Ásta Garðarsdóttir var fædd 6. mars 1931 á Fáskrúðsfirði. Foreldrar Ástu voru Garðar Kristjánsson, f. 28.8. 1909 á Stöðvarfirði, d. 8.2. 1964, og Guðbjörg Erlín Guðmundsdóttir, f. 15.7. 1911 á Búðum á Fáskrúðsfirði, d. 24.3. 2003. Garðar og Guðbjörg voru ólofuð þegar Ásta fæddist og úr varð að Ásta ólst upp hjá foreldrum Guðbjargar; þeim sómahjónum Guðmundi Erlendssyni og Björgu Pétursdóttur í Skálholti á Fáskrúðsfirði. Þau féllu bæði frá árið 1943 og flutti Ásta þá til foreldra sinna.
Systkini Ástu eru Guðrún Birna, f. 1932, d. 1933; Ester, f. 1935, d. 2017; Kristján, f. 1937, d. 2021, Halldór Viðar, f. 1939; Guðrún, f. 1941, d. 2018; Guðmundur, f. 1946; d. 2009; Garðar, f. 1946, og Stefán, f. 1954.
Ásta lauk fullnaðarprófi á Fáskrúðsfirði vorið 1944.
Ásta fluttist til Norðfjarðar 16 ára gömul og kynntist þar Jakob Pálma Hólm Hermannssyni 18 ára gömul. Þau Jakob og Ásta gengu í hjónaband 20.10. 1951. Börnin komu svo eitt af öðru; Jóhanna, f. 16.11. 1952, Björg, f. 13.3. 1954, Hjörleifur, f. 7.4. 1957, og Herdís, f. 14.8. 1961. Þau misstu svo eina litla stúlku sem fæddist fyrir tímann. Seinna meir bættist fimmta barnið; Hjördís Hólm, systurdóttir Jakobs, í hópinn og Ásta leit ætíð á hana sem eitt af sínum börnum. Barnabörnin, beint og á ská, eru fimmtán og barnabarnabörnin tuttugu og fimm.
Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur árið 1963 og byggðu Jakob og Ásta sér síðan hús í Vallargerði í Kópavogi þar sem fjölskyldan bjó þar til öll börnin voru flutt að heiman.
Ásta vann í húsgagnadeild JL hússins frá 1972 fram til 1989 þegar fyrirtækið hætti starfsemi. Ástu líkaði einstaklega vel að vinna þar og elskaði að vera innan um fallega hluti auk þess sem eigendur voru henni góðir vinir. Þau hjónin voru þá flutt í íbúð á Boðagranda. Þau byggðu sér bústað í Dagverðarnesi í Skorradal og áttu hann í 15 ár. Þau fóru í sveitina á vorin og komu í bæinn á haustin. Börn þeirra komu þarna oft og þaðan eiga barnabörnin margar góðar minningar.
Síðustu tvö ár ævi sinnar bjó Ásta á Grund.
Útför Ástu fer fram í Háteigskirkju í dag, 28. maí 2021, kl. 13.
Ásta fæddist á Fáskrúðsfirði 6. mars 1931, í litla sjávarþorpinu á
Austfjörðum sem taldi þá um sex hundruð manns. Hún náði því að lifa tvo
mánuði umfram 90 árin. Foreldrar hennar, Guðbjörg Erlín og Garðar, voru
rétt um tvítugt og ólofuð þegar hún fæddist en þau áttu eftir að ganga í
hjónaband og eignast átta börn til viðbótar. Móðuramma og -afi Ástu tóku
hana til sín sem kornabarn til að létta undir með unga fólkinu og ræddi
Ásta oft þá gæfu að hafa verið sett undir þeirra verndarvæng. Afi hennar
var búfræðingur og átti nokkrar kindur og eina kú en sótti jafnframt róðra
til að draga björg í bú. Þegar komið var að því að Ásta, þá á fjórða ári,
var sótt af foreldrunum, varð hún óhuggandi og grét stanslaust þar til
pabbi hennar sá sig tilneyddan að fara með hana til baka. Tók amman á móti
henni um leið og hún beindi þeim orðum til pabbans, að hún tæki Ástu til
sín og þaðan skyldi hún ekki fara meðan þau hjónin væru á lífi. Við það
stóð. Bjó Ásta við ást og öryggi með ömmu sinni og afa í litla húsinu
þeirra, Skálholti, á Fáskrúðsfirði. Varð hún strax sem barn verkfús og
hefur amma hennar vafalaust notið þess að kenna henni til verka, hvort sem
var í matargerð, hreingerningum eða handavinnu. Um leið bjó hún hana undir
aðrar áskoranir í lífinu eins og margar bernskusögur Ástu báru vitni um.
Ein segir frá því er Ásta var að hakka kjöt í handsnúnu hakkavélinni í
eldhúsinu en amma hennar var rúmföst vegna lasleika. Varð Ástu þá á að
festa fingur í vélinni og æpir af sársauka til ömmu sinnar að hún hafi fest
höndina í vélinni. Þá kallar amman með rósemi í röddinni: Ásta mín, snúðu
sveifinni til baka, sem Ásta gerði og losaði höndina. Bar Ásta ör á fingri
alla sína ævi eftir það ör sem hún strauk gjarnan með væntumþykju þegar
hún rifjaði upp þessa minningu.
Ásta var 12 ára þegar hún missti ömmu sína og afa með aðeins fjögurra
mánaða millibili og flutti hún þá til foreldra sinna og stóra
systkinahópsins. Var missirinn sár og umskiptin skiljanlega erfið. Hún
hafði lokið fullnaðarprófi um vorið og þar sem hún hafði verið námfús og
átt auðvelt með lærdóm hvatti presturinn foreldrana til að senda hana til
náms. En efnin leyfðu það ekki, hún varð að vinna fyrir sér og leggja til
heimilisins. Fór hún í vist 13 ára og við tók mikil vinna við að skrúbba og
skúra. Hún átti eftir að vinna við stórheimili sem voru eins og smáar
framleiðslueiningar eins og þá tíðkaðist. Þar lærði hún og vann við
matverkun, matargerð, bakstur auk hreingerninga sem voru oft ansi
stórtækar. Ekki má gleyma prjónaskapnum en eitt af verkum hennar var t.d.
að prjóna peysuvesti fyrir jafnaldra hennar og soninn á heimilinu sem
stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri. Ásta sagði sjálf að ekki hefði
hún getað fengið betri húsmæðraskólamenntun en hún fékk á þessum heimilum;
menntun sem segja má að hún hafi lokið með láði því myndarlegri húsmóður
var varla hægt að hugsa sér. Allt lék í höndunum á Ástu og allt gerði hún
vel. Ekki má gleyma handboltanum sem veitti Ástu mikla ánægju en hún lék
með Leikni þar sem hún eignaðist góðar vinkonur og fékk tækifæri til að
fara í keppnisferðir um landið. Var hún frá á fæti og með góðan stökkkraft.
Hafði Ásta fram eftir öllu gaman af að fylgjast með ólíkum íþróttum í
gegnum sjónvarpið.
En um hvað dreymdi ungu íslensku vinnustúlkuna á þessum fimmta tug 20.
aldar? Jú, að eignast sitt eigið heimili eigin fjölskyldu. Enda fór það
svo eftir að hún og Jakob Pálmi Hólm Hermannsson felldu hugi saman biðu þau
ekki lengi með að stofna heimili á Norðfirði og eignast börnin. Rétt
rúmlega þrítug flytja þau suður til Reykjavíkur þar sem Jakob réð sig til
starfa hjá Einari J. Skúlasyni. Tjáði Ásta sig oft um hve erfitt hafi verið
að kveðja Austfirðina og söknuðurinn eftir heimahögunum orðið það mikill að
hún treysti sér ekki að heimsækja þá. Sagðist hún myndi fljúga austur yfir
í sinni hinstu för sem ég er viss um að hún hefur gert. Fyrir sunnan beið
hennar sú áskorun að byggja upp nýtt heimili og koma lífi fjölskyldunnar í
fastar skorður en auk heimilisstarfanna tók Ásta að sér ýmis störf eins og
t.d. hjá sælgætisgerðinni Völu, Matstofu Austurbæjar og sjúkraliðastörf á
Borgarspítalanum. Ásta og Jakob unnu vel úr sínu, byggðu hús í Kópavogi og
komu sér og börnunum vel fyrir.
Ég hitti Ástu fyrst þegar ég var 16 ára gömul en þá hafði fjölskyldan búið
í áratug í Kópavoginum og Ásta unnið í húsgagnadeild JL hússins í 4 ár.
Tveimur árum síðar hófu ég og einkasonur hennar búskap í kjallaranum. Þá
gafst góður tími til að kynnast henni. Ég man hve gaman var að sjá hversu
hratt og fumlaus hún gekk til allra verka. Á morgnana var byrjað á að
kveikja á kaffikönnunni og Carmen-rúllunum, spegli komið fyrir á
eldhúsborðinu, rúllunum komið í hárið í einni andrá, kaffinu og
morgunnaslinu gerð skil áður en rúllurnar voru teknar og hárgreiðslan
fullkomnuð. Síðan var komið að klæðnaði sem Ásta lagði áherslu á að væri í
sétteringu. Hún var há og grönn, klæddist vel og hana prýddi dökka hárið
og fallegu brúnu augun. Fannst mér hún oft stórglæsileg þegar hún var búin
að undirbúa sig fyrir vinnudaginn. En með góða skipulaginu var Ásta líka að
skapa sér gæðastund fyrir vinnu, þar sem hún gat sest niður um stund með
handavinnuna sína en hún hafði ætíð unun af handavinnu sem hún sinnti allt
þar til hún hafði misst sjón og styrk á hennar síðustu árum. Ég hafði ekki
búið lengi undir hennar þaki þegar við tókum saman fyrstu hlátursköstin
og áttu þau eftir að verða mörg eftir það. Það var gaman að ræða við Ástu
um lífið og tilveruna. Hún hafði gott minni og góða frásagnargáfu sem tókst
á flug þegar hún rifjaði upp gamlan tíma. Ásta var ekki upptekin af ytri
upphefð. Meira um vert þótti henni að vera vel metin sem móðir og húsmóðir
af börnum sínum. Syni mínum, Elvari Þór, reyndist hún einstaklega góð amma
og vinur. Þær eru ótalmargar minningarnar af þeim tveimur saman sem eru mér
dýrmætar. Eina þeirra, sveipaða kyrru og hamingjukennd, geymi ég kirfilega
en hún tengist einni af mörgum sögustundum í sumarbústaðnum í Skorradal þar
sem sonurinn hlustar af athygli á ömmuna lesa sögu fyrir svefninn. Ásta
sýndi mér alltaf umhyggju. Lýsandi er þegar ég ákvað að temja mér
makróbíótískt fæði til að styrkja heilsuna. Þá var þessi mikla matmóðir
tilbúin að kollvarpa hinni hefðbundnu matargerð og þreifa sig áfram við að
búa til bragðgóðan mat og bakkelsi án þeirra meðala sem hún kunni svo vel
að nota. Meira var um vert að hún hjálpaði mér að gera þetta ferli
skemmtilegra. Man ég eftir matarpælingu sem við áttum á leiðinni í bæinn
frá Skorradal sem við náðum að ljúka með fullþróuðum rétti eftir að keyrt
var inn Hvalfjörðinn. Gekk sá réttur að sjálfsögðu undir heitinu
Hvalfjarðarrétturinn. Samverustundirnar á Boðagrandanum eru ferskar í
minningunni: Ásta sitjandi í hægindastólnum og ég teygi úr mér í sófanum.
Meðan við mölum dotta ég, mett af góðum trakteringum og góðri samveru.
Vakna síðan endurnærð með teppi sem Ásta hafði sveipað mig eftir að höfginn
tók yfir.
Ásta var tengdamóðir mín í næstum aldarfjórðung og amma sonar míns í
yfir 35 ár. En að þeim hlutverkum slepptum sem gefin eru eða valin, þá
áttum við Ásta það dýrmætasta sem hægt er að deila í þessu lífi
kærleiksþráð sem aldrei brást.
Ég þakka forsjóninni fyrir Ástu og Ástu fyrir allt það sem hún var okkur
Elvari Þór.
Ásthildur Elva Bernharðsdóttir