Pétur Þórarinsson fæddist 20. maí 1957 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu í Hafnarfirði 4. ágúst 2021.


Foreldrar hans voru Þórarinn Sigurður Þórarinsson, f. 16. maí 1930, d. 20. júlí 2000, og Guðbjörg Jónsdóttir, f. 28. júlí 1931.


Bræður Péturs eru: Jón Rósant, f. 26. apríl 1953, Sveinþór, f. 15. júlí 1962, og Þórarinn, f. 19. ágúst 1967.


Pétur ólst upp í Hafnarfirði og útskrifaðist frá Fiskvinnsluskóla Hafnarfjarðar og seinna sem matvælafræðingur frá Háskóla Íslands.


Útförin fer fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 20. ágúst 2021, klukkan 14.0

Pétur var næstelstur okkar bræðra, samt sem áður var hann sá okkar sem hafði mestu ábyrgðartilfinninguna og það einkenndi líf hans. Pétur var alltaf tilbúinn að fórna sínum eigin hagsmunum fyrir aðra og við bræðurnir vorum fljótir að læra á þessa fórnfýsi hans, sérstaklega þegar við vorum strákpeyjar í Hafnarfirði og seinna í Keflavík. Það tók ekki langan tíma að sannfæra Pétur um að akkúrat þetta væri rosalega mikilvægt og þegar við brostum svo út í annað og prísuðum okkur sæla yfir að losna við uppvaskið vissum við ekki hve Pétur yrði okkur mikilvægur í framtíðinni. En það varð hann svo sannarlega.
Við bræðurnir sitjum saman og tölum um Pétur og finnum fyrir söknuðinum, við þrír höfum að sjálfsögðu mismunandi minningar um Pétur. Rósi, sá elsti, þurfti að umbera að Pétur elti hann á röndum og reyndi að herma eftir honum í tíma og ótíma: En það var samt þægilegt, þegar ég var að bera út Alþýðublaðið og Pétur kom með, þá gat ég sent hann 6 ára gamlan út í hliðargöturnar með blað og blað. Þannig að túrinn með blöðin varð ekki alveg eins langur. (Rósi)
Mínar fyrstu minningar með Pétri eru frá Öldugötunni í Hafnarfirði, hann tók mig með yfir Reykjanesbrautina, út í hraunið vestan við kirkjugarðinn. Við höfðum tekið brauð úr eldhúsinu heima og eftir að við höfðum kveikt smá varðeld í gjótu, ristuðum við brauðið. Ég hef hvorki fyrr né síðar fengið jafn gott ristað brauð. Og Pétur minn. Ég hef ekki, eins og ég lofaði, kjaftað í mömmu. (Sveinþór)
Það var notalegt þegar ég lá við hliðina á Pétri og hann las ævintýri fyrir mig áður en ég fór að sofa, hann valdi sögur H.C. Andersen og Grimmsævintýri og fleira í þeim dúr. Ég man hvað mér fannst þetta gott, að stóri bróðir læsi fyrir mig og ég gat í rólegheitum hallað mér aftur og notið sagnanna. Pétur þekkti mig og vissi að ég kysi heldur að hann læsi fyrir mig en að ég reyndi sjálfur, enda sagði ég hreint út að ég kynni ekki að lesa. Eitt skiptið valdi hann bókina Bláskjá, hún var rosalega spennandi og ég lifði mig inn í ævintýrið; litli strákurinn sem reyndi að sleppa frá ræningjunum. Þegar spennan var í hámarki hætti Pétur að lesa og skildi mig einan eftir í herberginu, 10 mínútum síðar kom ég út og sagði; hann dó ekki! Nú kanntu að lesa, sagði Pétur og brosti. Takk bróðir, fyrir að hjálpa mér með lesturinn. (Þórarinn)
Við nutum þess að eiga Pétur sem bróður, hann var alltaf boðinn og búinn að rétta okkur hjálparhönd. Við yngri bræðurnir áttum góðan að þegar börnin okkar voru lítil. Þegar ég var helgarpabbi með stelpurnar mínar var Pétur alltaf mættur fyrir kvöldmat, hann hjálpaði mér að gefa þeim að borða, baða þær og koma þeim í rúmið. (Sveinþór)
Strákarnir mínir hlökkuðu alltaf til í hvert skipti þegar við fórum heim til Péturs. Við kölluðum sunnudaga Pétursdaga, því þá brölluðum við ýmislegt saman. Ef veðrið var vont fórum við í leiki heima hjá honum. Ef vel viðraði fórum við með nesti út í náttúruna og sköpuðum okkar eigin ævintýri. Hápunktur hvers sunnudags var þegar Pétur bar fram súkkulaðikökuna með eggjahvítukremi. (Þórarinn)
Þegar börnin okkar urðu eldri fór Pétur að hvetja þau til að lesa betri bækur, eins og hann kallaði það. Það þótti ekki merkilegt enda var Pétur mikill bókaormur. Hann átti þokkalegt bókasafn þar sem finna mátti gott úrval af bókum. Eitthvað fyrir alla, sagði hann iðulega.
Pétur var virkur í félagsmálum. Hann var virkur meðlimur í Alþýðubandalaginu í Hafnarfirði og var oft fulltrúi flokksins á talningarstað þegar atkvæði voru talin eftir kosningar. Hann var einnig mikill hernaðarandstæðingur og sat um tíma í miðstjórn Félags hernaðarandstæðinga. Þegar við yngri bræðurnir æfðum og kepptum í handbolta með ÍH kölluðum við Pétur til, félagið þurfti á fólki að halda í stjórn. Það endaði með að Pétur varð gjaldkeri ÍH og gegndi hann því hlutverki í tvö ár. Hann stóð sig vel og var alltaf mikill ÍH-maður eftir það.
Eins og við nefndum í byrjun, þá var Pétur alltaf boðinn og búinn að hjálpa. Þegar amma okkar þurfti á meiri umönnun að halda sökum aldurs bjó hann með henni á Erluhrauninu í Hafnarfirði, alveg þangað til hún fór háöldruð á hjúkrunarheimili. Það var mikil blessun fyrir okkur í fjölskyldunni að vita að hún var í öruggum höndum og hafði félagsskap og umsjón. Pétur var ekki trúaður en samt sem áður las hann upp úr Biblíunni fyrir gömlu konuna á hennar síðustu árum heima. Aðspurður hvers vegna hann gerði það var svarið: Hún amma hefur alltaf verið trúuð, og það gefur henni innri ró þegar ég les fyrir hana.
Ábyrgðin gagnvart öðrum sem Pétur hefur alltaf sýnt hefur móðir okkar einnig notið góðs af, hún er nú 90 ára og mun fráfall Péturs skilja eftir sig stórt tómarúm í hjarta hennar og tilveru. Það var Pétur sem verslaði inn fyrir hana. Það var Pétur sem sá um fjármálin og það var Pétur sem talaði við hana á hverju kvöldi, til að athuga hvort allt væri eins og það að ætti að vera.
Pétur var mikill fjölskyldumaður, honum sjálfum varð ekki barna auðið en þess meira nutu okkar börn og barnabörn ástúðar hans. Við fjölskyldan erum saman í hóp á Snapchat, þar sem myndum og skilaboðum er deilt, við vitum öll að hann naut þess mikið. Þau voru ófá skilaboðin frá Pétri og oft á tíðum með undirliggjandi húmor. Við munum öll sakna skilaboðanna þar frá Pétri.
Við héldum upp á 90 ára afmælið hennar mömmu þann 24. júlí. Í ausandi rigningu voru flestir í fjölskyldunni lokaðir inni í litlum sumarbústað fyrir austan fjall. Þröngt mega sáttir sitja, við nutum félagsskapar hvert annars og það ríkti gleði í hópnum. Pétur sagði ekki mikið þennan dag, hann sat og fylgdist með öllu og öllum, sáttur og honum leið vel. Þegar hann ásamt mömmu hélt heim á leið kvaddi hann alla sérstaklega vel, kannski vissi hann sjálfur að hann ætti ekki langan tíma ólifaðan. Kannski vissi hann að hans stóra hjarta væri að gefast upp. 10 dögum seinna var hann allur.
Við söknum þín Pétur.

Jón Rósant Þórarinsson Sveinþór Þórarinsson Þórarinn Þórarinsson