Helga Skúladóttir fæddist að Urðarteigi í Berufirði 19. október 1944. Hún lést á Sjúkrahúsinu í Neskaupstað 2. júlí 2021. Foreldrar hennar voru, Málfríður Halldóra Snjólfsdóttir, f. 1909, d. 1992 og Skúli Sigurðsson, f. 1904, d. 1981.

Systur Helgu eru, Lilja, f. 1932, d. 2005, Kristín Sigríður, f. 1934, Ásdís, f. 1936, d. 1982, og Elsa, f. 1941. Málfríður var dóttir hjónanna Ásdísar Sigurðardóttur og Snjólfs Stefánssonar frá Veturhúsum í Hamarsdal. Skúli var sonur hjónanna Sigríðar Helgadóttur og Sigurðar Bergsveinssonar frá Urðarteigi í Berufirði.


Eiginmaður Helgu er Þorsteinn Ársælsson, fæddur á Siglufirði 1943, ólst upp í  Neskaupstað. Móðir hans var Indíana Guðmundsdóttir, frá Siglufirði, f. 1907, d. 1995. Kjörforeldrar Þorsteins voru hjónin, Ársæll Júlíusson, frá Mjóafirði, f. 1902, d. 1997 og Bjarney Stefánsdóttir, frá Norðfirði, f. 1907, d. 1988.


Börn Helgu og Þorsteins eru fjögur,

1) Gunnar, f. 1964, eiginkona, Anna Sigríður Þórðardóttir, f. 1964, dóttir Gunnars er Birgitta Jóna, f. 1984, börn hennar eru, Róbert Snær, f. 2001, Sandra Ýr, f. 2002, Indíana Rós, f. 2013, Ágúst Leó, f. 2014. Börn Önnu Sigríðar eru, Erla, f. 1984, d. 1984, Guðlaug Erla, f. 1985, Sigrún, f. 1989, Þóra Kristín, f. 1993, Lárus, 1995.

2) Bjarney Kolbrún, f. 1965, sambýlismaður, Þorgeir Jónsson, f. 1971. Sonur þeirra er Hafsteinn Jökull, f. 2005. Sonur Bjarneyjar er, Þorsteinn Heiðar Jóhannsson, f. 1989, synir hans eru, Jóhann Breki, f. 2014, Elmar Snær, f. 2018.

3) Heiðrún, f. 1974, eiginmaður, Halldór Freyr Sturluson, f. 1978. Börn þeirra eru, Rökkvi, f. 2013, Rakel Arna, f. 2015. Synir Heiðrúnar eru, Elvar Örn Ingason, f. 1995, Bjartur Hólm Hafþórsson, f. 2003.

4) Sigrún, f. 1977, sambýlismaður Snorri Halldórsson, f. 1975. Sonur þeirra er Styrmir, f. 2010.


Helga ólst upp í Urðarteigi við Berufjörð í faðmi fjallanna sem hún alltaf unni. Hún var yngst af fimm dætrum Málfríðar og Skúla. Í Urðarteigi tók hún þátt í hinum almennu sveitastörfum jafnt inni sem úti.

Helga og Þorsteinn giftu sig 27. maí 1964 og byrjuðu sinn búskap í Huldubjargi að Blómsturvöllum 18 í Neskaupstað, þar bjuggu þau til ársins 1972 er þau fluttu í nýbyggt hús sitt að Urðarteigi 4 og hafa búið þar síðan.

Helga starfaði lengst af hjá Pósti og síma og Íslandspósti. Hún var mikil hestamanneskja og starfaði með Hestamannafélaginu Blæ allt frá upphafi og var í stjórn þess um tíma. Helga var mikil hannyrðakona og vafðist ekki fyrir henni, hvort sem var að prjóna eða sauma. Einnig hafði hún mikinn áhuga á blómarækt og ljósmyndun en þar fékk listamaðurinn sem í henni bjó að njóta sín.

Útför Helgu fer fram í Norðfjarðarkirkju í dag, 13. júlí 2021, klukkan 14.

Streymt verður frá útför á Facebooksíðu Norðfjarðarkirkju

https://www.facebook.com/nordfjardarkirkja
Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Í nokkrum orðum vil ég minnast vinkonu minnar og frænku.

Við Helga vorum fjórmenningar og æskuvinkonur, reyndar vinkonur frá því að við gengum saman til spurninga fyrir fermingu okkar í Djúpavogskirkju, og allt þar til að Helga kvaddi þetta jarðlíf. Vinátta okkar varði því í sextíu og þrjú ár, í þessari jarðvist okkar. Ég vissi löngu áður en fundum okkar bar saman í fermingarundirbúningi okkar að ég ætti frænku inni á Urðateigi sem væri jafnaldri minn, en ekki minnist ég þess að fundum okkar bæri saman, þó svo gæti vel verið, fyrr en í maí árið 1958. Þá man ég vel eftir þessari frænku minni, sem komin var út á Djúpavog til að ganga í fermingarfræðslu, ásamt öðrum fermingarbörnum af Berufjarðarströnd og Álftafirði, ásamt okkur sem áttum heima á Djúpavogi. Ég tók strax eftir þessari fallegu, hávöxnu, rauðhærðu stúlku og fljótlega myndaðist vinátta okkar sem varð bæði sterk og staðföst. Þótt langt væri milli æskuheimila okkar, nokkrir kílómetrar, kom það ekki í veg fyrir að við heimsæktum hvor aðra. Að sjálfsögðu gengum við þessa kílómetra, enda báðar léttar á fæti. Þá var hringt í gegnum heimilissíma, engir farsímar á þessum árum, kannski sem betur fer því þá hefðum við efalaust bara spjallað í síma en ekki hist í eigin persónu. Að hittast í eigin persónu gerir allt miklu nánara og þar á meðal vináttuna, sem varir út allt lífið. Helga kom svo út á Djúpavog til að vinna í frystihúsinu þegar hún hafði frí frá sveitastörfunum heima í Urðarteigi og þá var oft glatt á hjalla, bæði í vinnunni og í frítímum. Engar tölvur voru þá til að spilla fyrir samverustundum, þar sem við unglingarnir nutum þess að hittast og spjalla saman, eða fara í andaglas, spila á spil, og alltaf fundum við upp á einhverju skemmtilegu. Það er svo ótalmargt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til þín, kæra elskulega Helga mín.

Eitt sumarið, þegar við vorum tæplega sextán ára, leystum við Lilju systur þína af í vinnu í hálfan mánuð. Hún var þá ráðskona í vegavinnu í Hamarsfirði. Einhverra hluta vegna þurfti Lilja að fá frí í hálfan mánuð, og okkur fannst það ekkert mál að leysa hana af og foreldrar okkar vissu að vegavinnuflokkurinn fengi sínar máltíðir, enda við báðar frá myndarlegum heimilum þar sem við lærðum snemma að hlutirnir gerðust ekki af sjálfu sér. Ég get ekki varist brosi þegar í gegnum hugann fara minningar um þessa lífsreynslu okkar. Við stóðum okkur frábærlega vel, allar máltíðir bornar fram á réttum tíma og strákarnir hrósuðu okkur óspart fyrir hvað maturinn væri góður.

Þeir sem voru eldri, eins og verkstjórinn, sögðu að við hefðum vissulega komið þeim á óvart með matargerð, þeir hefðu orðið hálftortryggnir þegar þeir vissu að tvær unglingsstúlkur kæmu í afleysingu til að gegna ráðskonustarfinu en það hefðu svo sannarlega verið algerlega óþarfa áhyggjur.

Oft var glatt í vegavinnunni þegar strákarnir, sem voru litlu eldri en við, tóku upp á ýmsum góðlátlegum hrekkjum við okkur ráðskonurnar, ég man þó best eftir þegar einn, sem var úr Breiðdalnum, setti pipar á eldavélina svo það rauk upp mikil piparlykt þegar við kveiktum á eldavélinni. Við gátum samt ekki annað en hlegið þegar við vorum búnar að lofta um skúrinn. Þegar við komumst svo að hver hafði gert okkur þennan grikk kenndum við honum til hvers pipar væri notaður og svona grikkir voru aldrei reyndir framar í okkar ráðskonutíð.

Svo lá leið okkar ekki samhliða um stund en vinátta okkar dofnaði þó ekki. Ég fór utan en þú á vertíð til Vestmannaeyja. Þar kynntist þú Steina þínum, en það vissi ég þó ekki fyrr en ég kom heim um vorið, en þá tókum við upp okkar góða vináttuþráð og mikið þurftum við um að tala og segja hvor annarri frá hvað á daga okkar hefði drifið meðan við gátum ekki verið í reglulegu sambandi. Svo kom að því að við fórum að ráðgera hvað við ætluðum að gera yfir sumarið, það væri upplagt að fara í síld fannst okkur báðum, þar væru örugglega fljótlega teknir inn peningar og það væri upplagt fyrir okkur báðar.

Leið okkar lá því til Neskaupstaðar þar sem við dvöldum yfir sumarið og söltuðum síld hjá Sæsilfri. Í Neskaupstað var einnig draumaprinsinn þinn, og var það ekki síst þess vegna sem leið okkar lá þangað. Þaðan eru einnig góðar minningar og þar kynntist ég Steina þínum, þessum frábæra manni, og bættist hann í vinahóp minn. Þið opinberuðuð svo og giftuð ykkur síðan árið 1964, settust að á Norðfirði, byggðuð ykkur þar hús og eignuðust ykkar börn; Gunnar, Bjarneyju Kolbrúnu, Heiðrúnu og Sigrúnu.

Alltaf hélst samband okkar, Helga mín, þótt lengra væri á milli okkar. Ég fór til Danmerkur en þegar ég kom þaðan lá leið mín vestur á land og þar kynntist ég mínum draumaprins, við giftum okkur árið 1968 og stofnuðum heimili á Akranesi. Nú vorum við báðar orðnar ráðsettar eiginkonur og síðan báðar mæður og börnin okkar ólust upp við að heyra okkur tala um vináttu okkar, því þegar við töluðum hvor um aðra fylgdi alltaf nöfnum okkar æskuvinkona mín. Nú voru komnir heimilissímar í hvert hús og því var það að við hringdum hvor í aðra og töluðum um daginn og veginn, en oftar en ekki einnig um börnin okkar. Við heimsóttum einnig hvor aðra þegar því varð við komið, man ég sérstaklega eftir því eitt sinn er ég, Siggi minn og börn okkar komum til ykkar Steina í heimsókn, að þið og börnin voruð nýkomin úr berjamó og þá sá ég í fyrsta skipti að hægt var að hreinsa berjalauf frá berjum með ryksugu. Við áttum mörg sameiginleg áhugamál, eins og lestur góðra bóka og ljóða, einnig höfðum við yndi af að taka ljósmyndir af því sem vakti áhuga okkar, og höfðum við báðar yndi af blómarækt. Þú varst snillingur í að gera krem og græðandi smyrsl úr íslenskum jurtum og einnig læknandi seyði, sagðir mér frá uppskriftum þínum, en aldrei var ég með tærnar þar sem þú varst með hælana í þessari list þinni.

En ekki er hægt að skrifa minningargrein um þig, Helga mín, án þess að minnast þess er þið Steini sögðuð mér að þið væruð að fara til Eistlands með Síldarvinnslunni og spurðuð hvort ég væri ekki til í að koma með ykkur. Ég sagðist ætla að hugsa málið, þið hvöttuð mig til að koma með, það væri nú gott fyrir mig, þar sem ég var búin að missa Sigga minn í bílslysi, að koma með ykkur í þessa ferð. Það varð svo úr og er ég alltaf þakklát fyrir að hafa tekið ykkar góða boði. Þaðan eru dýrmætar minningar og þar áttum við góðar samverustundir og skoðuðum margt í þeirri ferð sem er ógleymanlegt og margar góðar myndir á ég úr ferðinni. Ég gæti talið upp svo margt úr sextíu og þriggja ára vináttu okkar, en einhvers staðar verður að setja endapunktinn.

Ég er óendanlega þakklát fyrir þegar þú hringdir í mig 26. júní síðastliðinn og sagðir mér að þú værir á Landspítalanum við Hringbraut og ég gat komið og kvatt þig þar, elskulega Helga mín.

Við vissum báðar að þetta yrði í síðasta skipti sem við sæjumst hérna megin, en sögðum að við myndum hittast næst hinum megin. Elsku Helga mín, þar munum við örugglega hittast næst.

Helga mín, mér finnst þú vera að gægjast yfir öxlina á mér meðan ég skrifa þessar ljúfu sameiginlegu minningar.

Guð geymi þig kæra æskuvinkona mín, og nú ert þú búin að hitta alla ástvini þína þar sem hafa tekið þér opnum örmum og umvefja þig kærleika sínum.

Að endingu vil ég kveðja þig um stundarsakir, með sálmi eftir mig:

Komin er nú kveðjustundin
kistu þinni stend ég hjá.
Hans miskunn og hans náð er fundin
hann líknar þegar lokast brá.

Þökkum fyrir þína gæsku
Guð þú gefur okkur allt.
Blessa oss á sorgarstundu
er okkur sýnist allt svo valt.

Ljúkast hér upp himnasalir
himnesk vera birtist þér.
Því hún læknar þínar kvalir
og biður þig að fylgja sér.

Hvar er upphaf, hvar er endir?
Hvernig fæ ég svar við því?
Eilífðin þó oss á bendir
að við hittumst öll á ný.

Hjördís Björg Kristinsdóttir.