Sigurlaug Sigurjónsdóttir fæddist í Hraunkoti í Grímsnesi 20. september 1926. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Fossheimum á Selfossi að morgni 1. ágúst 2021. Foreldrar hennar voru Sigurjón Einarsson, f. 11. apríl 1893, d. 1975, og Guðný Magnea Pétursdóttir, f. 3. apríl 1893, d. 1978. Sigurlaug, Silla eins og hún var ævinlega kölluð, var þriðja í röð systkina sinna sem nú eru öll látin.

Silla bjó lengstan hluta ævi sinnar sem bóndi og húsfreyja á Reykjum á Skeiðum með eiginmanni sínum, Bjarna Þórðarsyni, f. 1. apríl 1914, d. 1. mars 1998. Bjarni og Silla gengu í hjónaband annan dag jóla árið 1948. Síðar flutti Silla á Selfoss og bjó þá í Grænumörk 2, allt þar til hún flutti á hjúkrunarheimilið Fossheima þar sem hún lést.


Börn Sillu og Bjarna eru sex: 1) Magnea, f. 1948, gift Böðvari Guðmundssyni, f. 1949, og eiga þau fjögur börn, tólf barnabörn og eitt barnabarnabarn. 2) Kristjana, f. 1950 d. 1957. 3) Guðrún, f. 1951, gift Árna Svavarssyni, f. 1953, eiga þau tvo syni. 4) Þórdís, f. 1953, gift Ara Einarssyni f. 1950. Þau eru barnlaus, Þórdís á son af fyrra hjónabandi. 5) Sigrún Ásta, f. 1955, í sambúð með Birgi Jónssyni, f. 1943. Á hún þrjú börn af fyrra hjónabandi og fjögur barnabörn. Birgir á tvo syni af fyrra hjónabandi. 6) Rúnar Þór, f. 1956. Fyrri kona hans var Guðríður Ingibjörg Pálsdóttir, f. 1960, d. 1998. Eignuðust þau þrjú börn. Seinni kona hans er Birna Þorsteinsdóttir, f. 1955, og á hún fjögur börn af fyrra hjónabandi, saman eiga þau fjórtán barnabörn.

Jarðsungið verður frá Selfosskirkju 11. ágúst kl. 13.30.


Dagur er að kvöldi kominn hjá ömmu Sillu á Reykjum eftir langan vinnudag. Söknuðurinn er mikill en þakklæti ofarlega í huga þegar ég rifja upp allt það sem amma Silla gaf mér og okkur systkinunum, sem og öllum þeim fjölmörgu sem áttu griðastað í gamla bænum á Reykjum í gegnum tíðina. Amma Silla var dugnaðarforkur sem lét ekkert stöðva sig. Heilsan var ekki alltaf með henni í liði en hún gaf heilsubrestinum langt nef og hafði sig í gang og tók þátt. Vildi sýna lit og frumkvæði að því að koma einhverju lífi í hlutina, stóra og smáa.
Fyrir okkur systkinin á Reykjum voru það forréttindi að fá að alast upp á loftinu hjá ömmu og afa og síðar meir í neðri bænum. Það var alltaf styttra upp brekkuna til ömmu en aftur heim. Hjá ömmu voru aðrar reglur. Þar leyndust ævintýri í hverju horni og einhvern veginn virtist hún alltaf hafa á tilfinningunni að maður hefði hvorki fengið vott né þurrt dögum saman, því alltaf dró hún fram bakkelsi eða hrærði í pönnukökur við minnsta mögulega tilefni. Og pönnukökurnar hennar ömmu voru í algjörum sérflokki. Árum saman var það fastur punktur í tilverunni að vakna á sunnudagsmorgni, yfirleitt í gamla bænum því þangað fór maður til að gista á laugardögum, og ilmurinn sem vakti mann var hreint út sagt stórkostlegur. Maður sveif niður tröppurnar af efri hæðinni í lokkandi pönnukökurnar í eldhúsinu. Og mér þætti gaman að vita heildarfjölda pönnukakanna sem amma bakaði og flatkakanna sem hún sneri berhent í reykjarmekkinum í bakdyrunum á gamla bænum. Aldrei kvartaði hún eða vorkenndi sér. Þetta var svo sjálfsagt og lítið mál í hennar huga. Þó að hún hefði fengið hjartakast nokkrum dögum áður, þá bara fékk hún sér sprengitöflu og kom sér í gang, aftur og aftur og aftur. Brosti út að eyrum og bar sig vel, alveg fram á seinasta dag.
Amma var með eindæmum nýtin og á sama tíma glysgjörn. Ógleymanlegt er eitthvert sinn sem amma hafði búið til skreytingu, þá vafalítið nýbúin að endurskipuleggja húsgögnin í stofunni í enn eitt skiptið og snúa henni á hvolf. Skreytingin vakti sérstaka athygli því aðalglingrið í henni voru blúndunærbuxur af Vöku systur sem þá bjó á efri hæðinni í gamla bænum. Þetta fannst ömmu bara sæt blúnda sem ætti heima í skreytingu. Einnota var ekki til í orðabók ömmu. Hún notaði alla hluti á meðan þeir virkuðu og var ekki að kaupa nýtt að óþörfu.
Amma blómstraði í kringum fólk og henni fannst ekkert skemmtilegra en að frétta af fólkinu sínu og sýna því sem maður var að fást við einlæga aðdáun og áhuga. Amma tók aldrei bílpróf en það truflaði hana ekki sérstaklega mikið. Hún reddaði sér á milli staða með ýmsum hætti. Ef enginn var til staðar til að keyra hana, þá hreinlega rölti hún sér niður á Skeiðaveg, baðaði út höndunum og stoppaði næsta bíl með valdi og settist inn í bíl og tók sér far. Ekkert mál. Alltaf bjargaði hún sér. Enda voru allir af vilja gerðir til að hjálpa þessari smávöxnu gráhærðu konu með hlýja brosið sitt.
Þegar amma flutti á Selfoss árið 2005 var ég að hefja framhaldsskólagöngu í FSu það sama haust. Mér líður eins og það hafi verið jafn mikil viðbrigði fyrir okkur og að við höfum upplifað sams konar menningarsjokk, því líkt og ég blómstraði amma eins og unglingur í félagslífinu sem beið hennar í Grænumörkinni og oftar en ekki þegar maður bankaði upp á hjá henni var hún ekki heima, heldur á einhverju útstáelsi úti í bæ eða í blokkinni við annan mann. Hún reyndist mér einstaklega gott skjól til að leita í þegar maður þurfti á gistingu, matarbita eða félagsskap að halda á Selfossi. Alltaf mætti hún manni í dyrunum með opinn faðminn og heitt á könnunni, ef hún var þá á annað borð heima.
Amma hugsaði vel um fólkið sitt, fæddi það og klæddi og hugsaði um mann á raunastundum. Hún var skjól í stormi og blómstraði í garðinum á sumrin, og í gróðurhúsinu sínu þess á milli. Ég á ömmu Sillu ótrúlega margt að þakka. Hún stóð þétt við bakið á mér þegar mamma dó, á sama tíma og hún var að takast á við fráfall afa. Hún ól mig upp á margan hátt og á mjög mikið í mér og átti alltaf sérstakan stað í mínu hjarta. Hún amma upplifði ótrúlega hluti á sinni löngu ævi. Heimsstyrjöld, iðnbyltingu, búferlaflutninga fólks úr sveit í borg, og allar þær seinni tíma hörmungar sem hafa gengið yfir samfélagið og allar þær ótal tækninýjungar sem hafa rutt sér til rúms seinustu áratugi en hún talaði um að rafmagnið hefði verið mesta byltingin í hennar búskapartíð. Ævi ömmu var ekki alltaf dans á rósum en alltaf tókst hún á við áskoranir og áföll af æðruleysi og reyndi að gera gott úr hlutunum, sama hvað. Allt skyldi bjargast og blessast.

Ég mun sakna hennar og minnast og segja sögur af henni um ókomna tíð, sögur af ss-skeytum (sms), gili í hárið og túmötum og öllu því óborganlega sem þú tókst upp á. Takk fyrir að kenna mér á lífið elsku amma, allar pönnukökurnar, spilin við eldhúsborðið og samtölin í gegnum árin. Nú ertu komin í sumarlandið til afa og allra hinna í lillabláum kjól, með rúllur í hárinu, sæta slæðu um hálsinn og smitandi brosið þitt blíða. Elsku amma Silla. Blessuð sé minning þín.

Bjarni Rúnars.