Sveinn Steinsson fæddist á Hrauni á Skaga 9. september 1929. Hann lést á Landakoti 21. maí 2021. Foreldrar Sveins voru Steinn Leó Sveinsson, bóndi og hreppstjóri, f. 17. jan. 1886, d. 27. nóv. 1957, og Guðrún Kristmundsdóttir húsfreyja, f. 12. okt. 1892, d. 24. okt. 1978. Sveinn var sá níundi í röð 12 systkina, 11 náðu fullorðinsaldri en eitt dó í frumbernsku. Þau eru: Gunnsteinn, f. 10. jan. 1915, Guðrún, f. 4. sept. 1916, Rögnvaldur, f. 3. okt. 1918, Svava, f. 17. nóv. 1919, Guðbjörg, f. 30. jan. 1921, Tryggvina, f. 7. apr. 1922, Kristmundur, f. 24. jan. 1924, Svanfríður, f. 18. okt. 1926, Ásta, f. 27. nóv. 1930, Hafsteinn, f. 7. maí 1933, og Hrefna, f. 11. maí 1935. Eina eftirlifandi systkinið er Svanfríður.
Sveinn giftist 10.12. 1955 Pálínu Önnu Jörgensen, f. 9.9. 1935, d. 5.4. 2015. Foreldrar hennar voru Halla Soffía Hjálmsdóttir, f. 12.5. 1910, d. 2.9. 1988 og Lauritz Constantin Jörgensen, f. 4.3. 1902, d. 23.7. 1952. Börn Sveins og Önnu eru: 1. Erla Hrönn, f. 1955, fv. sambýlismaður Jón Magnússon, börn: Magnús, sambýliskona Sigurrós Jakobsdóttir, börn: Jón Arnór og Hinrik Aron, og Anna Katrín, sambýlismaður Ólafur Hannesson, barn með Þorsteini Thorarensen: Embla Mey. 2. Steinn Leó, f. 1957, kona hans er Kristín Dís Kristjánsdóttir, börn: Kristján Leó og Ragnheiður Anna, börn Steins frá fyrra hjónabandi með Ágústu Sigurðardóttur: Sigríður Halla, gift Gunnlaugi Sigurðssyni, börn: Jökull Logi, Freyja Ísold og Katla Katrín, Íris Dröfn, sambýlismaður Guðni Sigurjónsson, börn: Hildur María, Sölvi Steinn og Haukur Hrafn, og Sveinn, kona hans er Ana Vanessa, börn: Marta María, barn Sveins með Hafdísi Þórsdóttur er Alexandra Ósk. 3. Drengur, f. og d. 1963. 4. Birgitta, f. 1968, sambýlismaður Stefán G. Indriðason, börn: Hákon Ingi, sambýliskona Linda B. Valbjörnsdóttir, barn: Stefán Heiðar, Vala Rún, sambýlismaður Dagur Hjálmarsson, Hulda Ósk, f. og d. 2001, Óskar Aron og Bríet Bergdís.
Sveinn ólst upp í foreldrahúsum á Hrauni þar sem hann gekk að öllum störfum í sveitinni, jafnt til sjós og lands. Sumarið 1953 kom að Hrauni 18 ára kaupakona, Anna Jörgensen, og felldu þau hugi saman. Leiðir þeirra beggja lágu suður á land og um haustið fluttu þau að Sólheimum í Grímsnesi. Árið 1954 stofnuðu þau heimili í Reykjavík og vann Sveinn hjá Vegagerðinni við ýmis störf. 1961 fluttu þau aftur að Sólheimum, þar sem hann sinnti starfi bústjóra. Árið 1965 fluttist hann ásamt fjölskyldunni að Geitagerði í Skagafirði þar sem hann gerðist bóndi og bjó þar til ársins 2003. Í gegnum tíðina sinnti hann ýmsu félagsstarfi sem og trúnaðarstörfum. Barnabörnin hans dvöldu oft hjá honum í sveitinni og nutu þar hlýju og ástúðar. Hann gaf sér ávallt tíma til að spjalla við og hafa þau með sér. Árið 2003 hætti hann búskap. Eftir það var hann ýmist fyrir norðan eða í Reykjavík, þar sem þau Anna hreiðruðu um sig. Eftir andlát Önnu flutti hann í Furugerði 1 þar sem hann bjó sín síðustu ár. Þar átti hann góðan tíma og var virkur í öllu félagsstarfi. Hann var handlaginn og bæði skar út í timbur og bjó til fallega glerverksmuni. Prýða þeir nú heimili afkomendanna.
Útförin fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 4. júní 2021, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni.
Afi átti stóran sess í æsku minni og var minn besti vinur, ásamt Snata. Þær voru ófáar stundirnar sem afi sat með mér og við lékum saman, hvort sem það var gripið í spil, púslað eða leikið með kubba þar sem við ýmist byggðum býli eða glímdum við glæponinn hann Skrögg. Einnig lékum við mikið með leikfangadýr og minnist ég þess svoleiðis að hefði afi átt eitthvað erindi í Krókinn hafi hann yfirleitt alltaf komið til baka með ný dýr í safnið.
Það var hægt að ganga að því vísu að hægt væri að leita til afa ef eitthvað bjátaði á eða ef manni leiddist. Hann tók manni alltaf opnum örmum og veitti hlýju, sagði manni sögu eða dró fram eitthvað spennandi sem kallaði fram bros á augabragði. Ég minnist þess að hafa vaknað á nóttunni og skriðið upp í til afa frekar en foreldranna eða jafnvel gengið í svefni og vaknað í rúminu hjá afa, þrátt fyrir að það hefði þurft að ferðast milli hæða til þess.
Eftir að afi flutti suður til Reykjavíkur til ömmu var heldur aldrei komið að tómum kofunum þar. Ég hugsa að afi hafi á tímabili verið einn helsti viðskiptavinur Tiger á Laugaveginum því alltaf átti hann til nýjar græjur úr Tiger og iðulega var maður leystur út með einhverju þaðan eða handverki. Afi var nefnilega einkar laginn í höndunum og gerði mörg falleg gler- og útskurðarlistaverk sem hver sem er gæti verið stoltur af, og ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að eiga slíkar gersemar.
Afi var svo magnaður að hann keypti sér spjaldtölvu á gamals aldri til þess að geta haldið sambandi við fjölskylduna. Það var frábært að geta hringt og spjallað við afa í mynd, þrátt fyrir að vera hvor í sínum landshlutanum, sem við gerðum mjög reglulega. Sér í lagi hafði afi gaman af því að spjalla við Stefán Heiðar eftir að hann fæddist og gat spjallað við hann. Hann ávarpaði Stefán Heiðar ávallt sem höfðingjann og náðu þeir vel saman. Stefán Heiðar sýndi langafa sínum leikföngin sín og lék við hann í gegnum skjáinn og var jafnvel farinn að biðja um að hringja í langafa, sem mér þykir mjög vænt um.
Þær eru margar minningarnar til að ylja sér við, hvort sem það eru sveitastörfin í Geitagerði, veiðiferðir út á Skaga, skreppurnar í Bónusvídeó eða heimsókn til þín í Furugerði. Það væri langur listi ef það ætti að koma honum öllum í orð, en ég er mjög þakklátur fyrir allar okkar samverustundir.
Stundin líður, tíminn tekur,
toll af öllu hér,
sviplegt brotthvarf söknuð vekur
sorg í hjarta mér.
Þú veitir yl í veröld kaldri
vermir ætíð mig,
að hafa þó á unga aldri
eignast vin sem þig.
Þú varst ljós á villuvegi,
viti á minni leið,
þú varst skin á dökkum degi,
dagleið þín var greið.
Þú barst tryggð í traustri hendi,
tárin straukst af kinn.
Þér ég mínar þakkir sendi,
þú varst afi minn.
(Hákon Aðalsteinsson)
Hákon Ingi Stefánsson.