Eyþór Már Hilmarsson fæddist 10. júní 1972 í Reykjavík. Hann lést 2. september 2021 á krabbameinsdeild sjúkrahússins í Vesterås, Svíþjóð. Foreldrar Eyþórs eru Hilmar Sigurbjartsson, f. 22.9. 1952, d. 13.7. 2021, og María Anna Þorsteinsdóttir, f. 1.11. 1954, gift Rúnari Elberg Indriðasyni. Systkini Eyþórs eru Jón Unnar Hilmarsson, f. 17.1. 1979, Atli Viðar Þorsteinsson, f. 1.9. 1983, og Katrín Edda Þorsteinsdóttir, f. 8.5. 1989.

Eyþór ólst upp með móður sinni og móðurfjölskyldu, gekk í Melaskóla og Háteigsskóla. Hann dvaldi mörg sumur hjá föður sínum í Gautaborg og konu hans Vilborgu Jónsdóttur. Eyþór fór í Menntaskólann við Hamrahlíð, og sem skiptinemi til Chile. Í framhaldi af Chiledvölinni fór hann í reisu um Suður-Ameríku. Eftir heimkomuna bjó hann um hríð hjá föður sínum á Akureyri. Hann fór fljótlega til Gautaborgar, til að vinna hjá Nordjobb, en ílentist þar við nám og tilfallandi störf.

Í Gautaborg kynntist hann eiginkonu sinni til 25 ára, Louise Helenu Granström, sem stundaði þar nám í sálfræði. Hún er einbirni, dóttir Davids og Evu Granström, framhaldsskólakennara í Fagersta. Þau giftu sig sumarið 1995 og eignuðust tvær dætur í Gautaborg: Astrid Sóleyju, f. 17.8. 1996, sálfræðinema, og Ölvu Sigurbjörgu, f. 24.9. 1999, bókmenntanema, báðar við Uppsalaháskóla. Áður átti Eyþór Freju Rebekku, f. 24.5. 1994, læknanema í Lundi, með Birgittu Franzén hjúkrunarfræðingi.

Áhugasvið Eyþórs var víðfeðmt. Frá barnæsku var eitt helsta áhugamál hans landafræði og mannkynssaga. Bókmenntir, tónlist og kvikmyndir frá öllum heimshornum voru hans áhugamál og páfagaukar. Hann lærði júdó, safnaði frímerkjum og útlenskum eldspýtustokkum og byrjaði snemma að fylgjast með fréttum þegar hann bar út og seldi Dagblaðið Vísi og vann sér inn vasapening.
Í Gautaborg lagði hann stund á félagsvísindi og stjórnmálafræði og var vart til það málefni sem hann var ekki heima í og tilbúinn til að rökræða. Erítrea, umhverfismál, sósíaldemókratar, Nýja-Sjáland, innflytjendur, trúarbrögð. Hann var alltaf að lesa, lagði allt á minnið, greindi og tengdi saman.
Fjölskyldan flutti frá Gautaborg til Fagersta, smábæjar í grennd við foreldra Louise. Eyþór vann lengst af sem stuðningsfulltrúi með ólögráða ungmennum sem villst höfðu af leið. Síðustu árin jókst þörf hans til að koma skoðunum sínum á framfæri opinberlega. Hann fór þá að skrifa pólitískar greinar í sænsk dagblöð með hjálp Ölvu dóttur sinnar í sænskri stafsetningu og hafði mikla ánægju af viðbrögðunum. Þrátt fyrir öll sín áhugamál var þó eitt mikilvægast og það var fjölskyldan.

Útför Eyþórs fer fram í dag, 1. október 2021, frá Vestanforskirkju í Fagersta, Svíþjóð.

Mamma mín, fyrirgefðu að ég skuli leggja þetta á þig. Bólgan í kjálkanum er ekki tannkýli eins og ég hélt, heldur æxli, erfitt æxli, sjaldgæft æxli. Í símanum var sonur minn Eyþór að hringja frá Svíþjóð í febrúar og ég heyrði að hann var klökkur í málrómnum. Viðbrögð mín, móður hans, voru afneitun. Þetta verður allt í lagi, það verður skorið burt, svo eru komin fullkomin lyf og geislar Ég barðist við að láta hann ekki heyra hve skelkuð ég var. Æxlið yrði tekið, haldið niðri, færi burt. Það tæki tíma, hann yrði veikur en svo færi það burt. Hann yrði kannski ekki jafngóður en nógu góður. Ég væri svo góð að biðja og senda lækningastrauma. Jesú,María og allir guðir heims myndu lækna hann. Þá svaraði Eyþór: En mamma, hví skyldi ég ekki veikjast eins og hver annar? Hví skyldi minni fjölskyldu vera hlíft við sjúkdómum og dauða frekar en öðrum? Ég hef átt gott líf, heilbrigð börn, yndislega konu, góða fjölskyldu og vini. Við þessu átti ég ekkert svar.
Ég hafði oft rætt við börnin mín og ættingja hve lánsöm við fjölskyldan værum, miðað við marga aðra, að hafa verið í skjóli fyrir erfiðum sjúkdómum og barnadauða. Kannski vissi Eyþór þá þegar að hann yrði ekki læknaður, en hann lét okkur ekki finna neina uppgjöf hjá sér. Hann gerði áætlanir um Íslandsferð um leið og æxlið væri orðið minna. Vegna Covid hafði fyrirhugaðri Íslandsferð í fyrra verið frestað. Í maí fór ég þá í heimsókn þrátt fyrir Covid-takmarkanir. Það var góður tími, við vorum öll bjartsýn, æxlið lét undan lyfjunum og Eyþór var á fullu í garðinum sínum fyrir sumarið.
Í júlí lést Hilmar faðir Eyþórs í Ósló úr hjartaáfalli 69 ára gamall. Fyrir náð gátu þau Louise komist til hans á sjúkrahúsið og kvatt hann. Við tók erfiður tími. Lyfjameðferðir báru engan árangur og Eyþór hafði miklar áhyggjur af útför föður síns á Íslandi. Hann vildi sjá um allt sjálfur en eins og hann sagði: Mennirnir ákveða en guð ræður. Allt fer eins og það á að fara. Útför Hilmars fór fram 20.9. sl. og sá Jón Unnar bróðir Eyþórs um að allt færi fram eins og þeir feðgar vildu. Þá var Eyþór látinn eftir skyndilegt bakslag veikindanna stuttu eftir að hafa kvatt jarðneskar leifar föður síns. Louise lét okkur hér heima vita að tíminn væri að renna út og við flugum með hasti til Stokkhólms. Eyþór vissi að við vorum á leiðinni og almættið gaf okkur tíma til að kveðjast.
Nú er mér torvelt. Eyþór var yndislegur sonur, faðir, eiginmaður og bróðir. Þegar hann fæddist var ég aðeins 17 ára gömul og alein á fæðingardeildinni. Það var eins og Eyþór hefði verið sendur í heiminn til að gleðja gamla fólkið. Allir tóku honum fagnandi enda var hann bæði fallegur drengur og góður. Eyþór átti mjög sérstakt samband við gamla fólkið í fjölskyldunni langt fram eftir aldri. Við heimsóttum Kristin, föðurafa minn í Hafnarfirði, reglulega og dvöldum allan daginn í rólegheitum. Sigurbjörg afasystir mín, ógift og barnlaus, elskaði Eyþór meira en allt og var á sunnudögum með hann þegar ég þurfti að læra eða fara í kvikmyndaklúbbinn.
Amma hans, Sóley, var aðeins 44 ára gömul þegar Eyþór kom í heiminn. Eyþór sinnti henni af einstakri hlýju og þolinmæði fram á hennar síðasta dag. Hún dvaldi á hverju ári hjá Eyþóri í Svíþjóð og dó þar, enda vildi hún hvergi annars staðar vera en hjá þeim. Nærgætni og umhyggja gagnvart fjölskyldunni einkenndi Eyþór. Hann talaði alltaf vel um annað fólk og gladdist einlæglega þegar vel gekk hjá þeim sem hann þekkti, sérstaklega systkinum sínum og vinum. Allur hans frítími fór í samveru með dætrunum að lesa, leika, spjalla og spila.
Þrátt fyrir að vera svona mikið eftirlætisbarn var Eyþór aldrei frekur. Besti tími okkar mæðgina var þegar við bjuggum tvö á Hjónagörðum stúdenta og ég var í bókmenntanámi. Ég var sparsöm á þessum árum og þá var hollur matur ódýrastur. Eyþór fékk því alltaf hafragraut í hádeginu og að sjálfsögðu fylgdi með sagan af Stúfi sem tók ýmsum breytingum hjá mér í munnlegri geymd. Hann fór með mér í Háskólabíó á mánudagsmyndirnar kl. 5 en var þá frítt í bíó fyrir stúdenta eða í Alþýðuleikhúsið á menntandi leiksýningar fyrir börn. Ég gaf Eyþóri á afmælum og jólum allar bækur Stefáns Jónssonar, Astrid Lindgren og norrænar barnabækur í stórum stíl. Teiknimyndasögur las hann hjá pabba sínum og bróður mínum svo jafnvægi var á. Það var því næsta eðlilegt að það síðasta sem ég talaði við hann á dánarbeðinum var um söguna af bræðrunum Ljónshjarta og ævintýrin í Nangiala.
Líf Eyþórs var stutt en fallegt og hann lætur eftir sig minningar sem aldrei gleymast. Ég bý ekki að hæfileikum þeirra Egils Skalla-Grímssonar og Hallgríms Péturssonar að yrkja mig frá sorginni og til sáttar við dauðann. Ég hef hins vegar sjón og heyrn og vitsmuni til að njóta skáldskaparins. Síðast en ekki síst skilur Eyþór eftir sig þrjár yndislegar dætur sem hver og ein ber með sér bestu eiginleika föður síns. Harmur þeirra og Louisu eiginkonu Eyþórs til 25 ára er yfirþyrmandi. Megi allar góðar vættir styrkja þær í sorg sinni.
Mamma.



María Anna Þorsteinsdóttir.