Einar Helgi Haraldsson fæddist á Selfossi 7. apríl 1962. Hann lést 4. ágúst 2021 á Landspítalanum við Hringbraut. Foreldrar hans voru hjónin Kristgerður Unnur Þórarinsdóttir, f. 24.12. 1926, d. 11.5. 1986, og Haraldur Einarsson, f. 21.1. 1920, d. 28.4. 1985. Systkini hans eru Guðbjörg, f. 28.11. 1951; Rannveig, f. 25.8. 1954, og Þórir, f. 27.2. 1964. Þann 27. desember 1987 kvæntist Einar Lilju Böðvarsdóttur, f. 30.9. 1967. Foreldrar hennar voru hjónin Valgerður Hanna Guðmundsdóttir, f. 2.10. 1941, d. 20.11. 2002, og Böðvar Sigurjónsson, f. 6.12. 1938, d. 30.9. 2019. Börn Einars og Lilju eru 1) Haraldur, f. 24.9. 1987, kvæntur Birnu Harðardóttur, f. 10.1. 1989. Börn þeirra eru Matthilda Sigurðardóttir, f. 30.3. 2013; Einar Hörður Haraldsson, f. 29.8. 2015, og Inga Lilja Haraldsdóttir, f. 21.8. 2018. 2) Hanna, f. 18.3. 1990, unnusti hennar er Dagur Arngrímsson, f. 14.1. 1987, og þau eiga synina, Elmar Darra, f. 7.5. 2019, og Einar Þór, f. 3.5. 2021. 3) Arnar, f. 31.10. 1996, unnusta hans er Emilía Björg Atladóttir, f. 13.6. 1997. 4) Dagur Fannar, f. 23.9. 2002, og 5) Daði Kolviður, f. 19.12. 2005.

Einar Helgi ólst upp á Urriðafossi í Flóahreppi. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund 1982 og útskrifaðist úr Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1984. Einar kenndi í eitt ár við grunnskólann á Hellu en tók svo við búinu á Urriðafossi árið 1986 og var þar með búskap og stundaði laxveiði við Urriðafoss. Hann bjó þar til ársins 2019 þegar elsti sonurinn tók við búinu. Flutti hann þá á Selfoss með Lilju og yngstu tveimur sonum sínum en stundaði laxveiðina allt fram á síðasta dag. Einar var alla tíð virkur í ýmsum félagsstörfum og stundaði af kappi frjálsar íþróttir og körfubolta á yngri árum. Hann var mikill söngmaður og söng bæði í Karlakór Hreppamanna og í kirkjukór Villingaholtshrepps.

Útför Einars Helga verður frá Selfosskirkju í dag, 18. ágúst 2021, kl. 13. Vegna samkomutakmarkana verður boðið í athöfnina í kirkjunni en streymt verður frá afhöfninni. Hlekkinn má finna á:

www.selfosskirkja.is

Virkan hlekk á streymið má finna á:

www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi.
Það er skrítið að setjast niður og skrifa minningargrein þegar andlát þitt er enn svo óraunverulegt og erfitt til þess að hugsa að við fáum ekki að hitta þig aftur. Einn dag varstu hér og þann næsta ekki. Þú varst tekinn frá okkur allt of ungur, ungur í anda og með svo mikinn lífskraft, hugmyndir og hvatningu. Lífið fyrstu dagana án þín hefur verið tómlegt og litlaust. Söknuðurinn er óendanlegur og í samræmi við þann kærleika sem ríkti í kringum þig, bæði til þín og frá þér.

Þú varst svo stór og mikilvægur hluti af lífi okkar allra, enda gafst þú þér alltaf tíma fyrir okkur sama hvert verkefnið eða tilefnið var. Hvort sem um var að ræða framkvæmdir, íþróttakeppni, tónleika, barnapössun eða einfaldlega að vera til staðar í hversdagslífinu. Alltaf varst þú boðinn og búinn að hjálpa okkur öllum, eins og þú hefðir aðeins fleiri klukkutíma í sólarhringnum en aðrir. Verkkvíði var ekki til í þinni orðabók, snöggur til verka og úrræðagóður alveg sama hvað. Eitt sinn mættir þú óumbeðinn að slá garðinn snemma morguns á frídegi, bara því þú hafðir tekið eftir því að þess þyrfti. Í annað skipti var nefnt að það væri ekki reykskynjari í húsinu. Þá mættir þú strax snemma morguninn eftir til að setja þá upp - meðan við vorum enn í rúminu. Kappið var meira að segja svo mikið að þú steingleymdir að banka. Svona varst þú, elsku pabbi, mættur fyrstur til að hjálpa og vildir allt fyrir alla gera. Það er minnisstætt að í hvert skipti sem okkur varð á, og jafnvel þó við værum miður okkar, mættir þú því með bros á vör, því það væri ekkert vandamál svo stórt að það væri ekki hægt að leysa það. Í þínum huga voru bara lausnir en engin vandamál.

Fyrir utan að veita okkur hjálparhönd við hvert tækifæri þá veittir þú áhugamálum okkar ávallt mikla athygli og varst þú okkar helsti stuðningsmaður í söngnum og í íþróttunum. Það var ómetanlegt hvað þú eyddir miklum tíma í að styðja okkur og fundum við fyrir því hvað við vorum þér mikilvæg, því þú mættir á allt sem þú gast. Okkar ástríður voru þínar ástríður. Nærvera þín gerði það að verkum að við fundum fyrir auknum krafti því að við vildum gera þig stoltan. Við höfum svo sem ekki langt að sækja hæfileika okkar á þessum sviðum þar sem þú varst góður söngmaður og einnig varst þú öflugur íþróttamaður. Það stendur upp úr að þú lést alltaf vita ef þér fannst eitthvað þurfa að bæta, enda varstu ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum þínum. Það var ekki bara mætt til að mæta, heldur vildir þú sjá okkur dafna og bæta okkur. Þú kenndir okkur að það væri alltaf hægt að gera betur stöðnun er afturför eins og þú sagðir.

Þrátt fyrir að reyna að gera betur hvern dag, varstu ekki að hrófla við því sem þú vissir að virkaði. Hollustan við Toyota og Massey Ferguson var áberandi, enda reyndust þær vélar vel. Þú varst með einfaldan smekk og fannst þér bara best að fá hamborgarann á Olís. Það var ekkert verið að flækja hlutina. Besta dæmið er líklega sterku hefðirnar sem ríktu á aðfangadagskvöld eins og að lesa jólaguðspjallið en sá yngsti sem var læs fékk það verkefni að lesa það áður en pakkarnir voru opnaðir. Eins mátti ekki smakka áfengi með jólamatnum en þér var hugsað til fjölskyldna sem ættu um sárt að binda vegna áfengisneyslu. Einnig voru engin jól nema þú sætir fyrir framan sjónvarpið seinna um kvöldið og hlustaðir á aftansönginn en það hafðir þú gert í 30 ár og aldrei misst af.

Þó við höfum margt til þín að sækja var það vinsælt grín hjá þér að við börnin hefðum ekkert fengið frá þér nema ósiði. Sumir ósiðir virðast ekki hafa sleppt kynslóð, svo sem fljótfærni, þrjóska og stríðni. Þeir eru þó ómerkilegir í samanburði við öll þau góðu og mikilvægu gildi sem þú kenndir okkur. Þú varst t.d. duglegur að kenna okkur verklega þætti daglegs lífs sem ekki var kennt í skólabókum allt frá því að hnýta bindi að akstri vinnuvéla og umsjón fjármála svo fátt eitt sé nefnt. Þó allt sé þetta verðmætt að kunna eru mikilvægustu lexíurnar án efa þær sem þú gafst okkur óvísvitandi, með fordæmi. Þau gildi sem þú hafðir í hávegum reynum við að tileinka okkur hvern dag og kenna börnum okkar. Gildi eins og æðruleysi, ósérhlífni, hógværð, náungakærleik og eindæma dugnað eru meðal þeirra sem einkenndu þig alla tíð.

Það var ótrúlegt hvað þú varst fær á mörgum sviðum, þú gast gert hvað sem er í höndunum og varst alltaf með svör við öllu. Það var óþolandi að vera á móti þér í Gettu betur því oftar en ekki varst þú í sigurliðinu. Þú gast gengið í flestöll verk og virtust fá verkefni sem þú gast ekki leyst. Við erum sannfærð um að vandamálin fyrir handan hljóta að vera hvílík og vera að hlaðast upp fyrst að besti maðurinn var tekinn frá okkur. Vonandi færðu samt að dreypa á koníaki, spila bridds og syngja allar skemmtilegu vísurnar sem þú söngst fyrir okkur.

Við munum alltaf sakna þín, en eftir því sem tíminn líður verður þakklæti öðru yfirsterkara. Það er sárt og erfitt að geta ekki leitað til þín lengur og lífið án þín verður áskorun. Þeirri áskorun ætlum við í sameiningu að mæta með kærleik og æðruleysi, það er í þínum anda. Þín minning mun lifa að eilífu, í gegnum líf og afrek barna þinna og barnabarna sem hafa alltaf, og munu alltaf, líta upp til þín. Okkar fyrirmynd, klettur og ofurmaður. Við erum stolt af því að vera börnin þín og það hlýjar okkur að hugsa um hve stoltur þú varst af okkur. Þín stígvél eru stór að fylla, það mun enginn hoppa í þau. Þú ert ekki lengur á einum stað heldur í hjörtum okkar allra.

Hvíldu í friði, elsku pabbi okkar.

Þín börn,

Haraldur, Hanna, Arnar, Dagur Fannar og Daði Kolviður.