Bergdís Björt Guðnadóttir fæddist í Reykjavík 12. júlí 1974. Hún lést á líknardeild Landspítalans 9. maí 2021. Foreldrar hennar eru Lilja Bergsteinsdóttir prentsmiður, f. á Patreksfirði 9.10. 1948, og Guðni Kolbeinsson þýðandi, f. í Reykjavík 28.5. 1946. Systkin Bergdísar eru Hilmir Snær Guðnason, f. 24.1. 1969, Ásdís Mjöll Guðnadóttir, f. 29.10. 1972, d. 28.1. 2017, og Kristín Berta Guðnadóttir félagsráðgjafi, f. 17.9. 1978.


26.8. 2006 giftist Bergdís Kristjáni Jóhanni Reinholdssyni viðskiptafræðingi, f. 27.5. 1968. Foreldrar hans eru hjónin Reinhold Kristjánsson, f. 3.5. 1939, og Elín Þórðardóttir, f. 23.1. 1942. Þau Kristján og Bergdís eignuðust dótturina Elínu Lilju, f. 14.4. 2008. Bergdís átti fyrir soninn Guðna Kolbein, f. 8.2. 1994, með Páli Hermannssyni skjalaþýðanda og Kristján átti tvær dætur frá fyrra sambandi, með Valborgu Stefánsdóttur, Júlíu, f. 8.9. 1992, og Diljá, f. 5.10. 1995.

Bergdís lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og starfaði hjá Kaupþingi banka 2002–2005, var síðan fræðslustjóri Landsbankans til ársins 2011 en söðlaði þá um og hóf nám í leirlist við Myndlistarskóla Reykjavíkur. Hún útskrifaðist þaðan 2013 og nam síðan list sína við The Royal Danish Academy of Fine Arts – The School of Design á Borgundarhólmi 2013–14. Þegar hún var í þann veginn að ljúka námi þar veiktist hún af illvígu krabbameini og við tók barátta við vágestinn sem hún tókst á við með brosi og léttri lund en jafnframt viljastyrk og þolgæði, alveg fram á síðasta dag. Hún sinnti leirlistinni eftir föngum og margir ættingjar hennar og vinir eiga fagra muni til minja um listfengi hennar.

Útför Bergdísar verður gerð frá Víðistaðakirkju í dag, 21. maí 2021, klukkan 15.

Vegna aðstæðna verða einungis nánustu ættingjar og vinir viðstaddir. Streymt verður frá útförinni á slóðinni https://youtu.be/r50thXTRIOQ Streymishlekk má einnig finna á: https://www.mbl.is/andlat

Það er sárt að vera í þeim sporum í annað sinn á örfáum árum að kveðja systur. Systur sem var sálufélagi minn, mín nánasta trúnaðarvinkona, stoð mín og stytta. Að hafa átt Bergdísi sem systur er ein dýrmætasta gjöf sem ég hef fengið frá lífinu. Við Bergdís urðum nánari systur með hverju ári sem leið. Sem börn vorum við stundum að þræta eins og tíðkast með systkini. Ég man ekki til þess að okkur hafi oft orðið sundurorða nema á barns- og unglingsaldri. Þá langaði mig stundum að klípa hana dulítið fast því hún gat staðið ansi hreint fast á sínu.
Þar sem ég er yngsta systirin var ég oft að skottast á eftir systrum mínum og fékk oftar en ekki að vera með. Það kom þó fyrir að ég stóð eftir einmana og skælandi í stigaganginum þegar þær eldri hlupu út að leika í hverfinu okkar í Þingholtunum. Heyrði svo huggunarorð mömmu okkar svona svona , sagði hún, systur þínar verða stundum að fá að leika einar með vinkonum sínum . Ég var nú ekki sammála því að þær þyrftu þess endilega. Fannst það eiginlega tóm frekja í þeim.
Í menntaskóla fékk ég oft lánuð föt hjá Bergdísi og hún hjá mér. Stundum stal ég meira að segja fötunum hennar ef hún vildi ekki lána mér þau og laumaði þeim svo aftur inn í skáp áður en hún myndi fatta það. Sagði henni það svo löngu seinna. Ég passaði Guðna Kolbein oft fyrir hana þegar hann var kominn til sögunnar og fannst æðislegt að verða móðursystir. Þegar við svo nældum okkur í eiginmenn varð þeim Kristjáni mági og Herði mínum strax vel til vina. Enda var makaval okkar systra alveg einstakt afrek hjá okkur þó ég segi sjálf frá. Það tókst með okkur fjórum yndisleg og órjúfanleg vinátta og við höfum alltaf notið þess að vera saman, borða saman, ferðast saman og vera með alla krakkana okkar á ferð og flugi. Það var því sérlegt fagnaðarefni þegar Bergdís og Kristján fluttu til okkar í Hafnarfjörðinn.
Við Bergdís vorum báðar svo heppnar að fá að gegna stjúpmóðurhlutverki og gátum því skeggrætt það saman hvernig væri best að haga sér til að skila því hlutverki sem best og fallegast af okkur. Bergdís var svo stolt af öllum krakkahópnum þeirra Kristjáns. Toppurinn á tilverunni var þegar við Bergdís náðum í nokkra mánuði að ganga samtímis með börn sem fæddust árið 2008. Aðeins hálft ár er á milli Patreks míns og Elínar Lilju og það var svo fallegt og yndislegt að fá að eignast þessa unga nánast á sama tíma systurnar.
Bergdísi var alltaf hægt að plata í bíltúra, jafnvel mjög seint á kvöldin. Hún kom á öll námskeiðin mín og var tilraunadýr á þeim öllum. Hún gerði hvað hún gat til að styðja mig og hvetja. Við hringdum hvor í aðra, stundum daglega og sjaldnast leið meira en vika á milli. Hún var góð í gegn, björt og alltaf brosandi.
Ég hef sjaldan verið eins stolt af Bergdísi eins og þegar hún fór í listnámið sitt. Hún var mér mikil fyrirmynd um að elta drauma sína. Að þora að breyta algjörlega um stefnu ef hjartað kallar annað. Ég fékk þó heilmikinn aðskilnaðarkvíða þegar þau Kristján ákváðu að flytja til Bornholm þegar hún fór í framhaldsnám í leirlist. Fannst hræðileg tilhugsun að vera án Bergdísar í heilt ár. En var á sama tíma full aðdáunar og ánægð fyrir hennar hönd. Svo óendanlega stolt af henni að hún skyldi hlusta á kall sköpunarkraftsins og hjartans. Leirinn lék í höndunum á henni frá því hún var barn.
Bergdís kom heim með mein. Náði ekki að klára skólavistina. Í veikindum hennar vörðum við sem fyrr miklum tíma saman. Mösuðum endalaust um heima og geima. Nýttum öll tækifæri til að ferðast vestur, fjölskyldurnar, með foreldrum okkar og skapa gnægð fallegra minninga. Hún plataði mig til að syngja með sér í 70 afmæli pabba og síðar mömmu líka. Ég var að farast úr stressi en hún lét sér fátt um finnast. Fannst það nú ekkert tiltökumál að rigga upp einu lagi. Sagðist nú ekki ætla að stressa sig yfir því. Ég lufsaðist því til að taka þátt með hinni hugrökku Bergdísi minni. Þar sköpuðust góðar og fyndnar minningar af söngæfingum og skemmtilegheitum. Hún hafði unun af að syngja og við sungum í ferðalögum, bílferðum, við uppvaskið á Patró og við sjóinn tvær saman í Hlöðuvík á Hornströndum. Bergdís var manneskja sem var svo ótrúlega auðvelt og áreynslulaust að vera í félagsskap við og hafa gaman og hlæja með. Þá fannst okkur systrum einnig einstaklega gaman að ræða hugleiðslu og andleg málefni, velta fyrir okkur alls konar eftirlífspælingum og masa um mátt hugans til að heila sig. Hugsið mig heila, var það sem Bergdís sagði alltaf. Það kom aldrei annað til greina.
Það er mér óendanlega þungbært að kveðja Bergdísi mína. Hún var bjart ljós í mínu lífi. Ég vel í hennar minningu að trúa því að allt sem við systur trúðum á sé til. Líf eftir þessa jarðvist. Að við fáum að hittast á ný. Að Ásdís systir okkar hafi tekið fallega á móti henni. Þær geti leikið sér þær eldri þar til sú litla kemur. Fram að endurfundunum mun bjarta ljósið hennar lýsa mér og minning hennar verða til þess að ég heiðra lífið og lifi til fulls í djúpu þakklæti meðan ég fæ að vera hér áfram.
Þar til við hittumst á ný, elsku Bergdís.
Þín systir að eilífu.

Kristín Berta.