lesa og hafði sjálf þráð að læra meira þegar hún var ung en hún lærði af sjálfri sér að lesa í fjósinu.

Þorgils Stefánsson kennari tók þá mömmu og tvo drengi í aukatíma í ensku og íslensku sem hjálpaði mikið. Þegar mamma var 16 ára kom Rósa langamma að tali við hana, þá áttatíu og þriggja ára. Hún hafði þá farið suður til Reykjavíkur, sem þá tók sex til átta klukkutíma að keyra. Rósa hafði farið með einkunnaspjald mömmu úr barnaskólanum, bankað upp á hjá skólastjóranum í Austurbæjarskóla og útvegað mömmu skólavist. Síðan kom hún mömmu fyrir hjá Kristjönu dóttur sinni og Sigurði manni hennar sem bjuggu ásamt börnum sínum sjö á Freyjugötu 10a í Reykjavík.

Mamma var hjá þeim í tvo vetur og lauk landsprófi frá Austurbæjarskóla. Mikill kærleikur myndaðist milli mömmu og Freyjugötufjölskyldunnar sem varir enn milli afkomenda þeirra. Á þessum árum lá Lára amma mikið veik á Landspítalanum og sat mamma hjá henni eftir skóla. Mamma minntist þess einnig að á þessum árum hafi hún rekist á vin sinn Kristján í Bankastrætinu sem hafði fermst með henni en seinna áttu þau eftir að verða hjón.

Eftir að heim var komið til Ólafsvíkur, þá 18 ára gömul, var mamma fengin til að vera farkennari í Fróðárhreppi og var hún síðasti farkennarinn sem starfaði þar.

Veturinn 1955-1956 fór mamma í Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Þar eignaðist hún margar góðar vinkonur sem héldu sambandi með bréfaskrifum og jólakortum fram á síðustu ár.

Þegar börnin stálpuðust var mamma beðin að koma og kenna við Barna- og unglingaskólann í Ólafsvík sem hún gerði í fjöldamörg ár. Þar eignaðist hún marga vini, bæði samstarfsfólk og nemendur, sem fram á síðasta dag voru henni bestu vinir.

Ég varð vitni að því þegar nemandi sem átti erfitt með nám sitt bankaði upp á hjá mömmu eftir að hún hætti kennslu til að sýna henni einkunnaspjaldið sitt. Hjá henni fékk hann hrós og hvatningu. Hún sagði honum að hún vissi að hann ætti eftir að ná tökum á náminu, hann væri bæði duglegur og vel gerður.

Mamma var alltaf svo jákvæð og sá gott í hverri manneskju.

Þegar kennari með réttindi kom til Ólafsvíkur hætti hún að kenna og hóf störf í versluninni Hvammi og síðar í versluninni Þóru hjá þeim heiðurshjónum Siggu Tótu og Begga. Beggi og mamma voru bræðrabörn og var sérstakt samband á milli þeirra. Þar endaði hún sinn starfsferil.

Mamma og pabbi ferðuðust mikið bæði hér á landi og í útlöndum. Fór hún meðal annars þrisvar sinnum með pabba í siglingar um heimsins höf þegar hann var á Hvalvíkinni og upplifði meðal annars að festast í hafís. Þá fóru þau til Kanada á heimsþing Lions, sigldu niður Rín og Mósel auk fleiri ferða bæði skipulagðar og á eigin vegum.

Minnisstæð er einnig jóla- og áramótaferð fjölskyldunnar minnar með mömmu og pabba í Dóminíska lýðveldið. Ferð sem aldrei gleymist.

Félags- og líknarstörf voru alla tíð stór hluti af lífi mömmu. Henni var í blóð borið að aðstoða, styrkja og betrumbæta samfélagið sem hún var hluti af. Hún starfaði með Kvenfélagi Ólafsvíkur, Lionsklúbbnum Rán og slysavarnadeildinni Sumargjöf. Þá var hún dyggur stuðningsmaður Víkings Ólafsvík sem heiðraði minningu hennar á dögunum með því að leikmenn liðsins léku með sorgarbönd í bikarleik við Þrótt í Laugardalnum. Það var falleg stund.

Barnabörnin og barnabarnabörnin áttu hug hennar allan. Hún fylgdist náið með þeim í námi, leik og starfi fram á síðasta dag. Hún sá alla tíð eitthvað jákvætt og gott við hverja manneskju. Hjartað í henni hafði alltaf pláss fyrir fleiri og fleiri. Hún lýsti svo sannarlega upp umhverfi sitt með brosinu sínu, hlátri, jákvæðni og réttsýni.

Mamma og pabbi voru alla tíð búsett í Ólafsvík, í bænum þeirra og hjá fólkinu sem þau unnu svo heitt og vildu hvergi annars staðar vera.

Síðastliðið ár bjuggu þau á Dvalarheimilinu Jaðri. Þar var gott að vera og fékk mamma þar umönnun af alúð og ást til hinsta dags. Hún kvaddi lífsreynd og þakklát.

Ég kveð þið elsku mamma með þínum orðum: mikið hefur lífið verið gott með þér.

Þín

Lára.