Ísleifur Þorbjörnsson bifvélavirkjameistari fæddist á Skagaströnd 9. september 1951. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 28. ágúst síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Aðalbjörg Sigurðardóttir, f. 3.6. 1930, d. 10.12. 2015, og Þorbjörn Jónsson, f. 26.7. 1922, d. 2.9. 1986. Systkini Ísleifs eru Ómar Örn, f. 8.6.1946, Hrefna, f. 2.1. 1948, Guðbjörg Jóney, f. 26.7. 1949, Valborg, f. 3.9. 1950, Sigurður, f. 30.1. 1953, Hallbjörn, f. 9.5. 1954, Þráinn Garðar, f. 15.9. 1955, Heiðdís, f. 26.6. 1957, Kristjana f. 16.3. 1959, Heiðrún Bára, f. 22.9. 1960, Þröstur, f. 10.6. 1962, Sonný, f. 11.8. 1964.
Ísleifur kvæntist Pétrínu Guðrúnu Gunnarsdóttur, f. 24.3. 1950, d. 9.3. 1977, árið 1973, sonur þeirra er Hjalti Þór, f. 3.4. 1974, d. 27.12. 2004.
Seinni kona Ísleifs er Alda Hafdís Sigurðardóttir, f. 3.4. 1955. Dætur Ísleifs og Hafdísar eru a) Sveinlaug, f. 4.10. 1978, maki hennar er Magnús Daníel Karlsson, f. 8.5. 1973, b) Hrefna Dröfn, f. 25.4. 1987, maki hennar er Kári Skúlason, f. 28.6. 1986, dætur þeirra eru Dagbjört, f. 27.3. 2014, og Lovísa, f. 3.6. 2017.
Ísleifur ólst upp á Skagaströnd til 16 ára aldurs. Hann fluttist til Reykjavíkur og stundaði nám við Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem bifvélavirkjameistari. Hann starfaði við bifvélavirkjun árin eftir útskrift hjá Fiat-umboðinu. Síðar vann hann við umsýslu varahluta í bifreiðar og vélsleða hjá Sambandinu og síðan Merkúr. Þar sérhæfði hann sig í umsýslu með Yamaha-vélsleða og varahluti og vann áfram við það hjá Toyota-umboðinu og síðar hjá Arctic Trucks. Síðustu ár vann Ísleifur hjá Tékklandi Bifreiðaskoðun í Reykjavík. Ísleifur verður jarðsunginn frá Langholtskirkju í dag, 9. september 2021, kl. 13.
Elsku pabbi minn, ég er ekki að ná utan um þetta allt saman. Ég á svo
erfitt með að trúa því að þú sért farinn. Við Kári vorum einmitt að ræða
saman um stórafmælið þitt og hvað við ættum nú að gera í tilefni dagsins
þegar við fáum þetta örlagaríka símtal. Tíminn stöðvaðist um stund og ég
vissi ekki hvað ég átti að segja eða gera. Við héldum í vonina um að þetta
myndi allt blessast og þú hraustur maðurinn myndir jafna þig á þessu eins
og öðru, en allt kom fyrir ekki.
Í dag fögnum við seinasta afmælisdeginum þínum þar sem þú ert viðstaddur.
Við fögnum þínu lífi og öllum góðu minningunum sem við eigum. Það besta sem
þú vissir var að hlusta á tónlist og spila á gítarinn og það er nákvæmlega
það sem við ætlum að gera. Við ætlum að hlusta á lögin þín og njóta með þér
í hinsta sinn.
Þú varst alltaf svo ljúfur og góður við okkur, svo ótrúlega yfirvegaður og
með mikið jafnaðargeð. Ég man varla eftir að þú hafir verið reiður út í
mig, nema í eitt skipti þar sem þú varst klárlega ekki sáttur með mig. Þú
sást mig í bíl með eldri dreng fyrir utan heima - guð minn góður hvað ég sá
hvað þú varst ósáttur, þú þrammaðir að bílnum, opnaðir hurðina og dróst mig
út úr bílnum. Líklega varst þú ósáttur vegna þess að ég var bara 14 ára
krakki, en ég man ekki til þess að ég hafi hitt þennan umrædda dreng aftur
og ég efast um að hann hefði þorað að hitta þig aftur.
Þú hafðir einnig svo ótrúlega mikla þolinmæði gagnvart mér. Ég skil stundum
ekki hvernig þú fórst að þessu. Einu sinni var ég búin að væla það út að
við myndum mála herbergið mitt af því mig langaði svo mikið í blátt
herbergi. Eitt af því leiðinlegasta sem þú tókst þér fyrir hendur var að
mála, en þú sagðist samt ætla að hjálpa mér við þetta. Þú, litblindur
maðurinn, fórst með mér í búðina til að velja lit, en þú sást auðvitað ekki
neinn mun á þessum blessuðu litum. Þegar við komum heim og ætluðum að byrja
á að mála þá þurfti unglingurinn ég auðvitað að vera annars staðar og sá
mér ekki fært að aðstoða þig við þetta verkefni. Þú sagðir ekkert og
málaðir herbergið. Þegar ég kom aftur heim síðar um kvöldið og sá litinn á
veggjunum fékk ég áfall. Ég sagði við þig að ég gæti ómögulega sofið í
þessu herbergi. Mér fannst liturinn svo hræðilegur. Þú varst eflaust
örlítið vonsvikinn, en sagðir að við myndum fara daginn eftir og kaupa
nýjan lit og mála það upp á nýtt sem við og gerðum. Ég efast um að flestir
hefðu haldið ró sinni yfir ofdekruðum unglingi á þessum tímapunkti, en þér
tókst það. Enn þann dag í dag skil ég ekki af hverju við tókum ekki nokkrar
litaprufur en það er svo lýsandi fyrir hvernig þú varst. Þú framkvæmdir
hlutina, stundum kannski aðeins of fljótur á þér, og í þetta skiptið kom
það okkur í koll.
Síðustu ár hefur það verið þér mikið hjartans mál að eyða tíma með okkur
fjölskyldunni á uppáhaldsstaðnum þínum, og okkar, í sumarbústaðnum í
Grímsnesi þar sem þú undir þér best. Það sem þú gast brasað, smíðað,
glamrað á gítarinn, allt í þinni núvitund.
Kári hefur alltaf notið nærveru þinnar og vináttu. Þegar fellihýsið var
keypt voru margir fylgihlutir og önnur hjáverk sem fylgdu uppsetningu þess.
Í eitt skiptið fyrir vestan, á tjaldsvæðinu á Bíldudal, voruð þið hátt í
tvær klukkustundir að setja upp fellihýsið með öllu tilheyrandi.
Staðsetningin, fortjaldið, grillið, dúkurinn, hillurnar, borðin, stólarnir,
og svo lengi mætti telja. Fyrir þér var þetta bara verkefni til þess að
gera veru allra annarra fjölskyldumeðlima sem bærilegasta, þótt aðeins væri
um tvo daga að ræða. Vilji þinn til þess að gera sumarbústaðinn að heilögum
fjölskyldustað var einlægur. Ákveðið var að fjárfesta í niðurgröfnu
trampólíni fyrir afastelpurnar, eitthvað sem enginn ætti einu sinni að
íhuga án þess að hafa 10 tonna skurðgröfu tiltæka í verkið. Margir dagar af
handmokstri og tilfæringum á stórum og þungum steinum, sem einkenndust þó
sérstaklega af flugnabitum, tóku við þar sem þú varst í fararbroddi, allra
manna duglegastur með gleðina að vopni sönglandi Hey Mr. trampoline man
play a song for me (Bob Dylan/Mr. Tambourine Man).
Að vera verkstjóri í pallasmíði og öllum öðrum verkum ætluðum til þess að
gera aðstöðuna enn betri í sumarbústaðnum tók yfir þín síðari ár. Þú varst
handlaginn, þó oft hafi handverkið borið með sér einkennandi hráan stíl. En
það var nákvæmlega eins og þú vildir hafa það - því við erum nú bara í
sveitinni sagðir þú glottandi. Það var aldrei hafist handa fyrir hádegi,
því það var mikilvægt fyrir þig að þetta væri líka staður til að hvílast
á.
Þrátt fyrir endurteknar sögur og afrek, eins og þegar þú fórst í bæinn
og ætlaðir að kaupa þvottavél en keyptir þess í stað íbúð - eitthvað sem
verður seint leikið eftir í dag - snjósleðaferðir þar sem misgáfulegar
ákvarðanir voru teknar, um fararstjórann sem hresstist við hvern sopann úr
kókflöskunni þegar leið á skipulagða kynningarferð um eyjuna í einni af
Jamaíka-ferðum ykkar hjónanna, eða þegar þú settir á eitthvert fáheyrt lag
og spurðir hvaða hljómsveit hefði samið það til þess að leika þér að okkur,
en með það að markmiði að fræða og kynna okkur tónlist frá öðrum tíma, þá
naut maður þess alltaf að hlusta á þig, sitjandi úti að horfa yfir sveitina
eða á stjörnurnar í heita pottinum.
Afastelpurnar þínar Dagbjört og Lovísa elskuðu að eyða tíma með ykkur þar.
Þeim fannst þú svo skemmtilegur og þér þótti svo gaman að æsa þær upp í
einhverja vitleysu. Ég veit að þú sást ekki ljósið fyrir þeim og varst
orðinn spenntur að fá þriðju afastelpuna í hendurnar, en hún er væntanleg á
næstu dögum eða vikum. Það er ólýsanlega erfitt að hugsa til þess að hún
muni ekki fá tækifæri til að kynnast þér í eigin persónu. En við munum
tryggja það að hún kynnist þér á annan hátt, með því að tala um þig, segja
henni frá öllum skemmtilegu sögunum og þannig halda minningu þinni á
lífi.
Elsku pabbi, ég mun sakna húmorsins, hlátursins, faðmlagsins og
fíflalátanna. Núna ertu kominn til Hjalta bróður og ég veit að þið eruð að
gera eitthvað skemmtilegt saman. Ég elska þig og mun sakna þín óendanlega
mikið, þar til við hittumst aftur síðar.
Þín dóttir,
Hrefna Dröfn.