Grethe Wibeke Iversen fæddist í Bergen í Noregi 5. maí 1944. Hún lést á heimili sínu Njarðarvöllum 6 í Reykjanesbæ 20. október 2021. Foreldrar hennar voru hjónin Petter Iversen, f. 24. nóvember 1901, d. 12. janúar 1981 og Anna Iversen, f. 1. desember 1913, d. 22. febrúar 1987.

Bróðir Grethe er Arne Petter Iversen, f. 1938, og lifir hann systur sína.

Grethe giftist Skúla Guðjónssyni, f. 17. júlí 1942, þann 3. september 1966 í Bergen, þau skildu árið 1980. Foreldrar Skúla  voru Guðjón Elías Jónsson, f. 20. febrúar 1895, d. 11. febrúar 1980 og Jensína Sigurveig Jóhannsdóttir, f. 5. ágúst 1907, d. 15. júní 1995. Grethe og Skúli eignuðust tvo syni: 1. Guðjón Skúlason, f. 1. janúar 1967, giftur Ólöfu Einarsdóttur, f. 31. janúar 1969 og eiga þau tvö börn, þau Hilmi Gauta og Gígju. 2. Skúli Skúlason, f. 2. apríl 1970, giftur Guðríði Hallgrímsdóttur, f. 28. mars 1976 og eiga þau Grétu Björgu og Evu Björgu, en fyrir á Skúli Guðjón Trausta.

Grethe ólst upp í Bergen og gekk í barnaskóla, framhaldsskóla og byrjaði háskólanám. Hún hafði mikinn áhuga á tungumálum í sínu námi, einn vitnisburður þess er að margir sem kynntust henni áttuðu sig ekki fyrst á því að íslenska væri ekki hennar móðurmál, hún fór einnig ung til Frakklands til að læra frönsku.

Grethe kom til Íslands í ævintýraleit 1965 ásamt nokkrum norskum stúlkum sem flugfreyjur hjá Loftleiðum þar sem hún kynnist Skúla. Grethe bjó lengst á Langholti 17 en fluttist seinna á Suðurgötu 49 og síðustu æviárin bjó hún á Nesvöllum.

Þegar Grethe fer aftur út á vinnumarkaðinn er ekkert sem hún tekur sér ekki fyrir hendur til að tryggja að gaurana hennar tvo skorti ekkert, en flest munum við eftir henni í „nýja“ íþróttahúsinu í Keflavík þar sem hún var nálægt sínum helstum áhugamálum, íþróttum, og gat haft auga á strákunum sínum sem voru þar líka alla daga að sprikla. Fríhöfnin var síðan sá vinnustaður sem hún var lengst á og þar til hún hætti að vinna. Í Fríhöfninni sá hún um og stjórnaði snyrtivörudeildinni með góðri yfirsýn og var þekkt fyrir að nota hugareikninginn fremur en að styðjast við reiknivélar og iðulega með allar tölur tilbúnar á undan vélunum. Grethe hafði mikla ástríðu fyrir spilum og þar var það bridge sem átti eitt hug hennar lengi en í seinni tíð bætti hún við vist og lomber til að geta spilað minnst 3-4 daga í viku, meðal annars á Nesvöllum þar sem hún bjó.



Útför Grethe fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 29. október 2021, og hefst athöfnin kl. 12.
Mamma er dáinn, orð sem ég hræddist að þurfa að segja en það kom að því og hversu erfitt það var að hringja í bróður minn og segja þessi orð er það erfiðasta sem ég hef gert. Ekki var símtalið auðveldara til bróður hennar í Noregi. Ekki er hægt að búa sig undir svona hluti og þakka ég öllum sem veitt hafa mér ráð til að takast á við sorgina og ómetanleg er eiginkona mín Ólöf og börnin mín tvö sem ég er svo stoltur af en það var amma þeirra einnig. Mamma drakk bjór og reykti, hún fór aldrei leynt með það og við ræddum þessi mál margoft án niðurstöðu. Mér fannst þetta ekki góð blanda ásamt hækkandi aldri en eins og hennar karakter var þá þáði hún ekki okkar hjálp og virti ég það við hana. Við vorum ósammála um þessi mál en sammála um að vera ósammála. Mamma hafði ekki mikið álit á læknum eins bráðgáfuð og hún var og sagðist aldrei vilja leggjast inn á sjúkrahús og helst vildi hún lækna sig sjálf og hafði litla trú á lyfjum sem hún tók ekki nema í neyð sem er kaldhæðnislegt þar sem Skúli bróðir er doktor í lyfjafræði og stutt í rétt svör gagnvart öllu því tengdu frá honum. Áföllin í lífi mömmu voru þrjú að mínu viti, fósturmissir, hjónaskilnaður og atvinnumissir, og held ég að hún hafi aldrei unnið algerlega úr þessum málum. Við þá sem þetta lesa vil ég koma á framfæri að það er í lagi að biðja um hjálp, óska aðstoðar og ræða mögulegar leiðir sem leysa málin, það er alltaf hægt að laga hlutina og í öllum fjölskyldum er svo mikill góðvilji og hjartagæska að þetta á ekki að vera feimnismál Með þessu er neikvæði hluti greinarinnar búinn og jákvæðar og góðar minningar taka við.

Að þiggja ekki hjálp heldur aðeins veita hana var sterkt karaktereinkenni mömmu. Það geta allir sem hana þekktu borið vitni um hennar fórnfýsi gagnvart náunganum og því miður hefði ég viljað að hún beindi einhverju af þessari orku að sér sjálfri en það var ekki á dagskránni. Að eignast aldrei GSM-síma eða tölvu er annað sem hún var ákveðin í og því stundum erfitt að ná í hana nema með að tímasetja símtölin þannig að ég var viss um að hún var heima, þarna sýndi hún þrjósku sína og staðfestu. Mamma var einstakur starfskraftur og var annt um að veita framúrskarandi þjónustu til allra, þetta átti einnig við um uppeldi okkar bræðra en þar reyndist hún þolinmóð og úrræðagóð, ég man ekki eftir að hún hafi reiðst mér eftir allar vitleysurnar sem ég gerði heldur studdi mig til að vinna rétt úr málum. Heimilið var alltaf griðastaður og opið öllum vinum hvort sem það var um nótt eða dag. Vinatengsl hennar í Langholtinu voru gríðarlega sterk og var henni tekið eins og fjölskyldumeðlimi í sumum tilfellum og entist vináttan fyrir lífstíð. Mér eru einnig minnisstæð öll okkar sumur í Bergen fram að unglingsárum þar sem ég lærði norskuna þokkalega og átti góðar stundir með ömmu, afa og frændsystkinum. Mamma var framúrskarandi íþróttamaður og útsjónarsamur handboltamaður og tel ég að hún hafi ýtt undir ákefð okkar bræðra í að skara fram úr í íþróttum þó svo að við veldum körfuboltann. Hugarleikfimi hennar var spilamennska og var hún afburða bridge-spilari ásamt því að vera í lomber-hópi og spila vist þegar það gafst. Hún eignaðist marga góða vini í gegnum spilamennskuna og er ég þakklátur þeim fyrir hversu vel þau tóku utan um hana og voru henni trúir félagar og vinir. Að vera í þessum spilahópum gerði líf hennar svo mikilvægt og alltaf vildi hún tala um hversu gaman það var að spila. Mamma vildi einnig að við bræður stæðum okkur vel í námi og sést það vel á Skúla sem er bráðgáfaður og erfði mikið frá henni í þeim málum, ég var seinni til að blómstra en þarna studdi hún okkur alltaf á jákvæðan hátt. Eitt sem þekkist ekki í dag er að hún skutlaði okkur aldrei í skóla né á æfingar og sagði einfaldlega ef okkur langaði að gera þetta þá yrðum við að koma okkur á staðinn en hún mætti á alla leiki og studdi okkur alltaf þar. Hin seinni ár horfði hún á allar íþróttir sem hægt var í sjónvarpi og var oft erfitt að ná sambandi þegar Manchester United var að spila og var hún einnig mikill aðdáandi Ronaldo. Hún naut þess að eiga stundir með sjálfri sér fyrir framan sjónvarpið þó svo að fyrir mörgum árum hafi hún komið í viðtal í Víkurfréttum og sagt að hún myndi vilja henda sjónvarpinu og hafa frekar góðar bækur við höndina en svona breytast hlutirnir.

Ég vil segja frá hversu minnug og góð tungumálamanneskja hún var. Mamma, norska mamma talaði íslensku betur en margir innfæddir, talaði dönsku eins og Dani, sænsku eins og Svíi, ensku eins og Breti, ensku eins og Bandaríkjamaður, mjög góð í frönsku og þýsku ásamt því að tala gamalnorsku við þá sem það átti við og ný norsku við þá sem það átti við. Það var unun að sjá hana færast á milli tungumála í Fríhöfninni og tel ég að engin hafi haft þetta á sínu valdi á þeim ágæta vinnustað og þetta gerði hana að þeim afburðastarfmanni sem hún var. Minnið var einstakt, hún kunni utan að öll pöntunarnúmer snyrtivörulagersins í Fríhöfninni. Hún mundi öll símanúmer, alla fæðingardaga, dánardaga og merkisdaga, s.s. brúðkaupsafmæli fjölskyldu og vina. Hún hafði það að vana sínum að hringja í viðkomandi á þessum dögum til að minnast þessara tímamóta en kannski undir það síðasta var hún farin að gleyma einhverju en henni tókst þá vel að halda því leyndu. Hún gerði garð á Langholti 17 ásamt pabba með miklu magni trjáa, blóma og annarra jurta sem hún þekkti í sjón og vissi hvernig átti að hugsa um eins og með alla í kringum sig og undi hún sér alltaf vel í garðinum heima en þar bý ég í dag og reyni að gera sem best ég get til að standast hennar viðmið í garðræktinni.

Ég er öruggur um að margt í hennar fari erfðist yfir til okkar bræðra og í mínu tilfelli veit ég að þetta erfist til minna barna og sá tími sem hún varði með þeim í spilamennsku eða spjalli um heima og geyma styrkir mig í þeirri trú að fordæmi og framkoma hennar hefur áhrif og mótar þeirra karakter.
Erfitt er fyrir mig í dag að segja henni hversu stoltur ég er að hafa átt hana sem móður, fyrirmynd, stoð og styttu í gegnum okkar ár saman. Mamma þú varst einstök og gerðir allt fyrir mig sem hægt er að óska sér frá einni manneskju, ég sakna þín og okkar stunda sem hefðu orðið en ylja mér við minningar sem engin tekur frá mér. Ég vona að þú sért stolt af okkur bræðrum og eigir nú góðar samræður við þá sem hafa beðið eftir þér á öðrum stað.
Ég elska þig.
Þinn sonur.


Guðjón.