Ester Guðbjörg Haraldsdóttir fæddist í Hafnarfirði 4. júlí 1941. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 24. ágúst 2021. Foreldrar hennar voru Haraldur Agnar Guðmundsson, f. 29. júlí 1913, d. 6. maí 1989, og Halldóra Sigríður Guðvarðardóttir, f. 16. ágúst 1922, d. 27. ágúst 2008.

Alsystkini hennar eru: Fanney Haraldsdóttir, f. 16. maí 1940, d. 11. des. 1992, Sigríður Kolbrún Diego Haraldsdóttir, f. 27. ágúst 1942, d. 3. mars 2006, Bentína Haraldsdóttir f. 29. sept. 1944, d. 24. des. 2018, Guðvarður Haraldsson, f. 2. ágúst 1949. Samfeðra bróðir er Jóhannes G. Haraldsson, f. 6. mars 1938. Sammæðra systkini eru: Ómar Örn Eysteinsson, f. 17. des. 1954, d. 27. júlí 1997, Pétur Kúld Eysteinsson, f. 12. apríl 1958, d. 3. júní 1997, og Hallfríður Hjördís Eysteinsdóttir, f. 22. nóv. 1961.

Ester giftist Haraldi Hafsteini Júlíussyni, f. 21. júní 1938, þau skildu 1964. Dætur þeirra tvær eru Halldóra Sigríður, f. 18. des. 1959, gift Vali Sveinbjörnssyni, f. 10.10. 1956, börn þeirra eru Ester Björg, Sandra Lind og Valur Þór; Margrét, f. 28. mars 1962, gift Þorsteini Þorsteinssyni, f. 14.10. 1966, börn þeirra eru Oddbjörg Lilja, Þorsteinn Halldór, Axel og Egill.

Barnsfaðir Esterar var Ásgeir Sigurðsson, f. 19. nóv. 1927, d. 4. mars 2009. Barn þeirra er Jóhann Smári, f. 2. jan. 1967, börn hans eru Erlingur Ívar, Lilja Rut og Elísa Rún.

Eiginmaður Esterar frá 20. nóv. 1976 var Ívar Hreinberg Jónsson, f. 18. nóv. 1941, d. 5. mars 1977.

Eftirlifandi eiginmaður Esterar er Agnar Þór Aðalsteinsson, f. 29. ágúst 1938, en þau hófu saman búskap árið 1984 og giftust 4.10. 2002.

Barnabarnabörn Esterar eru 15 talsins.

Úrförin fór fram í kyrrþey.

Nú er hún tengdamóðir mín öll en hún fékk að kveðja þessa jarðnesku tilveru sína í faðmi fjölskyldu sinnar á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði þar sem hún bjó síðustu mánuði ævi sinnar. Á Sólvangi leið henni vel og það var vel hugsað um hana enda starfsfólkið þar einstaklega hlýlegt og vandvirkt í sínum störfum. Á þessum tímamótum finnst mér rétt stikla á stóru í því sem ég hef kynnst af hennar lífi og rifja upp nokkrar minningar sem ég tengi mest við Ester. En það var nú reyndar þannig að kynni okkar Esterar byrjuðu kannski ekkert sérlega vel enda var henni, eins og öðrum mæðrum, mjög umhugað um framtíð dóttur sinnar sem þá átti þá sjálf tveggja ára dóttur á þessum tíma. Hún sá alls ekki fyrir sér að dóttirin myndi slá sér upp með mun yngri manni, hvað þá sextán ára strák sem var meira að segja smá villingslegur í útliti. Það leið þó ekki langur tími þar til við Ester urðum mestu mátar og ég var tekinn í fulla sátt inn í fjölskylduna, enda vissi hún fljótlega að mér var full alvara þó ungur væri. Allar götur síðan hef ég átt gott og kærleiksríkt sambandi við tengdamóður mína sálugu.

Það var í raun ákveðin blessun yfir því að hún Ester fékk að kveðja á Sólvangi enda var hún komin aftur þangað sem hún undi sér alltaf vel, hennar gamla vinnustað og í raun hennar fyrra heimili því hún bjó á starfsmannavistinni sem ung stúlka á sínum fyrstu starfsárum. Ester kynnist eiginmanni sínum Haraldi Hafsteini og eignaðist með honum tvær dætur, Halldóru Sigríði og Margréti, en þau skildu tveimur árum eftir að Margrét fæðist. Við tók krefjandi tímabil fyrir unga einstæða og efnalitla móður sem þurfti nú að vinna eins mikið og hún gat til þess að standa undir húsleigunni og nauðsynjum fyrir sig og tvær ungar dætur sínar. Ester var dugleg og gaf ekkert eftir, passaði vel upp á dætur sínar og sá til þess að þær hefðu það sem til þurfti þó svo það væri ekki mikið umfram það enda þröngt í búi. Ester vann nánast alla sína starfstíð á Sólvangi en inn á milli var gripið í vertíðarvinnu, bæði í hvalverkun, loðnu og síld þegar það gafst og vænkaðist þá jafnan hagur heimilisins um stund. Ester eignaðist síðar son sinn Jóhann Smára með barnsföður sínum Ásgeiri Sigurðssyni en kynni þeirra voru stutt og Ester var nú einstæð þriggja barna móðir og þurfti að sjá fyrir sér og sínum börnum á eigin spýtur. Það hindraði Ester þó ekki í að koma sér upp fallegu heimili en hún keypti sína fyrstu íbúð að Sléttahrauni 15 í Hafnarfirði og bjó þar þangað til börnin uxu úr grasi og barnabörnin fóru að koma í heiminn. Ester kynnist eiginmanni sínum Ívari Hreinberg Jónssyni en þau giftust fljótlega eftir sín kynni. Ívar lést á voveiflegan hátt aðeins fjórum mánuðum eftir brúðkaup þeirra og enn á ný tók við nokkuð krefjandi tímabil í lífi Esterar. Árin eftir þetta bjó hún aftur ein, að þessu sinni með tveimur af yngri börnum sínu ásamt næstyngsta barnbarninu sem fékk að búa hjá ömmu sinni fyrstu árin, elsta dóttirin Halldóra var þá flutt að heiman. Barnabörnin voru ljósið í lífi hennar og þau sóttu mikið í að vera hjá ömmu sinni á Sléttahrauninu enda var hún dugleg að sinna þeim og passa þegar á þurfti að halda.
Það birtir svo meira til í lífi Esterar þegar hún tekur saman við eftirlifandi eiginmann sinn Agnar en þau höfði þekkst lengi en aðeins sem vinir og fyrst á þessum tímapunkti fóru þau að rugla saman reytum eins og það er stundum kallað. Agnar og Ester byrja að búa saman 1984 þó þau festi fyrst ráð sitt og giftist árið 2002 þann 4. október. Þetta var góður tími í lífi Esterar, hún var umvafin börnum sínum, barnabörnum og nú hafði fjölskyldan stækkað því Agnar átti fjögur börn frá sínu fyrra hjónabandi og barnabarnahópurinn þeim megin í fjölskyldunni einnig stór. Ester og Agnar ferðuðust mikið saman á Íslandi, fóru títt í útilegur, veiðitúra og Agnar var duglegur að þeytast með tjaldvagninn um allar koppagrundir þar sem þau nutu lífsins saman og drógu okkur stundum með. Þau ferðuðust oft erlendis og voru dugleg að heimsækja fólkið sitt sem bjó erlendis. Agnar og Ester stóðu vel saman sem hjón, hugsuðu vel um sín börn og barnabörn, voru ávallt tilbúin að aðstoða þegar einhver í fjölskyldunni þurfti á því að halda. Á þeim tíma sem ég og mín fjölskylda bjuggum í Danmörku gátum við alltaf stólað á að koma inn á traust heimili með öll börnin í litlu íbúðina á Sléttahrauninu og alltaf voru þau tilbúin að aðstoða með hin og þessi mál. Agnar starfaði lengst af sem leigubílstjóri í Hafnarfirði og var hann alltaf ótrúlega hjálpsamur og snjall þegar redda þurfti málum, sem var okkur unga námsfólkinu mikils virði. Ester og Agnar flytja svo á Krosseyrarveginn í Hafnarfirði og lífið heldur áfram, barnabarnabörnunum fjölgar og fjölskylduhópurinn verður æ stærri með hverju árinu sem líður. Alla tíð sinntu þau fjölskyldunni vel og gættu vel að því að allir fengju sína verðskulduðu athygli og ást. Það var alltaf gott að koma inn á heimili þeirra og minningin af því tengist oftar en ekki einhverju matarkyns. Ester var dugleg og metnaðargjörn húsmóðir sem lét sig ekki muna um að henda í eina alvöru hnallþóru og brauðtertu eða skonsutertu með ef það átti við. Margar góðar minningar rifjast upp þar sem maður sat við matarborðið hjá þeim, oftast rammíslenskur matur eldaður eftir kúnstarinnar hefð en mínum huga voru einföldu réttirnir það sem stóð upp úr. Mitt uppáhald var rauðmaginn, eldaður með roði og beini í mátulega þykkum sneiðum, hent örsnöggt í sjóðandi vatn með rétt magn af ediki og salti, nýjar kartöflur og smjör. Einfalt, en guðdómlega gott ef rétt var gert og þannig var reglan hjá þeim hjónum, maður fékk oft að heyra: Svona gerum við þetta alltaf, svona á þetta að vera.
Þegar heilsu Agnars fer að hraka fær hann inni á Sólvangi þar sem hann fær umönnun í takt við sínar þarfir. Þetta var á köflum erfitt fyrir Ester sem átti það til blessunin að hafa of miklar áhyggjur af sínu fólki en það hafði fylgt henni svolítið í gegnum tíðina og kannski mótast hjá henni vegna þess sem hún mætti í lífinu. Ester var sjálf orðin mikill sjúklingur á þessum tíma þó hún léti það ekki stoppa sig. Hún var alltaf ern þó svo líkamleg heilsa væri ekki góð, mætti í allar veislur og matarboð og var oftar en ekki hrókur alls fagnaðar. Ester fékk svo loks sitt langþráða pláss á Sólvangi fyrir aðeins fjórum mánuðum en hún átti þar engu að síður afskaplega góðan tíma og naut þess að vera komin heim á Sólvang aftur þar sem hún gat hitt Agnar sinn hvern einasta dag fram á sitt síðasta.
Ég er þakklátur fyrir það að hafa kynnst þessari góðu konu, lært að þekkja hennar sögu og skilja betur hvernig henni tókst að komast í gegnum lífið þrátt fyrir mótlætið en njóta alls þess góða sem á hennar daga dreif. Blessuð sé minning þín, elsku Ester.

Þinn tengdasonur,

Þorsteinn.

Elsku mamma, það er svo ólýsanlega erfitt að skrifa þessi orð og það er stórt skarð í hjarta mínu eftir að þú kvaddir þennan heim. Þú varst alltaf mín stoð og stytta þrátt fyrir að þú stæðir alltaf ein í foreldrahlutverkinu og svo varst þú líka dásamleg amma og langamma sem börnin mín gátu alltaf leitað til og treyst. Þú lagðir alltaf mikið á þig, stóðst þig vel í öllum þessum hlutverkum og gerðir það af svo miklu stolti. Þú lést reyndar líka alla vita það og það voru alveg stundum mjög spaugileg augnablik þegar þú varst að monta þig af barnabörnunum og barnabarnabörnunum hér og þar.

Þú varst heldur ekki alveg búin að sleppa tökunum á okkur þrátt fyrir að við værum orðin fullorðin og það gat oft farið mikill tími í að útskýra fyrir þér að treysta okkur fyrir hinu og þessu hvað okkur varðaði. En elsku mamma, þú stóðst þig alltaf eins og hetja þrátt fyrir að þú lentir í svo mörgum áföllum í leit að hamingju og betra lífi. Ég man einnig að þú sagðir okkur frá því að í þínum uppvexti hefðuð þið systkinin þurft að upplifa ákveðna mismunun í ykkar uppeldi. Síðar í lífinu þurftir þú að horfa upp okkur systurnar vera hafnað af okkar eigin föður og fara á þannig á mis við það að alast upp með báðum foreldrum. Það var þér eðlilega mjög erfitt en þú reyndir samt að vera okkur í senn móðir og faðir. Þú sagðir svo oft að það ætti enginn að þurfa að finna þann sársauka í hjarta sínu að vera hafnað. Lífið helgaðist mikið af þeirri hugsun, að reyna að bæta okkur þetta og fylgja eftir en það gerði þér lífið stundum erfiðara fyrir vikið. En þrátt fyrir þessa staðreynd þá verndaðir þú alltaf þá föðurímynd sem við höfðum og lést aldrei styggðaryrði falla.

Það var alltaf svo yndislegt að heyra þig tala um ríkidæmi þitt þegar barnabörnin fæddust og síðar barnabarnabörnin. Hver einasti afkomandi var kraftaverk í augum þínum. Það var þér mjög mikilvægt að allir þínir fengju jafn mikla athygli og ást, að ekkert okkar fengi meira en aðrir og að enginn upplifði neitt annað. Ég veit að þú fórst með bænir þínar alla daga bæði kvölds og morgna, þú varst guði þínum þakklát fyrir gjafirnar sem hann færði þér.

Árið 1984 fannstu svo hamingjuna sem var samt búin að standa fyrir framan þig í mjög mörg ár þegar þið Agnar fóruð að vera saman. Það var vart hægt að finna betri mann en Agnar sem bjó yfir einstakri manngæsku og ást, sem tók öllum þínum afkomendum sem sínum eigin á svo aðdáunarverðan hátt. Tengslin sem þá mynduðust í hjörtum okkar munu aldrei slitna enda elska börnin okkar hann sem afa sinn sem hann svo sannarlega reyndist þeim. Þið áttuð einstaklega vel saman, alveg eins og þið hefðuð verið saman alla tíð. Þið ferðuðust mikið, bæði innanlands og utan, fóruð ósjaldan í veiðiferðir og útilegur. Þó svo að samband ykkar hafi ekki verið laust erfiðleika þá áttuð þið virkilega góðan tíma saman og nutuð lífsins.

Það var því mjög erfitt fyrir þig þegar Agnar fór á hjúkrunarheimilið Sólvang vegna veikinda sinna og þú varst oft döpur yfir stöðunni en í leiðinni líka létt, því þú vissir að þar fengi hann bestu aðhlynningu sem völ væri á. Þú varst svo ótrúlega dugleg að heimsækja hann eða eins oft og þín heilsa leyfði og þið hringduð mikið hvort í annað eftir að Covid skall á. Þrátt fyrir þetta komu samt tímar þar sem þú varst mjög einmana og jafnvel líka smá áhyggjufull yfir því að það yrði ekki hugsað nægilega vel um hann. En þannig varstu gerð, alltaf að hugsa um aðra og áttir til að gleyma sjálfri þér, þú varst svo oft með áhyggjur af jafnvel hlutum sem þú hafðir enga stjórn á því þú þurftir að vita að öllum liði vel og að það væri í lagi með alla, þá fyrst leið þér vel. Það gat verið mjög erfitt fyrir mig að skilja þessa hugsun þína og ég sagði svo oft við þig: Elsku mamma, farðu nú að slaka á og reyndu að njóta lífsins, því þú áttir það svo sannarlega skilið.

Elsku mamma mín, hvenær er maður tilbúinn að deyja og kveðja fyrir fullt og allt? Heilsu þinni hrakaði hratt núna seinustu daga í þínu lífi og aldrei hefði ég getað undirbúið mig undir að þú værir ekki lengur hjá mér. Sama hversu djúpt ég sökkvi mér í góðu minningarnar þá þarf ég að horfast í augu við þá staðreynd og lifa með það að þú sért farin frá mér.

Ég sagði svo oft við þig að þrátt fyrir erfiðleika þína og oft þröngan kost þegar ég var að alast upp og að ég hefði kannski ekki upplifað hluti líkt og börn í kringum okkur gátu og þú þráðir að við fengjum að njóta, þá átti ég samt dásamlega æsku og á yndislegar minningar tengdar henni. Ég veit að það var út af því að þú varst mamma mín, þú varst alltaf til staðar, þú fórst ekki frá mér og öryggið sem þú veittir mér varð til þess að ég upplifði mig sem mjög hamingjusamt barn. Þú lagðir mikið á þig við að halda okkur saman og kenna okkur lífsins gildi. Fyrir það, elsku mamma mín, er ég þér svo endalaust þakklát.

Þú lifir í hjarta mínu að eilífu.

Þín dóttir,

Margrét.

Elsku amma mín, ég á erfitt með að ímynda mér lífið án þín. Þú ert með í öllum mínum æskuminningum, enda bjuggum við saman þangað til ég var að verða þriggja ára og tengdi það okkur sérstaklega. Ég man eftir okkur á Sléttahrauninu, ég gisti oft hjá ykkur afa, man eftir lyktinni á baðherberginu, ostasamlokunni, kjötfarsinu með hvítkálinu og ómótstæðilegu súkkulaðitertunni með bananakreminu.

Þegar ég var átta ára fóruð þið með mig í mína fyrstu utanlandsferð. Við fórum til Benidorm á Spáni með Arnarflugi og ég man að ég var stjörf af hræðslu alla leiðina. Ég þorði ekki að hreyfa mig og skildi ekki að hægt væri að ganga um í vélinni án þess að botninn hyrfi undan manni. Þið afi voruð alltaf svo góð við mig þó að ykkur hafi örugglega fundist ég stundum svolítið kjánaleg. Á Spáni áttum við yndislegan tíma saman og var ekkert sparað á tívolítúrana eða ævintýraferðirnar. Ég var svo skotin í fararstjóranum, sem var ungur og myndarlegur, og þið afi gerðuð ekki annað en að fá mig til að roðna fyrir framan hann. Á þessum tíma var þetta bara fyndið og skemmtilegt og ég man eftir þessu með bros á vör.

Þegar bræður mínir þrír fæddust man ég eftir að hafa verið hjá þér, þú varst alltaf svo stór hluti af lífi mínu. Þegar við fjölskyldan fluttum til Danmerkur 1991 var ég 11 ára og þá fannst mér einna erfiðast að fara frá þér. Ég íhugaði meira að segja að fá að búa hjá þér en ég var líka mikil mömmustelpa og ég gat ekki verið án fjölskyldunnar minnar. Við skrifuðumst mikið á og ég man að ég hljóp heim úr skólanum til þess að lesa bréfin þín. Þegar ég kom heim til Íslands á sumrin þá bjó ég hjá ykkur. Ég man sérstaklega hvað ég hló mikið að þér þegar þú talaðir í síma við mömmu sem var í Danmörku, þú talaðir svo hátt að afi heyrði til þín niður í bíl þó svo þú værir uppi á þriðju hæð, það var eins og þér fyndi þú þurfa að tala hærra því hún var í öðru landi.

Ég valdi svo að vera áfram í Danmörku þegar mamma og pabbi fóru heim en ég kom heim eins og ég gat og oft án þess að segja ykkur frá, bankaði bara upp á með mömmu, ykkur til stórundrunar í hvert skipti. Þetta fannst mér ótrúlega skemmtilegt. Ég sá alltaf gleðina og ástina í augunum þínum og þú elskaðir okkur mikið og lést okkur öll vita af því. Það er ótrúlega mikils virði í dag.

Ég er þakklát fyrir að ég fékk að eiga þig að öll þessi ár og þú fékkst að upplifa börnin mín fjögur sem þú elskaðir líka heitt. Og þú varst alveg óskaplega stolt af þeim öllum, þú gast talað um þau klukkutímum saman. Ég er þakklát fyrir að hafa verið svona náin þér, en við töluðum um tíma mikið saman í síma og þá hafðir þú alltaf tíma til að hlusta á ruglið í mér en varst samt alltaf hreinskilin á þinn hátt.

Ég er þakklát fyrir að hafa knúsað þig mörgum sinnum í sumar og að Isabella Lilja fékk að kynnast þér en hún mun muna eftir þér, ég mun sjá til þess.

Elsku amma, við eigum svo margar minningar um þig, margar svo skemmtilegar enda varstu alveg bráðfyndin, kannski ekki alltaf að eigin vali en við elskuðum þig fyrir það. Það verður alltaf talað um þig þegar við stelpurnar hittumst í frænkuhittingi. Þess á milli mun ég hugsa til þín, bera þig í hjarta mínu, vera þakklát fyrir að þú fékkst að fara áður en þú þurftir að þjást allt of mikið. Ég veit að þetta er gangur lífsins en ég var ekki tilbúin en ég held að þú hafir kannski verið það. Þú náðir að hitta og kveðja svo marga þetta sumar, jafnvel afkomendur sem komu langt að og einn þeirra fór frá landinu daginn áður en þú kvaddir. Mér finnst það falleg hugsun um þína síðustu daga og ég vel að trúa að þú hafir verið tilbúin, það gerir þetta aðeins auðveldara. Ég gleymi þér aldrei elsku amma mín.

Þín dótturdóttir,

Oddbjörg Lilja (Bogga).