Unnur Guðrún fæddist á Siglufirði 27. maí 1979. Hún ólst upp á Siglufirði, flutti til Reykjavíkur og bjó þar í nokkur ár en flutti svo aftur heim.

Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Siglufirði, 10. ágúst sl.

Foreldrar hennar eru, Auður Björk Erlendsdóttir, f. 11. maí 1957 á Siglufirði, og Rögnvaldur G. Gottskálksson, f. 17. maí 1955 á Siglufirði. Systir hennar  er Aðalheiður Lovísa Rögnvaldsdóttir, f. 3. janúar 1982 á Siglufirði, maki hennar er, Guðjón Hall Sigurbjörnsson, f. 9. janúar 1981 á Blönduósi. Börn þeirra eru, Lárey Lind Guðjónsdóttir, f. 27. desember 2008 í Reykjavík, og Magnea Mist Guðjónsdóttir, f. 16. nóvember 2012 í Reykjavík. Unnur Guðrún lætur eftir sig tvö börn með fyrrverandi maka sínum, Kristni Kristjánssyni, f. 15. apríl 1973 á Siglufirði. Börn þeirra eru, Hilmir Darri Kristinsson, f. 25. maí 2010 í Reykjavík, og Auður Anna Kristinsdóttir, f. 22. febrúar 2013 í Reykjavík. Barn Kristins frá fyrra sambandi er Arnór Gauti Kristinsson, f. 17. júní 2000 í Reykjavík, maki hans er Hrafnhildur Elín Hinriksdóttir, f. 7. september 2001 á Akranesi, dóttir þeirra er Alda Þalía Arnórsdóttir, f. 28. desember 2020 á Akureyri.

Unnur Guðrún kom víða við. Hún var mjög liðtæk í sportinu, stundaði skíði, fótbolta og blak, svo eitthvað sé nefnt. Börnin voru henni allt, foreldrar og systir, elskuð og vinkonurnar ómetanlegar.

Hún lauk grunnskólanámi frá Siglufirði og útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Unnur Guðrún útskrifaðist í uppeldis- og menntunarfræði 20. júní 2009 í Reykjavík og hlaut lærdómstitilinn Baccalaureus Artium.

Hún útskrifaðist í kennslu á grunnskólastigi 11. júní 2021 á Akureyri og hlaut lærdómstitilinn, magister educationis MT.

Hún var einstök móðir, dóttir, systir og vinkona og hennar verður sárt saknað.

Útför hennar fer fram frá Siglufjarðarkirkju þann 21. ágúst kl. 11.00.

Streymt verður frá útförinni á:

https://youtu.be/iSGED9sHye8

Virkan hlekk má finna á:

https://mbl.is/andlat

Elsku hjartans vinkona mín, Unnur Guðrún.
Fyrst langar mig að votta ykkur, fjölskyldu og aðstandendum, mína dýpstu samúð vegna ykkar mikla missis, elsku Auður og Hilmir og Kristinn, Auður og Valdi, Heiða og fjölskylda og allar dásamlegu vinkonur þínar. Megi þið öll vera ævinlega blessuð, böðuð ljósi og finna styrk í ykkar sorg.

Unnur mín, mig langar að heiðra þig með orðum sem auðvitað eru bæði stirð og drífa stutt en eru þó hluti af minningum og lærdómi sem þú gafst mér og stundir sem eru mér kærar.

Núna sit ég og hlusta á nostalgíu-tónlistina okkar frá því við vorum yngri, þá sömu og við spiluðum í botni í vor þegar við vorum að plana þyrluskíðaferðina okkar á Tröllaskaga, The Power með Snap til dæmis þá sömu músík og við blöstuðum um árið á Sunny-inum keyrandi yfir Tröllaskarðið á milli Sigló og Króksins, alltaf að fara eða koma af skíðum. Vitur kona sagði mér að þegar mögulegt fráfall væri farið að gera vart við sig eða væri yfirvofandi þætti sálinni ljúft að gera alls kyns skemmtileg plön sem við og gerðum, við áttum nóg inni. Mikið er ég þakklát fyrir stundirnar okkar þar sem við gátum notið þess að tala svo klukkustundum skipti alveg hömlu- og ritskoðunarlaust, um lífið eftir dauðann og alls kyns möguleika vitundarinnar. Bæði fékk ég tækifæri til að þakka þér í lifandi lífi fyrir allt sem þú ert og þakka þér fyrir gjafirnar sem þú hefur fært mér í gegnum tíðina.
Á svona stundum verða bænir umfangsmeiri í hjartanu og æðruleysisbænin spilar sig sjálfkrafa. Magnað finnst mér þó að löngu áður en þessi veikindi dundu yfir varst þú algjör holdgervingur æðruleysis og fyrsta lexían sem ég fékk frá þér var fyrir um 25 árum, en við vorum ungar, báðar komnar á fast. Ég var í einhverju óöryggi með mína sjálfsmynd í mótun að spurja þig ráða. Hvernig þú gætir nú alltaf verið svona slök og svöl þegar kærastarnir okkar voru víðs fjarri á einhverju djammi og djúsi? Mér fannst svarið þitt svo merkilegt og það fylgdi mér. Þú sagðir mér að sá strákur sem væri ekki með þér af fullum heiðarleika væri ekki verðugur þín hann getur bara átt sig sjálfur eins og þú orðaðir það. Þú varst ekki mikið að láta dramatíkina koma þér úr jafnvægi. Við vorum auðvitað á rúntinum í þessum djúpu samræðum enda báðar bestu bílstjórarnir að eigin áliti.

Ég man líka þegar við fengum skyndihugdettu eitt sinn, orðnar leiðar á rúntinum, nú skyldum við bara drífa okkur í bíó eins og flestir vita gerðum við ekki mikið af því, hvorki á Sigló né Króknum og þurftum við því að sækja vatnið yfir lækinn, yfir í annan fjörð. Við vorum eitthvað orðnar seinar í bíóið á Akureyri þrátt fyrir að við værum á Eclipse-inum hans Ómars og var ferðin okkar stöðvuð þar sem við vorum langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Við fengum auðvitað vandað tiltal en önnur okkar var svo heppin að rétt sleppa við að missa prófið á staðnum þar sem að eins kílómetra vikmörk í umferðarlögum björguðu okkur fyrir horn. Merkilegt hvað okkur fannst við alltaf rosalega góðir bílstjórar, ósnertanlegar og jafnvel eilífar. Sekt og nokkrir punktar voru okkar eina refsing á þeim tíma. Annað en vægðarleysið sem við sem sitjum eftir núna erum öll að takast á við í dag, á einn eða annan hátt. Hversu brothætt og dýrmætt lífið okkar er. Orðin fanga það alls ekki.

En manstu, var það ekki nokkuð nett og frekar mótstraums þegar við fórum að rugla saman reytum skvísurnar, Skagfirðingar og Siglfirðingar? Við létum nú ekki smábæjaríginn þvælast fyrir okkur, ekki námið heldur og þið Ása, Kolla, Ólöf, Lárey, Una og við Lilja og tvíburarnir vorum aðallega bara að skemmta okkur. Miðgarður og Mælifell tveir miðpunktar alheimsins okkar. Dalatúnið var bara smá stoppistöð fyrir fataskipti. Ég man hvað mér fannst þú sérstök, með þitt fagra og svolítið framandi útlit, augu, húð, hár og neglur sem sáust sjaldan á okkar norðurslóðum, vá. Síðustu daga höfum við vinkonurnar deilt myndum og minningum af okkur með þér og við grátið og hlegið yfir þeim, útskriftarferðin okkar á Spáni. Fyndið að sjá eina af ströndinni þar sem ég var að bera á þig sólarvörn, þú með þína dökku húð en ég bleik og brennd þér við hlið, mjög kómískt. Svo varst þú líka með húðflúr af sólinni sjálfri þegar engum öðrum datt slíkt í hug á þeim tíma. Svo var ég var meira að segja búin að gleyma því þegar þið Jóka heimsóttuð mig og litlu fjölskylduna mína til Flórída! En ég man vel eftir því þegar þið stórfjölskyldan komuð öll út í Spánarhúsið og það var paella í öll mál þó pabbi þinn vildi bara saltfisk.

Síðustu ár snerust ferðirnar okkar mestmegnis um að heimsækja hvor aðra í sinn landshlutann, þú passaðir alltaf upp á okkur sætu fyrir sunnan eins og þú kallaðir okkur, við náðum allar að hittast saman hérna heima ekki fyrir löngu og mikið er það einstaklega dýrmæt stund og minning að búa að núna. Í sumar sem og síðustu sumur fylgdum við börnunum okkar á fótboltamót, ekki síðri skemmtun, og geymdu hjá þér, elsku vinkona mín, það sem ég sagði þér um daginn, að á mínu heimili ertu þekktust sem dýrlingurinn sem ALDREI skammaðir börnin sín enda lífið of stutt fyrir slíka þvælu eins og þú sagðir okkur. Þegar fréttirnar bárust svo af ótímabæru fráfalli þínu spurði Karín mig hvað okkur hefði fundist skemmtilegast að gera saman? Ég svaraði með ekka að skíða svo nú ætlum við fjölskyldan að plana skíðaferð lífsins, þér og skíðagörpunum þínum, til heiðurs.
Við elskum þig öll elsku Unnur og minning þín mun ávallt vera ljóslifandi í hjörtum okkar.
Þín vinkona,

Sólveig Þórarinsdóttir.