Unnur Ólafsdóttir fæddist á Akranesi 28. desember 1960. Hún lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 23. júní 2021. Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Jónsson, smiður á Kaðalsstöðum, f. 24.2. 1918, d. 22.7. 1998, og Þórunn Eiríksdóttir húsfreyja, f. 20.1. 1928, d. 29.12. 2003. Systur Unnar eru Sigrún Ólafsdóttir, f. 8.3. 1950, og Björk Ólafsdóttir, f. 21.12. 1965.
28.9. 1986 giftist Unnur Guðmundi Kristni Guðmundssyni rafvirkja, f. 13.1. 1961. Foreldrar hans eru Guðmundur Kristinn Erlendsson ráðherrabílstjóri, f. 3.3. 1932, d. 24.10. 2007, og Sigursteina Margrét Jónsdóttir verslunarkona, f. 5.5. 1936. Unnur og Guðmundur hófu búskap saman í Reykjavík árið 1980 en fluttust í Borgarnes árið 1981 og bjuggu þar uns þau fluttust að Kaðalsstöðum og tóku þar við búrekstri árið 1993. Árið 2007 fluttust þau að Miðhúsum í Strandabyggð.
Synir Unnar og Guðmundar eru Viðar, f. 20.2. 1982, tónlistamaður og bóndi í Miðhúsum í Strandabyggð, kvæntur Barböru Ósk Guðbjartsdóttur, f. 16.12. 1980, þroskaþjálfa. Börn þeirra eru Guðbjartur Þór, f. 2002, Unnur Erna, f. 2006, Þorsteinn Óli, f. 2008, og Ólafur Kristinn, f. 2010, og fósturdóttir þeirra er Andrea Messíana, f. 1995, og á hún dótturina Glódísi Helgu, f. 2020. Guðmundur Kristinn Guðmundsson, f. 26.6. 1986, búsettur að Laugarholti í Bæjarsveit, sambýliskona hans er Vibeke Thoresen, f. 3.11. 1996, reiðkennari og nemi. Fyrir átti Unnur Örnu Björk, f. 19.6. 1978, búsetta í Reykjavík, gifta Sigurði Bjartmari Valssyni, f. 20.12. 1976, börn þeirra eru Daníel Bjartmar, f. 1996, Guðbjörg Birta, f. 2000, og Emilía Steinunn, f. 2004.
Unnur Ólst upp hjá foreldrum sínum á Kaðalsstöðum í Stafholtstungum og stundaði grunnskólanám á Varmalandi. Unnur útskrifaðist frá Héraðsskólanum í Reykholti 1978 og sem sjúkraliði frá Sjúkraliðaskóla Íslands árið 1979. Unnur starfaði sem sjúkraliði og bóndi lengst af, þar að auki fékkst hún við tölvuþjónustu og umsjón tölvukerfa hjá ýmsum skólum í Borgarfirði. Unnur hafði áhuga á búskap, hvort sem hann tengdist búfénaði, hrossum eða skógrækt. Unnur var virk í félagsmálum og var m.a. í stjórn Hestamannafélagsins Faxa, Smalahundafélagi Íslands og Slysavarnadeild Þverárþings um tíma. Hún var alla tíð mikil hagleikskona og var henni margt til lista lagt. Hún sótti mörg námskeið tengd hvers kyns hannyrðum og handverk eftir hana prýða mörg heimili landsins.

Útför Unnar fer fram frá Reykholtskirkju í dag, 2. júlí 2021, og hefst athöfnin klukkan 14.

Unnur, elsku Unnur er farin yfir landamærin yfir til Sumarlandsins eilífa og græna. Það er töluverður tilfinningarússíbani sem hefur riðið yfir síðustu misserin en ég reyni helst af öllu að einblína á að grípa og næra góðu og fallegu tilfinningarnar sem komið hafa upp á þessari vegferð.
Það er ekki auðvelt að minnast Unnar í fáum orðum en mig langar að orða hér nokkrar hugleiðingar og minningar af henni.
Unni hitti ég fyrst á Kaðalsstöðum, í eldhúsinu nánar tiltekið. Viðarinn minn hafði laumað mér nokkrum sinnum í heimsókn í smíðaskúrinn þegar við vorum að byrja að hittast og þótti honum kominn sá tímapunktur að kynna mig fyrir foreldrum sínum þetta kvöld. Strax var mér vel tekið af tengdaforeldrum mínum enda ekki við öðru að búast. Öðlingar og yndisfólk með hjartað á réttum stað, munninn fyrir neðan nefið og alltaf stutt í húmorinn og gleðina.
Unnur kom mér strax fyrir sjónir sem dugleg, skipulögð, ráðagóð, réttsýn og hlý manneskja. Já sannkölluð kjarnakona með gríðarsterka réttlætiskennd. Hún var alltaf eitthvað að bauka og hafði alltaf nóg fyrir stafni. Hún tók mér og syni mínum afskaplega vel og ekki leið á löngu þar til sá stutti var farinn að kalla hana ömmu. Hún var alla tíð mjög handlagin og var á þessum tíma iðulega með prjóna í höndunum. Hún var góður kennari og kenndi mér að prjóna bæði pils og sokka. Ég var þó fljót að sjá að einfaldara var að biðja hana um prjónaflíkur og prjónaði hún fyrir mig það sem þurfti. Börnin áttu alltaf ullarsokka, ullarvettlinga og ullarpeysur eftir hana. Yfir árin fékkst hún við alls kyns hannyrðir og voru verkin hennar vönduð og falleg. Síðustu árin lagði hún m.a. stund á bútasaum og saumaði mikið magn af púðum, dúkum og rúmteppum. Barnabörnin fengu bútasaumteppi í fermingargjöf og eru þau hvert öðru fallegra, já sannkölluð listaverk. Unnur tók nokkur ljósmyndanámskeið og tók hún að sér að vera ljósmyndari fyrir okkur þegar veislur og merkis lífsviðburðir voru í fjölskyldunni. Unnur var hugmyndarík og nýtti bein, horn og hauskúpur af ám og hrútum og bjó til fallega muni úr þeim efnivið.
Unnur var mikill dýravinur og sinnti búfénaði sínum af mikilli natni og alúð. Hún lagði sig fram um að hafa sinn búfénað spakan og komu ærnar hennar iðulega hlaupandi til hennar til að fá klapp og gotterí þegar þær heyrðu í henni röddina. Hún, ásamt tengdapabba, hafði mikinn metnað í búskapnum og fyrir skemmstu fengu tengdaforeldar mínir viðurkenningu fyrir mestar afurðir eftir hverja á hér á Ströndum. Unnur var mikið í hestamennsku og naut sín virkilega vel á baki sem og í öllu stússi í kringum hrossin.
Það eru mikil forréttindi falin í því að fá að alast upp í nágrenni við ömmu og afa og þar eru börnin okkar Viðars engin undantekning. Ýmist höfum við búið í sama húsi eða í næsta húsi og fyrir það fæ ég seint fullþakkað. Það myndast djúp og góð tilfinningatengsl við svona mikla nálægð og ómetanlegt með öllu að hafa ömmu og afa með í uppeldinu. Ef það var vont í matinn heima þá var hlaupið uppeftir og athugað hvað væri í matinn hjá ömmu og afa. Unnur var yndisleg amma, hún var góð fyrirmynd fyrir börnin mín og hefur kennt þeim mikið og hún er ein af mínum helstu fyrirmyndum. Dugleg, góð, listræn, einbeitt, skipulögð, hjartahlý, með sterka réttlætiskennd og munninn fyrir neðan nefið.
Elsku Unnur. Takk fyrir að vera alltaf, alltaf til staðar fyrir mig. Takk fyrir allt sem þú prjónaðir handa mér og börnunum. Takk fyrir alla aðstoðina í fjárraginu og sauðburðinum. Takk fyrir að klippa Óla síðustu árin. Takk fyrir að kenna Unni að búa til jólaísinn. Takk fyrir að styðja Steina í fótboltanum. Takk fyrir að sækja gögnin í tölvuna hans Guðbjarts þegar Steini eyddi öllu út af henni. Takk fyrir að fara í ferðalög með börnunum mínum þegar við foreldrarnir vorum of upptekin við vinnu og bústörf. Takk fyrir að ala upp þennan dásamlega mann sem ég á í dag og takk fyrir að hlusta á tuðið í mér þegar Viðar gerði ekki nákvæmlega eins og ég vildi. Takk fyrir að kenna mér að takast á við lífið með æðruleysi og þakklæti. Takk fyrir allt og allt. Njóttu þín í Sumarlandinu við saumaskap, útreiðar, kindaklapp og glens og gaman í góðra vina hópi.

Barbara.