Styrmir fæddist í Reykjavík hinn 27. mars 1938. Hann lést að heimili sínu í Kópavogi, hinn 20. ágúst 2021.

Hann var  sonur Salmaníu Jóhönnu Jóhannesdóttur og Gunnars Árnasonar, framkvæmdastjóra Kassagerðar Reykjavíkur. Foreldrar Salmaníu voru Sigríður Auðunsdóttir frá Svarthamri í Álftafirði og Jóhannes Jónsson sjómaður frá Skálavík og foreldrar Gunnars voru Vilborg Runólfsdóttir úr Vestur-Skaftafellssýslu og Árni Eiríksson, leikari og kaupmaður úr Reykjavík. Systkini Styrmis eru Hjördís f. 1943, d. 2007, Gunnar fæddur 1948, Vilborg fædd 1951 og Margrét fædd 1957. Eiginkona Styrmis var Sigrún Finnbogadóttir (Bista), dóttir Huldu Dóru Jakobsdóttur, bæjarstjóra í Kópavogi, og Finnboga Rúts Valdimarssonar, bæjarstjóra og alþingismanns. Hún lést árið 2016.

Styrmir og Bista giftu sig 5. desember 1964. Þau eignuðust dæturnar Huldu Dóru, f. 17. september 1965 og Hönnu Guðrúnu, f. 12. desember 1967. Synir Huldu og Haraldar Hjaltasonar eru: Styrmir Hjalti, f. 1993, Ágúst Páll, f. 1995 og Jóhannes Árni, f. 2001. Sonur Hönnu og Thant Myint-U er Thurayn Harri, f. 1999.
Styrmir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958, embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1965 og fékk héraðsdómslögmannsréttindi 1973. Hann tók virkan þátt í félagsstörfum á yngri árum, og var formaður Orators 1960-61, formaður Heimdallar 1963-66 og í stjórn SUS 1965-67. Hann var varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins 1966-69 og var formaður Æskulýðsráðs Reykjavíkur og átti sæti í Fræðsluráði Reykjavíkur á þeim tíma. Eftir að eiginkona hans veiktist á geði 1968 dró hann sig út úr félagsstörfum að mestu, en vann að pólitískum hugðarefnum í gegnum störf sín á Morgunblaðinu. Hann tók aftur upp þráðinn í félagsstörfum síðar, fyrst með setu í Auðlindanefnd 1998-2000 og svo í baráttu fyrir því að viðhalda sjálfstæði Íslands, yfirráðum þjóðarinnar yfir auðlindum hennar og verndun náttúru landsins. Þetta gerði hann m.a. með þátttöku í samtökunum Orkan okkar, með Félagi sjálfstæðismanna um fullveldismál og með skrifum og ræðum til stuðnings hálendisþjóðgarðinum. Frá 2016 sat hann sér til mikillar ánægju í stjórn Unicef þar til hann lét af þeim störfum í vor sakir heilsubrests.
Styrmir veiktist af heilaslagi 2. febrúar sl. og glímdi eftir það við helftarlömun. Fleiri flókin veikindi fylgdu í kjölfarið. Hans eindregna ósk var að fara heim, og það tókst með stuðningi góðs fólks í byrjun ágúst. Við tóku bjartir dagar við skrif og samveru með fjölskyldu og vinum með útsýni út á sjó og sól. En það fór svo að húmaði að og Styrmir lést um hádegisbil 20. ágúst. Þá hafði hann fyrr um morguninn lokið við að lesa próförk af síðasta pistli sínum í Morgunblaðið og senda hann aftur til blaðsins.
Nær öll starfsævi Styrmis var helguð Morgunblaðinu. Hann byrjaði að skrifa í blaðið tvítugur að aldri og hóf störf á ritstjórn sem blaðamaður 2. júní árið 1965. Hann varð aðstoðarritstjóri 1971 og ritstjóri 1972 ásamt þeim Matthíasi Johannessen og Eyjólfi Konráð Jónssyni. Hann varð eini ritstjóri blaðsins 2001 þegar Matthías lét af störfum. Styrmir hvarf úr ritstjórastóli fyrir aldurs sakir sjötugur, þann 2. júní 2008, nákvæmlega 43 árum eftir að hann hóf þar störf. Styrmir átti fjölskyldu, vini og pólitíska samtals- og samferðamenn þvert á flokkslínur, en Sjálfstæðisflokkurinn var þó til æviloka flokkurinn hans.
Að ritstjórastörfum loknum hélt Styrmir áfram ritstörfum, skrifaði bækur um þætti í stjórnmálasögu landsins og í sögu Sjálfstæðisflokksins og hélt upp rýni á þjóðfélagsumræðu með pistlaskrifum í Morgunblaðið, á netinu (á Evrópuvaktinni og á styrmir.is) og í umræðuþættinum Hringborðið á RÚV.  Vænst þykir fjölskyldunni um Ómunatíð sem kom út árið 2011. Hún er saga eiginkonu hans, Bistu, og er skrifuð í fjölskyldusamvinnu. Styrmir lét sig geðheilbrigðismál og málefni barna ávallt miklu varða og studdi með ráðum og dáð fjölmörg stór og smá verkefni á þeim sviðum. Hann bjó alla tíð að sterkri tengingu við náttúruna, landbúnað, kýr og Borgarfjörðinn eftir fimm sumur að Hæl í Flókadal og tengdist tónlist sterkum böndum á unga aldri þegar hann hóf tónlistarnám hjá Dr. Edelstein.  Hann var ástríkur, hlýr, skemmtilegur og ráðagóður faðir, afi, bróðir, vinur og frændi sem er sárt saknað.
Útför Styrmis fer fram frá Hallgrímskirkju í dag kl. 13.30.

Henni verður streymt beint á mbl.is, www.mbl.is


Styrmir föðurbróðir minn minntist þess með bros á vör þegar hann, fjögurra ára gamall á Vestugötu 18, var sendur til að ná í Moggann. Hann steig í sloppinn og datt í stiganum en hélt fast um blaðið. Þetta var hans fyrsta minning og segja má að þarna hafi verið fyrirboði á ferð.
Afi hans Árni Eiríksson kaupmaður og leikari byggði Vestugötu 18 en lést fyrir aldur fram frá sex börnum. Styrmir var náinn ömmu sinni, var mikið hjá henni og dáðist að henni. Sem ungri ekkju með sex börn tókst henni að halda heimilinu saman, taka kostgangara og drýgja tekjurnar með saumaskap. Stymmi horfði á ömmu sína standa af sér veður og vind og fann hann fyrir sterkum skyldleika við Skaftafellssýsluna þaðan sem hún kom. Sjálfur var hann þrjóskasti maður sem ég hef kynnst og sýndi óheyrilega hörku og seiglu í lífsins ólgusjó. Vilborg amma hans var með honum í hug og hjarta alla tíð.
Í minningu afa síns Árna sem var einn af stofnendum Leikfélags Reykjavíkur og ömmu sinnar Vilborgar sat Stymmi í stjórn LR um árabil og var mjög annt um leiklistar- og tónlistarmenningu á Íslandi. Um mikilvægi þess að skrásetja leiklistar og tónlistarsögu Íslands skrifaði hann í síðasta pistli sínum í Morgunblaðinu sem hann sendi inn daginn sem hann kvaddi. Tel ég víst að flestir Íslendingar geti tekið undir með honum.
Móðir hans Salmanía, eða Sulla eins og hún var kölluð, var frá Vestfjörðum. Hún fæddist í Bolungarvík og ólst upp í sárri fátækt. Hún missti þrjá bræður á sjó og þegar Stymmi fæddist vildi Sigríður móðir hennar að hann fengi nafnið Ísleifur í höfuð á elsta syni hennar. En Gunnar faðir hans var búinn að ákveða að drengurinn skyldi heita Styrmir, nafn sem hann hreifst af úr Sturlungu. Eitt sinn hitti Hafsteinn miðill Styrmi fyrir á Mogganum og hafði á orði við Matthías Johannessen að það fylgdi Styrmi maður. Lýsingin á þessum manni var nákvæm lýsing á Ísleifi elsta móðubróður Stymma sem deildi með honum fæðingardegi og lést af slysförum við sjómennsku. Stymmi var lítið gefinn fyrir skilaboð að handan en ég sá á honum að þetta þótti honum athyglisvert og vænt um.
Stymmi ólst upp á Reynimel 58 í húsi sem amma hans byggði. Þetta var á tímum seinni heimstyrjaldarinnar og mikil húsnæðisekla í bænum. Húsið var tilbúið 1942 og amma Vilborg flutti inn ásamt þremur börnum sínum og fjölskyldum þeirra. Á uppvaxtarárunum var Stymmi umkringdur frændsystkinum sínum og í nokkru ár bjó hann með Braga Ásgeirsyni frænda sínum í stofunni í kjallaranum hjá ömmu Vilborgu. Svo vænt þótti honum um bernskuslóðirnar að fyrir nokkrum árum sagði hann mér að hann hefði alla tíð fylgst með eigendaskiptum á íbúðum í húsinu. Þegar að ég svo var að skoða íbúðir í Vesturbænum benti hann mér vinsamlegast á að íbúð á Reynimel 58 væri til sölu.
Stymmi hefði gjarnan verið bóndi, helst kúabóndi þar sem hann hafði sérstakt dálæti á kúm. Og þegar hann var ungur hafði hann mikinn áhuga á kynbótarækt kúa. Þessi einlægi áhugi hans og umhyggja fyrir íslenskum bændum og landbúnaði stafaði alfarið frá tíma hans á Hæli í Flókadal í Borgarfirði þar sem hann var í sveit frá tólf til sautján ára aldurs. Bista eiginkona Stymma sagði mér að tíminn á Hæli hefði verið hamingjusamasti tíminn í lífi hans og á sinn hæverska hátt staðfesti Stymmi þetta við mig. Á Hæli kynntist hann Guðmundi Bjarnasyni bónda sem hann bast sterkum böndum. Að eigin sögn kynntist hann fáum mönnum sem höfðu slík áhrif á hann og mat hann Guðmund meira en aðra menn. Stymmi sagði að af tveimur mönnum hefði hann mest lært, það voru Guðmundur Bjarnason á Hæli og Bjarni Benediktsson (forsætisráðherra 1963-1970). Guðmundur kenndi honum að vinna og vitna ég hér í minningarorð Stymma um Guðmund Með góðviljaðri leiðsögn, hvatningu, hrósi, ef vel var gert en hughreystingu, ef illa tókst til, fékk hann því áorkað að það var verulegt metnaðarmálað standa sig vel. Fimm sumur í sveit hjá fólkinu á Hæli er bezti skóli, sem ég hef gengið í og sá sem haft hefur varanlegustu áhrif á mig. Þegar að Stymmi kom fyrst að Hæli var vélvæðing landbúnaðarins hafin en enn var ekkert rafmagn í Flókadal. Hann lærði að beita orfi og ljá og að binda og flytja hey í böggum á hestum. Mjaltarvélar höfðu ekki verið teknar í notkun og hans uppáhalds staður var fjósið þar sem honum leið best og fannst gaman að mjólka og moka flór. Fyrir Stymma var það ómetanleg lífsreynsla að kynnast þessum mörkum gamla og nýja tímans og gaf honum innsýn í íslenskt bændasamfélag. Ekki löngu fyrir andlát hans kom það upp í samræðum hvort að Ísland væri nokkuð vel til þess fallið að hér væri stundaður landbúnaður. Stymmi hvessti augun og sagði Jú víst!
Faðir minn heyrði hann eitt sinn spyrja Ingimund Ásgeirsson bónda á Hæli, tengdason Guðmundar hvort hann gæti ekki gert hvoru tveggja verið bóndi og unnið í Reykjavík. Efast ég ekki um að í dag, í þeirri breyttu veröld sem við lifum í, þá hefði Stymmi getað ritstýrt Morgunblaðinu frá Hæli í Flókadal. Samband Stymma og föður míns sem einnig var í sveit á Hæli við fólkið á Hæli hefur haldist alla tíð og Stymmi heimsótti Hæli á hverju ári jafnvel eftir að búið var selt. Hann gerði sjálfur grín að því að nýjir eigendur myndu aldrei losna við hann.
Það er mér ljóst að kynni Stymma við fólkið á Hæli sköpuðu jarðveginn og voru leiðarljós hans í samskiptum við þann fjölda fólks sem hann hjálpaði á lífsleiðinni og það fjölmarga unga fólk sem hann leiðbeindi á uppbyggilegan hátt. Hvort sem það vorum við ungmennin í kringum hann og Bistu, ungir blaðamenn að stíga sín fyrstu skref eða fólk hvaðanæva af landinu sem hann hafði ekki beina tengingu við. Allir gátu leitað til hans og hann hlustaði og það að hlustað sé á fólk getur breytt lífi þess. Allt var þetta partur af þeirri margóma rödd sem Stymmi vildi hafa í kringum sig og gerðu honum kleift að skilja samfélagið. En vænst þótti Stymma um litla fólkið. Stymmi var með eindæmum barngóður og gaf öllum litlum börnum í kringum sig óskipta athygli. Sem barn gat maður svo sannarlega vafið Stymma um fingur sér og hann sagði alltaf já við mann. Pabbi minn Gunnar og Stymmi áttu báðir tvær stelpur. Hulda, Hanna og Ellen systir mín eru allar á svipuðum aldri og voru mjög samrýndar í gegnum uppvaxtarárin. Og svo bættist ég í hópinn og þær fengu að hafa mig í eftirdragi. Það var alltaf náið samband á milli pabba og Stymma og fyrir okkur dætur þeirra voru þeir mjög líkir feður. Ekki bara líkir í ásýnd og háttum heldur einnig í allri nálgun á hlutina innan fjölskyldunnar. Það má segja að við fjórar höfum séð föður okkar speglast í föðurbróður alla tíð.
Stymmi var aldursforseti í móður og föðurætt og ég stríddi honum stundum og sagði honum að hann væri æðstistrumpur, þetta fannst Stymma fyndið. Hann var prúðmenni með einstaka reisn og mikinn þunga og það fann maður frá unga aldri. Hann passaði vel uppá minningar og fjölskyldusöguna. Þekking hans á ættfræði var með ólíkindum og náði ekki bara til hans eigin fjölskyldu og Bistu heldur um allt land og þekkti hann t.d flesta bæi í Borgarfirði og gat rakið ættir fjölmargra.
Þegar ég og Ellen systir mín vorum yngri og komum á Marbakka var oft mikið af yngri kynslóðinni í heimsókn, frændsystkin Bistu og vinir Hönnu og Huldu. Bista með sitt stóra fallega bros og dillandi hlátur vildi hafa unga fólkið í kringum sig og þau Stymmi deildu sínum mjúka faðmi. Maður hló mikið með Bistu og svo hló Stymmi að hlátursrokunum í okkur. Alltaf mætti manni þessi mikla væntumþykja. Þessu kynntist ég náið þegar ég bjó hjá Stymma og Bistu á menntaskólaárunum þegar foreldrar mínir fluttu erlendis og gat ég aldrei endurgoldið þá hlýju og væntumþykju sem að Stymmi og Bista sýndu mér. Stymmi var stöðugleiki og öryggi fyrir mig á þessum tíma, við vorum vinir og urðum betri vinir. Ég gat talað við hann um allt og hann talaði við mann af einlægum áhuga. Hann bar virðingu fyrir því hver maður var og hvernig maður sá heiminn. Hann var svo einstaklega góðhjartaður og ljúfur, fyrir mér var ekki betri mann að finna. Og alltaf var hann til staðar sama hvað var mikið að gera hjá honum. Hann til dæmis keyrði mann hingað og þangað ef þess þurfti. Það var sérstaklega þægilegt ef maður var að fara út á flugvöll því að hann keyrði svo hratt að maður var komin á korteri. Einnig tók hann að sér að hlíða menntskælningnum yfir fyrir próf, þá aðallega sögu. Eitthvað þótti mér lítið koma til námsefnissins og mun ég aldrei gleyma svipnum á Styrmi Gunnarssyni þegar ég tilkynnti honum það að ég skildi ekki hvers vegna við þyrftum nú eiginlega að læra um þessa Viðreisnarstjórn.
En maður vissi líka hvenær best væri að halda sig til hlés. Þegar gassagangurinn í mér og Hönnu Gunnu dóttur hans stóð sem hæst tókum við eitt sinn bílinn hans í óleyfi og festum hann svo illa upp við Hrafntinnusker að litlu munaði að bíllinn stórskemmdist. Stymmi þurfti að koma ásamt bifvélavirkja að sækja okkur um miðja nótt. Þá var best að þegja alla leiðina heim Hekla var um það bil að fara að gjósa í framsætinu.
Ein hlið á Stymma sem fáir kynntust var framgangur hans í eldhúsinu. Hann hafði mikið dálæti á gömlum dönskum kokkabókum og bar til þeirra fullt traust. Eitt af því sem hann bar fram með stolti var röndin sem var hlaup með aspas. Ég er ekki viss um að hann hafi vitað hversu mikið við hin yngri tístum og hlógum sérstaklega yfir aspas hlaupinu. Stymma fannst kökudeig jafngott og kökur og átti það til að búa sér til súkkulaðibitakökudeig, ánægja sem hann deildi með dætrum sínum. En eitt lagði hann aldrei sjálfur í að búa til og það var sítrónufrómas móður sinnar. En ekkert fannst honum betra og sameinuðust þeir bræður um það. Var það einskær ánægja að horfa á þá borða saman þann rómaða frómas.
Á seinni árum þegar maður kom í heimsókn á Marbakka þá var Stymmi annað hvort að taka til í bílskúrnum eða að tala við Halldór Blöndal í símann. Svo settist maður inn í stofu með honum og hann vildi heyra allt um ferðir manns. Fróðleiksfúsari menn finnast ekki og eins og margir þekkja þá var maður búin að segja honum allt og meira til áður en yfir lauk. Við vorum ósammála um margt en sammála um fleira. Ég gat alltaf sagt honum mína skoðun hispurslaust og fannst honum fátt skemmtilegra en afdráttarlaust álit yngri kynslóða. En eitt deildi okkur á um alla tíð og gátum aldrei einu sinni verið sammála um að vera ósammála. Þetta varðaði einstaklinga og atburði í fjölskyldusögu okkar. Stymmi var þeirra skoðunnar að alkóhólismi væri arfgengur en ég er þeirra skoðunnar að hann og önnur fíkn orsakist af áföllum fyrr á lífsleiðinni. Aðrir fjölskyldumeðlimir reyndu stundum að grípa inn í hin ákveðnu skoðanaskipti og koma því að það gæti verið sitt lítið af hvoru sem þarna um ræddi. Hef ég aldrei komið að jafn lokuðum dyrum með nokkurn hlut hjá Stymma, hann sagði við mig síðasta sumar þegar þetta kom enn og aftur til tals Nei, þetta er svona.
Það gleður mig að síðustu árin heimsótti Stymmi þá staði sem honum þótti vænst um. Hann fór að Eintúnahálsi í Vestur- Skaftafellssýslu á slóðir ömmu Vilborgar með dætrum sínum og barnabörnum, hann heimsótti Hæli með pabba og frændfólki sínum í Borgarfirði og þeir bræður pabbi og Stymmi fóru um Vestfirði þar á meðal Skálavík þaðan sem mamma þeirra var ættuð. Stymmi vissi fátt betra en að ferðast um sveitina með fjölskyldu og vinum. Það sem skipti Stymma öllu máli var að fólkið í landinu byggi við öryggi. Samhengi sögunnar var í fyrirrúmi og hann vildi að fólk gleymdi því ekki úr hvaða jarðvegi við erum sprottin - að við erum komin af sjómönnum og bændum, fólkinu sem hann þekkti svo vel og bar mesta virðingu fyrir. Þetta var honum efst í huga eins og fram kemur í síðasta pistlinum hans í Morgunblaðinu. Fyrir mér var hann besta gerð af íhaldsmanni.
Nú er skarð fyrir skildi sagði Inga á Hæli þegar að Ingimundur bóndi féll frá. Fjölskylda og vinir Stymma geta í dag sagt það sama. Það reynist mér erfitt að kveðja frænda minn og þótt að ég viti að hann náði ágætum aldri og að við verðum öll að kveðja þá er erfitt að ímynda sér lífið án hans. Hann var einstakur, ég þakka það af öllu hjarta.

Halla Gunnarsdóttir.