Konráð Jóhannsson fæddist í Reykjavík 12. mars 1958. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 9. maí 2021.
Foreldrar Konna voru Svala Konráðsdóttir, f. 19.3. 1933, d.11.10. 2011, og Jóhann Jakobsson, f. 12.6. 1931, d. 14.4. 2000. Systkini Konna eru Reynir Jóhannsson, f. 25.5. 1953, maki er Valgerður Björk Ólafsdóttir, f. 12.7. 1955, Margrét Jóhannsdóttir, f. 4.6. 1954, maki er Kristján Guðmundsson, f. 6.8. 1953, og Víðir Jóhannsson, f. 31.7. 1956, maki er Asia Grudzinska, f. 30.10. 1975.
Sonur hans af fyrra sambandi með Unni Rut Rósinkransdóttur, f. 4.8. 1961, er Rósinkrans Már Konráðsson, f. 27.12. 1979, maki hans er Hrefna Henny Víkingur, f. 17.4. 1985. Sonur Rósa af fyrra sambandi er Guðmundur Ívan, f. 14.6. 2004, og börn Rósa og Hrefnu eru Alexander Elí, f. 20.9. 2012, og Atlas Breki, f. 14.5. 2019.
Eftirlifandi maki Konna er Anna María Þórarinsdóttir, f. 31.12. 1955. Foreldrar hennar voru Soffía Magnúsdóttir, f. 2.10. 1920, d. 25.5. 1988, og Þórarinn Gíslason, f. 16.7. 1921. Systir hennar er Áslaug Ingibjörg Þórarinsdóttir, f. 9.2. 1951.
Dóttir Konna og Önnu Maríu er Svala Konráðsdóttir, f. 1.1. 1987, maki hennar er Viðar Örn Línberg Steinþórsson, f. 15.9. 1982. Börn þeirra eru Axel Máni, f. 9.3. 2016, og María Sóley, f. 6.5. 2019.
Konni og Anna María bjuggu fyrst í Safamýri. Árið 1990 fluttu þau í Reykjabyggð í Mosfellsbæ þar sem Konni bjó þar til hann lést.
Konni byrjaði ungur að vinna hjá afa sínum við bólstrun og vann síðan hin ýmsu störf, m.a. í Laugarásbíói, á fraktskipi, hjá bróður sínum Reyni, í Smyrli, og hjá tengdaföður sínum Þórarni, í Vökvaleiðslum og tengjum ehf. Hann starfaði lengst af hjá hinum bróður sínum, Víði, hjá Múr- og málningarþjónustunni Höfn ehf. og allt þar til hann lenti í vinnuslysi 2010 og varð að hætta störfum.
Útför Konna fer fram í Lágafellskirkju 21. maí 2021 kl. 13.
Við Konni höfum verið vinir frá blautu barnsbeini og fram á hinsta dag og aldrei man ég eftir að skugga bæri á þá vináttu. Við vorum reyndar sex vinirnir, Konni, Addi, Ómar, Smári, Unnar og ég sem héldum saman út í lífið frá fimm til sex ára aldri vissir um að við yrðum vinir að eilífu. Við bundumst meira að segja fóstbræðraböndum með blóðgun og öllum pakkanum að hætti hetja fornsagnanna. Ég er ekki frá því að þetta hafi virkað vel því þessi góða vinátta hefur haldist æ síðan.
Auðvitað eins og gengur skilur leiðir að einhverju leyti þegar menn stofna eigin fjölskyldur en vinskapurinn hélst þrátt fyrir það og við hittumst alltaf reglulega allir.
Það varð snemma ljóst að Konni var mikill hagleiksmaður, feikilega flinkur í höndunum og var nánast nákvæmlega sama hvað það var, það lék allt í höndunum á Konna. Ég man þegar við vorum börn og vorum að byggja kofa og kassabíla að þá var rosalega gott að vera með Konna í liði því þá átti maður flottasta kofann og kassabílinn í hverfinu. Stundum risu heilu hverfin af kofahrúgöldum í holtinu ofan við Skálagerðið og þá var alltaf einn kofi sem skar sig úr í þyrpingunni fyrir að vera vel smíðaður og það var kofinn hans Konna.
Þegar kom fram á unglingsárin og við fórum að eignast skellinöðru og svo seinna bíla þá var það alveg sama sagan, ef eitthvað þurfti að laga eða bæta þá var gott að eiga Konna að því auðvitað léku bílaviðgerðir í höndunum á honum eins og flest annað. Hann var líka alltaf tilbúinn að hjálpa til ef á þurfti að halda.
Seinna þegar Konni byggði sér einstaklega fallegt heimili í Mosfellsbænum með henni Önnu Maríu sinni þá bar heimilið þess merki hvað allt var vel og haglega gert, úti sem inni.
Fyrir nokkrum vikum hringdi Konni í mig hingað til Noregs og hafði ég þá ekki heyrt í honum í nokkurn tíma. Það lá vel á honum og við töluðum saman um alla gömlu tímana. Rifjuðum upp æskuna, skólaárin og unglingsárin og allt það skemmtilega sem því fylgdi. Allar útihátíðirnar, ferðalagið sem ég fór með honum og foreldrum hans um Snæfellsnes. Fyrstu bílana, kærusturnar, öll uppátækin og gleðina sem fylgdi æskunni og uppvaxtarárunum. Ég fann að hann hafði mikla þörf fyrir að rifja þetta upp og mér fannst það síður en svo neitt leiðinlegt heldur.
Við töluðum líka um hið skelfilega slys sem hann lenti í fyrir allmörgum árum og þær afleiðingar sem af því hlutust og hann talaði um þetta af svo miklu æðruleysi og einlægni eins og honum var svo tamt.
Hann sagði mér líka að hann væri komin með krabbamein og að hann hefði farið í aðgerð sem hefði heppnast vel og hann var bjartsýnn á framhaldið. Hann sagðist ekki hafa neinar áhyggjur og að hann tæki því bara sem kæmi þegar það kæmi. Við ræddum líka um börnin okkar og fjölskyldur, hestamennsku og sitthvað fleira en svo skyndilega sagði hann: Heyrðu, elsku kallinn minn, veistu að við erum búnir að tala saman í þrjá klukkutíma, þetta fer nú að verða gott í bili og við ákváðum að hittast þegar ég kæmi næst til Íslands og taka upp þráðinn og þá kannski allir vinirnir saman.
Ekki datt mér í hug þá að þetta yrði okkar síðasta samtal og ég er núna svo ótrúlega þakklátur fyrir að það átti sér stað því mér finnst núna eins og hann hafi hreinlega hringt til að kveðja mig.
Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Konna og eiga hann sem vin því ljúfari og einlægari dreng er varla hægt að finna.
Elsku Anna María, Svala og Rósi, ég votta ykkur mína dýpstu samúð vegna fráfalls Konna.
Þorvaldur Guðmundsson