Þuríður Saga Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 26. júní 1965. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 21. maí 2021.
Foreldrar hennar voru Guðmundur H. Karlsson stýrimaður, f. 7.12. 1932, d. 30.6. 2010, og Þóra Kjartansdóttir leikskólaliði, f. 8.5. 1944, d. 25.12. 2013.
Systkini Þuríðar eru: Karl skipstjóri, f. 1963, Sigurbjörg Unnur bókari, f. 1967, og Kjartan Ísak fasteignasali, f. 1971.
Dóttir Þuríðar eru Þóra Ýr Björnsdóttir birtingarstjóri, f. 21.4. 1983, synir hennar eru Benjamín Einir og Baltasar Leon, f. 20.10. 2017.
Þuríður giftist Guðbjarti Karli Ingibergssyni, f. 21.9. 1959, þau slitu samvistir. Barn þeirra er: Halldór Einir flugmaður, f. 7.5. 1985, giftur Huldu Magnúsdóttur, f. 18.10. 1985, börn þeirra eru: Heiðbrá Clara, f. 16.6. 2008, Þuríður Brynja, f. 19.4. 2009, og Þórdís Saga, f. 12.7. 2018.
Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 4. júní 2021, klukkan 15.
Það var átakanlegt að fylgjast með baráttu hennar við veikindi sín síðasta ár en jafnframt aðdáunarvert. Hún barðist af miklu æðruleysi og kjarki eins og hennar var von og vísa. Húmornum tapaði hún aldrei þótt mjög væri af henni dregið. Hennar fyrsta hugsun var alltaf að huga að öðrum frekar en að dvelja við eigin líðan.
Þurý var í mínum huga hæglátur töffari, hún var í senn hörð og mjúk í réttum hlutföllum. Hörkudugleg kona. Hún kom vel fyrir og átti góða vini og fjölskyldu sem stóðu með henni allar götur. Hún stóð líka með sínum.
Ég veit að henni hefði ekki hugnast að ég færi með mikla langloku um ágæti hennar, en þar er af nógu að taka, og ætla ég að virða það. Hún var þó systir mín í þau tæpu 56 ár sem hún lifði og því fórum við saman í gegn um æsku-, unglings- og fullorðinsár. Ég get fullyrt að við elskuðum hvort annað alla tíð en okkur líkaði ekki alltaf hvoru við annað, sérstaklega á unglingsárunum, þá vorum við bæði glötuð og vorum nokkuð sammála um það.
Þar sem ég er á sjó í dag og get því ekki tekið þátt í deginum með fólkinu okkar langar mig því að segja við þig: Þurý, þú varst litla systir mín, þú ert og verður stór hluti af lífi mínu og minna og þannig verður það. Mér þótti vænt um þig og ég fann alltaf að þér þótti vænt um mig. Takk fyrir þig.
Þóru, Dóra og fjölskyldum og öðrum ættingjum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Karl Guðmundsson.