Pétur Hafstein Skaptason fæddist í Reykjavík 21. janúar 1945. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 23. júní 2021 eftir skammvinn en erfið veikindi.
Foreldrar hans voru hjónin Margrét Borghild Hafstein, f. 1919, d. 2008, og Skapti Jónsson, skipstjóri frá Hrísey, f. 1914, d. 1986. Systkini Péturs eru Elín Ebba Skaptadóttir, f. 1941, d. 2020, Þórunn Sóley Skaptadóttir, f. 1943, og Jón Skaptason, f. 1951.
Pétur kvæntist hinn 11. september 1965 Huldu Guðbjartsdóttur, sem lést fyrir aldur fram árið 2005. Foreldrar hennar voru hjónin Svava Arnórsdóttir, f. 1919, d. 1989, og Guðbjartur Stefánsson, bókari hjá Tollstjóraembættinu, f. 1919 í Reykjavík, d. 1975.
Börn Huldu og Péturs eru: 1) Svava, lektor við Háskóla Íslands, f. 10. feb. 1966, maki Gunnar Halldór Gunnarsson, Svava á tvo syni, Pétur og Jón Guðmundssyni. Gunnar á þrjár dætur, Kristínu Hrönn, Lilju Björgu og Bergþóru Sól. 2) Margrét, löggiltur endurskoðandi, f. 1. jan. 1968, maki Ína Björk Hannesdóttir. Margrét á tvo syni, Hans Þór og Óðin Hanssyni, og Ína Björk á þrjú börn, Laufeyju Ebbu, Þóri Sólbjart og Ellert Orra. 3) Gerður fræðslustjóri, f. 11. des. 1969, maki Jón Ben Einarsson, þau eiga Maríu og Skapta Benjamín. 4) Guðbjartur, veitingamaður í Danmörku, f. 11. des. 1969, maki Ragnheiður Jónsdóttir, þau eiga þrjár dætur, Anitu, Soffíu Huldu og Helgu Sigurbjörgu. 5) Hulda Sóley, framkvæmdastjóri Samskipa í Englandi, f. 6. okt. 1973, maki Leslie Robbins, Hulda á tvö stjúpbörn, Jessicu og Luke. 6) Iðunn viðskiptafræðingur, f. 23. ág. 1974, maki Stefán Kristinn Guðlaugsson, Iðunn á tvö börn, Svövu Tönju og Jón Georgsbörn, og Stefán á Fríðu, Kristin Frans og Atla Dag. Langafabörn Péturs eru nú 14 talsins.
Pétur bjó í Reykjavík fyrstu fjögur ár ævi sinnar en fluttist síðan með fjölskyldu sinni til Akureyrar. Þegar Skapti, faðir Péturs, réð sig til starfa hjá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1957 fluttist fjölskyldan til Indlands. Síðan bjó Pétur einnig með foreldrum sínum í Úrúgvæ og Argentínu en fluttist aftur til Íslands til að ljúka gagnfræðaskólanámi. Pétur lauk námi í vélvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1962 og hlaut meistararéttindi í sömu grein árið 1982.
Pétur starfaði hjá Vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík meðan á námi stóð og eftir að hann útskrifaðist og starfaði hann þar alls í 12 ár. Pétur hóf störf í Vélsmiðjunni Kópi í Innri-Njarðvík eftir að fjölskyldan fluttist til Keflavíkur árið 1974. Árið 1979 hóf Pétur störf sem verkstjóri hjá vélaverkstæði Keflavíkurbæjar og starfaði þar í 18 ár. Síðustu ár starfsævinnar vann hann hjá Teiti Jónassyni við farþegaflutninga og í Skipasmíðastöð Njarðvíkur.
Útför Péturs fer fram 12. júlí 2021 kl. 13.30 í Kálfatjarnarkirkju í Vogum.
Líf pabba var kaflaskipt eins og flestra í þessari veröld. Æskan var í byrjun tíðindalítil, fæddist í Reykjavík, fluttist til Akureyrar og gekk þar í barnaskóla í tvö ár. Árið 1957 dró til tíðinda þegar fjölskyldan öll fylgdi Skapta afa mínum til Indlands, þar sem hann hóf störf á vegum WHO sem fiskveiðiráðunautur. Á þessum árum voru ferðalög Íslendinga ekki mikil til framandi landa svo þetta hlýtur að hafa verið mikið ævintýri. Pabbi fór bara einn dag í skóla í Indlandi, að hans sögn, kennarinn sló hann utan undir, hann sló til baka og amma sagði stopp. Pabbi eyddi því dögunum í að skoða umhverfið og lenda í ævintýrum. Eitthvað hlýtur hann að hafa lesið af bókum því fróður var hann og upplýstur. Einn vetur var hann sendur heim í Héraðsskólann á Laugarvatni en náði bara tæpri önn því nú fluttist fjölskyldan til Argentínu og síðar Úrúgvæ. Amma var sjálf stúdent frá MR, sem þóttu tíðindi fyrir konu fædda árið 1919, fannst ómögulegt að pabbi fengi ekki menntun og sendi hann heim til að verða eitthvað eins og pabbi sagði. Hann fór í Gaggó Vest, kláraði verklega línu og datt síðan inn í Vélsmiðjuna Héðin sem var á næstu grösum. Þar og í Iðnskólanum í Reykjavík lauk hann prófi í vélvirkjun og ílengdist í Héðni næstu árin.
Þá var komið að næsta kafla þegar pabbi kynntist ungri Reykjavíkurmey, Huldu Guðbjartsdóttur, sem starfaði á Tollstjóraembættinu. Tilhugalífið var stutt og giftu þau sig 11. september 1965. Pabbi þurfti forsetabréf því hann var ekki orðin 21 árs. Fyrsta barnið kom í heiminn í byrjun árs árið 1966 og svo fimm börn til viðbótar á næstu átta árum. Ungu hjónin voru því orðin sex barna foreldrar aðeins 28 ára gömul. Fyrstu árin bjuggu þau í húsnæði foreldra pabba, eða til 1974 þegar þau fjárfestu í sínu fyrsta húsnæði. Fyrir valinu varð viðlagasjóðshús í Keflavík, af hverju? Jú, kjörin voru hagstæð og álitlegt að fá einbýlishús á verði íbúðar í Reykjavík. Líf mömmu og pabba breyttist þó mikið við þessa flutninga. Mikið dró úr samskiptum við vini og fjölskyldu því langt þótti til Keflavíkur og ungu hjónin ekki með mikinn frítíma. Má því segja að þau hafi einangrast félagslega. En þau voru samhent og kvörtuðu aldrei. Þau gerðu sitt besta úr litlum efnum og fundu ýmsar leiðir til að bjóða börnum sínum upp á tómstundir sem ekki kostuðu of mikið. Það var til dæmis ókeypis að læra á hljóðfæri ef barnið spilaði í lúðrasveitinni. Aðeins þurfti að greiða fullt gjald fyrir fyrsta barn í dansskóla o.s.frv. Pabbi byrjaði fljótlega eftir flutningana að vinna í vélsmiðjunni Kópi hjá frænda sínum Hákoni Kristinssyni. Þegar bakið fór að gefa sig eftir erfiðisvinnu síðustu ára var hann ráðinn verkstjóri á Vélaverkstæði Keflavíkur og starfaði þar við góðan orðstír í 18 ár. Mamma starfaði í fiskvinnslu um skeið og saman héldu þau heimilið. Pabbi var liðtækur kokkur og mamma mikil húsmóðir sem kenndi börnunum sínum að taka slátur, steikja kleinur, sauma föt og já allt sem húsmæður þurfa að kunna. Þau voru samrýmd og þeirra bestu stundir voru í sumarbústað fjölskyldu mömmu í Þrastaskógi. Eftir að amma dó og bústaðurinn fór í eigu bróður mömmu keyptu þau sér tjaldvagn og ferðuðust um landið. Einnig var sumarbústaður Skapta afa við Helluland í Hegranesi heimsóttur hvert sumar. Þá fór pabbi í heimsókn á bæina í sveitinni en hann hafði sem barn verið í sveit á Frostastöðum hjá frænku sinni.
Börnin fluttu svo eitt af öðru að heiman og eignuðust sínar fjölskyldur en skyndilega dró ský fyrir sólu. Mamma lést eftir skammvinn veikindi aðeins 59 ára gömul. Þetta fékk mikið á pabba og hann þurfti tíma til að finna nýjan takt. Gamlir draumar voru dregnir fram og rykið pússað af þeim. Að keyra þvert yfir Indland á mótorhjóli var of langsótt en draumurinn um að eignast húsbíl og ferðast innanlands sem utan rættist. Það var samt eins og pabbi endurfæddist og breyttist á þessum árum. Hann varð félagslyndari, sótti mikið til barna sinna og varð tíður gestur á heimili systra sinna sem áttu í honum trúnaðarvin. Það var í raun eins og við hefðum eignast nýjan pabba, pabba sem ferðaðist með okkur, datt inn í kaffi, hlustaði á raunir okkar og var alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd.
Lokakaflinn hófst árið 2008 þegar hann tók það gæfuspor að flytjast í Voga á Vatnsleysuströnd. Okkur öllum að óvörum tók hann ríkan þátt í starfi eldri borgara og eignaðist marga góða vini. Fyrir fjórum árum fluttist hann svo í Álfagerði þar sem íbúðir eldri borgara eru. Pabbi varð fljótt maðurinn sem íbúar leituðu til, það þurfti að stilla hita í íbúðunum, ná sjónvarpsrásum inn, skutla til læknis og já, fá klippingu. Það var fátt sem pabbi ekki gat og honum líkaði vel að hafa hlutverk og geta aðstoðað nágranna sína. Á móti fékk hann ríkulegan félagsskap og lífsfyllingu.
Fram á síðasta dag naut pabbi lífsins, heilsan hafði þó verið að stríða honum lengi en hann lét það ekki trufla sig og tók virkan þátt í lífinu.
Það er sorg í hjarta mínu vegna fráfalls pabba en jafnframt gleði og þakklæti fyrir að hafa átt svona góðan föður.
Farðu í friði, minn kæri.
Gerður Pétursdóttir