Hilmar Sigurbjartsson fæddist í Reykjavík 22. september 1952. Hann lést 13. júlí 2021 á sjúkrahúsi í Osló, Noregi, þar sem hann bjó undanfarin ár.

Foreldrar hans voru Sigurbjartur Sigurbjörnsson, verkstjóri hjá Reykjavíkurborg, fæddur 19. apríl 1922, látinn 20. júní 1986 og Unnur María Einarsdóttir húsmóðir, fædd 7. febrúar 1923, látin 30. september 2003. Börn þeirra eru: Einar, búsettur í Bandaríkjunum, Sigurbjörn, búsettur í Danmörku, Gunnar, býr í Reykjavík, Guðrún, sem bjó í Flórída, Hrafnhildur Grace, Örn, Hilmar og Þór, sem nú eru öll látin.

Sigurbjartur og Unnur bjuggu lengst af við Hólmgarð í Reykjavík þar til þau á efri árum fluttu til Flórída í nágrenni við Guðrúnu dóttur sína og Þór son sinn og fjölskyldur þeirra.

Hilmar eignaðist tvo syni; Eyþór Má, fæddur 10. júní 1972, sem lést 2. september síðastliðinn í Svíþjóð. Móðir Eyþórs er María Anna Þorsteinsdóttir, kennari í Reykjavík. Með konu sinni Vilborgu Jónsdóttur sjúkraliða átti Hilmar Jón Unnar, fæddur 17. janúar 1979. Þau skildu. Vilborg og Jón Unnar búa í Svíþjóð. Hilmar var verkamaður hjá Reykjavíkurborg og sjómaður þar til hann slasaðist illa um tvítugt og varð öryrki.

Hilmar var kvaddur frá Fossvogskapellu og hvílir hann í duftgrafreitnum  Sóllandi í Fossvogi við hlið Arnar bróður síns.





Ég kveð Hilmar Sigurbjartsson, vin og barnsföður, með söknuði eftir hálfrar aldar kynni sem aldrei brá skugga á. Við Hilmar kynntumst á gamlárskvöldsballi á skemmtistað ungs fólks sem hét Las Vegas og var við Grensásveg. Það var árið sem ég byrjaði í MH, 1970 ég 16 ára og hann 18. Hann var mjög sætur og mikill töffari. Hann var þarna með vinum sínum og ég vinkonu og við tvö smullum saman. Löngu löngu síðar spurðu sonardætur hans þegar við vorum bæði samtíða hjá Eyþóri syni okkar hvað hann hefði séð við ömmu, þ.e. mig, þarna fyrst. Hilmar var snöggur til svars og sagði: Hún amma ykkar var svo flink að dansa. Já, hann var líka mikill dansmaður á þessum tíma þótt ekki hefðu verið klassískir samkvæmisdansar í boði, heldur það sem kallað var shake og vangadans.
Veturinn og sumarið eftir var mikið dansað og djammað. Við unglingarnir á þessum árum bókstaflega lifðum á tónlist. Það var Woodstock-bíó, og þrefalt albúm, söngleikir s.s. Jesús Christ Superstar, rokktónleikar og súpergrúppur um allt land í stöðugri endurnýjun. Fyrir utan allt sem gekk á í útlandinu. Ekki bara Bítlar og Rollingar heldur Cream, Pink Floyd, Bob Dylan, John Mayall, Bob Marley, Janis Joplin, Crosby, Still, Nash og Young, Tina Turner
Hilmar átti marga vini sem flestir voru hættir í skóla voru á sjó eða unnu í malbikinu sem gaf glás af monný. Við stelpurnar vinkonur mínar vorum flestar á menntaveginum en gátum vel notið lífsins með skólanum og sumarvinnunni. Útihátíðir voru málið þessi árin. Saltvík, Húsafell, Þórsmörk, Laugarvatn, jafnvel hestamannamót, bara ef það var tjald og hljómsveitir. Á þessum árum voru fíkniefni sjaldséð nema í bíó hjá alvöruhippum, bjór var bannaður og léttvín þekktist ekki. Við drukkum helst vodka blandaðan með einhverju dísætu klístri, sjartrös held ég það heiti eða kókakóla. Strákarnir sáu um að redda því. Slagorð tímans var Make love not war, Ísland úr Nató, herinn burt. Hárið fékk að vaxa, varalitur var bara fyrir gamlar konur. Við vorum nægjusöm á föt, eitt flott dress á ballið og annað smart í skólann var fínt. Hilmar og við öll vorum alveg þarna, eiginlega hippar en ekki alveg, samt með Peace brother og það allt á hreinu.
Segja má að árið 1972 hafi verið gjöfult í vinahópnum. Þrjú börn fæddust þ.á m. Eyþór sonur okkar Hilmars í júní. Öll börnin urðu gæfubörn og hafa fjölgað Íslendingum þótt við foreldrarnir værum kannski fullungir og barneignir ekki á dagskrá.
Orðinn faðir ákvað Hilmar að fara í iðnskólann en varð þá fyrir hörmulegu slysi í byrjun árs 1973. Hann var að vinna í grjótnámi í Gufunesi þegar risastórt bjarg brotnaði úr stálinu og lenti á Hilmari. Fyrir kraftaverk tókst að lyfta bjarginu nóg til að hægt væri að ná honum lifandi undan. Loftborinn hans lá þannig að mikilvægustu líffærum hans var hlíft. Við tók langt og strangt ferli endurlífgunar sem öll þjóðin tók þátt í m.a. með áheitum á Strandakirkju sem birtust daglega í Morgunblaðinu. Hilmar lifði en missti vinstri fót við hné og hægri höndina við olnboga.
Hilmar hafði einstaklega gott skaplyndi og tók fötlun sinni af miklu æðruleysi, svo ungur sem hann var. Rétt kominn til meðvitundar á spítalanum sagði hann við mig: Þetta er allt í lagi, svo lengi sem hausinn er heill og fermingarbróðirinn. Ég var svo ung að ég skildi hann ekki fyrr en hann benti milli fóta sér.
Hilmar var mikill sjarmör, laglegur og vel á sig kominn. Sérstaklega voru bláu augun hans töfrandi og brosið fallegt. Konur heilluðust af framkomu hans og viðmóti. Á Grensásdeildinni kynntist Hilmar Vilborgu Jónsdóttur og fluttist með henni og allri fjölskyldu hennar til Gautaborgar þar sem næga vinnu var að hafa og gott húsnæði fyrir barnafólk.
Hilmari var mikið í mun að eiga gott samband við Eyþór þótt við byggjum ekki saman. Hilmar og Vilborg eignuðust fljótt son, Jón Unnar, og fór Eyþór reglulega til þeirra og var þar yfir sumarmánuðina. Þessar sumardvalir voru ævintýri fyrir Eyþór. Hann fór með fjölskyldu Vilborgar í húsbílaferðalög til Evrópu, hún átti yngri bræður til að leika við að ekki sé talað um hundinn þeirra, en þá var hundahald bannað í Reykjavík. Þau Vilborg fötuðu Eyþór upp fyrir veturinn með alls konar fíneríi frá Svíþjóð og hann kynntist glassbílnum sænska. Þegar Hilmar og Vilborg slitu samvistir og Hilmar flutti til Íslands hélt Eyþór og mín fjölskylda ætíð góðu sambandi við Vilborgu og hennar fólk, sem nú býr í Svíþjóð.
Hilmar elskaði strákana sína meira en allt og reyndi að vera eins mikið með þeim og hann gat. Eyþór fór í tvígang með honum til Flórída en þangað höfðu foreldrar Hilmars flutt á níunda áratugnum, til barna sinna sem bjuggu þar. Þar kynntist Eyþór ekki aðeins krókódílum og Disneylandi heldur líka föðurfólki sínu.
Hilmar var mjög handlaginn og duglegur til vinnu þrátt fyrir handarleysið. Faðir hans Bjartur var þúsundþjalasmiður.
Hann var hins vegar í þeirri stöðu öryrkja að hver króna sem hann vann sér inn var dregin frá örorkulífeyrinum þannig að hann borgaði þá með sér. Hann notaði því krafta sína til að aðstoða vini og vandamenn við alls konar framkvæmdir hvort heldur var við húsamálun eða garðyrkju sem honum þótti mjög skemmtileg. Hann var t.d. ekki lengi að koma og redda málunum þegar Eyþór eitt sinn skaut óvart bolta í rúðu og ég var ráðalaus með brotna rúðu í bílskúr nágrannans.

Um tíma þegar Hilmar bjó einn sótti hann sér félagsskap til Bakkusar. Sá tími gekk yfir og hann flutti til Noregs þar sem hann fékk gott húsnæði og hann gat heimsótt bæði Nonna, Eyþór og stelpurnar hans í Svíþjóð. Á seinni árum fékk hann mikinn áhuga á sagnfræði og gleypti í sig fróðleik og spennu á því sviði. Síðustu mánuðir voru erfiðir vegna ferðatakmarkananna. Hann hafði beðið alllengi tilbúinn með ferðatöskuna á leið til Eyþórs að vinna í garðinum og húsinu og passa öll dýrin ef fjölskyldan brygði sér af bæ. Þá kom kallið með hjartaáfalli. Hilmar komst á spítala og þau Eyþór og Louise gátu kvatt hann þar áður en hann lést.
Hilmar hafði það sem fólk kallar sjötta skilningarvitið. Hann sá eða vissi það sem aðrir sáu ekki. Hann talaði helst aldrei um þessa skynjun sína. Mig grunar að hann hafi vitað hvað koma skyldi og var kannski að undirbúa sig til að taka á móti Eyþóri sem lést 2. september sl.
Minningin um Hilmar lifir áfram með öllum þeim sem honum kynntust.







María Anna Þorsteinsdóttir