Sigtryggur Sveinn Bragason fæddist á Akureyri 30. júlí 1943. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Mörk 18. ágúst 2021. Foreldrar hans voru Ragnheiður Valgerður Sveinsdóttir, f. 13.6. 1915, d. 26.12. 1999, og Bragi Eiríksson, f. 29.6. 1915, d. 24.4. 1999.

Bræður Sigtryggs eru: Böðvar, f. 4.10. 1938, Eiríkur, f. 7.3. 1949, d. 21.7. 1954, og Jóhann, f. 3.4. 1955.

Sigtryggur kvæntist Elísabetu Jóhannsdóttur, f. 30.3. 1945, hinn 12.9. 1964. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Helgadóttir og Jóhann Kr. Sæmundsson, sem bæði eru látin.

Dætur Sigtryggs og Elísabetar eru: 1) Ragnheiður Valgerður, f. 25.3. 1971, gift Ágústi Loftssyni, f. 2.6. 1965. Synir þeirra eru Vilhjálmur Sveinn (faðir hans er Guðmundur Þ. Sigurðsson), f. 8.8. 1991, í sambúð með Karítas Eldeyjardóttur, Kjartan Bragi, f. 15.12. 1997, og Loftur Andri, f. 29.1. 2000. Börn Vilhjálms eru Rúrik Jökull, f. 16.11. 2013, og Dagbjört Elfa, f. 14.7. 2016 (móðir þeirra er Sjöfn Guðlaugsdóttir). 2) Ingibjörg, f. 30.3. 1976, gift Niclas Jessen, f. 16.4. 1975. Synir þeirra eru Nói Niclasson Jessen, f. 9.12. 2007, og Leó Niclasson Jessen, f. 13.5. 2010.


Sigtryggur ólst upp á Akureyri til 10 ár aldurs, en þá fluttist fjölskyldan búferlum til Reykjavíkur. Bjó hann lengst af í Reykjavík en einnig 17 ár á Akranesi, auk náms- og starfsdvala í Noregi og Englandi.

Sigtryggur tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík, útskrifaðist sem tæknifræðingur frá Bergen Tekniske Skole og verkfræðingur frá University of Newcastle Upon Tyne. Sigtryggur starfaði m.a. við Iðnskólann í Reykjavík, hjá verktakafyrirtækinu Aðalbraut, Dráttarvélum hf. og frá 1981 til starfsloka hjá Íslenska járnblendifélaginu á Grundartanga. Einnig fékkst hann við leiðsögn laxveiðimanna.

Útför Sigtryggs verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 26. ágúst 2021, klukkan 15.

Mig langar til að minnast Sigtryggs Bragasonar, vinnufélaga og vinar til áratuga. Minningar frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga hrannast upp. Ofarlega í huga eru uppákomurnar: Skautbrot, blautbrot, rauðglóandi málmur sem braut sér leið í gegnum ofnsbotninn, sprengingar. Þá reyndi á samheldni starfsfólksins. Góðir keppnismenn í íþróttum verða þeir einir sem bjarga sér út úr örðugleikum. Vanda sem þeir hafa ef til vill komið sér sjálfir í. Sigtryggur var framleiðslustjóri og haggaðist ekki, hélt ró sinni hvað sem á gekk. Þá komu í ljós skipulagshæfileikarnir sem hann bjó yfir í ríkum mæli. Seinna lærðist okkur að fyrir fjárhag fyrirtækisins skipti það höfuðmáli að koma í veg fyrir uppákomur, jafnvel þótt ævintýri og mannraunir yrðu færri!


Þegar Sumitomo eignaðist hlut í Járnblendifélaginu vorum við Sigtryggur sendir til Japans. Tilgangur fararinnar var að sanna fyrir japönskum stáliðjuverum, viðskiptavinum Sumitomo, að á Íslandi byggju ekki barbarar. Á heimskortum á Vesturlöndum er Ísland í miðju heimsins með Ameríku öðrum megin og Evrópu og Asíu hinum megin. En í Japan er Japan í miðjunni og Ísland úti á kanti, efst í horninu vinstra megin. Sigtryggur ávann sér traust allra, hár og myndarlegur, rólegur og yfirvegaður og talaði góða ensku, lærður vélaverkfræðingur frá Englandi. Hann var matgæðingur og það var fylgdarmaður okkar, Kobajasi, líka. Í hverri nýrri borg spurðist hann fyrir um áhugaverða matsölustaði og þangað héldum við að loknum vinnudegi í verksmiðjunum.


Þegar Elkem hafði tekið yfir verksmiður Union Carbid höfðum við tækifæri til að fara til Bandaríkjanna og kynna okkur reksturinn þar. Ameríkanarnir ráku ofnana eins og kúrekar. Allt eftir ástandi þeirra var álagið keyrt upp eða niður. Við áttuðum okkur á því að ofnarnir á Grundartanga og umfram allt rafskautin þoldu hærri straum en Elkem hafði fyrirskrifað. Það var gott að eiga tryggan bandamann í Sigtryggi þegar við í góðri samvinnu við aðra starfsmenn unnum að verkefnunum Hærra álag og Betri nýting . Þau skiptu sköpum fyrir Járnblendiverksmiðjuna því ágóði fyrirtækja skapast á síðustu tonnunum þegar allur annar kostnaður er greiddur.


Sigtryggi var ótal margt til lista lagt. Á einum flugvellinum dró hann nál og tvinna úr pússi sínu og saumaði á mig tölu sem hafði losnað á jakkanum. Hann var líka áhugamaður um bíla og keypti bílablöð. Kunni góð skil á öllum vélum.

Seinna tók hann við sem stjórnandi viðhaldsdeildar á Grundartanga.
Forstjóri Járnblendifélagsins lagði fyrir stjórn að stækka verksmiðjuna og byggja ofn 3. Í kjölfarið seldi ríkið Elkem meirihluta í félaginu. Við Sigtryggur unnum að hönnun á ofni 3 og leið okkar lá víða til að skoða búnað og tól, m.a. til Venesúela. Við yfirtöku Elkem urðu ýmsar breytingar í framkvæmdastjórn Járnblendifélagsins. Jón Sigurðsson hætti sem forstjóri eftir langt og farsælt starf. Helgi Þórhallsson hélt til Noregs og við Sigtryggur fylgdum eftir seinna. En áður höfðum við ráðið okkur til Venesúela í járnblendiverksmiðjuna sem við höfðum skoðað. Þá stóð yfir sala á ríkisfyrirtækjum. Elkem hafði byggt ofnana í verksmiðjunni á sínum tíma og lagði inn tilboð sem víst þótti að ríkið gengi að. Elkem ætlaði að senda hóp fimm manna frá Noregi til að taka við stjórn verksmiðjunnar. Ég átti að sjá um ofndeildina og Sigtryggur um viðhaldið. Það varð gæfa okkar að spænskt fyrirtæki náði verksmiðjunni fyrir framan nefnið á Elkem. Ef til vill voru menn þar á bæ betur að sér í viðskiptum undir borði.


Eftir ársdvöl í Noregi sneri ég aftur heim. Þá var verið að keyra upp nýja ofninn og tók eitt vandamálið við af öðru. Ástæðan var m.a. að bygginganefnd og stjórnendur Elkem höfðu lagt höfuðáherslu á tvennt: Að standast fjárhagsáætlun og tímaáætlun og þá varð ýmislegt út undan eins og tær og hælar stjúpdætranna í sögunni um Öskubusku.


Ég tók að mér að vera framleiðslustjóri í hundrað daga. Mér tókst að fá Sigtrygg til að hafa hönd í bagga með ofni 3. Það var mikill fengur að fá mann sem allir í verksmiðjunni treystu og báru virðingu fyrir; mann með vigt. Það jók mönnum bjartsýni og leiðin gat aðeins legið upp á við. Þetta er einn skemmtilegasti tími sem ég hef lifað.


Nokkrum árum seinna hætti ég hjá Elkem. Seinna var ég fenginn til að keyra upp ofn 1 eftir gagngerar endurbætur og viðhald. Slík uppkeyrsla á ofni með nýrri fóðringu tekur nokkrar vikur og er vandasöm því mikið er í húfi. Það er margt sem getur eyðilagst ef ekki er rétt brugðist við. Ég hugði gott til glóðarinnar hvað samstarf við Sigtrygg varðaði.


En nú var Bleik brugðið. Sigtryggur hafði verið greindur með byrjunina á alzheimer-sjúkdómnum. Hann hætti að vinna nokkru síðar.


Sigtryggur tók þessum vanda þó með sömu festu og öðrum. Hann gekk um allan bæ því hann vissi að hreyfing héldi aftur af sjúkdómnum. Kílómetrana og tímana skráði hann í bók. Hann var opinskár um sjúkdóm sinn og viðtöl birtust við hann í fjölmiðlum. Það hjálpaði þeim sem stóðu í sömu sporum og jók skilning almennings á sjúkdómnum. Þegar við hittumst með konum okkar gátum við endalaust talað um járnblendi og árin okkar saman. Þar var engu gleymt. Svo kom Covid. Ég var svo heppinn að leggja leið mína á bráðadeildina fyrir nokkru. Þar lá Sigtryggur og tók brosandi á móti mér. Þannig mun ég minnast hans.


Ellu, Ragnheiði, Ingibjörgu og allri fjölskyldunni færum við, Kristín og ég, innilegar samúðarkveðjur.

Jón Hálfdanarson.