Snorri Baldursson fæddist á Akureyri 17. maí 1954. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 29. september 2021. Foreldrar hans voru Þuríður Helga Kristjánsdóttir frá Hellu á Árskógsströnd, f. 21. nóvember 1915, d. 2. júlí 2009 og Baldur Helgi Kristjánsson Ytri-Tjörnum í Eyjafirði, f. 7. júní 1912, d. 25. nóvember 2003.
Systkini Snorra eru Kristján, f. 5. janúar 1945, Sigurbjörg Helga, f. 4. janúar 1946, d. 11. febrúar 1964, Benjamín, f. 22. janúar 1949, Guðrún Ingveldur, f. 17. maí 1952 og Fanney Auður, f. 2. júní 1956.
Snorri kvæntist Guðrúnu Vignisdóttur, f. 1954, hjúkrunarfræðingi árið 1976 og eignuðust þau soninn Heimi, f. 1974, sálfræðing, g. Signýju Kolbeinsdóttur, f. 1978 hönnuði, börn þeirra Snorri, f. 2004 og Svava, f. 2009.
Snorri kvæntist Guðrúnu Narfadóttur, f. 1955, líffræðingi, þau eignuðust synina Narfa Þorstein, f. 1982, rafmagnsverkfræðing, sambýliskona hans er Svava Þorleifsdóttur landslagsarkitekt, f. 1983, eiga þau börnin Þorleif Kára, f. 2010, Dag Snorra, f. 2016 og Lovísu Guðrúnu, f. 2018; Baldur Helga, f. 1986, arkitekt, sambýliskona Sunna Kristín Hannesdóttir, f. 1989, og Snorra Eldjárn, f. 1988, sambýliskona Alda Valentina Rós Hafsteinsdóttir, f. 1993, sonur Snorra með Ósk Gunnarsdóttur, f. 1986, er Benjamín Eldjárn, f. 2013.
Eftirlifandi eiginkona Snorra er Elsa Friðrika Eðvarðsdóttir, f. 19.12. 1954, hjúkrunarfræðingur. Foreldrar hennar voru Eðvarð Sigurgeirsson ljósmyndari, f. 1907, d. 1999 og kona hans Marta Jónsdóttir húsmóðir, f. 1920, d. 2009.
Snorri lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1974, B.Sc.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 1979 og kennsluréttindum í framhaldinu. Meistaranámi í plöntuvistfræði og plöntuerfðafræði frá University of Colordo og doktorsprófi PhD frá Konunglega landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1993.
Eftir nám erlendis sinnti Snorri jafnhliða öðrum verkefnum, rannsóknum á sviði landgræðslu og skógræktar. Hann beitti sér mikið fyrir náttúruvernd. og skrifaði fjölda greina um þau efni.
Á árunum 1983-1986 var Snorri kennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla, var sérfræðingur hjá RALA og Skógrækt ríkisins um árabil og var aðalritari hjá Norðurskautsráðinu CAFF 1997-2002.
Hann starfaði um skeið hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 2002-2008, var þjóðgarðsvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði og formaður Landverndar 2015-2017, stýrði auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands frá 2018 og var við störf hjá skólanum fram á þetta ár.
Árið 2014 kom út bókin Lífríki Íslands eftir Snorra. Hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita sama ár. Í september sl. kom svo út bókin Vatnajökulsþjóðgarður - Gersemi á heimsvísu. Bókin er að stofni til efni umsóknar til UNESCO. Síðastliðið sumar stofnaði Snorri nátttúrverndarsamtökin Skrauta en markmið þeirra var verndun Vonarskarðs og hinna ósnortnu víðerna landsins.
Útför Snorra fer fram í Langholtskirkju í dag kl. 13.
Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Þessar ljóðlínur listaskáldsins góða koma upp í hugann þegar í sit og minnist vinar míns Snorra Baldurssonar og horfi á smávini hans, lyngið og blómin í móanum utan við gluggann baða sig í haustsólinni. Þau þekkti hann öll með nafni og reyndi að miðla okkur vinum sínum af þeim brunni með hóflegum árangri.
Lífið hefur sínar árstíðir. Í sumar nutum við einstaks sumars en haustið kom snögglega. Eins var það með lífið, í vor nutum við hjón samverustundar með Snorra og Júlla Bigga og Svönu, Snorri óbugaður, glaður og ræðinn. Seinast í ágúst hringdi ég í hann, ætlaði að heimsækja hann á ættaróðalið í Eyjafirði, en þá var hann á leið suður og sagðist á leið til Ítalíu með Elsu sinni. Hann var enn óbugaður, glaður en greinilegt að fjandi hans var farinn að taka sinn toll. Hann gaspraði með það að það væri nú farið að styttast í kallinum en doktorarnir væru þó ekki alveg búnir að gefast upp á sér og ætluðu að gefa honum eitthvað svo hann gæti klárað þessa Ítalíuferð. Og það gerðu þau Elsa en þá var líka þrekið búið og hið óumflýjanlega tók fljótt af. Hann náði þó að klára að gefa út fallegu bókina sína um Vatnajökulsþjóðgarð einn strákinn sinn sem liggur hér á borðinu hjá mér og vantar bara eitt, eiginhandaráritun höfundarins. Þannig tókst hann í tæp tvö ár á við illvígan sjúkdóm af eindæma æðruleysi, dugnaði og hóflegri bjartsýni. Kom ýmsu í verk þegar margur í hans sporum hefði setið með hendur í skauti. Skammdegið var honum stundum erfitt og ef hann valdi ekki að kveðja meðan náttúran skartaði sínu fegursta, þá má þakka forsjóninni að svo fór.
Við hittumst fyrst við þrír, ég Snorri og Júlli Biggi, í Reykholtsskóla 15 ára peyjar, hver af sínu landshorninu. Í þessum suðupotti ólíkra aðstæðna bundumst við vináttuböndum, sem síðan voru ræktuð með samvistum í MA og einnig vorum við samtíða í HÍ. Á þessum árum var ýmislegt brallað, sem óþarft er að rekja hér, en þær minningar ylja og eru rifjaðar upp á góðum stundum á öðrum vettvangi. Við vorum um margt ólíkir, þeir t.d. miklir söngmenn meðan ég, að mati Snorra (sem var rétt eins og venjulega), er með laglausari mönnum, en slíka menn má vissulega umbera meðan þeir kunna texta! Einnig umbáru konur þeirra mig á háskólaárunum, þegar þeir voru búnir að stofna heimili og reyndu að vera ráðsettir menn, en ég lifði piparsveinalífi að hætti háskólastúdenta. Er ég þeim alltaf þakklátur fyrir það.
En eitthvað tengdi okkur alltaf saman, og þrátt fyrir búsetu hvor á sínu landshorninu eða hvor í sínum heimshlutanum, og þetta einkennilega annríki áranna milli þrítugs og fertugs, þá héldum við alltaf tengslunum, kíktum í heimsókn ef svo stóð á og settumst saman í rútunni á hittingi MA-stúdenta.
Hin síðari ár styrktum við svo vináttuböndin með árlegum hittingi og gönguferðum um fjöll og víkur. Þar var Snorri í essinu sínu og uppfræddi okkur Júlla um blómin og náttúruna og lífsins gáta var rædd en óleyst. Þá var myndavélin hans líka oft á lofti þótt vissulega væri henni eins oft snúið niður og rassinum upp, því blómin voru honum ævarandi myndefni. Síðasta ferð okkar saman var ógleymanleg hjólaferð í Noregi, þvert yfir Hardangervidda, niður Flåm-dalinn til sjávar við Sognfjörð. Við höfðum áður gengið um öræfi, dali og víkur hér austanlands, heimsótt Vatnajökulsþjóðgarð og labbað á Kaldbak og Kerlingu í Eyjafirði, svo sumarið 2020 var meiningin að taka fyrir heimaslóðir Júlla í Borgarfirðinum. En það varð ferðin sem aldrei var farin, því þá var það annað en annríki, sem var búið að taka völdin. Þetta kennir okkur kannski að forgangsraða. Á komandi sumri munum við Júlli Biggi því hvað sem tautar og raular labba á Skarðsheiði og minnast þar fallins félaga, hvort sem það verður með því að kyrja einn Hólssöng og láta drjúpa úr pyttlu ofan í urðina, eða bara skilja eftir einn lítinn vönd af smávinunum hans Snorra þar ofan á steini.
Aðrir mér hæfari munu rekja æviferil og ævistarf Snorra. Ég vil ljúka þessum fátæklegu kveðjuorðum með því að senda strákunum hans Snorra, konunum hans og öðrum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur frá okkur hjónum. Minningu um góðan vin og góðan dreng mun ég geyma meðan ég tóri.
Óli Grétar Metúsalemsson.