Guðmundur Aðalsteinsson fæddist í Reykjavík 30. mars 1942. Hann lést á Landspítalanum 31. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Aðalsteinn Guðmundsson, f. 8. ágúst 1903, d. 13. júní 1994, og Vilborg Jónsdóttir, f. 24. febrúar 1908, d.  27. nóvember 1997. Systkini Guðmundar: Pálína, f. 29. ágúst 1925, d. 4. febrúar 2013, Halldóra, f. 16. júní 1927, og Agnes, f. 16. mars 1935, d. 25. september 2016.


Guðmundur kvæntist Steinunni Sigurlaugu Aðalsteinsdóttur, f. 9. maí 1941, hinn 4. júní 1960. Foreldrar Steinunnar voru Aðalsteinn Guðjónsson, f. 16. desember 1899, d. 29. desember 1982, og María Björg Björnsdóttir, f. 7. febrúar 1916, d. 10. júlí 2007. Börn Guðmundar og Steinunnar eru: 1) Aðalsteinn, f. 21. mars 1960, kvæntur Ástu S. Aðalsteinsdóttur. Börn: Guðmundur Freyr, Berglind Hlín og Alfreð. Barnabarn: Kamilla Sól Davíðsdóttir. 2) Birgir Örn, f. 18. febrúar 1964, kvæntur Gunnlaugu Guðmundsdóttur. Börn: Ásta Bergrún og Snorri Örn. 3) Guðmundur Gylfi, f. 17. mars 1968, kvæntur Helgu Aspelund. Börn: María Rannveig, Steinunn Hlíf, Snædís Guðrún og Kristín Erla. Barnabörn: Móey Helga og óskírð stúlka Magnúsdætur; Haraldur Hugi Logason.


Guðmundur var fæddur og uppalinn við Hofsvallagötu í Vesturbænum í Reykjavík. Hann gekk í Melaskólann og síðar í Verslunarskólann þaðan sem hann útskrifaðist árið 1960. Hann stundaði íþróttir af kappi á sínum yngri árum og spilaði m.a. körfubolta með ÍR. Hann var virkur í félagsstarfi í Verslunarskólanum og var formaður nemendamótsnefndar skólans á lokaári sínu.


Guðmundur vann ýmis sumarstörf á skólaárum sínum, m.a. sem kaupamaður á bænum Laxárdal í Hreppum.


Að námi loknu hóf Guðmundur skrifstofustörf hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík og var það honum góður skóli fyrir áframhaldandi störf tengd rekstri fyrirtækja. Árið 1970 tók Guðmundur við starfi framkvæmdastjóra hjá flutningafyrirtækinu GG hf. þar sem hann starfaði næstu 15 árin. Árið 1985 keyptu Guðmundur og Steinunn hreinsivörufyrirtækið Tandur sem þau byggðu upp og ráku af miklum dugnaði og elju um árabil ásamt tveimur sona sinna.
Guðmundur var félagi í Oddfellowreglunni frá árinu 1986.

Útför Guðmundar verður frá Bústaðakirkju í dag, 18. ágúst 2021, og hefst athöfnin klukkan 15. Athöfninni verður streymt í gegnum hlekkinn https://youtu.be/EKeP7EGkubQ

Einnig má nálgast hlekk á

https://www.mbl.is/andlat

Til góðs vinar liggja gagnvegir, þótt hann sé firr farinn. Úr Hávamálum.


Árið var 1986 þegar leiðir okkar Guðmundar Aðalsteinssonar lágu fyrst saman er við gengum á svipuðum tíma til liðs við góðan félagsskap, Oddfellowregluna á Íslandi. Fyrst í stúku nr. 3, Hallveigu, og síðar í stúku nr. 20, Baldur, þar sem við störfuðum saman í 35 ár.
Guðmundur var einstakur maður, félagslyndur úrræðagóður og mikill leiðtogi, frábær á öllum sviðum og eiginlega alveg þrælmagnaður hvort heldur var í starfi eða leik. Hann hvatti til góðra verka og var öðrum góð fyrirmynd sem borin var virðing fyrir. Fljótlega lentum við saman í nefnd og síðar í hinum ýmsu störfum sem tilheyrðu á vettvangi okkar góða félagsskapar.
Það var afskaplega skemmtilegt og lærdómsríkt að starfa með Guðmundi hvort heldur var í nefnd eða stjórn. Hann þurfti alltaf að fá svör við öllu sem lagt var fram til að vera viss og spurði spurninga með þeim hætti að svörin lágu yfirleitt fyrir eftir spurninguna. Hann var laginn við að ná góðri niðurstöðu í öllum málum, það er góður hæfileiki. Hann átti líka auðvelt með að ná til annarra og byggja upp traust milli sín og félaganna, virkja þá til góðra verka. Hann gaf félagsstörfunum alltaf góðan tíma þótt hann væri önnum kafinn við rekstur fyrirtækis og lét sig aldrei vanta þegar eftir var kallað. Hann var mikið náttúrubarn, undi sér vel í Grímsnesinu í sumarbústaðnum þar sem hann ásamt Steinunni sinni, sem hann kallað stundum Frú Steinunn þegar mikið lá við, ræktaði garðinn sinn og jörðina þar í kring. Það var alltaf gott og notalegt að koma í heimsókn og setjast á pallinn í kvöldkyrrðinni og taka spjallið. Þá kom fram á sviðið maður bókarinnar, Guðmundur Aðalsteinsson, og spurði gjarnan: Hvaða bók ertu að lesa núna, Júlíus minn? Ég er núna að lesa Brekkukotsannál í þriðja sinn held ég, bætti hann svo við. Síðan var farið yfir alla flóruna, ljóð og stökur flugu á milli og hugurinn fylltist gleði og fögnuði meðan kvöldið leið og stundum var farið aðeins inn í nóttina, því kvöldið leið hratt:

Svo gleypir tíminn gömul vinakynni,
og gamlan drykkjuskap og stefnumót.
Því menn eru bara ungir einu sinni,
og ýmsir harla stutt, í þokkabót.
(Tómas Guðmundsson)

Datt þá út úr Guðmundi sem sagði svo:
Er þetta nú ekki orðið gott hjá okkur í kvöld Júlíus minn, ætlum við ekki að fara í golf í fyrramálið? Það var aldrei vakað langt fram eftir en tíminn nýttur vel og vaknað snemma. Þannig var allt hjá Guðmundi, vini mínum; að hafa reglu á hlutunum. Á golfvellinum var hann erfiður andstæðingur við að eiga, gamli körfuboltakappinn og ÍR-ingurinn kom þá fram í honum.
Hann kunni því illa að gera mistök og ekki vildi hann tapa, var jafnan einbeittur og kom stundum með ótrúlegar fléttur í leiknum sem gátu truflað andstæðinginn, en alltaf eftir hring á vellinum var sest niður og umræðan tekin um eitthvað allt annað til að hreinsa hugann eins og hann orðaði það.
Einu sinni sagði Guðmundur mér frá því að hann hefði verið eini Vesturbæingurinn, þá unglingur, sem gekk í íþróttafélag austan við læk. Fór ekki troðnar slóðir pilturinn sá. Það er notalega skemmtilegt að kíkja gegnum skráargatið meðan minningarnar merla, rifja upp stundirnar og þeirrar gæfu að hafa notið samfylgdar og leiðsagnar góðra samferðamanna eins og Guðmundar og vita að maður var þar í vinafylgd. Það var árið áður en covid bankaði upp á að við borðuðum saman eitt kvöldið, nokkrir gamlir félagar, sumir komnir yfir áttrætt og aðrir bráðum að verða það. Eins og gerist stundum teygðist úr málfarinu og margar góðar sögur flugu hátt, jafnvel hærra en hátt! Í hópnum voru þrír Guðmundar og hafði einn þeirra orð á því að við værum að verða of gamlir fyrir svona kvöldfagnaði.

Þá nefndi ég brot úr ljóði eftir Braga Sigurjónsson:

Úti er löngu leikjalyndi,
lítil gleðiföng.
Bernska, kemur þú aldrei aftur,
aftur með leiki og söng.

Þetta kannt þú Júlíus, sagði þá einn af Guðmundunum!
Af hverju ertu ekki búin að koma þessu út úr þér fyrir löngu?
Þið þurfið að hlusta á þetta ljóð og lag sungið, sungið af Smárakvartettinum á Akureyri, því þar hljómar ein fegursta bassarödd sem við höfum átt, rödd Magnúsar Sigurjónssonar, sem Róbert Abraham Ottósson líkti við söngvarann Shalyapin, eftir að hafa hlustað á Magnús syngja. Söngur Magnúsar og túlkun á ljóðinu Við lágan bæ ber hugann alla leið til baka og aftur heim, þangað sem við erum staddir á þessu andartaki akkúrat núna og deilum eldgömlu minningunum okkar á millum. Enn eitt kvöldið, í góðra vina hópi líður hjá. Vorið er á næsta leiti og hlýir vindar komnir langt að, sunnan yfir hafið og leika um vanga. Við hlökkuðum til sumarsins, alveg eins og í gamla daga þegar hugur var frjáls og hjartað glatt, svo sem einhver sagði. Það var í byrjun júlí þessa árs að við fórum á golfvöllinn og gerðum plan um að taka nú vel á því í sumar. En þetta varð síðasti hringurinn og vinurinn spilaði ótrúlegt golf þennan dag, lék á als oddi, fór á kostum og sparaði ekki gamanyrðin eins og þegar hann var upp á sitt besta á góðri stund.

Dagur sem ekki gleymist.
Þegar við erum ung er heil eilífð til ferðaloka. Svo allt í einu renna þau upp og við skynjum að samfylgdin varir aðeins skamma stund. Magnast þá gleðin yfir góðum samferðamönnum eins Guðmundi Aðalsteinssyni, sem við kveðjum í dag.


Blessuð sé minning hans.
Sendi Steinunni, börnum, barnabörnum og systurinni Halldóru innilegar samúðarkveðjur.

15. ágúst 2021.




Júlíus Thorarensen.