Finnbogi Jónsson, verkfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri, fæddist á Akureyri 18. janúar 1950. Hann lést 9. september 2021 í Vancouver í Kanada.
Finnbogi er fæddur og uppalinn á Akureyri. Foreldrar hans voru Esther Finnbogadóttir, f. 24.1. 1917, d. 23.6. 1986, verka- og matráðskona, og Jón Sveinbjörn Kristjánsson, f. 13.9. 1912, d. 26.3. 2001, fv. stýrimaður og skipstjóri. Finnbogi lauk stúdentsprófi frá MA 1970, fyrrihlutaprófi í eðlisverkfræði frá HÍ 1973, lokaprófi frá Tækniháskólanum í Lundi í Svíþjóð 1978 og lokaprófi í rekstrarhagfræði frá háskólanum í Lundi sama ár.
Finnbogi kenndi við Gagnfræða- og Iðnskóla Vestmannaeyja 1970-71. Eftir að hann lauk háskólanámi varð hann deildarstjóri í iðnaðarráðuneytinu 1979-82 og framkvæmdastjóri Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar hf. 1982-86. Hann var framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf. frá 1986-99, forstjóri Íslenskra sjávarafurða hf. 1999, síðar aðstoðarforstjóri SÍF hf. og starfandi stjórnarformaður Samherja hf. 2000-05. Hann var framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá 2006-10 og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands frá 2010-12. Þá sat hann auk þess í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka og stofnana. Finnbogi var búsettur í París og Moskvu árin 2012-20. Síðari árin sinnti Finnbogi einkum nýsköpun og stjórnarsetu. Meðal annars beitti hann sér fyrir samstarfi um útflutning á íslenskri tækniþekkingu í sjávarútvegi. Hann var formaður Perluvina sem staðið hafa að uppbyggingu náttúrusýninga í Perlunni og sat hann um árabil í háskólaráði á Akureyri. Finnbogi hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín og var meðal annars útnefndur maður ársins í íslensku viðskiptalífi árið 1997 og sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands 1999.
Finnbogi kvæntist hinn 27.2. 1971 Sveinborgu Helgu Sveinsdóttur, f. 13.6. 1948, d. 13.3. 2004, geðhjúkrunarfræðingi og félagsmálastjóra. Börn Finnboga og Sveinborgar eru Esther, f. 30.11. 1969, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, og er maður hennar Ólafur Georgsson, f. 5.7. 1967, flugstjóri. Börn Estherar eru Finnbogi Guðmundsson, f. 18.4. 1996, Vigdís Elísabet Bjarnadóttir, f. 11.1. 2006, og Georg Ólafsson, f. 10.2. 2012, dóttir Ólafs er Guðrún Soffía f. 25.2. 1989; Sigríður Ragna, f. 20.7. 1976, fyrrverandi flugfreyja og starfsmaður á fasteignasölunni Miklaborg, og er maður hennar Roberto González Martínez, f. 8.8. 1977, slökkviliðsmaður. Synir þeirra eru Elmar, f. 28.3. 2009, og Erik Máni, f. 16.2. 2012.
Sambýliskona Finnboga frá 2006 er Berglind Ásgeirsdóttir, f. 15.1. 1955, sendiherra. Börn hennar eru Ásgeir Gíslason, f. 6.7. 1981, viðskiptafræðingur, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, f. 13.6. 1988, lögmaður og Sæunn Gísladóttir, f. 4.6. 1993, þróunarhagfræðingur.
Alsystir Finnboga er Dórothea J. Bergs f. 20.2. 1947, hjúkrunarfræðingur, hálfsystir sammæðra er Hrafnhildur Ólafsdóttir, f. 20.5. 1939, fv. deildarstjóri, og hálfbróðir Finnboga, samfeðra, er Anton Helgi Jónsson, f. 15.1. 1955, skáld.
Útför verður frá Hallgrímskirkju í dag, 8. október 2021, klukkan 15.
Það er sárt að fá ekki að sjá þig aftur og umvefja í þessu lífi. Ég þakka samt fyrir að hafa fengið að kveðja þig áður en þú fórst til Kanada fyrir tveimur mánuðum og njóta kvöldverðar með þér og fjölskyldunni þinni.
Þú ert búinn að vera hluti af lífi mínu frá því þú fæddist enda er fyrsta minningin mín úr lífinu tengd fæðingu þinni. Þú fæddist heima í sama herbergi og ég svaf í og ég rétt að verða þriggja ára vakna við einhvern hávaða og þegar ég lít til mömmu minnar í gegnum rimlana á rúminu mínu, sé ég hana halda á einhverju sem öskrar ógurlega að mér fannst. Þá var mér allri lokið og fór sjálf að háskæla. En þarna komu fram þínir eiginleikar, Brói minn eins og ég kallaði þig meðan þú varst minni en ég, frá fyrstu tíð varstu kraftmikill og atorkusamur og alltaf fannst mér ég bera mikla ábyrgð á þér. Ég réð að vísu ekki alltaf vel við þig eins og þegar þú varst ákveðinn í að kanna hvað brunnurinn á bak við saumastofuna hennar Boggu frænku væri djúpur og endaðir með því að hverfa á kaf ofan í hann og ég rétt náði í annan fótinn þinn og gat dregið þig upp úr.
Þegar þú fékkst ný leikföng eins og fína jeppann sem hægt var að draga upp og láta keyra um gólfið, vildir þú helst taka þau í sundur og sjá hvað væri innan í en þá var ekki eins auðvelt að setja aftur saman.
Fyrstu 6 árin þín bjuggum við í Grænugötunni og það var nú gaman að að leika sér þar, sérstaklega á veturna. Oft komst þú heim eftir að hafa verið að renna þér á magasleða með skurði á enninu eða hnjánum. Fyrir framan húsið sem við bjuggum í var Eiðsvöllurinn og við vorum oft send í mjólkurbúðina til að kaupa eitthvað. Þú vildir fá að halda á peningnum og í eitt skipti týndist 500 króna seðill á leiðinni og þá leituðum við lengi vel og fundum eftir langa tíð. Þú vildir ekki gefast upp og varst svo glaður man ég þegar hann fannst. Við vorum að vísu skömmuð fyrir að hafa verið svona lengi í verslunarferðinni.
Við bjuggum á mörgum stöðum á Akureyri og oftast þurftir þú að deila herbergi með mömmu meðan ég svaf í stofunni. Þú lést þig hafa það og alltaf varstu fljótur að eignast vini á nýjum stöðum.
Ég man hvað þú varst ánægður þegar Helgi minn fór að venja komur sínar til okkar í Löngumýri 10 og þið gátuð alltaf spjallað mikið saman og voruð góðir vinir. Þegar sonur okkar fæddist, varst þú svo góður frændi að passa hann. Þú varst alltaf svo áhugasamur um börnin mín, Helga, Vilhjálm og Þórdísi og þeirra fjölskyldur. Það ríkti mjög gott samband milli dætra þinna, Rögnu og Estherar og minna barna og var það ekki síst fyrir þitt tilstilli. Ég hef haft tækifæri til að fylgjast með þeim og barnabörnum þínum frá því þau fæddust. Þín verður sárt saknað í árlegu jólaboði okkar.
Þegar þú, Sveina og Esther heimsóttuð okkur til London var gaman að fara um borgina og skoða skemmtilega og fallega staði saman.
Ég var alltaf svo stolt af þér vegna þess að þér gekk svo vel að læra og komast áfram í lífinu. Ég man hvað ég varð ánægð þegar þú ákvaðst að flytja til Akureyrar þegar ég bjó þar og oft nutum við skemmtilegra stunda þar.
Síðar þegar þú áttir heimili á öðrum stöðum vissi ég alltaf að ég gæti leitað til þín, það var svo gott að eiga þig að.
Ég minnist bróður míns sem rólegum, hressum og ánægðum með lífið, tilbúinn að ganga á fjöll, elda góðan mat og ferðast. Ég á eftir að sakna hans næsta aðfangadag en hann kom alltaf til mín áður en varð heilagt og þáði einn jóladrykk hjá mér, rautt portvín sem varð að vera borið fram í kristalsglasi. Ég trúi því varla að ég hafi þurft að skrifa þessa kveðju. Ég vonaði að hann héldi áfram að vera stoðin í lífi mínu sem ég vissi að ég gæti alltaf treyst á ef þyrfti.
Hvíldu í friði, ég bið að heilsa í Sumarlandið.
Ég votta Berglindi, Esther, Rögnu og fjölskyldum mína dýpstu samúð, minningin um góðan mann, föður, afa og tengdapabba mun alltaf lifa.
Dóróthea (Didda) systir.