Hugrún Högnadóttir fæddist á Patreksfirði 22. ágúst 1966. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 4. maí 2021.
Foreldrar Hugrúnar voru Högni Halldórsson, f. 12. maí 1931, d. 14. desember 1997, og Rósamunda Hjartardóttir, f. 18. desember 1927, d. 25. janúar 2014.
Hugrún ólst upp á Patreksfirði og var yngst í hópi fimm systkina. Þau eru Gunnar Hjörtur Björgvinsson, f. 3. apríl 1950, d. 28. október 2003, Elfar Högnason, f. 17. ágúst 1958, Helena Högnadóttir, f. 4. nóvember 1959, og Vignir Högnason, f. 13. febrúar 1964, d. 13. október 1996.
Hugrún kynntist Víkingi Andrew Erlendssyni á haustmánuðum 1984 og bjuggu þau saman alla tíð síðan. Þau giftu sig 5. júlí 1997. Foreldrar Víkings eru Erlendur Sæmundsson, f. 11. maí 1931. d. 30. mars 1997, og Marjorie Sæmundsson, f. 7. september 1935, d. 21. ágúst 1988. Synir Hugrúnar og Víkings eru Viðar Örn, f. 29. september 1988, sambýliskona Bethan Paquin, f. 15. apríl 1991, og Brynjar, f. 18. september 1991.
Hugrún stundaði nám við Framhaldsskólann á Laugum og útskrifaðist sem matfræðingur frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hún starfaði fyrst í mötuneyti Landspítalans en á árunum 1992-1998 bjuggu þau Víkingur á Eiðum í Fljótsdalshéraði þar sem Hugrún starfaði við Alþýðuskólann. Árið 1998 flutti fjölskyldan til Hafnarfjarðar þar sem Hugrún bjó til æviloka. Hugrún starfaði alla tíð eftir það hjá Hertz bílaleigu á ýmsum stöðum.
Útför Hugrúnar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 18. maí 2021, og hefst athöfnin klukkan 13. Athöfninni verður einnig streymt á:
Streymishlekk má finna á:
Hugrún, eða Hugga eins og ég kallaði hana alltaf, hefur verið vinkona mín frá því ég man eftir mér. Við ólumst upp saman á Patreksfirði og bjuggum í sömu götu, ég á Brunnum 7 og hún á Brunnum 13. Það voru einungis tvö hús á milli okkar svo það var ekki langt að hlaupa á milli. Við brölluðum mikið saman. Ætli við höfum ekki verið um 5 eða 6 ára þegar við fengum bílana hans Vigga lánaða og lékum okkur í bílaleik í kantinum heima hjá henni. Aðalfjörið var þegar við fengum einhvers staðar steypu sem við bjuggum til vegi úr. Við gátum dundað okkur við þetta dögum saman. Það var alltaf gott að koma heim til Huggu, sérstaklega þegar Rósa mamma hennar var nýbúin að steikja kleinur og ástarpunga. Við vorum saman alla okkar barnæsku. Hún kom alltaf við hjá mér og við gengum saman í skólann. Svo kom að því að hún fór í framhaldsskóla út á landi og ég fór til Reykjavíkur en alltaf héldum við sambandi. Svo flutti Hugga til Reykjavíkur og við stofnuðum okkar fjölskyldur.
Einn daginn ákváðu þau hjónin að fara á Eiða að skoða aðstæður þar því Huggu var boðin vinna þar og þótti mér það svolítið erfitt að hún ætlaði að flytja úr bænum. Ég passaði drengina hennar og Víkings mannsins hennar á meðan þau skruppu austur að skoða aðstæður. Þau tóku svo ákvörðun um að flytja austur. Þar sá hún um að elda ofan í skólakrakkana og var kokkur á hótelinu á sumrin. Eitt sumarið ákvað ég að keyra með börnin mín austur til þeirra á meðan maðurinn minn var í Smugunni. Ég var hjá þeim í nokkurn tíma og var það æðislegur tími. Meðan Hugga var í vinnunni fórum við Víkingur með börnin, sem voru öll á svipuðum aldri, í dagsferðir og oft var horft á okkur og eflaust hugsuðu margir, það er stutt á milli hjá þeim.
Eftir dvölina á Eiðum fluttu Hugga og Víkingur í Hafnarfjörðinn. Við vorum með ákveðnar hefðir, t.d. hittumst við á hverju einasta þriðjudagskvöldi, borðuðum alltaf saman skötu á Þorláksmessu og ég borðaði alltaf hjá henni saltkjöt og baunir á sprengidaginn. Hún var mikill snyrtipinni og mjög skipulögð, t.d. ef hún sýndi manni inn í fataskápinn hjá sér þá var eins og maður væri að kíkja inn í tískuverslun, allt brotið saman í röð og reglu eftir litum.
Við erum átta stelpur frá Patreksfirði sem hittumst tvisvar á ári og höfum gert það í rúm 20 ár. Heitir þessi hópur Patrópúkarnir. Eitt árið fór hópurinn til Barcelona og leigði íbúð sem leit mjög vel út á myndum í tölvunni. Þegar við komum inn í hana var hún ekki eins flott og myndirnar gáfu til kynna en vandist og skánaði eilítið með tímanum. Ég og Hugga vorum saman í rúmi sem var ekki alveg nýtt og trúlega hefur einhver í þyngri kantinum legið þar tímunum saman því rúmið var eins og V í laginu og rúlluðum við því báðar í miðjuna og lágum þétt saman allar næturnar. Þetta voru yndislegir tímar. Ég gæti skrifað endalaust um það sem við höfum brallað saman í lífinu.
Það var alltaf sterk taug á milli okkar. Eitt sinn hringdi hún í mig og hafði hún þá verið á ættarmóti og þurfti að segja mér eitthvað. Ég varð fyrri til og sagði: Ég veit hvað þú ætlar að segja, þú ert búin að gifta þig. Hún var mjög hissa því það var raunin og hafði mig dreymt það nokkrum dögum áður.
Það er alveg ómetanlegt að hafa átt vinkonu eins og þig. Elsku vinkona, ég sakna þín mikið, ég mun lifa lengi á því þegar þú hringdir tvisvar sinnum í mig daginn áður en þú kvaddir og varst svo hress.
Elsku Víkingur, Viðar og Brynjar. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð og hugur minn er hjá ykkur. Megi Guð vera með ykkur þessa dimmu daga.
Þín æskuvinkona,
Björk (Bökka).