Kristín Sigríður Guðjónsdóttir fæddist 25. september 1930 í Fremstuhúsum í Dýrafirði. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 18. október 2021. Kristín var dóttir hjónanna Guðjóns Finns Davíðssonar, bónda og organista, f. 28. júní 1891, dáinn 23. desember 1979 og Borgnýjar Jónu Hermannsdóttur, f. 28. febrúar 1897, dáin 29. janúar 1986.
Systkini Kristínar voru Vilborg, f. 4. desember 1917, dáin, Laufey, f. 18. júní 1919, dáin, Guðrún, f. 29. október 1920, dáin, Erla, f. 17. maí 1922, dáin, drengur, f. 23. september 1923, dáinn, Rannveig, f. 7. desember 1927 og Hermann Birgir, f. 19. júní 1936. Rannveig og Hermann Birgir lifa systur sína.
Fyrri eiginmaður Kristínar var Samúel Þórir Haraldsson, f. 12. apríl 1932, d. 6. apríl 1969. Börn þeirra eru: 1) Haraldur Guðjón, f. 24. desember 1950. Kona hans er Ásta Benediktsdóttir, f. 23. febrúar 1947. Börn þeirra eru Magnús, Dagmar, Guðjón Finnur, dáinn, Hallfríður Þóra og Borgný. Barnabörnin eru sex. 2) Óskírður drengur, fæddur og dáinn 22. desember 1951. 3) Guðrún Ólafía, f. 26. ágúst 1953, maður hennar er Guðmundur Árnason, f. 4. ágúst 1953. Synir þeirra eru Árni og Steinarr og eru barnabörnin fjögur. 4) Borgný, f. 20. desember 1954, maður hennar er Halldór Björgvin Gunnlaugsson, f. 3. nóvember 1951. Börn þeirra eru Íris Dröfn, Þóra Kristín, Halldór Örn og Guðrún Ýr. Barnabörnin eru níu. 5) Arnlaugur Kristján, f. 12. desember 1957, kona hans er Þuríður Jana Ágústsdóttir, f. 15. mars 1958. Börn þeirra eru Ágúst Kristinn, Samúel Henrik, dáinn, og Kristín Sigríður og eru barnabörnin þrjú. 6) Drengur Helgi, f. 21. febrúar 1960, d. 3.júní 2019, kona hans var Sóley Ósk Stefánsdóttir, f. 25. desember 1959, d. 24. júní 2021. Synir þeirra eru Guðjón Finnur, Stefán Aðalsteinn og Samúel Þórir. Barnabörn þeirra eru átta. 7) Samúel Kristinn, f. 28. júlí 1961, d. 9. mars 1963. 8) Gísli Sigurjón, f. 22. október 1962, kona hans var Hulda Björk Gunnlaugsdóttir, f. 29. ágúst 1966. Þau skildu. Börn þeirra eru Sigurgeir Sveinn, Lilja Kristín og Guðmunda Líf. Barnabörnin eru tvö. 9) Jónína Ingibjörg, f. 14. apríl 1964, maður hennar var Þorsteinn Óla Þorbergsson, f. 20. febrúar 1963, þau skildu. Sonur þeirra er Drengur Óla og eru barnabörnin tvö. 10) Kristján Gaukur Kristjánsson, f. 20. nóvember 1965, kona hans er Maliwan Phumipraman, f. 5. maí 1973. Kristján Gaukur var ættleiddur af systur Kristínar. Þeirra börn eru Pathipan, Malín Agla, Kristján Örn og Drengur Arnar og eru barnabörnin þrjú. Seinni eiginmaður Kristínar var Kjartan Magnússon, f. 30.9. 1926. Þau skildu. Sonur Kristínar og Kjartans var Jón Finnur, f. 10. júní 1973, d. 11. júlí 1991. Kristín vann utan heimilis ýmis verkamannastörf, lengst af á gæsluvöllum Reykjavíkurborgar og í sundlaugunum í Laugardal.
Kristín ólst upp við kærleik, söng og sögur vestur í Dýrafirði en bjó sín fullorðinsár í Reykjavík.
Útför Kristínar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík 28. október 2021 klukkan 13.
Hún átti mjög hlýjar minningar úr barnæskunni í Dýrafirðinum, af foreldrum sínum, systkinum og leikfélögum af næstu bæjum. Þegar hún sagði okkur frá æskuminningum sínum skein í gegn hversu mikill kærleikur ríkti á heimilinu í Fremstuhúsum í Dýrafirði.
Þrátt fyrir að hafa þurft að ganga í gegnum stærri og fleiri áföll en flestir á sinni ævi þá lét hún þau ekki buga sig. Hún náði alltaf að halda í jákvæðnina og lífsgleðina, hún var með krafta og styrk á við ofurhetju.
Amma var máttarstólpi fjölskyldunnar, hún var ávallt til staðar fyrir fólkið sitt og hamingja þeirra skipti hana mestu máli.
Við eigum góðar minningar úr árlegri þrettándaveislu sem hún hélt heima hjá sér. Fjölskyldan var stór en þrátt fyrir litla íbúð var nóg pláss fyrir alla, nóg af hangikjeti og flugeldar til að sprengja úti í garði. Amma hafði unun af söng, við munum eftir henni leggja kapal, yrkja vísur og leysa vísnagátur en oftast var hún með prjónana sína uppi við enda gat hún prjónað heilu flíkurnar blindandi. Afkomendurnir voru margir og allir þurftu að eiga hlýjar flíkur frá ömmu, mikið sem okkur þykir vænt um þær.
Amma var skilningsrík og fordómalaus og því alltaf hægt að leita til hennar og ræða allt milli himins og jarðar. Hún var örlát, svo örlát að hún gaf son sinn systur sinni sem ekki gat eignast barn sjálf.
Við vorum svo heppnar að búa í sama hverfi og amma sem börn svo við áttum auðvelt með að kíkja til hennar. Annaðhvort heim til hennar, þar sem Mackintosh-dós af stærstu gerð, full af nýsteiktum kleinum, beið manns eða í vinnuna til hennar sem við kölluðum ömmusund en heitir víst Laugardalslaug. Alltaf tók hún á móti okkur með svo mikilli hlýju.
Áður en hún hóf störf í Laugardalslaug starfaði hún á gæsluvöllum Reykjavíkur. Hún þurfti að berjast til að fá það starf því sá sem sá um ráðningar fyrir róluvellina á þessum tíma hafði engan áhuga á að ráða hana til starfa. Afi var sjúklingur og amma með lítil börn sem hún þurfti að sinna og sjá fyrir. Hún varð því að finna starf þar sem hún gat tekið börnin með sér. Þegar útséð var að fyrrnefndur maður var ekki að fara að ráða hana pantaði hún viðtal við borgarstjóra og bar upp erindi sitt, sagðist vilja fá starf á gæsluvelli. Borgarstjórinn sagði að vegna þeirrar stöðu sem amma væri í gæti hún fengið bætur og ætti því ekki að þurfa að vinna. Amma sagðist enga ölmusu vilja þiggja og svo fór að borgarstjórinn sá til þess að hún yrði ráðin.
Amma vann alla ævi mikið og hlakkaði til eftirlaunaáranna sem hún ætlaði svo sannarlega að njóta. Lífið hafði önnur plön fyrir hana því ekki löngu eftir að hún hætti að vinna fékk hún heilablóðföll sem læknar töldu ólíklegt að hún næði sér eftir. Við héldum á þessum tíma að við værum að missa hana en ofurhetjur gefast ekki upp. Hún lagði jafn hart að sér í endurhæfingunni eins og í öllum öðrum verkefnum sem hún tók sér fyrir hendur á lífsleiðinni. Baráttuviljinn var slíkur að hún náði að læra að tala og ganga upp á nýtt. Hún var svo mikill nagli, ríflega áttræð var hún enn að gera upphífingar við sundlaugarbakkann eftir sundferðir og níræð var hún enn að fara í daglegan göngutúr, sama hvernig viðraði.
Amma kvaddi okkur mánudaginn 18. október á hjartadeild Landspítalans. Afkomendur hennar söfnuðust saman við sjúkrarúmið og sungu hana inn í draumalandið. Hún var alla tíð söngelsk svo þetta var mjög viðeigandi leið til að kveðja hana.
Amma var elskuð af öllum sem voru svo lánsamir að fá að kynnast henni og við erum heppnar að hafa fengið að eiga Stínu ömmu. Við munum halda áfram að lifa eftir þeim gildum sem hún innrætti okkur og vitum að við erum í góðum málum ef við höfum erft bara brot af styrk hennar, jákvæðni, réttlætiskennd og kærleika.
Elsku amma, mikið er sárt að kveðja þig, takk fyrir allt sem þú gafst okkur og kenndir. Þú sagðist ætla að fara heim í Dýrafjörðinn en við huggum okkur við tilhugsunina um að þú sért sameinuð fólkinu þínu sem farið er, Samma afa, börnunum og barnabörnunum sem þú misstir, foreldrum og systkinum.
Hvíldu í friði.
Fríða og Borgný (Bogga).