Siggeir Valdimarsson fæddist í Reykjavík 22. júlí 1965. Móðir hans er Hrafnhildur H. Wilde, f. 14.7. 1941, og faðir hans var Valdimar Einarsson, f. 18.5. 1940, d. 18.5. 2008. Systkini Siggeirs sammæðra: Markús A.G. Wilde, f. 22.10. 1979. Samfeðra systkini Siggeirs eru: Einar Finnur, f. 9.10. 1967, Valdimar Ragnar, f. 21.8. 1975, Margrét, f. 1.6. 1978, og Margrét Sævarsdóttir, f. 14.4. 1966.

Siggeir ólst upp hjá móður sinni í Hlíðunum ásamt bróður sínum Markúsi og gekk í Hlíðaskóla.

Árið 1989 hóf Siggeir sambúð með Helenu Bragadóttur, f. 15.2. 1966, og eignuðust þau eina dóttur, Brynju, f. 27.5. 1993. Þau slitu samvistir en héldu vináttu alla tíð. Siggeir á eitt afabarn, Öglu Björk Egilsdóttur, f. 16.1. 2020.

Siggeir vann ýmis tilfallandi störf, dró sig reglulega úr skarkala borgarinnar og fór af og til í vinnumennsku í sveit, sem honum féll vel. Siggeir stundaði nám í Iðnskólanum í rafeindavirkjun á árunum 1991-1995. Hann naut sín í rafmagns- og tölvufræðunum og fór í framhaldi að vinna hjá Tæknivali og var þar sérfræðingur í netkerfum. Hann náði sér í mikla sérhæfingu hér heima og erlendis og var með alþjóðlegar vottanir í þeim efnum og átti farsælan feril hjá Tæknivali sem kerfisstjóri um nokkurra ára skeið. Hann var gríðarlega framsýnn í óravíddum netheima og með mjög skýra sýn á möguleika netsins áður en sú þekking varð almenn. Hann var einnig með tölvunámskeið fyrir almenning þar sem hann miðlaði þekkingu sinni og kynnti netið almenningi áður en það var orðið daglegt brauð.

Siggeir æfði karate um nokkurra ára skeið, og var einnig um tíma í stjórn Þórshamars.

Siggeir átti sér mörg hugðarefni og áhugamál sem hann sinnti eftir föngum, en heilsu hans hafði hrakað mikið síðustu ár. Hann hafði áhuga á hugleiðslu, blómarækt, stjörnufræði og var mikill sundmaður. Mesta plássið í hans huga síðustu misserin fékk afastelpan hans.

Útför hans fer fram frá Háteigskirkju í dag, 9. ágúst 2021, klukkan 13.

Þá er hann elsku Siggeir fallinn í valinn. Við Siggeir höfum þekkst alveg frá því í barnaskóla en við gengum bæði í Hlíðaskóla. Siggeir var kröftugur strákur í bekknum, góður í yfir, hljóp hraðast, henti sér markstanganna á milli á malarvelli í frímó og þorði að svara kennurunum. Ég var feimin og óframfærin, yngst í bekknum og horfði á hann með aðdáun öll árin okkar í grunnskóla, úr hæfilegum fjarska þó. Vissara að halda sig aðeins frá öllum þessum krafti sem bjó í þessum strák. Hann var vinsæll, ég var ekki sú eina sem var skotin í honum og hann átti góða vini í bekknum. Vináttan sú entist kannski ekki allt lífið því líf hans tók snemma aðra stefnu en flestra vina sem hann átti í grunnskóla.

Leiðir okkar Siggeirs lágu svo saman aftur þegar við vorum rúmlega tvítug og bjó Siggeir þá á áfangaheimili. Hann var tiltölulega nýkominn úr meðferð og hafði farið í þær þó nokkrar þá þegar um tvítugt. Hann hafði verið á Staðarfelli og talaði alltaf mjög vel um þann stað, og fann einhvern frið í umhverfinu og staðnum almennt. Við fórum fljótlega að búa saman í skrautlegri kommúnu á Tryggvagötu, vorum bæði svolítið týnd í lífinu, engin stefna, engin bein markmið. Hvorugt búið með menntaskóla og vissum ekki á hvaða leið við vorum yfirleitt. En við vissum að okkur þætti vænt hvoru um annað, og bjuggum saman næstu árin. Við eignuðumst hana Brynju okkar, og stundum síðar og ekki fyrir svo löngu komumst við að því að þetta hefði verið tilgangurinn með okkar samvistum. Brynjan, sem veitti pabba sínum svo mikla gleði á löngum tímabilum og virkaði það í báðar áttir. Það var ekki alltaf auðvelt að vera dóttir Siggeirs þegar á leið, fíknisjúkdómurinn var harður og ágengur en Siggeir fór inn í hann af sama krafti og ákafa og hann gerði alla aðra hluti.

Siggeir bar gæfu til að ná löngum edrútíma í bernsku Brynju, hann kláraði nám í rafeindavirkjun og sinnti Brynju af alúð. Við vorum kannski með ólíkan uppeldisstíl, þau horfðu saman á Godfather-myndirnar, sem hneykslaði mömmuna, en kærleikurinn og tengslin þeirra voru ósvikin. Þau fóru einnig í nokkrar utanlandsferðir og bjuggu til margar góðar minningar saman.

Það voru margar víddir í Siggeiri, og það hefur rifjast upp undanfarna daga þegar ég hef rætt við gamla vini og farið yfir hans lífshlaup áður en sjúkdómsbyrðin varð svona mikil eins og síðustu ár. Siggeir hlustaði á alls konar tónlist þegar við bjuggum saman og var hann alltaf að kynna mig fyrir klassísku meisturunum í tónlist sem ég hafði lítið hlustað á eins og Chopin, Grieg, Satie og einnig Nick Cave, Johnny Cash, Nico og brjáluðum blúsurum sem ég man ekki hvað heita. Siggeir kom mér oft á óvart og þegar hann hóf nám í rafeindavirkjun varð ég hissa, vissi ekki af þeim áhuga. Námið og fræðin sem hann nam féllu einkar vel að hans áhugasviði og blómstraði hann í því starfi næstu árin hjá Tæknivali, áhuginn eldheitur. Gamall vinur sem var með honum í náminu og bransanum tók svo djúpt í árinni að tala um hann sem einn af bestu tölvumönnum landsins. Hann tók það af krafti, vann mikið, langan vinnudag, alltaf á eins konar bakvakt, og fylgdi þessu einnig mikil streita þótt áhuginn á tölvuheiminum og netkerfum væri alltaf til staðar.

Siggeir var frábær sundmaður og fórum við mikið í sund, oft daglega þegar við bjuggum saman. Á meðan ég synti 500 metra á hektísku bringusundi leið Siggeir um laugina á skriðsundi, oftast einn km stundum tvo. Og vatnið gáraðist varla, hann átti heima í vatninu. Áhugamál Siggeirs voru margs konar. Hann æfði karate um nokkurra ára skeið, hann var heillaður af geimnum, skammtafræði, búddisma, hugleiðslu og hélt mjög upp á víetnamska munkinn Thich Nhat Hanh.

Siggeir hafði áhuga á lífinu, hafði alltaf mikinn lífsvilja þótt lífsstíllinn gæfi annað til kynna. Hann háði harða baráttu við fíknisjúkdóminn, reis óteljandi sinnum upp og hóf sína edrúgöngu að nýju, byggði sig upp, kom undir sig fótunum, hélt áfram. Þegar Siggeir var horfinn inn í skuggana sem fylgdu fíkninni, þá missti maður oft þráðinn við hann en alltaf kom það til baka þegar hann var kominn til sjálfs sín. Hann gat verið ótrúlega kröftugur þegar hann var að ná sér upp úr erfiðum tímabilum neyslu og veikinda, og hljóp hann eitt sinn 10 km í Reykjavíkurmaraþoni eftir margra mánaða erfiða lyfjameðferð. En svo þvarr krafturinn með árunum og líkaminn þreyttist. Í vor fékk Siggeir að auki erfiða greiningu sem hann mætti með ákveðnu raunsæi en um leið eins og hann hefði misst vonina að einhverju leyti. Síðustu mánuðina í lífi sínu bjó Siggeir ekki langt frá mínum vinnustað og bauð mér ósjaldan far heim úr vinnu. Hann naut þess að verða að liði og vera í tengslum við sitt fólk. Hann var í sambandi við Vorteymið sem var honum til stuðnings í sínu lífi og var með töluverð lífsgæði þó svo hann hefði sjálfur haft á orði að líf hans héngi á bláþræði eftir mikil veikindi síðustu ára. Samtöl okkar í þessum bílferðum snerust oftar en ekki um Brynju og Öglu afabarn. Hann ræddi það einnig hve sáttur og þakkátur hann væri fyrir stjúpföður Brynju sem kom inn í líf hennar þegar hún var sex ára. Það var Brynju ómetanlegt að geta fylgt pabba sínum þennan síðasta spöl á líknardeildinni á LSH, þar sem fagmennska, skilningur og fordómaleysi markaði allt viðmót og hjúkrun, hjá öllu starfsfólki deildar.

Elsku Siggeir er genginn, vonandi án þjáninga í hliðstæðum heimi. Eftir sitjum við og minnumst Siggeirs fyrir svo margt; pabbi, afi, sonur, bróðir, vinur.

Langar að þakka deild A-7 og Bryndísi Sigurðar smitsjúkdómalækni sérstaklega sem Siggeir minntist oft á sem og öðru starfsfólki deildar, SÁÁ fyrir alla þjónustuna gegnum árin, deild 32A/33A á LSH og síðast en ekki síst Vorteyminu.

Langar að enda á ljóði eftir Sigurð Pálsson:

Vængjuðum þrótti
stíga tónar
úr grænu birki
um flugheiðan himin

Sólþýður vindur
strýkur boga sínum
um brúna mold

Helena Bragadóttir.