Ragnheiður Kristín Benediktsson (Dúlla) fæddist 27. desember 1939 í Reykjavík. Hún lést á Droplaugarstöðum 8. maí 2021.
Foreldrar hennar voru Sigríður Oddsdóttir, f. 18.9. 1907, d. 28.8. 1988, og Stefán Már Benediktsson, f. 24.7. 1906, d. 12.2. 1945.
Systkini: Einar Benediktsson, f. 30.4. 1931. Katrín Svala Benediktsson Daily, f. 14.4. 1934, d. 14.9. 2017. Valgerður Þóra Benediktsson, f. 8.5. 1935. Oddur Benediktsson, f. 5.6. 1938, d. 17.8. 2010.
Maki Ragnheiðar er Haukur Filipps Filippusson, f. 16.1. 1939.
Börn: Þórdís Hauksdóttir Benediktsson, f. 15.10. 1964, og Orri Hauksson, f. 28.3. 1971.
Barnabörn: Hafþór Sævarsson Ciesielski, f. 29.6. 1989. Sigurþór Sævarsson Ciesielski, f. 20.4. 1991. Daníel Filipps Þórdísarson, f. 15.4. 1999. Sölvi Haukur Sigurðsson, f. 20.9. 2003. Styr Orrason, f. 11.1. 2000. Alvar Orrason, f. 28.10. 2003.
Barnabarnabörn: Þórunn Kristín Hafþórsdóttir, f. 25.5. 2019. Ásdís Björg Hafþórsdóttir, f. 25.5. 2019. Orri er giftur Selmu Ágústsdóttur og á hún tvö börn frá fyrra hjónabandi, Pétur Benedikt Pétursson, f. 25.9. 1997, og Viktor Má Pétursson, f. 19.9. 2000.
Ragnheiður var fædd á Hringbraut 75, Reykjavík, og ólst upp á Marargötu 3, sem var hennar æskuheimili.
Skólaganga Ragnheiðar: Landakotsskóli, Vesturbæjarskóli, Menntaskólinn í Reykjavík, Kennaraskólinn Háskóli Íslands (BA í uppeldisfræði).
Störf: Landakotsskóli, Hlíðaskóli, Melaskóli.
Ragnheiður var brautryðjandi í tölvukennslu í grunnskóla. Kenndi forritunarmálið Logo og kynnti sér kennsluhætti í Bandaríkjunum. Í framhaldinu hóf hún samstarf við National Geographic og kom á samvinnu milli Bandaríkjanna, Íslands og Noregs um efni sem var kallað Kids network.
Mikill dýravinur og elskaði útreiðar, sem hún stundaði um árabil.
Útför hennar fer fram frá Neskirkju í dag, 28. maí 2021, klukkan 13. Athöfninni verður streymt á:
https://www.sonik.is/ragnheidur
Streymishlekk má finna á:
https://www.mbl.is/andlat
Kennarastarfið átti hug hennar allan. Alls staðar leitaði hún nýrra tækifæra til að bæta stöðu nemenda til náms. Án efa urðu hún og stöllur hennar helstu frumkvöðlar í notkun tölva í skólastarfi. Þær sömdu kennsluefni og skrifuðu um þessa tækninýjung, sem varð þeim hrein ástríða. Til þess arna nýttu þær flestar lausar stundir og unnu þrekvirki í þágu nemenda.
Dóttir mín, Gunnhildur, sem nú er sérfræðingur í hjúkrun og aðstoðarprófessor við háskóla í Osló, minnist sérstaklega þess merkilega atburðar, þegar Ragnheiður sýndi henni hvað hægt væri að gera með tölvu og kenndi henni netfang sitt >raben snúður ismennt.is< Þetta voru Gunnhildi undur og stórmerki og tölvuna hefur hún auðvitað notað linnulaust síðan. Nú eru liðin 27 ár síðan þessi kennslustund fór fram, sem hafði mikil jákvæð áhrif á líf ungrar stúlku. - Í hennar augum var Ragnheiður eins og litríkt fiðrildi, sem flögraði um, gaf góð ráð og var full af hugmyndum um hvernig nota mætti nýja tækni öllum skólum og nemendum til framfara. Hún og stöllur höfðu mikil áhrif á framfarir í skólastarfi. Alla tíð hefur Gunnhildur elskað sína Dúllu og kveður hana með miklum söknuði. Það gerir einnig dóttir mín, Sigríður Ásta, en hún og Þórdís, dóttir Hauks og Dúllu, urðu miklir mátar.
En lífið veitti Ragnheiði ekki fullar þakkir fyrir margvíslegar gæðastundir og framlag til svo margra, sem hennar vegna nutu betra og fyllra lífs. Á besta aldri fór að gæta röskunar á minni hennar og árið 2003 var hún greind með Alzheimer. Líf fjölskyldunnar umturnaðist. Eiginmaður hennar, Haukur Filippusson, stóð eins og klettur við hlið konu sinnar og sinnti henni heima allt til ársins 2014. Þar stóð loforð gefið á brúðkaupsdag föstum fótum. Þetta ár fékk Ragnheiður vistun á Droplaugarstöðum og hvern einasta dag ársins, nema með örfáum undantekningum, kom Haukur til konu sinnar, sat hjá henni, reyndi að kveikja ljós í augum hennar og mata hana á mestu og bestu fáanlegri hollustu.
Dúllu kynntist ég fyrst þegar systir Hauks, Hrefna Filippusdóttir, varð eiginkona mín. Samskipti okkar allra urðu góð og Dúlla í miklu uppáhaldi. Saman ferðuðumst við víða um Bandaríkin, gömlu Evrópu, staðnæmdust í Ungverjalandi og fórum þaðan um nokkur nágrannalönd, þvert yfir Króatíu, skoðuðum undrafagra þjóðgarða, ókum langar leiðir eftir Adríahafsströndinni, fórum út í sérkennilegar eyjar við ströndina og óðum í gróðri og grænni sælu. Þetta voru góðir dagar og hlátur og léttleiki Dúllu gerðu þá ennþá betri.
Líklega er dvöl okkar í Bíldsey á Breiðafirði þó ógleymanlegust. Heiðursmaðurinn Árni Helgason í Stykkishólmi lánaði okkur eyjuna og í staðinn máluðum við litla fallega húsið, sem þekktir íslenskir listamenn höfðu fegrað með málverkum á veggjum flestra innirýma. Það sakaði ekki að Sigurður Breiðfjörð rímnaskáld hafði búið í eynni um tíma. Síðar komst ég að því að forfeður mínir höfðu einnig búið þar um alllangt skeið.
Þarna áttum við góða daga, gengum um eyna, fylgdumst með fuglalífinu og nutum hverrar stundar. Kvöldin voru kyrrlát og hljóð og hvítalogn úti fyrir. Stundum sátum við fram á nótt, pískruðum og hlógum og hljóð okkar bárust út í kyrrðina þar sem stöku fugl sveif yfir okkur, en gaf engin hljóð frá sér. - Þarna naut Dúlla sín og þekking hennar á landi og þjóð kom okkur öllum til góða. Aldrei kynnumst við henni betur.
Nú er hún farin og eftir sitja minningar um einstaklega ljúfa, greinda og snjalla konu. Með góðri samvisku lýk ég þessum stuttu minningum á ljóði eftir afa Dúllu, Einar Benediktsson þjóðskáld, sem hann orti eftir dauða dóttur sinnar Svölu, en hana harmaði hann alla daga.
- Í snauðum heimi ég hlusta á löngum vökum,
og heyri þyt af snöggum vængjatökum.
Minn engill hefur lyft sér ljóss í veldi,
Þar líður aldrei dagur guðs að kveldi.
En ég er mold og mæni í heiðin blá,
á meðan stundaglasið sandkorn á.
Dúllu munum við sakna alla tíð um leið og við þökkum henni þann mikilvæga þátt, sem hún lagði inn í líf okkar. Hún var merkileg kona með fallega sál, sem öllum vildi gott gera. Á þeim vettvangi náði hún lengra en flestir sem við höfum verið samferða á lífsgöngunni.
Árni Gunnarsson