Tryggvi Ingólfsson var fæddur í Neðri-Dal undir Vestur-Eyjafjöllum 16. mars 1950. Tryggvi lést 5. júlí 2021, 71 árs að aldri.

Tryggvi var sonur hjónanna Þorbjargar Eggertsdóttur og Ingólfs Ingvarssonar sem bæði eru látin. Systkini Tryggva eru Ingvar, f. 1940 (látinn), Lilja, f. 1943, Svala, f. 1944 (látin), andvana fædd systir (1948). Fóstursystir Ásta Gréta Björnsdóttir, f. 1957.

Tryggvi og Elísabet Andrésdóttir frá Vatnsdal í Fljótshlíð gengu í hjónaband á nýársdag 1972. Foreldrar Elísabetar voru Þorgerður Guðrún Sveinsdóttir og Andrés Magnússon. Börn Tryggva og Elísabetar eru: 1) Finnur Bjarki, giftur Magneu Þóreyju og eiga þau fjögur börn. Elstur er Hilmar Tryggvi, í sambúð með Emelíu og eiga þau eina dóttur, Birnu Þóreyju, Andrea Ósk, í sambúð með Inga Birni og yngstir koma tvíburarnir Bjarki Leó og Bjartur Elí. 2)
Berglind Elva, á einn son, Róbert Sindra. 3) Þorbjörg, gift Guðmundi Ármanni og eiga þau þrjú börn, Böðvar Thor, Elvar Atla og Elísabetu Talíu. 4) Aníta Þorgerður, í sambúð með Árna Fal. Fyrir hjónaband átti Tryggvi soninn Guðmund og á hann einn son, Kristófer Orra.
Tryggvi ólst upp í Neðri-Dal hjá foreldrum sínum og lauk gagnfræðaprófi frá Skógaskóla árið 1966. Fór í kjölfarið út á vinnumarkaðinn þar sem hann stundaði sjómennsku í sex vertíðir frá Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn en hóf vörubílaútgerð árið 1973. Seinna tók við rekstur vinnuvéla og verkefni við jarðvinnu. Hann stofnaði verktakafyrirtækið Jón og Tryggvi ehf. með Jóni Óskarssyni árið 1980 og stóð rekstur þess næstu 26 árin. Fyrirtæki þeirra unnu að mörgum stórum verkefnum, m.a. gerð íþróttavalla í Mosfellsbæ, að Laugarvatni og í Laugardal í Reykjavík. Tryggvi var virkur í félagsmálum alla tíð, stofnfélagi Kiwanisklúbbsins Dímon og var um tíma formaður klúbbsins, að auki var hann félagi í björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli. Hann
var einnig liðtækur í starfi Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi. Tryggvi sat í hreppsnefnd Hvolhrepps 1986-1998 og gegndi jafnhliða því ýmsum trúnaðarstörfum. Sat í sveitarstjórn í nýsameinuðu sveitarfélagi Rangárþings eystra frá árinu 2002-2006.
Vorið 2006 lenti Tryggvi í alvarlegu slysi er hann féll af hestbaki, hlaut mænuskaða og lamaðist fyrir neðan háls. Vegna örlaga þessa slyss þurfti Tryggvi aðstoð við allar helstu athafnir daglegs lífs. Naut hann aðhlynningar á hjúkrunarheimili Ljósheima á Selfossi síðustu tvö árin þar sem hann lést í faðmi fjölskyldunnar.
Útför fer fram 13. júlí 2021, klukkan 14 í Selfosskirkju.

Það er komið að deginum, hinsta kveðja til pabba míns er orðin að raunveruleika.

Pabbi minn var ótrúleg manneskja og hann hefur farið í gegnum lífið með vægast sagt skrautlegum hætti og það er engin smá saga. Pabbi hafði ungur mikinn áhuga á ljósmyndun og var aðalstjarnan hjá honum í byrjun hundurinn Karó. Þessi áhugi fylgdi honum alla tíð. Eftir pabba liggja margar heimildir af myndefni sem við fjölskyldan fáum notið til framtíðar. Pabbi hafði áhuga á öllu sem viðkom vélum og tækjum enda starfaði hann lengst af við slík verkefni. Hann var vandvirkur og vinnusamur og lét verkin tala. Mikill bílaáhugamaður og mjög hrifinn af Volvo, stundum aðeins of að mér unglingum fannst þegar komnir voru tveir gulir í hlaðið og svo seinna einn grænn.

Vegna vinnu sinnar fór hann víða um Rangárvallasýslu og vann verkefni á ýmsum bæjum, þekkti sýsluna sína eins og lófann á sér og var því ekki með mikinn skilning á því að ég væri ekki með þetta á hreinu. Við kölluðum hann oft landfræðinginn okkar. Hann kunni landið utan að og var duglegur að fræða okkur börnin sín á þeim fjölmörgu ferðum og útilegum sem við fórum í. Mamma og pabbi voru alltaf dugleg að ferðast, sérstaklega á sumrin en þá oft helgarferðir. Fyrst var það með gula og græna Tjaldborgartjaldið sem mér og Finni Bjarka fannst vera höll. Seinna kom tjaldvagn með efri koju og það þótti mér líka mjög töff. Við ferðuðumst mikið um hálendið og einnig Þórsmörk sem var sá staður sem við ferðuðumst oftast til enda nánast í heimahögum pabba. Þórsmörkin átti alltaf sérstakan stað í hjarta pabba og var því sérlega ánægjulegt að geta farið með honum í slíka ferð fyrir tæpum tveimur árum með hluta af stórfjölskyldu pabba. Minning sem fær hjartað til að hlýna.

Áhugamál pabba voru fjölmörg, ljósmyndun, bóklestur og þá helst eitthvað sagnfræðilegt, hestamennska, tónlist og dans og menn og málefni, svo eitthvað sér tínt til. Félagsmál voru honum alltaf hugleikin. Hann var stofnfélagi í Kiwanis, félagi í björgunarsveitinni Dagrenningu, hafði mikinn áhuga á uppbyggingu samfélagsins sem foreldrar mínir settust að í og byggðu sitt hús og ólu okkur börnin upp í. Enda viðloðandi hreppsnefnd og síðar sveitarstjórn til fjölda ára.

Við systkini vorum öll heppin að fá hlutdeild í störfum pabba, fengum öll að vinna með honum á einhverjum tímapunkti í lífinu. Þakklát er ég fyrir það, því þar lærði maður ýmislegt gagnlegt og fékk betri innsýn í alla vinnuna sem pabbi lagði á sig alla tíð. Já, vinnusemi var pabba í blóð borin líkt og móður minni. Enginn sá dagur sem leið nema verið væri að vasast í einhverjum verkefnum stórum og smáum. Sem dæmi er ég nokkuð viss um að pabbi er sá karlmaður sem hefur prjónað flesta ullarsokkana í Rangárvallasýslu - en um tíma þegar minna var að gera í verktakabransanum og þörf fyrir auknar tekjur keyptu foreldrar mínir sokkaprjónaverksmiðju og lærði pabbi á prjónavélarnar og sá um prjónið, mamma sá um að lykkja og svo hjálpuðumst við að við að þvo, þurrka og pakka. Þetta var líka gott fyrir unglinginn mig til að safna tekjum. Skemmtilegar minningar um samvinnu okkar fjölskyldunnar.

Pabbi var enginn matreiðslumaður en honum fannst mjög gott að borða. En ég fullyrði að enginn var eins flinkur og hann að spæla egg og einnig var hann fínn grillari. Þegar mamma var um tíma að vinna á kvöldin á símstöðinni þá fengum við Finnur Bjarki oft spælegg og brauð í kvöldmat, nú eða pylsur en seinna náði hann að læra að græja kótelettur í raspi. Pabbi var mikill veislumaður og vildi ávallt veita vel og hafði gaman af því að fara á viðburði sem voru með tónlist og dans. Það var frábært að dansa við pabba á þorrablótunum, hann stýrði manni svo vel, ekkert hálfkák. Mamma og pabbi voru flottust á dansgólfinu alla tíð að mér fannst.

Pabbi og mamma hafa alltaf stutt mig í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur, jafnvel þó það væri frekar óhefðbundið. Ég hef alltaf átt hjá þeim skjól og yndislega vináttu sem hefur verið mér mikilvægt veganesti. Foreldrar mínir alltaf boðnir og búnir til að styðja, styrkja og veita ráð. Höfum við Róbert Sindri sonur minn notið góðs af því alla tíð.

Á síðustu árum hefur pabbi unnið stærsta verkefni lífs síns, sem var að halda sér á lífi. Með aðstoð risahóps af einstaklingum, faglærðum og ófaglærðum sem unnu saman með honum á hverjum degi. Það væri fróðlegt að vita allan þann fjölda sem hefur unnið með honum öll þessi ár og verið honum lífsnauðsyn í lömuðum líkama. Þegar pabbi var á Grensás þá var honum sagt að hann þyrfti að vera sérfræðingur í sjálfum sér, t.d. ef aðstoðarmanneskja félli frá á staðnum án fyrirvara þá þyrfti hann að geta sagt næstu manneskju sem kæmi hvernig hún gæti hjálpað honum. Hann var því alltaf með á hreinu hvernig umönnun færi best fram fyrir hann, hvað þyrfti að passa extra vel upp á og það gerði hann í góðu samstarfi við umönnunaraðila. Hann var auðvitað með kröfur og lét vita ef hann var ekki sáttur en aldrei var það persónulegt, heldur var hann að vinna í að halda sér á lífi og passa upp á að verða ekki fyrir óþægindum, því það mátti oft lítið út af bera. Ég mun aldrei fyllilega gera mér grein fyrir því hvernig það er að vera algjörlega berskjaldaður fyrir öllu og vera algjörlega háður öðrum. En það veit ég að pabbi var sérfræðingur í sjálfum sér, að lesa í andlit og aðstæður eftir áralanga umönnun með fullt af góðu fólki sem kom þar að. Því var það sárt fyrir hann að vera hafnað að koma aftur í heimabyggð, á heimili sitt þar sem umönnun hafði alla tíð verið framúrskarandi. Hann missti mikið og átti alla tíð erfitt með þessa niðurstöðu en áfram hélt hann og þegar á Ljósheima var komið var hann fljótur að eignast þar traust og vináttu starfsfólks sem tók honum svo vel og vann svo vel með honum síðustu árin. Gaman var að sjá að starfsmenn sem áður höfðu starfað á hans fyrra heimili á Hvolsvelli voru þarna komnir með honum aftur. Síðustu vikur hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að eiga í miklum samskiptum við umönnunaraðila og það var gaman að heyra allar sögurnar um vináttuna og traustið sem hann og þau upplifðu saman. Pabbi var nefnilega mjög áhugasamur um að kynnast sínum umönnunaraðilum og heyra þeirra sögur og eiga í samskiptum við þau um allt og ekkert.

Félagsstarfið var tekið upp á Ljósheimum þar sem góðir borðfélagar voru fljótlega komnir í bjórklúbb, yndislegur hópur á ólíkum aldri. Það hefur reynst þeim erfitt að horfa á eftir pabba og höfðu þau miklar áhyggjur síðustu vikurnar, yndislegur hópur sem hefur átt einstaklega fallega vináttu á Ljósheimum.

Ég gisti inni hjá pabba í nokkrar nætur við hljóm öndunarvélar nú undir það síðasta og er ég þakklát fyrir að hafa gefið okkur þann tíma þegar styttist í leiðarlok. Pabbi var ekki maður mikilla orða í tilfinningatali en sýndi það meira í verki. Við fjölskyldan áttum alla tíð stað hjá honum til að fá ráð og stuðning. Núna í seinni tíð ræddi ég oft við pabba á dýpri og meira á tilfinningalegum nótum og það er ómetanlegt. Við pabbi vorum langt frá því í gegnum tíðina að vera alltaf sammála og stundum var ákveðið að vera sammála um að vera ósammála en eitt er víst og við ræddum það fyrir nokkrum vikum að alltaf, alltaf væri hjartað á réttum stað.

Elsku pabbi, það er erfitt að hugsa til þess að eiga ekki eftir að hitta þig aftur og stórt tómarúm sem hefur opnast núna. En ég er líka þakklát fyrir að þú sért laus úr lömuðum líkama og getir nú leikið frjáls í sumarlandinu með foreldrum, systkinum, vinum og Karó. Svo ertu líka örugglega farinn að fljúga einhverri flottri flugvél, fara á hestbak, taka myndir og dansa.

Ég elska þig alltaf, takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér.

Þín dóttir,





Berglind Elva.

Elsku pabbi.


Það er mér nístandi sársauki að hugsa til þess að fá ekki að hitta þig og tala við þig aftur.


Það fyrsta sem kemur upp í huga minn þegar ég hugsa til baka er hversu heppin ég var og er með foreldra. Við vorum náin og dugleg að gera allskonar hluti saman. Eftirminnilegar þykja mér stundirnar sem við áttum saman við borðið í gamla eldhúskróknum. Þar hittumst við undantekningarlaust saman í kvöldmat þar sem farið var yfir daginn og veginn. Eftir kvöldmat fórum við saman í hesthúsið og hjálpuðumst að við að gegna hestunum, nú eða skella okkur á bak. Að því loknu var ósjaldan gripið í spil eða teflt (ekki við páfann) en þó ekki lengur en að tíufréttum. Á kvöldin var yfirleitt gripið í bók.

Þriðjudagskvöld fór mamma á kóræfingar, þá áttum við feðgin ákveðnar gæðastundir. Í kvöldmat var yfirleitt spælt egg eða pylsur. Síðar um kvöldið stóðu yfir æfingar á fiðlu og seinna meir þverflautu hjá heimasætunni en ástæða þess var einfaldlega sú að á miðvikudögum voru tónlistartímar. Eftir að ég varð eldri skil ég betur hvers vegna pabbi var með gin og greip í glasi þessi kvöld og hversu þolinmóður hann var gagnvart þessum misgóðu tónlistararíum mínum.

Um helgar yfir sumartímann var undantekningarlaust farið í útilegur. Mamma var yfirleitt búin að vinna fyrr en pabbi á föstudögum og sáum við mæðgur um að undirbúa það sem þurfti fyrir helgina, mamma sá um allt matarkyns og ég tók að mér það mikilvæga verkefni að passa upp á að badmintonspaðar, spil og litabækur væru á sínum stað. Þegar pabbi hafði lokið vinnu var tjaldvagninn hengdur aftan í, kíkt á veðurspána og lagt í hann, yfirleitt í átt til sólar.

Mér fannst mikið sport að fá að fara með pabba í vinnuna. Lyktin á verkstæðinu fannst mér þó ekki frábær en ég hafði gaman af því að fá að sópa gólfin með risastórum kústi og fékk að launum nokkra hundraðkalla úr gallabuxnavasanum hans pabba sem í minningunni virtust alltaf vera fullir af gylltu klinki. Ferðirnar í vörubílunum voru það allra besta, þeim fylgdi yfirleitt stopp í sjoppu þar sem keypt var rækjusamloka, gosdrykkur og súkkulaðistykki. Á meðan pabbi talaði við skítuga vinnukarla fékk ég að fara í kojuna í vörubílnum að dunda mér, sem hentaði feiminni stelpu einstaklega vel.

Mín fyrstu skref á vinnumarkaði voru hjá pabba og mun ég líklega aldrei ná jafn góðu tímakaupi og við sömdum um. Vinnan fólst í því að kitla tásurnar á pabba. Tekin var fram rauða vekjaraklukkan sem var með sekúnduvísum til þess að ekki væri svindlað á tímanum. Ég sá síðan um að kitla tásurnar og telja sekúndurnar á meðan. Ef ég taldi upp að 1.000 þá fékk ég 1.000 krónur og svo framvegis. Mig minnir að pabbi hafi sett þak á þetta kaup mitt og hafi það verið 5.000 sekúndur hverju sinni. Við gengum bæði sátt frá þessum samningi.

Ég var svo heppin að fá að fara í nokkrar ferðir til útlanda með foreldrum mínum, einu sinni fórum við til Frakklands og þrisvar fórum við til Kanaríeyja. Á þessum tíma þótti það ekki sjálfsagt að fara til útlanda og er ég virkilega þakklát fyrir þessar ferðir því ekki urðu þær fleiri hjá okkur saman. Það var vel passað upp á að mér leiddist ekki með háöldruðum foreldrum mínum í útlandinu. Farið með mig í dýragarða, sundlaugagarða, skemmtigarða, á ströndina, keyptur ís og svo framvegis. Eftirminnilegast var þó þegar pabbi og Þormar frændi fóru með í rennibrautirnar og þegar pabbi sofnaði í sólbaði með hendurnar á maganum og fékk tvö hvít handaför á bumbuna.

Ég tók ásamt foreldrum mínum að mér að bera út Morgunblaðið. Hugsunin á bak við það var að safna aurum í ferðasjóð sem við ættum saman. Pabbi tók að sér að bera út allar vikur en leyfði okkur mæðgum að skipta með okkur vikunum, hann þyrfti kannski á fríi síðar að halda. Ferðasjóðnum var breytt í menntasjóð fyrir litlu stelpuna eftir slysfarir pabba.

Fimleikar hafa verið stór hluti af mínu lífi síðan ég var lítil. Ég byrjaði að æfa fimleika á Hvolsvelli í kringum 6 ára aldur. Mamma potaði sér í stjórn og í þjálfaraleysi var fundin sú lausn að fá þjálfara frá Selfossi austur á Hvolsvöll. Þær voru ekki komnar með bílpróf og komu austur með FSU-rútunni og svo sá pabbi yfirleitt um að skutla þeim til baka á Selfoss. Vá hvað mér fannst mikið sport að fá að fara með og ég man hvað ég var stolt að pabbi væri að skutla þjálfurunum mínum á Selfoss. Nokkrum árum seinna lagðist af starfið í fimleikadeildinni á Hvolsvelli en mér ásamt tveimur öðrum stelpum var boðið að koma að æfa á Selfossi hjá sömu þjálfurum og höfðu verið með okkur á Hvolsvelli. Það fór svo að ég og Rakel Nathalie byrjuðum að æfa fimleika þrisvar til fjórum sinnum í viku fimleika á Selfossi. Foreldrar okkar sáu um að skutla og sækja á milli þess sem við tókum áætlunarrútu á milli staða. Pabbi mætti á hvert eitt og einasta fimleikamót með upptökuvélina sína og tók upp mótin. Setti þau á vídeóspólur sem enn í dag eru til.

Eftir að pabbi lendir í slysinu eru fimleikarnir það sem bjargaði mér í sorginni og reiðinni. Ég hafði þetta brennandi áhugamál til að leita í þar sem ég var umvafin liðsfélögum og þjálfurum sem voru til staðar. Í fimleikasalnum leið mér vel og gat gleymt vandamálum lífs míns. Þó að pabbi kæmi ekki lengur á fimleikamótin var hann ennþá til staðar fyrir mig og studdi við það sem ég var að gera. Það liggur kveðja á veggnum mínum á Facebook frá honum sem mér þykir afar vænt um: Hæ Aníta, gangi þér vel á Evrópumótinu í Malmö. Kveðja, þinn pabbi. Eftir að fimleikaferli mínum sem iðkanda lauk færði ég mig yfir í þjálfun og hef ég í dag atvinnu af því að þjálfa fimleika. Mér finnst ég heppnust í heimi með starf og á ég mömmu og pabba allt að þakka, en án þeirra væri ég eflaust ekki á þessum stað. Fyrir þetta er ég þakklát því ég veit að þetta var kostnaðarsamt en aldrei fékk ég að heyra af því. Fram á síðustu stundu hafði hann mikinn áhuga fyrir því sem ég var að gera tengt fimleikum, fylgdist vel með og spurði alltaf hvað væri að frétta úr salnum.

Mér er ofarlega í huga hvað pabbi gat gert margt, mér fannst hann geta allt. Hann óð í öll þau verkefni sem þurfti. Hann innréttaði íbúð í bílskúrnum, hann gerði upp hesthúsið, hann mætti með gröfur og tæki í garðinn fyrir mömmu og alltaf til í að aðstoða aðra. Hann vann mikið og ef hann átti frítíma var tíminn nýttur til hins ýtrasta. Má þar nefna kanínukofa sem hann byggði fyrir mig þegar ég hóf kanínubúskap. Hann kallaði mig kanínubónda og gerði allt til þess að auðvelda mér búskapinn og sá um að að kofarnir væru fallegir yfir jólamánuðina skreyttir með greni og jólaseríum.

Þann 15. apríl 2006 tók líf fjölskyldu minnar heldur óþægilega beygju. Pabbi kemur inn til okkar systra um morguninn og spyr hvort við ætlum ekki að koma með honum í páskareiðtúr eða hvort við ætlum að liggja uppi í rúmi í allan dag. Við feðgin fórum í reiðtúrinn en leiðin lá í Fljótshlíðina, með flottan hestahóp í fínu veðri og með góða skapið í farteskinu. Góð byrjun á flottum degi.
Á leiðinni heim breyttist reiðtúrinn til muna. Pabbi dettur af baki og ekki er útlitið gott. Þegar ég hugsa til baka: pabbi hreyfir sig ekki, fólk verður órólegt, hnoð og blástur, við systurnar stöndum með tugi hesta í kringum okkur, sjúkrabíll kemur, þyrla mætir á staðinn, hvað í fjandanum er að gerast? Við erum mætt á sjúkrahúsið í Reykjavík, endalaus bið en loksins fáum við fréttir. Útlitið er svart. Læknarnir eru ekki að skafa af hlutunum. Okkur var sagt að pabbi væri lamaður og ekki væri vitað hvort hann myndi hafa þetta af, sögðu að hann ætti mögulega viku eftir, enginn hefði áður lifað svona alvarlegan mænuskaða áður. Sjokkerandi fréttir og skrítnustu páskar sem ég hef upplifað.


Þarna hófst nýr kafli í lífi okkar allra. Hann var erfiður en þó dýrmætur og lærdómsríkur. Þetta var eins og að læra á lífið upp á nýtt. Ég sá það svo vel eftir slysið hversu gott ég hafði það, hve heppin ég var með allt þegar öllu var kippt í burtu frá okkur, öllum þessu litlu hlutum sem ég hef skrifað um hér fyrir ofan sem þykja svo sjálfsagðir.
Pabbi tók þá ákvörðun að berjast fyrir lífi sínu og það gerði hann svo sannarlega. Hann tók þá ákvörðun að gera það besta úr aðstæðum. Hann tók þátt og fylgdist vel með öllu því sem við fjölskyldan tókum okkur fyrir hendur. Þrátt fyrir að hreyfigeta fyrir neðan háls hafi ekki verið til staðar eftir slys var hann sami góði pabbinn, með sama kalda húmorinn og alltaf til staðar þó svo að knús og klapp á bakið væri ekki möguleiki.

Elsku pabbi, þú ert mín fyrirmynd og munt allaf vera. Þú ert hvatning til að gera vel og halda áfram þegar á móti blæs. Baráttuvilji þinn og æðruleysi var aðdáunarvert. Þú kenndir mér að njóta hverrar stundar og alls þess sem við höfum. Þú sýndir mér í verki að lífið snýst ekki um í hverju maður lendir heldur hvernig maður ætlar að vinna út úr því og tækla hlutina, því þar höfum við val. Þú gast það sem þú ætlaðir þér og ég vil vera eins og þú.

Takk fyrir að hringja, senda skilaboð á Facebook, hvatninguna og stuðninginn sem þú veittir alla tíð. Ég mun sakna þess að sjá skítaglottið þitt, heyra brandarana þína og hlusta á merkissögur úr þínum viskubrunni þó þær hafi oft verið misgáfulegar.

Þú varst hetja sem lagði í erfitt stríð og þú sigraðir í hverjum einum og einasta bardaga fram á síðustu stundu. Það er enginn eins og þú.

Ég mun sjá til þess að minningu þinni verði haldið á lofti með húmor og gleði að vopni eins og þér einum var lagið.


Þökk fyrir allt og allt.

Þín yngsta dóttir,
Aníta Þorgerður Tryggvadóttir.

Aníta Þorgerður Tryggvadóttir