Þorgerður Egilsdóttir, Grímsstöðum, Mývatnssveit, fæddist 3. desember 1927 á Húsavík. Hún lést á HSN Húsavík 31. maí 2021.

Foreldrar hennar voru Egill Jónasson hagyrðingur á Húsavík, f. 27. desember 1899, d. 18. júlí 1989, og Sigfríður Kristinsdóttir húsfreyja, f. 23. ágúst 1903, d. 29. júlí 1979.

Systkini Þorgerðar: Jónas, f. 17. ágúst 1923, d. 13. apríl 1998, og Herdís, f. 18. júlí 1934.

Hinn 6. nóvember 1946 giftist Þorgerður Steingrími Jóhannessyni, f. 23. febrúar 1921, d. 23. desember 1986. Börn þeirra eru: 1) Brynjólfur, f. 13. maí 1947, maki Guðrún Helga Össurardóttir, f. 4. desember 1951, eignuðust þau fimm börn. 2) Sigfríður, f. 26. júlí 1948, maki Gunnar Ellertsson, f. 3. desember 1944, d. 11. ágúst 2002. 3) Egill, f. 12. ágúst 1949, maki Þuríður Snæbjörnsdóttir, f. 10. ágúst 1951, eiga þau þrjú börn. 4) Jóhannes, f. 8. ágúst 1950, maki Kristín Halldórsdóttir, f. 11. janúar 1951. Áður kvæntur Sólveigu Sveinu Sveinbjörnsdóttur, f. 18. apríl 1952, d. 10. október 1989, og eignuðust þau þrjú börn. 5) Arnfríður, f. 9. október 1951, d. 10. október 1951. 6) Friðrik, f. 25. maí 1954, maki Hrönn Björnsdóttir, f. 26. desember 1955, eiga þau tvö börn. 7) Elín, f. 22. október 1959, og á hún eina dóttur. 8) Herdís, f. 10. júlí 1961, maki Karl Viðar Pálsson, f. 14. maí 1947, og eiga þau tvö börn. 9) Helga, f. 18. nóvember 1962, maki Sigmundur Sigurjónsson, f. 16. desember 1958. Helga á fjögur börn.

Þorgerður verður jarðsungin frá Reykjahlíðarkirkju í dag, 12. júní 2021, klukkan 14. Streymt verður frá athöfninni á:

https://youtu.be/S4qMdZ20rpE.

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://mbl.is/andlat/

Látin er elskuleg tengdamóðir mín Þorgerður Egilsdóttir eða Dogga eins og hún var ætíð kölluð. Ég kynntist Doggu er ég fór að slá mér upp með honum Billa árið 1971. Billi er frumburður þeirra hjóna, hennar og Steingríms eiginmanns hennar. Með okkur tókust góð kynni og áttum við margar góðar stundir þrátt fyrir að við Billi stofnuðum okkar heimili á höfuðborgarsvæðinu. Dogga og Steingrímur komu oft á tíðum suður þegar fór að hægjast um hjá þeim. Börnin farin að stofna sín eigin heimili eitt af öðru. Þau nutu þess að fara í bændaferðir á Hótel Sögu, landbúnaðarsýningar, leikhúsferðir, voru bæði mjög vinmörg, frændrækin og félagslynd. Oft var kátt á hjalla í Lambhaganum þegar amma og afi komu í heimsókn. Komu þá gestir víða að til að hitta þau hjón.

Tengdamamma eignaðist 9 börn, 8 þeirra komust á legg, sem öll byrjuðu sinn búskap í Mývatnssveit nema Billi. Í dag búa 3 þeirra á Eyjafjarðarsvæðinu, 4 í sveitinni og við í Garðabæ, en höfum byggt okkur hús á Grímsstöðum, þar sem er ljúft að dvelja part úr árinu.

Það var henni mikið gleðiefni þegar að við ákváðum að byggja á Grímsstöðum og kom hún oft í heimsókn að skoða framvindu mála hjá okkur.

Alltaf var Dogga góð heim að sækja og var oft á tíðum þröngt setið í eldhúsinu hennar, spjallað og hlegið, sagðar sögur, kveðist á, rifjaðar upp minningar, þjóðmálin rædd o.fl. Ekki var slegið slöku við veitingar sem ætíð voru reiddar fram, enda búrið ævinlega fullt af allskonar góðgæti. Barnabörnunum þótti aldeilis gott að geta farið í baukana hennar ömmu.

Mér datt oft í hug að tengdamamma hefði fleiri tíma í sólarhringnum heldur en aðrir, því hún kom oftast miklu meira í verk, eins og margskonar handavinnu, mála á tau og leir, sauma fatnað á börn og barnabörn, prjóna á prjónvélina og fleira. Hún blés nú ekki úr nös við að gera að fullum bala af silungi þegar tengdapabbi kom af vatninu, ónei, það kom í hennar hlut að salta aflann og undirbúa fyrir reyk. Hún var ótrúlega létt á fæti og glöð til allra verka þrátt fyrir langan vinnudag og stórt og gestkvæmt heimili.

Eitt var það sem henni fannst skemmtilegt og það var að spila á spil og/eða leggja kapal. Kunni hún ótal kapla og var óspör á að kenna barnabörnunum nýja kapla, enda öll mín börn og barnabörn mikið fyrir að spila.

Hún eignaðist orgel og síðar hljómborð og lærði á það einn vetur í tónlistarskólanum, en sökum anna vannst ekki tími til að stunda tónlistarnámið frekar.

23. desember 1986 breyttist mikið í lífi Doggu, þegar Steingrímur tengdapabbi féll frá fyrir aldur fram. Var það mikill söknuður sem lagðist yfir heimilið að sjá á bak góðum og elskulegum eiginmanni og föður, að ég tali nú ekki um barnabörnin sem voru augasteinar afa síns. En það áttu eftir að fæðast fleiri barnabörn svo og barnabarnabörn, sem fundu ást og umhyggju hjá ömmu Doggu, sem var miðpunktur alls er þau komu í sveitina. Öll fengu þau hlýtt faðmlag, koss á kinn, stroku á vanga og voru umvafin þeirri hlýju sem auðkenndi hana alla tíð.

Mikill er söknuður allra afkomenda hennar og tengdabarna, en líf Doggu var ríkt og öll sú elska sem hún skilur eftir sig er okkur leiðarljós í framtíðinni.

Hún var mér sem önnur móðir og kenndi mér margt, trúnaðarvinur og hjálparhella. Oft á tíðum taldi hún ekki eftir sér að koma suður og aðstoða okkur hjón er erfiðleikar steðjuðu að og verður það seint fullþakkað.

Dogga dvaldi á dvalarheimilinu Hvammi, Húsavík, síðustu árin og líkaði vel að vera komin aftur heim í fæðingarbæ sinn. Hún þekkti vel til bæði vistmanna og hjúkrunarfólks. Naut sín vel að taka þátt í félagslífinu, spila bingó og boccia.

Starfsmönnum öllum bæði í Hvammi, Skógarbæ og sjúkrahúsinu er þakkað af alúð sitt góða starf í umönnun hennar til hins síðasta.

Milda blíða móðurhönd,

mjúkt þú straukst um vanga.

Nú ertu horfin í ókunn lönd,

þar áttu nýja vanga.

(BS)

Guð blessi minningu tengdamóður minnar.


Guðrún Helga Össurardóttir