Sigurður fæddist á Birningsstöðum í Hálshreppi S-Þing. 4. desember 1930. Hann lést lést 16. júlí 2021.

Foreldrar voru Steinunn Sigurðardóttir og Indriði Þorsteinsson. Hann var yngstur sex systkina; systkini voru þau Árni, f. 1918, Bergljót, f. 1920, María, f. 1922, Þorsteinn, f. 1924, og Þórey, f. 1927, sem öll eru látin.

Sigurður kynntist Rósu Kristínu Jónsdóttur um tvítugt. Þau gengu í hjónaband 31. maí 1952. Rósa lést hinn 6. október 1995. Börn þeirra eru: 1) Steinunn, f. 1954, gift Árna Bjarnasyni. Börn þeirra eru: Sigurður Gáki. í sambúð með Sigríði Kristínu Davíðsdóttur og þau eiga þrjú börn; Heimir Örn, giftur Mörthu Hermannsdóttur og eiga þau þrjú börn; Rósa María í sambúð með Óttari Snædal Þorsteinssyni. 2) Jón Gunnar, f. 1958, giftur Sigrúnu Sigurgeirsdóttur. Börn þeirra eru: Alda Kristín, í sambúð með Einari Eiríki Hjálmarssyni, eiga fjögur börn; Sigurgeir, í sambúð með Margréti Jóhannsdóttur og eiga þau þrjú börn; Gunnar Steinn, giftur Elísabetu Gunnarsdóttur, þau eiga tvö börn. 3) Sigurður Unnsteinn, f. 1963, giftur Þórdísi Jónsdóttur Börn þeirra eru: Geir, giftur Stellu Bryndísi Karlsdóttur, þau eiga tvö börn; María, gift Valdimar Daníelssyni og eiga þau þrjú börn; Jón Heiðar.

Fjölskylda Sigurðar bjó á Birningsstöðum, flutti og bjó í eitt ár á Vöglum í Hálshreppi og loks á Skógum í Hálshreppi í Fnjóskadal þar sem Sigurður ólst upp frá tveggja ára aldri. 16 ára fluttist hann til Akureyrar og hóf störf á bílaverkstæði KEA. 17 ára réð hann sig á bifreiðaverkstæði Þórshamars og starfaði við bifreiðaviðgerðir á Akureyri allt til ársins 1953, þó með hléum, s.s. til að fara á síldarvertíð árið 1951. Þá hóf hann að leysa af á Bifreiðaeftirliti ríkisins og fékk loks fastráðningu og starfaði þar óslitið þar til eftirlitið var lagt niður í lok árs 1989, þar af síðustu árin sem forstöðumaður. Sigurður var ráðinn sem prófdómari ökuprófa á Norðurlandi og starfaði þar til aldamóta eftir 11 ára starf, þá sjötugur að aldri.

Sigurður var mjög virkur félagsmaður í Félagi harmonikuunnenda við Eyjafjörð frá stofnun þess 1980 og lék með hljómsveit FHUE frá upphafi. Sigurður var í tvígang formaður FHUE. Auk þess var hann gjaldkeri Sambands íslenskra harmonikuunnenda og síðar varaformaður þeirra samtaka.

Útför hans fer fram í Akureyrarkirkju fimmtudaginn 29. júlí klukkan 13.

Það mun hafa verið árið 1973 sem leiðir okkar Sigga tengdaföður míns lágu fyrst saman þegar ég fór að viðra mig upp við Steinunni einkadóttur hans. Það tók mig ekki langan tíma að skynja þá skilyrðislausu ást og umhyggju sem hann bar til dóttur sinnar. Í gegnum alla þessa áratugi hefur þetta verið mín upplifun af þeirra nána og sterka sambandi. Ekki var heldur slegið af hjá afanum og síðar langafanum þegar kom að umgengninni við barnabörnin og barnabarnabörnin þegar þau komu í heiminn eitt af öðru. Ljúfari afi er vandfundinn. Sama á fullkomlega við um Rósu tengdamóður mína sem lést langt fyrir aldur fram árið 1995 og Siggi saknaði sárt til hinstu stundar. Barnabörnin og þau eldri af barnabarnabörnunum munu í framtíðinni búa yfir hugljúfum minningum um afa sinn sem mig langar til að lýsa með eftirfarandi stöku sem til varð ásamt fleirum fyrir mörgum árum til Sigga.

Reynst mér ávallt hefur hann
í öllu heill og traustur.

Engan veit ég vænni mann,
varkár, hægur, hraustur.

Óhætt er að fullyrða að harmonikan hafi verið Sigga einkar kær um langt árabil og áhrifaríkt að sjá þá lífsfyllingu og hugarró sem hún gaf honum þegar frá nikkunni streymdu undurfagrir ljúfir, stundum dimmir, hljómar. Aldrei mun ég gleyma þeim stundum þegar við spiluðum sama í sumarbústaðnum, þú af list á harmonikuna og ég glamraði undir á hljómborðið. Uppáhaldslag Rósu, Spönsku augun, var alltaf mjög ofarlega á lagalistanum.

Minningarnar eru óteljandi en einna eftirminnilegust er trúlega 30 daga frítúr á frystitogara fyrir u.þ.b. 30 árum. Þorsteinn bróðir tengdapabba, bóndi að Skógum, sem haldið hafði tryggð við æskustöðvarnar eftirlét bróður sínum rýmilegt landsvæði sem sennilega hefur verið frágengið með einu faðmlagi þeirra í milli. Á þessum yndislega stað, austarlega í landi Skóga, hafði verið tekin ákvörðun um að byggja sumarbústað. Byggingarstæðinu var valinn staður á hæð á að giska rúma 100 m frá þjóðveginum en frá veginum var allt á fótinn og fremur torfarin leið. Við vorum fjórir ofur kappsamir samherjar sem snerum saman bökum í þessu verkefni. Siggi Indriða verkstjóri, synir hans Nonni og Siddi auk undirritaðs. Allt byggingarefnið var ýmist borið eða dregið frá veginum á byggingarstað og í minningunni er illskiljanlegt hvernig við náðum að draga níðþunga ljósastaurana sem notaðir voru í undirstöður þessa leið með því að raða okkur upp í hlutverki dráttarklára. Óhætt er að fullyrða að vökulögin voru brotin á hverjum einasta degi þennan mánuð, bústaðurinn risinn og stemmingin ógleymanleg. Ekki skemmdi fyrir þegar nágranni í nálægum bústað kom í heimsókn og spurði hvar við hefðum keypt þetta fallega einingahús. Spyrja má hvers vegna var ekki byrjað á því að leggja veg að byggingarstaðnum áður en hafist var handa við bygginguna. Því er til að svara að í þessu tilviki var kappið meira en forsjáin en þá hefði þessi sameiginlega upplifun okkar sem að verkinu stóðum ekki verið nálægt því jafn skemmtileg í minningunni. Vegurinn kom reyndar ekki fyrr en 20 árum síðar. Eitt er víst að aldrei á ævinni hef ég verið jafn feginn að komast út á sjó eins og eftir sumarbústaðarbygginguna sem í dag er griðastaður stórfjölskyldunnar, umvafinn trjám sem gróðursett voru sem græðlingar af tengdaforeldrum mínum.
Í þau 33 ár sem ég stundaði sjómennsku voru það Siggi og Rósa, meðan hennar naut við, sem voru stoð og stytta Steinu og barnanna okkar og ég vona að sjómennirnir okkar eigi sem allra flestir jafn trausta og góða tengdaforeldra og mér hlotnuðust á sínum tíma.

Árin líða eitt af öðru, upp og niður eins og gengur
mér finnst sem milli okkar hafi myndast sterkur strengur
sannarlega þú reynst mér hefur mikill happafengur
og bið því Guð að ég njóti þess, mikið mikið lengur.



Segja má að ég hafi svo sannarlega verið bænheyrður þar sem tengdafaðir minn lifði við góða heilsu árum saman eftir að þessi bæn varð til. Nú þegar Sigurður Indriðason er látinn saddur lífdaga þá er okkur öllum sem honum tengjast efst í huga endalaust þakklæti fyrir að hafa átt hann að á lífsins leið.

Takk fyrir allt

Árni Bjarnason.