Sólveig Katrín Hallgrímsdóttir fæddist á Fæðingarheimili Reykjavíkur 21. júní 1977. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 17. júní 2021.
Foreldrar hennar eru Hallgrímur Valberg Jónsson, f. 30. júní 1954 og Þórdís Ásgerður Arnfinnsdóttir, f. 20. mars 1955. Þau slitu samvistum og núverandi eiginmaður hennar er Gylfi Jónsson, f. 29. ágúst 1941 og núverandi eiginkona Hallgríms er Supannee Runarun, f. 16. desember 1981.
Systkini Sólveigar eru Tinna Hallgrímsdóttir, f. 26. október 1989, Erla Arnbjarnardóttir, f. 20. júní 1984, Fjölnir Hallgrímsson, f. 7. október 1991, d. 16. nóvember 1991, Ólafur Lárus Gylfason, f. 18. júlí 1982, og Einar Ágúst Gylfason, f. 11. október 1986. Fyrrum sambýlismaður Sólveigar er Sævar Jón Gunnarsson, f. 11. nóvember 1974, þau eignuðust einn son, Sölva Jón Sævarsson, f. 8. október 1997, eiginkona hans er Rachel Emily Cooper, f. 17. febrúar 1999.
Solla hóf grunnskólanám í Varmalandsskóla þar sem hún var á heimavist, þar átti hún mjög góða tíma en lauk síðan sinni grunnskólagöngu frá Grunnskólanum í Borgarnesi. Þaðan lá leið hennar í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Árið 1997 eignaðist hún Sölva Jón sem var langþráður draumur hjá henni þrátt fyrir ungan aldur. Solla var alltaf harðdugleg og var í ýmsum störfum og yfirleitt í fleiri en einu starfi á sama tíma. Árið 2011 flutti hún á Bifröst og hóf þar nám í háskólanum. Hún lauk frumgreinadeild, BS gráðu í viðskiptafræði og loks MS í forystu og stjórnun vorið 2016. Þegar náminu lauk festi hún kaup á draumahúsinu á Akranesi og fluttist þangað aftur. Síðastliðinn tvö ár starfaði Solla hjá Akraneskaupstað.
Útför Sólveigar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 1. júlí 2021, og hefst athöfnin klukkan 13. Streymt
verður frá útförinni á vef Akraneskirkju. Slóð á streymið:
https://www.akraneskirkja.is/.
Virkan hlekk má einnig nálgast
á: https://www.mbl.is/andlat/.
Þeir sem þekkja mig telja mig tala hærra og meira en flestir en ég benti þeim þá stundum á að þeir hefðu aldrei hitt Sollu sem var alltaf háværasta manneskjan í herberginu, og það sem við gátum nú spjallað saman og sagt sögur! Það er sárt að vita að ég fái ekki aftur að heyra löngu sögurnar hennar, hláturinn hennar og ákefðina í öllu sem hún gerði en eftir sitja dýrmætar og góðar minningar. Ég er þakklát fyrir hvað við fengum margar góðar stundir á árinu og saman urðum við m.a. vitni að mögnuðustu norðurljósum sem við höfum séð í vetur sem verða mér hér eftir alltaf til minningar um hana.
Solla var einstök eins og þeir vita sem voru svo lánsamir að kynnast henni. Hún var kjarkaðri en flestir og hræddist ekki dauðann eftir síðasta slys sem hún lenti í og var skýr með það að ef kæmi til þess að hún hefði kost á því að gefa öðrum líf þegar hennar lyki væri það eindregin ósk hennar. Við aðstandendur hennar vorum einnig mjög samstiga í ákvörðun um líffæragjöf, því þannig var Solla. Hún var alltaf reiðubúin að aðstoða þá sem þurftu á að halda, hvort sem hún þekkti þá eða ekki og vildi öllum vel og er það ljós í myrkrinu fyrir okkur sem eftir stöndum að henni hafi orðið að þessari ósk sinni þegar hún gaf hjarta, lifur og nýru áfram. Ég veit að einhvers staðar í sumarlandinu er hún sameinuð Fjölni bróður okkar skælbrosandi yfir því að hafa getað lokið jarðvist sinni á þennan hátt.
Elsku Solla, takk fyrir allt. Ég er svo þakklát fyrir að þú komst af alvöru inn í líf mitt 2001 þegar við bjuggum saman á Ásvallagötu og varst mér mikilvæg og alltaf til staðar eftir það. Mikið sem það hefði verið gott að fá lengri tíma með þér en ég mun varðveita minningu þína svo lengi sem ég lifi.
Kveðja,
Tinna.