Matthías Eydal fæddist á Akureyri 24. maí 1952. Hann lést á heimili sínu 5. maí 2021.
Foreldrar hans voru Brynjar V. Eydal, f. 22.10. 1912, d. 9.10. 1995, og Brynhildur Eydal, f. 7.10. 1919, d. 27.9. 2010. Systur Matthíasar eru Anna Inger Eydal, f. 1942, Guðfinna Eydal, f. 1946, og Margrét Hlíf Eydal, f. 1958. Samfeðra systir er Helen Bára Brynjarsdóttir, f. 1938.
Eftirlifandi eiginkona Matthíasar er Bergþóra Vilhjálmsdóttir leikskólakennari, f. 10.2. 1953. Dætur þeirra: 1) Rakel Salóme Eydal fasteignasali, f. 8.1. 1976, eiginmaður Einar Helgi Kjartansson, f. 22.12. 1952, dóttir þeirra er Sara Fönn Einarsdóttir, f. 4.8. 1995. 2) Marta Eydal talmeinafræðingur, f. 13.7. 1985, eiginmaður Guðmundur Jónsson, f. 6.7. 1986. Synir Mörtu og fyrrverandi sambýlismanns, Hafþórs S. Sigurðssonar, f. 20.6. 1987, eru Hrafn Andri H. Eydal, f. 4.10. 2007, og Hinrik Steinn H. Eydal, f. 26.9. 2009. Sonur Mörtu og Guðmundar er Matthías Halldór G. Eydal, f. 21.8. 2019.
Matthías ólst upp á Akureyri. Eftir að hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1972 fluttist hann til Reykjavíkur. Matthías lauk B.sc.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1977 og diplómagráðu frá sama skóla árið 1983. Alla sína starfsævi, eða frá árinu 1977, vann hann við sníkjudýrarannsóknir á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum.
Útför Matthíasar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 19. maí 2021, klukkan 11.
Vinskapur okkar Matta hófst í Gagnfræðaskóla Akureyrar þegar ég var nýlega fluttur til bæjarins, feiminn og hlédrægur sveitastrákur sem þekkti fáa í skólanum. Matti lét óframfærni mína ekkert flækjast fyrir, heldur kom strax kumpánlega fram við mig eins og við hefðum alltaf þekkst, alúðlegur, hlýr og kíminn eins og honum var eðlislægt. Áður en varði vorum við orðnir perluvinir, sem var mér dýrmætara en ég gerði mér grein fyrir þá.
Við Matti vorum ólíkir unglingar á margan hátt og áhugamálin ekkert endilega þau sömu. Til dæmis tætti Matti töffaralegur um bæinn á Honda skellinöðru, á meðan ég skrölti um á gömlu reiðhjóli af gerðinni Möve. En eitt var þó það hugðarefni sem fljótt kom í ljós að við áttum sameiginlegt og það var brennandi áhugi á tónlist. Báðir vorum við hugfangnir af þeirri popp- og rokktónlist sem var allsráðandi á unglingsárunum. Við deildum svipuðum smekk og hrifumst með þeim sérstöku straumum og stefnum sem voru í gangi, bæði hér heima og ekki síður úti í heimi. Hippamenningin sem var að ryðja sér til rúms og uppreisnarandinn sem m.a. tengdist Víetnamstríðinu, lét fáa unglinga ósnortna á þessum árum. Og umrótið endurspeglaðist í tónlistinni og átti sér jafnvel rætur þar.
Iðulega hittumst við Matti heima hjá hvor öðrum og sökktum okkur í að hlusta á plötur og kryfja músíkina til mergjar. Einhver hljómtæki voru til á heimilunum og hýran sem við náðum að nurla saman í sumarvinnu fór gjarnan í að kaupa LP-plötur, ekki síst eftir að við vorum byrjaðir í menntaskólanum. Ég minnist óteljandi kvöldstunda þar sem við lokuðum að okkur, oft með fleiri félögum og vinum, og hlýddum af áfergju á sömu plöturnar aftur og aftur, bergnumdir af þeirri snilld sem við skynjuðum í því sem fyrir eyru bar. Foreldrum okkar hefur örugglega stundum blöskrað hávaðinn og einskærar kenjarnar, en þau létu gott heita.
Enda var óneitanlega full ástæða til að leggja við eyru, því það var svo ótrúlega margt spennandi að gerast í rokktónlistinni og svo mikil gerjun og framþróun, fannst okkur strákunum að minnsta kosti. Á eftir brautryðjendunum miklu, Bítlunum og Stones, tóku smám saman við hljómsveitir á borð við Cream, Deep Purple, Jethro Tull, King Crimson, Genesis, Gentle Giant, Yes og Van Der Graaf, sem hver um sig hafði djúpstæð áhrif á okkur vinina og víkkaði sjóndeildarhring okkar, ef svo má segja. Því framúrstefnurokkið eða prog-rokkið hafði marga snertifleti og leiddi á sinn hátt af sér af sér áhuga á öðrum tegundum tónlistar, svo sem klassískri tónlist og djassi. Það átti a.m.k. við um okkur Matta.
Eftir landspróf í GA fórum við Matti í Menntaskólann á Akureyri, byrjuðum þar haustið 1968. Við fetuðum reyndar ólíkar brautir, hann í náttúrufræðideild en ég í máladeild, en við umgengumst mikið og stunduðum gjarnan félags- og skemmtanalífið saman og með sameiginlegum félögum. Matti tók bílprófið um leið og hann hafði aldur til og þá var ekki að sökum að spyrja: bíll föður hans var tekinn traustataki til að rúnta heilu kvöldin með okkur félagana um stræti Akureyrar, nú eða spóla smá á malarvegunum í nágrenninu. Bílprófið (og greiðasemi foreldranna) veitti okkur kærkomið frelsi til að fara í útilegur á sumrin, þ.e.a.s. að stinga tjaldi og viðlegubúnaði í skottið á öðrum hvorum heimilisbílnum, til að geta þrælast á holóttum vegum á útihátíðir eða sveitaböll í félagsheimilum vítt og breitt um Norðurland, eða jafnvel í öðrum landshlutum. Aðdráttarafl þessara skemmtana var samt ekki bara að geta fengið sér bland í glas eða von um hugsanlegt samneyti við hitt kynið, heldur oftar en ekki spennandi hljómsveitir sem okkur fýsti að sjá og heyra; grúppur eins og Náttúra, Trúbrot, Tilvera og Icecross, svo einhverjar séu nefndar. Útstáelsið var því öðrum þræði menningarlegt mjög, þótt eitthvað væri kannski líka sukkað. Matti var frábær félagi í þessum útrásarferðum okkar menntskælinganna, skrafhreifinn, spaugsamur og bæði fróður og forvitinn um menn og málefni.
Eftir að við Matti hleyptum heimdraganum að loknu stúdentsprófi og hófum nám í Háskóla Íslands, þá leigðum við um tíma sitt hvort herbergið saman í höfuðboginni. Okkur kom enda mjög vel saman og höfðum ómetanlegan stuðning hvor af öðrum í borg óttans, þar sem allt var með öðrum og framandlegri blæ en í heimabænum norðan heiða. Að sjálfsögðu var áfram spáð og spekúlerað í helstu hræringum á tónlistarsviðinu og ótal frístundum varið við grams í plötubúðum borgarinnar. Í Reykjavík var auðvitað úr mun meiru að moða en fyrir norðan, bæði hvað varðaði skemmtistaði og tónleikahald, og það nýttum við okkur eins og fjárhagurinn leyfði. Við fórum að gefa djasstónlistinni meiri gaum en á unglingsárunum og eftir því sem árin liðu tókum við að fylgjast meira með þungavigtarfólki í djassheiminum en með hetjunum okkar í rokkinu, þótt þær væru okkur auðvitað áfram kærar. Með djassinum opnuðust okkur nefnilega nýjar víddir og ótal möguleikar til að njóta frjórrar sveiflu og skapandi spuna. Matti heillaðist ekki síst af góðum píanóleik, enda hafði hann lært á hljóðfærið í æsku og bar gott skynbragð á eðli þess og eiginleika. Þeir Ingimar Eydal og Oscar Peterson náðu auðvitað eyrum hans á mótunarárunum fyrir norðan, en eftir að Matti uppgötvaði Keith Jarrett féllu flestir aðrir djasspíanistar í skuggann.
Samverustundum okkar Matta fækkaði eðlilega eftir að við festum ráð okkar og stofnuðum heimili. Við héldum samt alltaf góðu sambandi og vináttan dvínaði ekkert þótt árum saman væri úthaf á milli okkar. Traust vinabönd rofna ekki svo glatt. Við skrifuðumst á, leyfðum okkur einstaka millilandasímtal og fundum tækifæri til að hittast og bregða okkur jafnvel saman á tónleika. Í gegnum tíðina hér heima á Fróni gerðum við okkur far um að sækja djasstónleika saman, ef við áttum þess kost, og það var óskrifuð regla að reyna að hóa vinahópnum saman þegar áhugaverða viðburði rak á fjörurnar, hvort sem innlendir eða erlendir tónlistarmenn áttu í hlut. Matti átti iðulega frumkvæðið að því að hnippa í okkur vini sína og fylgdist vel með þróuninni og því sem var í gangi á hverjum tíma. Hann naut þess út í ystu æsar að hlusta á góðan djass og hvers konar góða tónlist í lifandi flutningi og lét sig sjaldnast vanta á spennandi tónleika, ef hann átti heimangengt á annað borð.
Sérlega minnisstæð er ferð sem við Matti fórum ásamt Erlingi og Guðjóni vinum okkar til Kaupmannahafnar vorið 2000, til að verða vitni að tvennum tónleikum hinnar fornfrægu hljómsveitar King Crimson, sem þá var á konsertferðalagi um Evrópu. Við leigðum okkur saman litla íbúð í nokkrar nætur og skemmtum okkur allir konunglega í þessari líflegu og sögufrægu höfuðborg Danaveldis. Hljómsveitin spilaði tvö kvöld í röð fyrir troðfullu húsi í Amager Bio og reyndist vera í fantaformi. Fyrir okkur nördana kom ekkert annað til greina en að kaupa miða á tónleikana bæði kvöldin, fyrst við vorum að leggja land undir fót á annað borð. Og við urðum hreint ekki fyrir vonbrigðum. Að upplifa svona einstakt ævintýri með bestu vinum sínum er dýrmæt reynsla sem seint gleymist.
Vinahópurinn sem við Matti vorum svo heppnir að tilheyra lét sér þó ekki nægja að sækja áhugaverða tónleika saman, heldur mynduðum við ósjálfrátt eins konar klúbb, Eyrnamerg eða Merginn, sem oftsinnis í gegnum árin hefur efnt til sérstakra samfunda til að hlusta saman og pæla í tónlist. Alls konar tónlist, úr öllum áttum og án landamæra, sem hreyfir við mönnum á einhvern hátt og sá sem í hlut á vill deila með hinum í hópnum. Þá er hækkað í hljómtækjunum eins og aðstæður leyfa og menn leggja eyrun við, greina stíl og blæbrigði, einbeita sér, segja sína skoðun, njóta eða gagnrýna. Mikið er líka skrafað, gantast og hlegið, enda félagsskapurinn og vináttan það sem mest er um vert. Matti hafði mikla unun af þessum samkomum, ekki síður en við hinir. Alveg eins og af hlustunarkvöldum unglingsáranna í Þingvalla- og Þórunnarstræti, þar sem fræjunum var sáð. Hann var smellinn, sagði skemmtilegar sögur og hafði einstaklega smitandi hlátur. Ósjaldan lágum við Mergverjar í þvílíku hláturskasti að endaði með allsherjar hiksta! Það er erfitt og óraunverulegt að hugsa sér þessa vinafundi án Matta.
Covid-plágan setti allt úr skorðum, líka vinasamkomur og allt hefðbundið tónleikahald. Og til að bæta gráu ofan á svart helltust alvarleg veikindi yfir Matta. Hann mátti helst engan hitta og var nauðugur sá kostur að einangra sig. Við heyrðumst einstaka sinnum í síma þegar svona var komið og áttum samskipti við og við í gegnum samfélagsmiðla. Við vinir hans höfðum verulegar áhyggjur af heilsubrestinum, en óraði ekki fyrir að Matti myndi kveðja svona skyndilega. Það var okkur öllum mikið reiðarslag. En ljúfar minningar um kæran vin lina sársaukann. Matti var næmur fyrir tilefnum til skemmtilegra upplifana, sem urðu uppsprettan að góðum minningum. Gott dæmi um það var ævintýraleg reisa til skosku eyjarinnar Islay í lok maí 2018. Þar áttum við saman marga dýrðardaga, þrír vinir og viskíáhugamenn, Matti, Gaui og ég, ásamt góðum félögum í Maltviskífélaginu, sem skipulagði ferðina. Tilgangurinn var að sækja mikla tónlistar- og maltviskíhátíð sem haldin er á eyjunni árlega (þegar aðstæður leyfa). Hópurinn heimsótti hin ýmsu, víðfrægu eimingarhús á eyjunni, sem hvert um sig hefur einn dag á hátíðinni til umráða. Við fræddumst um framleiðsluferlið, þefuðum af smökkuðum á hinum ýmsu afbrigðum af drykknum eftirsótta, nutum fjölbreyttrar þjóðlagatónlistar og einstakrar gestrisni eyjarskeggja, brögðuðum forvitnilegan mat og upplifðum alls konar ævintýri með fjörugu og skemmtilegu fólki. Ekki spillti einstakt góðviðri allan tímann, sólskin og hlýindi. Matti var í essinu sínu og naut hverrar stundar, ljúfur og traustur ferðafélagi eins og endranær. Við hinir eigum honum minningarnar um einstaka reynslu og samveru að þakka, því hann var hvatamaðurinn á bak við þátttöku okkar, staðráðinn í því að láta þessa ferð ekki fram hjá sér fara og fá okkur vinina til að koma með sér.
Matta verður sárt saknað í vinahópnum og af öllum sem kynntust honum á lífsleiðinni. Mestur er þó missir Bergþóru konu hans, dætra þeirra, barnabarna og annarra aðstandenda og skyldmenna. Ég votta þeim öllum mína dýpstu samúð.
Hvíl í friði, kæri vinur.
Sveinn Klausen.