Axel Axelsson málarameistari var fæddur í Reykjavík 29. maí 1945. Hann lést 13. júní 2021.
Foreldrar Axels voru Axel Björnsson matsveinn, f. 1911, d.1981, og Katrín Júlíusdóttir, húsmóðir og verslunarkona, f. 1915, d. 1997.
Börn þeirra og systkini Axels: Júlíus Viðar Axelsson, f. 1935, d. 1959, Auður Axelsdóttir, f. 1939, Jóhanna Axelsdóttir, f. 1941, Sigrún Axelsdóttir, f. 1947, Edda Axelsdóttir, f. 1953, Björn Axelsson, f. 1957.
Eftirlifandi eiginkona Axels er Dagbjört Sólrún Guðmundsdóttir, f. 27.12. 1948. Foreldrar hennar voru Guðmundur Björnsson vélstjóri, f. 1913, d. 1950, og Brynhildur Einarsdóttir húsmóðir, f. 1923, d. 2018.
Börn Axels og Dagbjartar eru Brynhildur Axelsdóttir, f. 1971, maki Einar Ingvar Guðmundsson, f. 1966. Synir þeirra eru: Breki Einarsson, f. 1996, Marteinn Einarsson, f. 1998, Kormákur Tumi Einarsson, f. 2005.
Júlíus Viðar Axelsson, f. 1973, maki Margrét Sif Hafsteinsdóttir, f. 1966. Dætur þeirra eru: Dagbjört Ellen Júlíusdóttir, f. 2000, og Guðrún Emma Júlísudóttir, f. 2001.
Sólrún Axelsdóttir, f. 1974, maki Árni Örn Bergsveinsson, f. 1968. Synir Sólrúnar eru: Aron Ingi Andrésson, f. 1993, og Axel Sölvi Garðarsson, f. 2001. Dóttir Árna er Sóley María Árnadóttir, f. 1991.
Óskírð Axelsdóttir, d. 1985.
Ívar Örn Axelsson, f. 1987, maki Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir, f. 1991. Börn þeirra eru Mattías Inza Togola, f. 2014, Elsa Katrín Ívarsdóttir, f. 2018, og Kári Björn Ívarsson, f. 2020.
Axel lærði málaraiðn hjá Sigurði Ingólfssyni í Reykjavík á árunum 1964-68. Lauk prófi frá Iðnskólanum og sveinsprófi 1968 og fékk meistarabréf 1978.
Útför Axels fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 24. júní 2021, kl. 13.

Elsku pabbi minn, þá er komið að kveðjustund. Kveðjustund sem kom allt of snemma en vitað var hvert stefndi eftir að þú greindist með Alzheimer. Þótt erfitt væri að upplifa hvernig þessi sjúkdómur leikur fólk grátt mjög hratt var aðdáunarvert að sjá hvernig þú tókst á við hann af æðruleysi og reisn og þar skipti mestu máli þín einstaklega góða skapgerð. Sama hvað var þá var alltaf stutt í húmorinn og góðlátlegan hláturinn. Og þrátt fyrir allt fengum við mjög góðan og dýrmætan samverutíma þessi ár sem þú glímdir við sjúkdóminn og er ég mjög þakklát fyrir það.
Það var svo gaman að fara með þér í göngutúra, skreppa á kaffihús og fá okkur kaffi eða jafnvel bjórglas eða að fá þig í heimsókn á Hraunteiginn og sitja úti í garði á góðviðrisdögum og hlusta á góða pabbatónlist. Tónlist var svo stór hluti af þér og uppáhaldstónlistin þín síaðist inn í okkur systkinin í barnæsku og við búum að því að geta sungið reiprennandi hina ýmsu kántríslagara og önnur gamalkunn lög frá 6. og 7. áratugnum.
Þú varst ávallt hrókur alls fagnaðar á gleðistundum og söngmaður mikill. Þú hafðir líka gaman af að dansa og mér fannst mjög gaman að dansa við þig og láta þig snúa mér í alls konar hringi á dansgólfinu.
Þú elskaðir líka jólin, að fá góðan jólamat það gladdi þig alltaf jafn mikið. Enda varstu matmaður mikill og það var alltaf gaman að bjóða þér í mat og sama hvað var á borð borið þá endaðir þú á að segja þetta var alveg frábær matur. En það eftirminnilegasta í mínum huga við jólin var þó að sækja hvítölið niður í bæ með pabba. Þetta var uppáhaldsdrykkurinn minn þegar ég var lítil og það var alltaf viðburður og mikil tilhlökkun að fara með þér í Ölgerðina og láta fylla á brúsann.
Þú varst góður og mjúkur maður með gott hjartalag. Forðaðist helst allt vesen, þrætur og röfl og varst ekki mikið fyrir að rökræða málin og vildir helst bara hespa hlutina af, ekkert múður og mas.
Þú þreifaðir fyrir þér með alls kyns áhugamál í gegnum tíðina. Keyptir þér veiðigræjur og byssu en þú hafðir aldrei hjarta í þér að deyða neitt kvikt, ekki einu sinni ormana sem áttu að fara á öngulinn. Þú keyptir þér líka bát og ætlaðir að fara að stunda siglingar en það var helst til of mikil vosbúð fyrir þig.
En þegar þið mamma ákváðuð að kaupa sumarbústaðarlóð við Apavatn og reistuð þar sumarbústað fannstu fjölina þína. Þú elskaðir að vera fyrir austan, að gróðursetja og dytta að og þegar þú varst kominn í stígvélin og köflótta skyrtujakkann, með skóflu í hönd og sláttuvélina á kantinum, þá varstu sko í essinu þínu. Það var alltaf gaman að koma austur í Dagsel og heimsækja ykkur mömmu, fá að hjálpa aðeins til og fá svo eitthvað gott að borða hjá grillmeistaranum að loknu góðu dagsverki. Dagsel var sannkallaður sælureitur ykkar mömmu og þar naust þú þín einstaklega vel.
Elsku besti pabbi minn. Nú þegar komið er að leiðarlokum kemst ég ekki hjá því að hugsa að ég hefði svo sannarlega viljað fá að hafa þig meðal okkar miklu lengur. Það hefði verið yndislegt ef þú og mamma hefðuð getað notið efri áranna lengur saman, leikið við yngstu barnabörnin í sveitinni, borðað með okkur jólamatinn og þú haldið áfram að snúa okkur öllum í hringi í trylltum dansi á gleðistundum.
En þótt margs sé að sakna þá er líka svo margt að þakka fyrir og ég er svo þakklát fyrir þig, elsku pabbi.
Ég trúi því að þú hafir átt gott líf, einfalt og gott eins og þú vildir hafa það, þótt vissulega hafi líka gefið á bátinn og sorgin barið að dyrum. Ég trúi því líka að nú fáir þú að hitta dóttur þína sem við fengum ekki tækifæri á að kynnast og að þú vefjir hana sömu ást og umhyggju og þú gafst okkur systkinum hennar.
En eitt er líka alveg víst, að einhvers staðar þarna uppi í Sumarlandinu tekur þú lagið með fólkinu þínu sem á undan er gengið og ekki síst ömmu Kötu sem var þér svo kær. Takk fyrir allt elsku pabbi og vertu blessaður, í bili.



Brynhildur Axelsdóttir.