Ólafur Ingimar Jónsson fæddist 9. ágúst 1957 á Akranesi. Hann lést í Ostrava í Tékklandi 3. maí 2021.

Foreldrar hans voru Jón Jónsson, f. 18.3. 1928, d. 26.11. 2008, frá Litla-Langadal og Ólafía Þorsteinsdóttir, f. 30.4. 1928, frá Ölviskrossi.

Systkini hans eru Kristvin Ómar, f. 12.4. 1951, Jón Bergmann, f. 26.11. 1952, Kristín Þorgerður, f. 2.9. 1959, d. 4.7. 1986, Þorsteinn, f. 9.2. 1966, og Sigurður Þór, f. 3.9. 1969.

Fyrrverandi eiginkona Ólafs er Ólína Sigþóra Björnsdóttir, f. 19.11. 1959, frá Akranesi. Börn þeirra eru Elín, f. 7.11. 1978, Ólafur Jón, f. 31.3. 1981, Jakob, f. 21.1. 1986, Ólöf Kristín, f. 29.5. 1993, og Björn Sigþór, f. 7.6. 1995. Dætur Elínar og afabörn Ólafs eru Guðrún Eydís, f. 13.6. 2000, Hekla Rakel, f. 14.10. 2004, og Heiður Kristín, f. 30.6. 2010. Fyrrverandi eiginkona Ólafs frá Indónesíu er Olivia Azis, synir þeirra eru Ómar Ari, f. 31.7. 2005, og Justin Leifur, f. 12.4. 2007.

Ólafur ólst upp á Setbergi á Skógarströnd. Fyrstu fullorðinsár sín bjó Ólafur á Akranesi með fjölskyldu sinni og vann lengst af í Járnblendifélaginu á Grundartanga. Fjölskyldan flutti til Bandaríkjanna árið 1988 þar sem Ólafur lærði fyrst flugvirkjun og síðan flugvélaviðhaldstæknifræði. Eftir dvölina við nám og störf í Bandaríkjunum starfaði Ólafur við flugvélaviðhald um allan heim. Um langt skeið vann Ólafur og bjó í Indónesíu en seinni árin starfaði hann í fjölmörgum löndum, meðal annars Malasíu, Pakistan, Kóreu, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Tyrklandi og Tékklandi. Vegabréfin hans voru yfirfull af stimplum vegna vinnutengdra verkefna. Alltaf átti Ólafur samt sína festu á Íslandi og í Indónesíu þar sem börnin hans búa.

Útför Ólafs fer fram 28. maí 2021 kl. 13 frá Seljakirkju. Útförinni er streymt frá'

https://www.seljakirkja.is.

Streymishlekk má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku ljúfurinn minn pabbi minn. Í gegnum hugann streyma minningarnar um þig en efst í huga mínum er þakklæti fyrir að hafa fengið þá lífsgjöf að vera dóttir þín. Allt sem þú kenndir mér og ræddir við mig til síðasta dags hefur átt stóran þátt í því að gera mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Að sýna æðruleysi í erfiðleikum og að fara í gegnum lífið með ró en ekki látum er mikilvægt veganesti.

Þegar ég var lítil á ég minningar um þig að kenna mér ólsen-ólsen og svo að naglalakka mig. Ég man líka að þú varst oft að vinna að hinum og þessum verkefnum, lagandi bíla í bílskúrnum og þess háttar. Þú virtist geta gert við allt, byggt allt og fundið út úr öllum verkefnum en það gerðir þú alltaf með miklum rólegheitum og yfirvegun. Ég man líka að best fannst mér að fá að leiða þig, því stóru hendurnar þínar veittu mér hið mesta öryggi. Þegar þú varst að keyra bílinn sat ég alltaf fyrir aftan þig, þá settir þú hægri höndina fyrir aftan stólbakið svo ég gæti leitt þig þá líka. Þessi föðurást sem þú sýndir mér alltaf byggði svo sterkan grunn fyrir ástina sem ég ber svo ávallt áfram í hjarta mínu.

Ég var ekki sátt við ykkur mömmu að taka ákvörðun um að flytja til Bandaríkjanna þegar ég var 9 ára. Að flytja í burtu frá Akranesi sem mér fannst þá vera nafli alheimsins fannst mér vera ósanngjörn ákvörðun. Í dag er ég virkilega þakklát fyrir þá ákvörðun. Að fá að verða tvítyngd svona ung og sjá að heimurinn er mun stærri en það sem ég þekkti kenndi mér víðsýni sem aðstoðar mig við öll samskipti og ákvörðunartöku. Þessi ákvörðun þín með stuðningi mömmu er virkilega áhugaverð og sýnir svo þinn persónuleika. Þig langaði í meira í lífinu en að vinna á sama vinnustað það sem eftir væri ævinnar. Þig langaði í meiri menntun og krefjandi starf. Við fluttum því út, þið mamma með þrjú börn og komin yfir þrítugt. Selduð húsið sem þið byggðuð og hélduð út í óvissuna. Þarna fékk ég fyrirmyndir sem sýndu mér að það má fylgja hjartanu sínu og draumum, að það sé í lagi að fara sína eigin leið í lífinu.

Að fara leiðir í lífinu sem þykja hefðbundnar er ekki eitthvað sem passaði við sveitastrákinn hann pabba minn frá Setbergi. Hvort sem þú ætlaðir þér það eða ekki þá áttir þú ævi sem getur ekki talist vera hefðbundin.

Nám lá vel fyrir þér og útskrifaðist þú úr flugvirkjanáminu í Tulsa með framúrskarandi einkunn. Í náminu fannstu þig og næsta skref var að læra flugvélaviðhaldstæknifræði í St. Louis. Það var risaskref fyrir mann sem hafði ekki mikinn stærðfræðigrunn. En ég man að þú sast við námið endalaust til að komast í gegnum það. Allir morgnar byrjuðu á æfingum og svo sastu við skrifborðið eftir tímana þína og lærðir og lærðir. Agaðri manni hef ég ekki kynnst fyrr né síðar. Þvílíka fyrirmyndin. Jólin voru yndisleg, því þá varstu loksins í fríi frá skólanum. Þá áttum við góðar fjölskyldustundir þar sem þið mamma kennduð okkur að spila og margt fleira. Frjósemi var blessun ykkar mömmu og urðum við systkinin fimm talsins. Ég elskaði að eiga öll þessi systkini og ýttu þau svo sannarlega undir mínar barneignir.

Þegar ég var orðin unglingur fór að örla aðeins á aganum gagnvart mér og sérstaklega þegar kom að strákamálunum. Þér var alls ekki sama um símtölin, bréfin og hitt og þetta sem mér voru að berast. Þarna var verndarinn í þér mættur til að passa upp á Ellu sína. Mér fannst þetta óþarfa vesen. Vissir þú ekki að ég væri dóttir þín og ég að ég gæti alveg séð um mig sjálf? Í dag skil ég þig mjög vel þar sem ég á þrjár dætur sem allar dýrka og dá afa sinn og kalla þig King afi Óli.

En þetta var ekki það eina sem gekk á þegar ég var unglingur. Mikilvæg samtöl áttu sér stað um það hvað ég ætlaði að gera varðandi mína framtíð námslega. Þar sem ég væri kvenkyns væri mjög mikilvægt að ég myndi tryggja mér góðan menntaveg svo ég ætti jöfn tækifæri á við hitt kynið og enn mikilvægara að ég yrði fjárhagslega sjálfstæð. Þið mamma voruð alveg samtaka í þessu. Sérstaklega að ég myndi mennta mig fyrr en seinna, ekki seinna eins og þið. Ég hafði upplifað sjálf að fara með ykkur þann veg svo ég stóð við mitt og fór þann veg sem þið lögðuð til, að mennta mig en ég auðvitað réð alveg sjálf í hverju ég myndi mennta mig.

Þó þú værir að vinna einhvers staðar lengst í burtu í öðru landi varstu alltaf í samskiptum við mig og passaðir upp á að fylgjast með mér. Þegar ég leigði herbergi í Reykjavík eftir stúdentsprófið var ég ekki með heimasíma. Þá mættir þú með minn fyrsta gsm-síma svo þú gætir náð reglulega í mig. Þó þú værir ekki á landinu þá varstu samt til staðar.

Í fyrra háskólanáminu mínu eignaðist ég frumburðinn minn. Fæðingin gekk seint og illa. Þá mættir þú upp á fæðingardeildina og ég gat haldið í stóru höndina eins og þegar ég var lítil sem hjálpaði mér mikið í gegnum verkina. Stóru öryggishendurnar þínar sem samt gátu unnið hin fínustu smáverk sem ég þekkti svo vel. Þegar mér var skutlað í bráðakeisara stóðst þú eins nálægt skurðstofunni og þú máttir og létti mikið þegar þú heyrðir barnsgrát og sagðir mömmu frá því hvað þú heyrðir. Þarna eins og áður varstu til staðar.

Í gegnum árin bjóstu lengi í Indónesíu þar sem þú bættir við barnahópinn þinn. Eins og áður fórstu óhefðbundnar leiðir, það eru ekki margir sem eignast sjö börn með tveimur konum. Þú passaðir samt að koma eins og oft og þú gast til að hitta okkur systkinin á Íslandi og við fengum að kynnast litlu bræðrum okkar.

Í gegnum allan minn menntaveg studdir þú mig og fylgdist með mér, alveg fram yfir þrítugt þegar ég fór sjálf út með fimm manna fjölskyldu til Svíþjóðar í mastersnámið. Þú mættir meira að segja í mastersvörnina mína og heimsóttir okkur á leiðinni til Íslands þó það væri úr leið.

Í gegnum árin hefur þú unnið í nær óteljandi löndum við flugvélaviðhaldsverkefni. Ég vissi samt alltaf að þú værir til staðar fyrir mig því samskiptin voru alltaf til staðar og eftir því sem tækninni fleygði áfram þeim mun tíðari voru samskiptin. Verkefnin ílengdust oft svo við vissum oft ekkert hvenær væri von á þér en við vissum að þú myndir alltaf mæta um leið og þú gætir. Mörgum fannst áhugavert þegar ég vissi ekki hvenær þú kæmir næst eða að ég myndi ekki alveg í hvaða landi þú værir núna að vinna. Við vorum að ræða um aðra hluti í okkar samskiptum, þá aðallega þú að spyrja um okkur og svo á endanum komstu alltaf aftur.

Fyrir 11 árum greindist þú með hæggengt eitilfrumuhvítblæði. Það virkar þannig að ónæmiskerfið er þá ávallt í baráttu en þú ætlaðir nú ekkert að láta eitthvað svoleiðis stoppa þig. Aginn þinn hjálpaði mikið til þar eins og áður. Þú einfaldlega breyttir um mataræði svo að í 11 ár lifðir þú heilbrigðu lífi og aldrei farið úr fyrsta stiginu í þeim veikindum. Aftur sýndir þú að með staðfestu og ró er hægt að vinna með verkefnin sem lífið færir manni.

Síðustu árin höfum við verið einstaklega heppin og fengið að hafa þig mikið á Íslandi. Í mínu skilnaðarverkefni varst þú mættur mér til stuðnings, í samtölum, samveru, róandi nærveru og til að kenna mér á viðhald hússins míns. Þetta var stundum erfitt fyrir þig, ég mátti ekki mála efst uppi í stillans því þá gæti ég dottið eða ég mátti ekki beygja mig of mikið út fyrir svalirnar á þriðju hæð því þá gæti ég dottið. Ennþá, þrátt fyrir að vera orðin fertug, varstu verndandi pabbi minn. Mér fannst þetta svo skemmtilegt og yljaði þessi umhyggja mér um mínar hjartarætur. Þegar mér datt í hug hvort ég gæti ráðið við að eignast húsið svo sjálf, þá út frá viðhaldsverkefnunum sem því fylgdi, ákvað ég að ræða það við þig til að fá þitt álit. Þú varst þá búinn að vinna mér við hlið og kenna mér allskonar. Þú hikaðir ekki við að segja mér að ég gæti algjörlega ráðið við það. Þá var það ákveðið, því mér fannst þú vita alltaf allt best og þú trúðir á mig. Við ræddum um alls konar varðandi húsið og aldrei kom ég að tómum kofunum og alltaf voru þínar ráðleggingar vandaðar. Það hefur líka svo oft verið þannig í gegnum árin að það sem ég hafði áhuga á, því sýndir þú líka áhuga. Samtöl um uppeldi, vinnutengd verkefni, lífið, samskipti við aðra, heilsufarsmál, það var í raun ekkert sem við ekki ræddum um.

Í janúar horfði ég á eftir þér ganga niður tröppurnar heima hjá mér og ég var svo hrædd um þig. Ég var svo hrædd um að Covid myndi ná þér í vinnuferðinni þinni í Tékklandi. En daginn sem byrjaði að gjósa, þann 19. mars, greindist þú með Covid. Þú barðist eins og hetja við þennan vírus en ónæmiskerfið þitt réð ekki við þetta mein. Ég og Óli Jón flugum til þín og vorum hjá þér á gjörgæslunni þína síðustu daga. Ég talaði við þig, spilaði fyrir þig hljóðbúta frá fólkinu okkar sem og tónlist. Ég sat og hélt í stóru öryggishendurnar þínar og vonaði að þú kæmir til baka. Þú reyndir eins og þú gast og ég sá að þú fannst fyrir okkur þarna, læknarnir voru líka hissa. En þú fékkst ekki að vinna þá baráttu, því miður.

Ég er svo fegin og þakklát fyrir að hafa alltaf átt góð og jákvæð samskipti við þig. Ég er svo glöð að hafa sagt þér frá því að þú værir fyrirmyndin mín þegar kemur að því hvernig foreldri ég vil vera við mínar dætur. Þú klökknaðir þegar ég sagði þér frá því að ég væri svo þakklát fyrir uppeldið þitt og allt sem þú hafðir kennt mér. Því ekki get ég sagt það við þig núna og verið fullviss um að þú heyrir hvað ég er að segja við þig.

Mín versta martröð var að missa þig pabbi, minn besta vin. Ég sit hér með margbrotið hjarta, það er enginn sem kemur í þinn stað. Það er svo margt sem við áttum eftir að ræða saman um. Þú fylgdist alltaf svo vel með afastelpunum og varst svo stoltur af þeim. Þú varst minn klettur og stuðningur og nú ertu farinn. En minning þín lifir afar sterkt í okkur systkinunum sjö og afastelpunum þremur.

Heimsborgari varstu pabbi minn sem margir minnast sem ljúfasta manns sem þau hafa kynnst á lífsleiðinni, það varst þú og ég á ekki til orðin til að lýsa því hversu mikill missir er að hafa ekki klettinn minn lengur til staðar. Kveðjurnar sem hafa borist frá fólki hvaðanæva úr heiminum sem hafa verið samferðamenn þínir eru staðfesting á því hvernig þú hafðir áhrif á marga á þinni lífsleið. Lítið dæmi um það er þegar Óli Jón var að panta kaffi á Starbucks í mollinu í Ostrava spurði afgreiðslukonan hann hvort hann væri líka frá Íslandi og væri að vinna á flugvellinum, hún spurði um þig og sagðist ekki hafa séð þig lengi. Alveg magnað hvernig þú, þessi rólegi maður, snertir marga.

Þú gafst mér allt sem þurfti til
að lukkan væri mín.
Það eina sem ég lærði ekki
... er að lifa án þín!
(Hrafnhildur Viðarsdóttir)

Ég elska þig að eilífu, elsku besti maður sem hefur nokkurn tímann gengið um þessa jörð.

Elín Ólafsdóttir.