Ingi Sverrir Gunnarsson fæddist í Reykjavík 17. ágúst 1941. Hann lést á líknardeild Landspítalans 5. október 2021.

Móðir hans hans var Bergþóra Magnúsdóttir, f. 27.1. 1921, d. 8.4. 1995, dóttir Magnúsar Jónssonar, f. 8.7. 1893, d. 19.6. 1959 frá Selalæk og Jónu Ágústínu Ásmundsdóttur, f. 26.5. 1895, d. 8.11. 1923.

Faðir hans var Gunnar Viggó Jóelsson járnsmíðameistari, f. 12.6. 1918, d. 19.12. 1990, sonur Karls Júlíusar Einarssonar, f. 18.1. 1872, d. 24.11. 1970 og Margrétar Ásmundsdóttur, f. 18.8. 1893, d. 14.10. 1963.

Systkini Inga Sverris eru Guðlaug Gunnarsdóttir, f. 14.4. 1939 og Magnús Björnsson, f. 1.9. 1942, d. 26.2. 2014. Hann var ættleiddur til hjóna er bjuggu á Flögu í Vatnsdal, A-Hún. Hann á fimm önnur systkini samfeðra en þau eru Sigurður Vilhjálmsson, f. 6.2. 1945, Inga Björt Vilhjálmsdóttir, f. 3.3. 1946, Sveinbjörg Gunnarsdóttir, f. 12.11. 1950, Auður Róberta Gunnarsdóttir, f. 10.2. 1957, d. 28.5. 2010. Hylur Hörður Þóruson, f. 14.7. 1962.

Ingi Sverrir kvæntist Sigríði Arnborgu Vigfúsdóttur frá Höfn í Hornafirði, f. 13.3. 1940, d. 23.12. 1979. Þau skildu.

Fyrstu ár sín ólst Ingi Sverrir upp hjá föðurfjölskyldu sinni á Hringbraut í Reykjavík. Eftir að foreldrar hans skildu fékk móðir hans berkla og var í langan tíma á Vífilsstaðaspítala. Hún giftist Jóni Agli Ferdinandssyni frá Siglufirði, f. 10.8. 1919, d. 7.6. 2007 og gekk hann Sverri í föðurstað.



Mörg sumur var hann í sveit í Ártúni á Kjalarnesi vestan við rætur Esju hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur sem voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum.



Ingi Sverrir hóf skólagöngu sína í Laugarnesskóla, fór síðan í Miðbæjarskólann og þaðan lá leiðin í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Hann fór í Matsveina- og veitingaþjónaskólann og útskrifaðist sem framreiðslumeistari árið 1960.



Hann var messi á Tungufossi og ungþjónn á Gullfossi og Hótel Borg. Eftir að námi lauk starfaði hann til margra ára sem þjónn á Hótel Borg, um tíma á Hótel Kea á Akureyri og einnig starfaði hann á Gullna hananum í Reykjavík.

Hann hóf störf hjá Símanum með æskuvini sínum Jóhanni Erni Guðmundssyni og fóru þeir víða um land með vinnuflokkum. Eftir það starfaði hann í Húsbúnaðardeild Símans og útskrifaðist sem símsmíðameistari. Starfsferli sínum lauk hann sem skrifstofumaður hjá Símanum.



Ingi Sverrir var virkur félagi í Hallgrímsdeild AA-samtakanna til margra ára. Hann var bókelskur og átti afar stórt bókasafn en sagnfræði og ættfræði áttu hug hans allan.



Að ósk hans fór útförin fram í kyrrþey frá Fossvogskapellu 18. október 2021.

Leiðir okkar Sverris lágu fyrst saman um 10 ára aldur í Miðbæjarbarnaskólanum.
Ég man að hann vakti athygli mína vegna þess að hann var nýr í skólanum og var alltaf á fullri ferð, alltaf að prakkarast og stríðinn. Sverrir var einn róttækasti teikari í bænum (að teika var að hanga aftan í bílum þegar snjór og hálka var á götum), hann var nánast atvinnumaður í þessu sporti.
Það sást á niðurbrettum stígvélum hans sem voru næstum hælalaus vegna mikils núnings við götur borgarinnar, þannig að hann hallaðist svolítið aftur þá sjaldan að hann gekk, en var oftast á hlaupum. Metið í teiki var þegar hann hékk aftan í Hafnarfjarðarstrætó frá Lækjargötu suður í Hafnarfjörð.
Sverrir ólst upp fyrstu árin hjá föðurömmu og -afa í verkamannabústöðunum við Hringbraut ásamt foreldrum sínum sem síðar skildu og varð Sverrir eftir hjá ömmu og afa í góðu yfirlæti og síðar með móður sinni. Hann átti góða æsku, var fyrirferðarmikill, alltaf til í prakkarastrik en þó alltaf í góðu.
Það má segja að líf hans hafi skipst í fjóra hluta. Hamingjusama æsku. Djammárin upp úr fermingu og fram yfir þrítugt. Baráttan við Bakkus með þeim átökum sem því fylgdi og síðast gott líf fram til þess síðasta er hann glímdi við erfiðan sjúkdóm sem dró hann til loka þessa lífs. Eins og fyrr sagði átti hann góðar minningar úr æsku svo sem sumardvalir í sumarbústað afa og ömmu í Kópavogi og hjá góðu fólki á bænum Ártúni á Kjalarnesi, auk samvista við ömmur og ömmusystur sem honum þótt mjög vænt um.
Við vorum fermingarbræður, fermdumst í Dómkirkjunni hjá séra Jóni Auðuns. Gengum saman í Gaggó Vest, þann fræga skóla. Vorum mikið við höfnina að falast eftir vinnu allt frá 12 ára aldri og fengum oft vinnu við uppskipun. Upp úr því komumst við í skipspláss sem messaguttar. Sverrir fyrst á Tungufossi og síðar á Gullfossi og þá byrjuðu djammárin.
Sverrir komst í nám í þjónaskóla og var í starfsnámi á Hótel Borg og sem þjónn á Gullfossi og ýmsum skemmtistöðum. Hann tók þetta allt af miklum krafti og skemmtanalífið sem fylgdi, sem sífellt tók yfir meir og meir. Í Þórskaffi og Vetrargarðinn var farið um helgar og dansað af miklum krafti, hvergi slegið af í rokki og róli, engin rólegheit þar frekar en í öðru sem vinur minn tók sér fyrir hendur. Eftir dansleik tóku við partí sem stóðu fram á næsta dag og oft lengur.
Þegar á leið tók Bakkus völdin; það sem áður var skemmtilegt varð að kvöl og vanmætti til að stjórna eigin lífi. Margar atlögur voru gerðar til að ná að snúa til baka. Farið inn og út hjá meðferðarstofnunum, náði að verða edrú um tíma en féll svo aftur. Með hjálp AA-samtakanna og góðra vina tókst honum smám saman að vinna bug á fíknivandanum. Sverrir veitti í mörg ár forustu einni deild hjá AA.
Um þetta leyti fór hann að vinna hjá Símanum og lauk þar prófi sem símsmiður. Þetta starf átti vel við hann og endaði Sverrir starfsferil sinn sem lagermaður þar.
Hvað sem gekk á í lífinu var Sverrir alltaf mikið snyrtimenni og alltaf vel til fara. Hann var bókhneigður, las mikið og var sagnfræði hans uppáhald, grúskaði í ættfræði og var vel heima þar. Safnaði bókum, átti stórt bókasafn. Hann var mikill sjálfstæðismaður, en fram undir það síðasta hafði hann samúð með Flokki fólksins, enda bæði mannvinur og dýravinur. Ekki veit ég hvað marga ketti hann tók að sér og fóstraði í gegnum árin.
Við vinirnir áttum alltaf góðar samræður en ekki alltaf sammála, kom fyrir að það hitnaði í samræðum okkar en hann átti alltaf síðasta orðið. Nú undir það síðasta ræddum við oftar en ekki trúmál og hvað tæki við eftir brottför okkar úr þessum heimi. Sverrir trúði á sumarlandið og að þar biðu hans ástvinir sem fyrr voru farnir. Nú á síðustu mánuðum lét hann setja upp legsteina á leiði ömmu sinnar og afa og hjá fleirum úr fjölskyldunni.
Við félagarnir höfðum rætt bæði í gamni og alvöru að sá okkar sem seinna færi yfir móðuna miklu skyldi skrifa minningargrein um hinn. Sverrir hafði þó þann fyrirvara að ef ég yrði sá sem skrifaði vildi hann fá að lesa greinina yfir en til þess kom ekki þar sem ég var of seinn. Ég vona að hann sé sáttur við þessi skrif og fyrirgefi mér ef ég hef einhvers staðar hallað réttu máli.
Við vinirnir áttum síðustu samskipti í herbergi hans á líknardeildinni í Kópavogi og horfðum út um gluggann sem sneri að Álftanesi rétt ofan við fjöruna þar sem afi hans og amma áttu sumarbústað aðeins utar á Kársnesi og bát í fjörunni. Er það sumarlandið? Þar má segja að Sverrir væri kominn heim.
Þakka 70 ára vináttu. Sjáumst seinna, gamli vinur.

Jóhann Örn Guðmundsson (Öddi).