Margrét Ingibjörg Björnsdóttir fæddist 25. júní 1931 á Skatastöðum í Austurdal í Skagafirði. Hún lést á HSN á Sauðárkróki 23. júní 2021 eftir stutt veikindi.
Hún var dóttir Björns Þorsteinssonar bónda á Skatastöðum, f. 1.7. 1895, d. 9.1. 1979. Móðir hennar var Sólborg Jóhanna Júníusdóttir húsfreyja, f. 11.9. 1902, d. 1.5. 1939.
Bróðir Margrétar var Þorsteinn Lárus Björnsson, f. 20.6. 1923, d. 14.10. 2010, en þau voru samfeðra.
Eiginmaður Margrétar var Þórarinn Eymundsson bóndi í Saurbæ, f. 12.5. 1925, d. 13.8. 1976. Börn þeirra eru:
1) Eymundur, f. 26.8. 1951, d. 30.4. 2020, börn hans eru 1a) Ástríður Margrét, f. 1971, synir hennar eru Vignir Már og Orri Már Mássynir, 1b) Þórarinn, f. 1977, eiginkona hans er Sigríður Gunnarsdóttir, börn þeirra eru Eymundur Ás, Þórgunnur og Hjördís Halla, 1c) Hallgrímur, f. 1978, 1d) Heiðrún Ósk, f. 1985, eiginmaður hennar er Pétur Örn Sveinsson, dætur þeirra eru Árdís Hekla og Halldóra Sól.
2) Sólborg Jóhanna, f. 8.2. 1953, eiginmaður hennar er Hávarður Sigurjónsson, f. 17.7. 1948. Börn þeirra eru 2a) Hilma Dögg, f. 1981, börn hennar eru Hávarður Máni Hjörleifsson og Hanna Mist Sigurðardóttir, sambýlismaður Hilmu er Sigursteinn Már Jónsson og saman eiga þau soninn Guðmund Jóhann og 2b) Ósvald Hilmar, f. 1982, dætur hans eru Angela Ósk og Tanja Lind. Sambýliskona Ósvalds er Rannveig Aðalbjörg Hjartardóttir, börn hennar eru Arnar Finnbogi, Erla Rán, Sigríður Emma og Helga Mist.
3) Hörður, f. 14.8. 1955, eiginkona hans er Hafdís Halldóra Steinarsdóttir, f. 26.6. 1965. Dætur þeirra eru 3a) Sigþrúður Jóna, f. 1985, eiginmaður hennar er Sveinþór Ari Arason, börn þeirra eru Ísidór Sölvi og Ísafold Sól, 3b) Jóhanna Ey, f. 1988, eiginmaður hennar er Jón Kolbeinn Jónsson, börn þeirra eru Birkir Heiðberg, Hólmar Thor og Bergdís Birna, og 3c) Laufey Rún, f. 1993. 4) Hrefna, f. 7.1. 1957, eiginmaður hennar er Þorsteinn Kárason, f. 11.9. 1955. Þeirra börn eru 4a) Kári Björn, f. 1974, eiginkona hans er Sigríður Ellen Arnardóttir, og synir þeirra eru Guðni Freyr, Þorsteinn Ingi og Fannar Örn, 4b) Grétar Þór, f. 1983, sambýliskona hans er Ása Björg Ingimarsdóttir og börn þeirra eru Árelía Margrét, Ingimar Hrafn og Hafþór Nói, og 4c) Sunna Dögg, f. 1985.
Margrét ólst upp á Skatastöðum í Austurdal og gekk í barnaskóla í Akrahreppi. Hún missti móður sína níu ára gömul og Ingibjörg á Skatastöðum kom henni í móðurstað. Margrét fór snemma að heiman, hún fór 14 ára gömul sem vetrarmaður í Vindheima og síðan gekk hún í Gagnfræðaskólann á Siglufirði. Á sumrin vann hún við skógrækt hjá Sigurði Jónassyni í Varmahlíð.
Hún kynntist Þórarni í Varmahlíð og hófu þau búskap í Saurbæ árið 1950. Þórarinn féll frá árið 1976 og þremur árum síðar flutti Margrét til Sauðárkróks. Þar vann hún ýmis störf og bjó til æviloka.
Útför hennar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 6. júlí 2021, kl. 14 og jarðsett verður í Reykjakirkjugarði. Streymt verður frá athöfninni á Facebook-síðu Sauðárkrókskirkju. Stytt slóð á
streymið:

https://tinyurl.com/37kx8n84.
Virkan hlekk má finna á:
https://mbl.is/andlat.

Öllu er afmörkuð stund og allt hefur sinn tíma segir Prédikarinn. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma.(Pré .3.2)


Tími Möggu ömmu hér á jörðu var fullnaður þann 23. júní, tveimur dögum fyrir níræðisafmælið hennar. Hún hét fullu nafni Margrét Björnsdóttir en allir í fjölskyldunni kölluðu hana Möggu ömmu. Hún var langamma barnanna minna og við kynntumst fyrir meira en tuttugu árum, þegar ég ákvað að binda trúss mitt við sonarson hennar. Hún gaf sig lítið að mér til að byrja með enda lífsreynd kona sem vissi að kærustur koma og fara. Fljótlega tókust með okkur góð kynni. Magga var fædd á Skatastöðum í Austurdal og þar ólst hún upp með föður sínum og frændfólki. Hún missti móður sína ung og án efa hefur sá missir sett mark sitt á barnsálina fyrir lífstíð. Magga sagði mér margar skemmtilegar sögur af fólki á Kjálkanum og forfeðrum mínum í Flatatungu en Björn faðir hennar og Oddur afi minn voru vildarvinir. Á unglingsaldri fór hún til Siglufjarðar þar sem hún gekk í gagnfræðaskóla. Þaðan átti hún glaðar minningar sem hún rifjaði oft upp.
Árið 1950 flutti Magga í Saurbæ. Hún hóf búskap með unnusta sínum, Þórarni Eymundssyni og þar voru einnig móðir hans og systir. Kynslóðirnar bjuggu saman, kröfurnar töluvert minni enn við eigum að venjast. Húsið var ekki stórt og búið smátt í sniðum. Unga parið eignaðist fjögur börn á sex árum, þau uxu úr grasi og urðu mannbærilegt fólk. Sumarið 1976 knúði sorgin dyra og endurnýjaði kynni sín við Möggu en þá lést Þórarinn eftir skammvinn veikindi. Lífið hélt áfram þó allt væri breytt. Magga fékk sér vinnu og kom sér upp heimili á Króknum og fékk sér bíl. Hún starfaði m.a. í Loðskinni og á Sjúkrahúsinu og fannst gaman á báðum stöðum.
Magga var mikil ræktunarkona, blóm og tré voru henni að skapi. Hún elskaði bæði börn og dýr og var góð við menn og málleysingja. Hún hafði sterka réttlætiskennd, mátti ekkert aumt sjá og hlúði að lífinu í víðasta skilningi. Magga var alltaf að, vinnusöm og ósérhlífin. Hún var víkingur til vinnu og gaf karlmönnum ekkert eftir í útiverkum en var líka fyrirmyndar húsmóðir. Alltaf tilbúin að hjálpa öðrum ef hún mögulega gat. Hún var aldrei verklaus, ef hún settist niður vann hún margskonar handavinnu, saumaði út og prjónaði, allt gert af vandvirkni. Magga var lengi vel heilsuhraust, kná og snaggaraleg og jafnan kvik í hreyfingum. Hún tapaði sjón á efri árum, sem varð til þess að hún gat ekki keyrt, þess saknaði hún.
Amma Magga var glaðsinna, hláturmild, meinstríðin og hafði gaman af ærslagangi. Ég gleymi seint fyrsta jólaboðinu með tengdafjölskyldunni. Öll stórfjölskyldan var komin í Saurbæ, allir spariklæddir og hátíðlegir. Mikið var skrafað en svo allt í einu sló þögn á mannskapinn, eins og stundum gerist í samkvæmum. Þá veit ég ekki fyrr til en Magga flýgur á hálf fullorðinn dótturson sinn. Honum brá ekki nema augnabilk og þau langmæðgin glímdu með tilheyrandi látum og kútveltust fram og aftur um borðstofuna góða stund. Að slást við ömmu sína var eitthvað sem barnabörnin voru vön. Magga hafði áratuga reynslu af því að tuskast við stráka allt frá því hún var í skóla í Blönduhlíðinni og slóst við Einar föðurbróður minn sem þó var tveggja metra maður.
Magga var kjörkuð og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Einn sumardag stungu kýrnar af yfir ána og stefndu í leyfisleysi út á Borgareyju. Þannig stóð á að enginn var heima í Saurbæ nema Magga. Hún dó ekki ráðalaus þó komin væri á áttræðisaldur. Hestarnir voru í brekkunni og kjella náði sér í beisli og lagði við Yngri Sokka sem var sérstaklega næmur klár og snarviljugur. Vatt sér svo á bak og reið berbakt eftir kúnum. Við Tóti komum heim að bæ í þann mund sem Magga og Sokki töltu í hlað. Ég var alveg bit og aldrei var mér boðið á bak á Sokka, jafnvel þó ég hefði haft hnakk til að sitja á.
Amma Magga studdi börnin sín með ráðum og dáð, hafði óbilandi trú á sínu fólki og óð vatn og eld fyrir það ef með þurfti. Hún var frændrækin og hennar uppáhaldsstundir voru samverustundir með fjölskyldunni.
Margar minningar sækja á hugann við leiðarlok. Ég minnist Möggu ömmu með söknuði og þakklæti fyrir allt sem hún gerði fyrir mig og mína. Guð blessi minningu Margrétar Björnsdóttur.


Sigíður Gunnarsdóttir.