Baldur Sigurðsson fæddist 1. nóvember 1935 í Hnífsdal. Hann lést á Líknardeild Landspítalans við Hringbraut 2. júlí 2021. Foreldrar Baldurs voru Sigurður Guðmundur Sigurðsson, skipstjóri á Ísafirði, f. 19.02. 1902, d. 21.05. 1969, og Guðmunda Jensína Bæringsdóttir, f. 22.10. 1904, d. 26.12. 1994.
Systkini Baldurs eru: Hermann Bæring, f. 12.7. 1926, d. 18.12. 1986. Arnór Lúðvík, f. 4.10. 1927, d. 14.9. 1993. Jóna Sigríður, f. 12.2. 1929, d. 27.12. 1929. Sigurður Marinó, f. 23.3. 1931, d. 8.3. 2019. Kristinn, f. 3.9. 1934, d. 31.12. 1952. Guðrún Helga, f. 8.7. 1938, d. 5.3. 2016. Kristín, f. 9.3. 1942.
Eftirlifandi eiginkona Baldurs er Sigríður Ingvarsdóttir, f. 7.12. 1940. Þau gengu í hjónaband þann 9.7. 1961. Börn Baldurs og Sigríðar eru fimm, barnabörnin sextán og barnabarnabörnin átján.
1. Jónas Baldursson, f. 6.7. 1958, eiginkona Regina Kasinskiene, f. 12.5. 1958. Börn Jónasar eru Helena Björk, Margrét Lára, Gylfi Þór og Birna Dögg.
2. Lilja Baldursdóttir, f. 27.5. 1961, eiginmaður Sigurjón Már Guðmannsson, f. 12.12. 1948. Börn þeirra eru Sigríður Bylgja og Berglind. Barn Lilju úr fyrra sambandi er Baldur.
3. Linda Baldursdóttir, f. 12.8. 1963. Börn Lindu eru Ívar, Davíð og Aldís Ósk.
4. Sigríður Baldursdóttir, f. 25.8. 1969, sambýlismaður Guðmundur Jón Valgeirsson, f. 20.9. 1966. Börn Sigríðar eru Haukur Örn, Hákon Þór og Hlynur Freyr.
5. Ingvar Baldursson, f. 5.5. 1975, eiginkona Vigdís Louise Jónsdóttir, f. 24.3. 1977. Börn þeirra eru Silja Rós, Júlía Dís og Elva Lind.
Fyrstu árin ólst Baldur upp í Hnífsdal og síðar á Ísafirði. Sjómennskan var honum í blóð borin og stundaði Baldur sjómennsku frá unga aldri ásamt föður sínum og bræðrum og rak hann um tíma útgerð ásamt bræðrum sínum. Um 1954 flutti Baldur suður til Hafnarfjarðar með foreldrum sínum og kynntist eiginkonu sinni, Siggu, fljótlega eftir það. Baldur og Sigga bjuggu lengst af í Hafnarfirði, áttu stutta viðveru á Ísafirði og efri árin bjuggu þau suður með sjó í Vogum á Vatnsleysuströnd. Síðustu árin lá þó leiðin aftur heim í Hafnarfjörðinn.
Baldur var fagmaður fram í fingurgóma og hagleiksmaður mikill og var verðlaunaður fyrir framúrskarandi árangur á burtfararprófi í Vélvirkjun frá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Baldur var einnig með vélstjóraréttindi og starfaði við fagið mestallan sinn starfsferil, lengst af í Álverinu í Straumsvík þar sem hann lauk starfsferlinum rétt fyrir sjötugt.
Útför Baldurs fer fram frá Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði, 15. júlí 2021 kl.11.
Fjölskyldan var þér eitt og allt, mamma stóra ástin í lífi þínu eins og þú sagðir svo oft, við börnin þín og svo öll barnabörnin og barnabarnabörnin. Hver man ekki eftir sögustund þar sem þú oftar en ekki fórst frjálslega með söguþráðinn sem gerði söguna bara enn skemmtilegri fyrir okkur sem á þig hlýddum. Ég man þegar ég fór að segja stelpunum mínum sögur þá gerði ég alveg eins og þú, sagan var aldrei alveg eins og bætti ég við og breytti alveg eins og þú gerðir þegar ég var lítill þeim til mikillar gleði. Einhvern tímann fékk ég að heyra frá stelpunum mínum að sagan af Rauðhettu væri sko ekki alveg eins og sú sem afi sagði og að sagan hans afa væri betri. Ég held að röddin í úlfinum í þinni útgáfu hafi verið skemmtilegri en mín, eitthvað sem ég get bætt fyrir mín barnabörn. Afabörnin þín öll sem eitt elskuðu þig og dáðu enda ljúfari maður vandfundinn. Alltaf tilbúinn að hlusta, alltaf tilbúinn að leika, alltaf tilbúinn að gefa knús og koss og söng í eyra. Söngur var eitt sem fylgdi þér alla tíð og man ég þegar þú söngst í sturtu heima og mér fannst það fyndið. Man líka þegar þú söngst í sturtu þegar við fórum saman í Sundhöll Hafnarfjarðar og syntum 750 metrana, mér fannst það líka fyndið. Man líka þegar við unnum saman í Álverinu í Straumsvík og þú söngst í sturtu og já, mér fannst það líka fyndið. Ég er ekkert rosalega mikið fyrir að syngja og heldur ekki í sturtu, er eitthvað feiminn við þetta en það var eitthvað sem truflaði þig ekki, þú gerðir þetta bara. Ég hafði ofsalega gaman af því þegar þú byrjaðir á einhverjum lagstúf og hvað skemmtilegast þegar þú þuldir hverja sjómannavísuna á fætur annarri í einhverri syrpu sem virtist engan endi ætla að taka, algjörlega dásamlegt.
Það var einhvern veginn þannig þegar ég var yngri að það var ekkert sem pabbi gat ekki gert. Ég ætla ekki að fara að þylja upp alla ferilskrána enda af mörgu að taka, en tjaldvagnar, bátakerrur og tveir sumarbústaðir eru bara nokkur atriði á löngum lista. Ég var svo lítill þegar þið selduð bústaðinn í Kjósinni að ég man lítið sem ekkert eftir honum. En mig rámar samt í að hafa setið í dökkbláa Saab 96 station-bílnum sem þið áttuð þegar leiðin lá í Kjósina. Man einnig eftir ferð upp Ártúnsbrekkuna í Saabinum, og Sigga systir hvíslar í eyrað mitt og biður mig að spyrja ykkur mömmu hvort ekki eigi að stoppa í sjoppunni efst í Ártúnsbrekkunni og kaupa pylsu, kók og Prins Póló. Sigga kunni öll trixin, einfaldara að fá örverpið til að suða um stopp í sjoppu. Bústaðurinn í Kjósinni þurfti að víkja fyrir Garðaveginum sem þið mamma byggðuð ykkur og var yndislegt að búa þar og ekki skemmdi fyrir að amma bjó handan götunnar. Sumarbústaðarævintýri ykkar var ekki lokið og var annar bústaður byggður í Grímsnesinu og gerðu þið það í samkrulli með Lilju systur og Sidda mág. Í Grímsnesinu áttum við fjölskyldan margar góðar stundir og man ég eftir ansi mörgum ferðum austur fyrir fjall með drekkhlaðna aftaníkerru af efnivið sem vinna átti úr, góðar minningar.
Haustið 1998 héldum við Vigdís Louise til Danmerkur á vit nýrra ævintýra og bjuggum við þar í ein 18 ár eða til ársins 2016 þegar við fluttum aftur til Íslands. Þið mamma komuð oft til okkar í heimsókn á útlandaárum okkar og áttum við margar góðar stundir saman, bæði jól, páska, sumarfrí o.fl. Stelpurnar okkar þrjár þær Silja Rós, Júlía Dís og Elva Lind nutu góðs af þessum heimsóknum og höfðu ömmu og afa út af fyrir sig. Þarna sá maður hve barngóður þú varst og ávallt tilbúinn að gera allt það sem barnabörnunum datt í hug og langaði til að gera. Ekki skrítið að börnin soguðust að þér, sagðir aldrei nei og faðmurinn alltaf opinn. Öll þessi ár sem við bjuggum erlendis sendir þú okkur reglulega handskrifuð bréf. Bréfin sem þú sendir á þessum árum á ég öll sem eitt og mun geyma þau svo lengi sem ég lifi og eru þau ansi mörg. Þegar bréf lá í póstkassanum var safnast saman og bréfið frá pabba/afa lesið upphátt allri fjölskyldunni til mikillar skemmtunar, enda varstu frábær penni. Ég var ekki alveg eins góður að svara þér til baka en ég man hvað þú varst þakklátur þegar ég tók mig til og sendi þér mömmu línu. Þú kvartaðir ekki beint yfir fáum bréfum, en þegar þú varst farinn að tala um hvað þér þætti vænt um að fá þessi bréf, þá tók maður sig á og henti í nokkrar línur og sendi ykkur. Ég sé það núna, þegar ég lít til baka, hvað það var dýrmætt að fá þessi bréf, þau voru persónuleg, skrifuð beint frá hjartanu og á pabbamáli. Pabbamál gat t.d. verið frasar sem enginn annar sagði nema þú og svo skrifaðir þú þá eins og þú heyrðir þá, eins og æ lof jú, ich klíbi dich, jáájáá, Ég hef það bara ágætt, jájá o.fl. og þeir sem þekktu pabba vita hvað ég er að tala um. Partur af pabbamáli var líka að þú íslenskaðir allt sem fyrir augum bar, sem var dásamlegt. Pabbamál kryddaði bréfaskriftirnar og þurfti stundum að hugsa sig vel um hvað gamli væri nú að babla um, en skemmtilegt var þetta og svo mikið þú. Ég verð þér ávallt þakklátur fyrir að halda þessi 18 ár út í bréfaskriftum og átt þú í raun skilið einhverja orðu fyrir þetta. Ég byrjaði þessi minningarorð á þá leið að ég ætlaði að minnast þín með nokkrum fátæklegum orðum og sé ég núna að það verður erfitt, svo ég held eitthvað aðeins áfram.
Ég man þegar ég kom í heimsókn frá Danmörku árið 2015 til að vera með þér á stórafmælinu þínu og þú sagðir við mig að glataði sonurinn væri snúinn aftur. Fyrst fannst mér þetta eitthvað skrítið, ég var ekkert fluttur til baka til Íslands heldur var ég bara í heimsókn. Tæpu ári síðar, eða haustið 2016, vorum við fjölskyldan svo flutt til Íslands og glataði sonurinn var snúinn heim. Ég er óskaplega þakklátur fyrir síðastliðin fimm ár eftir að við fluttum til Íslands, að hafa verið í nálægð við þig og mömmu og getað droppað á ykkur við og við. Mér þykir einnig ofboðslega vænt um síðustu útlandaferðina þína eins og þú stundum kallaðir hana. En í febrúar 2020 fórum við til Cardiff í Wales og var tilgangur ferðarinnar að fara á heimsmeistaramótið í snóker og þekktir þú alla þessa snókerspilara með nafni, sem mér fannst algjör snilld. Með í för fyrir utan mig og þig voru Jónas bróðir og Haukur Örn hennar Siggu systur. Við áttum þarna frábæra daga fyrst í London og svo í Cardiff, fórum á pöbbinn, út að borða, í London Eye, kíktum óvart á hommabar, drukkum bjór og alltaf sagðir þú; bara lítinn bjór, takk. Í þessari ferð tók ég eftir því fyrir alvöru að farið var að halla undan fæti hjá þér. Úthaldið var ekki það sama og áður, en þú lést þig hafa það, mest fyrir okkur yngri mennina og píndir þú þig áfram á hörkunni. Aldrei bjóst ég við því að einu og hálfu ári seinna værir þú allur eftir baráttu við þennan erfiða sjúkdóm sem krabbameinið er. Ég spurði þig reglulega hvort þú fyndir einhvers staðar til, en nei var alltaf svarið og alltaf fylgdi; ég hef það bara ágætt, jájá. Ég vill trúa því að þú hafir haft það bara ágætt, en mig grunar að þú hafir bitið á jaxlinn og harkað af þér enda vestfirskt hörkutól. Síðustu dagarnir voru erfiðir, erfitt að geta ekkert gert en á sama tíma notalegir, að sitja við hlið þér, halda í höndina á þér og finna þéttingsfasta handtakið þitt og skaust maður tugi ára aftur í tímann og varð litli strákurinn þinn aftur. Nú fer þessum fátæklegu orðum að ljúka og ég er og verð alltaf ljúfurinn þinn og mun ég geyma minninguna um þig í hjarta mínu um ókomna tíð og langar mig að enda þessi fátæklegu orð á frasanum sem við svo oft sögðum hvor við annan: Við látum okkur aldrei ... allavega seint.
Elska þig, elsku pabbi, hvíldu í friði og vonandi sjáumst við í annarri vídd, þinn sonur Ingvar.
P.S. það var alltaf P.S. í bréfunum þínum og mitt P.S. er mér dýrmætara en allt í þessu lífi og eru það stelpurnar mínar Vigdís Louise, Silja Rós, Júlía Dís og Elva Lind.
Ingvar Baldursson.