Guðrún Þóranna Ingólfsdóttir fæddist 15. maí 1955. Hún lést 21. september 2021.
Útför Guðrúnar fór fram í kyrrþey 30. september 2021.
Elsku yndislega mamma okkar er fallin frá eftir erfiða baráttu við krabbamein.
Það var svo ólýsanlega sárt að kveðja þig, að vita að það væri komið að
kveðjustundinni sem enginn vill nokkru sinni upplifa en á sama tíma var svo
dýrmætt að geta verið til staðar og fá að halda í heita hönd þína síðasta
spölinn. Þú sem gafst okkur lífið og komst okkur í þennan heim þó svo
heilsa þín hafi brugðist og þú hafir misst okkur þegar við vorum börn, þá
varstu ávallt með okkur. Fjarri okkur í nokkur ár en gafst aldrei upp.
Hlýir straumar frá þér skiluðu sér alltaf á einn eða annan hátt í formi sem
var ósýnilegt en áþreifanlegt. Þú varst trúuð og það hefur eflaust hjálpað
þér í gegnum tíðina.
Það sem einkenndi þig einna helst var sterkur karakter, góður húmor, smitandi hlátur og seigla til að halda áfram. Þú hafðir glaða lund og varðst alltaf fyrri til að slá á létta strengi þegar við hittumst, sagðir eitthvað fyndið og þar sem við erfðum þinn góða húmor (algjörlega hlutlaust mat okkar) fékkstu okkur alltaf til að hlæja í byrjun heimsóknar. Þessi eiginleiki kom þér býsna langt og hlý nærvera þín umvafði svo húmorinn. Að geta hringt í fólk og fengið það strax til að hlæja getur ekki annað en verið góður grunnur fyrir samtalið.
Við fundum fyrir ást þinni og umhyggju alla okkar tíð, þú varst ætíð tilbúin að rétta hjálparhönd ef eitthvað bjátaði á og þú hreinlega dýrkaðir barnabörnin þín. Þú eldaðir góðan mat og hélst mikið upp á gamaldags heimilismat og fannst líka gott að fara á KFC, sem var í uppáhaldi. Þú hafðir ekki mikið álit á kökum og súkkulaði en elskaðir hlaup, sem var uppáhaldsnammið þitt.
Þú ólst upp á Hellissandi ásamt systkinum þínum og þar voru ræturnar þínar alltaf, þú varst með sterkar taugar þangað, það má segja að þú hafir verið Sandari fyrir allan peninginn. Núna nýlega talaðirðu um að þú værir með það á planinu að það yrði að fara hópferð á Hellissand og gera eitthvað skemmtilegt þar, hugur þinn var þar.
Þið Agnar höfðuð afar gaman af því að rúnta út að Gróttu þar sem þið horfðuð yfir á Snæfellsjökul, þið nutuð þess lengi vel að fara á rúntinn. Að vera á rúntinum var skemmtun fyrir þér og braut upp daginn, þá var ávallt stillt á Gullbylgjuna en tónlistin sem þar er spiluð var þér að skapi.
Þér var mjög umhugað um að líta vel út um hárið eins og þú sagðir svo oft og straukst það alltaf á eftirminnilegan hátt, sama hvernig það var. Þú sagðir svo oft lít ég ekki vel út? og svo fylgdi í kjölfarið beinhörð staðhæfing já það segja það allir. Þetta var svo einlægt hjá þér að það gat ekki annað en fengið mann til þess að brosa og finnast það líka. Það skipti þig máli að ilma vel enda var alltaf góð lykt af þér og þú kallaðir ilmvötn ætíð vellyktandi. Þú málaðir þig aldrei en varasalvinn var aldrei langt undan og sú flík sem þú hélst mest upp á í mörg ár var kuldagallinn þinn. Það sem var samt staðalbúnaðurinn þinn heima fyrir var Hellissands-bolurinn og svo svuntan. Um leið og þú komst heim eftir að hafa verið úti á rúntinum settirðu svuntuna á þig og þar var hún þangað til þú fórst að sofa. Það var óþarfi að vera að flækja hlutina, þægindi og einfaldleiki númer eitt.
Þú hafðir líka afar gaman af að kíkja á fréttaveituna (facebook) og talaðir um að hafa nikkað (lækað) á hitt og þetta sem þér fannst skemmtilegt að sjá og þar fylgdist þú grannt með öllu og hafðir gaman af.
Þú hafðir alltaf allt svo hreint og fínt á heimilinu ykkar Agnars og var mjög umhugað um að hafa allt í röð og reglu, hvort sem var á eldhúsbekknum eða eldhúsborðinu. Hlutunum var raðað í ákveðna röð og eftir að þú varst aðeins búin að hagræða straukstu eftir borðinu á ákveðinn hátt.
Þú hafðir sterkar skoðanir á ýmsu og oft á tíðum steyttirðu hnefann í loftið og sagðist ætla að kæra hitt og þetta óréttlæti og svo fylgdi smitandi hláturinn í kjölfarið, þannig að hótunin varð að engu um leið. Þér fannst spennandi að njósna og sagðist vita hitt og þetta um nágrannana en svo þegar maður ætlaði að ná leyndarmáli upp úr þér þóttistu ekkert vita en yfirbragð þitt breyttist á augabragði í grjótharða leynilögreglukonu sem lætur ekki vaða yfir sig og þar með komstu upp um þig.
Þessar og svo ótalmargar góðar minningar um þig ylja okkur um
hjartaræturnar því þú varst einstök kona, með erfiða fortíð en ótrúlega
hlýtt hjarta. Hlýtt hjarta þitt áorkaði ýmsu þrátt fyrir erfiðleika. Við
munum alltaf minnast þín og hugsa bara um allar góðu minningarnar sem við
eigum um þig, þær eru okkur dýrmætar.
Það er svo sárt að kveðja þig í síðasta sinn, hvíldu í friði elsku mamma
okkar. Megi allar góðar vættir vaka yfir barnabörnunum þínum. Munum alltaf
elska þig.
Bæn
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni.
Láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli frá Uppsölum)
Þín
Ingólfur, Halldóra Kristín, Guðný, fjölskyldur og barnabörn.