Ásthildur Ingibjörg Sigurjónsdóttir fæddist á Eskifirði 14. febrúar 1941. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 13. október 2021.
Foreldrar hennar voru Sigurjón Guðmundsson bifreiðastjóri frá Eskifirði, f. 1905, d. 1948, og Jóhanna Hjelm frá Vágur í Suðurey í Færeyjum, f. 1905, d. 1975.
Systkini Ásthildar eru: Gunnar Erling, f. 1928, d. 2009, frá Grundarfirði, Jóhanna Matthildur, f. 1929, d. 2011 í Reykjavík, Guðmundur Hannes, f. 1931, d. 2014, frá Seyðisfirði. Sigurjón Haraldur, f. 1936, d. 2008 í Kópavogi, og Brynhildur Hrönn, f. 1945, frá Brú í Biskupstungum.
Þann 31. desember 1963 kvæntist Ásthildur eftirlifandi eiginmanni sínum Vilhjálmi Eiríkssyni frá Hlemmiskeiði á Skeiðum í Árnessýslu, þar sem þau síðan hófu búskap saman. Börn Ásthildar og Vilhjálms eru: 1) Ingibjörg, f. 1961. Hennar maður er Ragnar Davíðsson, f. 1960. Þau eiga saman þrjú börn og fimm barnabörn. 2) Jóhanna Margrét, f. 1963. Hennar maður er Snæbjörn Guðmundsson, f. 1963. Þau eiga saman tvö börn og þrjú barnabörn. 3) Sigurjón Vilhjálmsson, f. 1965, hann á tvö börn með fyrrum sambýliskonum sínum og þrjú barnabörn. 4) Guðbjörg, f. 1968, sem á tvö börn með fyrri sambýlismanni sínum og þrjú barnabörn. Núverandi sambýlismaður hennar er Jón Davíð Olgeirsson, f. 1954. 5) Matthildur Elísa, f. 1969. Hennar maður er Ásmundur Lárusson, f. 1970. Þau eiga saman fjögur börn og tvö barnabörn. 6) Eiríkur Smári, f. 1975, hann á þrjú börn með fyrri sambýliskonu sinni 7) Vilhjálmur Andri, f. 1977. Hans kona er Sigríður Ósk Jónsdóttir, f. 1979. Þau eiga saman þrjú börn og eitt barnabarn.
Ásthildur ólst upp í Baldurshaga á Eskifirði til níu ára aldurs, er hún missti föður sinn og flutti þaðan til Norðfjarðar og síðar í Kópavog þar sem hún bjó ásamt fjölskyldu sinni á Nýbýlavegi, fram yfir unglingsár sín. Sem ung kona réð hún sig í Vigur við Ísafjarðardjúp og þaðan lá leið hennar í Húsmæðraskólann á Ísafirði. Að loknu námi starfaði hún við ýmis ráðskonustörf og meðal annars sem kaupakona að Hlemmiskeiði þar sem hún kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum. Þau hófu búskap á Hlemmiskeiði 1963 og stunduðu til ársins 2000, lengst af í félagsbúi með bróður Vilhjálms, Ástvaldi Leifi, og hans konu Sigurborgu Ólöfu Ólafsdóttur, en síðar með börnum sínum, Sigurjóni, Jóhönnu og Vilhjálmi Andra, og mökum þeirra. Eftir að þau brugðu búi byggðu þau sér lítinn sælureit við Kárahól vestan við gamla Vesturbæinn á Hlemmiskeiði, þar sem þau bjuggu fram til hennar síðustu stundar.

Útför Ásthildar var gerð frá Ólafsvallarkirkju þann 29. október 2021, í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Fyrstu kynni mín af Ásthildi, eða Ástu eins og hún var alltaf kölluð, voru þegar ég var 16 ára gamall og kom við á Hlemmiskeiði með félögum mínum, á leið úr Reykjaréttum á Skeiðum fram í Ólafsvallahverfi, þar sem ég hafði verið í sveit ófá sumur hjá þeim bændum Eiríki og Rósu í Norðurgarði. Tilgangurinn var auðvitað að vonast til að hitta á elstu dóttur hennar, hana Ingibjörgu, en til þess hafði ég fengið í lið með mér ágæta vinkonu hennar frá Ólafsvöllum, sem átyllu til að koma í heimsókn. Þegar við unga fólkið mættum, dreif Ásta allan hópinn inn í réttarsúpu og mikið hvað ég heillaðist af þessari skemmtilegu og indælu konu sem var svo vingjarnleg, glettin og blátt áfram. Hún kom fram við okkur unglingana eins og jafningja. Þessi ferð mín að Hlemmiskeiði þennan örlagaríka dag átti eftir að bera ríkulegan árangur fyrir mig persónulega, því Þetta varð upphafið að vináttu sem aldrei bar skugga á sem stóð í 45 ár, því síðar eignaðist ég þig Ásta mín bæði að tengdamóður, góðum vin og félaga.

Ásta var merkileg kona og mikill gleðigjafi. Í kringum hana var alltaf létt andrúmsloft og glettni. Hún hafði góðan húmor og oft stutt í góðlegan prakkaraskap, samt hreinskilin og furðu fundvís á kjarna málefna og sagði sína meiningu umbúðalaust. Hún var einstaklega barngóð og þolinmóð, hvort sem í hlut átti fólk og ferfætlingar (eða fiðraðar skepnur), enda má segja hún laðaði alla að sér.

Ásta var sérstaklega iðjusöm, féll sjaldan verk úr hendi og hafði alltaf allt í röð og reglu. Hún var hafsjór af fróðleik og óspör á góð ráð, sér í lagi praktísk húsráð. Sennilega hefur ekki spillt fyrir hagnýtt nám hennar á húsmæðraskólanum á Ísafirði forðum daga. Hún var einnig ótrúlega tæknivædd, hafði mikinn áhuga á hvers kyns raftækjum, svo fremi þau væru gagnleg og tengdust heimilisstörfum. Hún vildi alltaf hafa nýjustu tæki og tækni sem völ var á hverju sinni og Vilhjálmur tengdapabbi, eða Villi eins og hann er betur þekktur, var henni eftirlátur um flest það sem hún óskaði sér.

þegar litið er yfir farinn veg er margt að þakka. Í raun er ekki hægt að telja upp öll atriði því þetta rennur allt meir og minna saman í eina samfellda minningu. Ekkert eitt stendur framar öðru upp úr minningunni. Þú bjóst fjölskyldu þinni gott heimili. Þið Villi voruð höfðingjar heim að sækja, studduð vel við bakið á okkur hjónaleysunum fyrstu búskaparárin og ótal stundir sem við áttum saman. Alltaf hlökkuðum við til heimsókna til ykkar á Hlemmiskeið, alltaf eitthvað gott í matinn, gripið í spil á kvöldin, ótal ferðalög þar sem flakkað var um allt Ísland, ferðir í berjamó, ferðalög til útlanda, að ekki sé minnst á siglinguna til Færeyja forðum sem var einstaklega skemmtileg þegar við heimsóttum heimaland móður þinnar, Jóhönnu Hjelm, en þú varst óþreytandi að minna okkur á þú værir færeysk í aðra ættina, sem þú varst sannarlega stolt af.

Ásta og Villi bjuggu við mikið barnalán og þau eignuðust sjö börn sem öllum hefur farnast vel í lífinu. Barnabörnin eru orðin 19, og barnabarnabörnin 17 talsins.

Ég veit Ástu þótti alltaf vænt um tilefni þess að ljóðið Í rökkurró hún sefur eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld varð til, en Guðmundur skólaskáld var góður vinur föðurafa hennar, Guðmundar Pjeturssonar, nuddlæknis á Eskifirði, og orti ljóðið í minningu dóttur hans Jóhönnu, systur Sigurjóns föður Ástu, sem dó aðeins fimmtán ára ung stúlka.


Í rökkurró hún sefur
með rós að hjartastað.
Sjá haustið andað hefur
í hljóði á liljublað.
Við bólið blómum þakið
er blækyrr helgiró.
Og lágstillt lóukvakið
er liðið burt úr mó.
Í haustblæ lengi, lengi
um lyngmó titrar kvein.
Við sólhvörf silfrin strengi
þar sorgin bærir ein.
(Guðmundur Guðmundsson.)


Þú varst sannarlega litrík og skemmtileg persóna. Meðal okkar mun minning þín lifa svo lengi sem sögurnar þínar verða sagðar.

Ég kveð þig Ásta mín með trega og söknuði en jafnframt bestu kveðju, þinn tengdasonur og vinur.


Ragnar Davíðsson.

Elsku amma, það fyrsta sem kemur upp í huga minn, Þegar ég hugsa til þín er þig segja Ert þetta þú Ásta mín en það varstu vön að segja í hvert skipti sem við hittumst. Ég var ekki há í loftinu þegar ég fór að ferðast ein til ykkar afa með rútu frá Reykjavík, kannski 5 ára. Þú beiðst alltaf eftir mér við vegamótin með bros á vör svo ég þyrfti ekki að ganga heim síðasta spölinn að bænum ykkar á Hlemmiskeiði. Það sem mér leið alltaf vel að vera hjá þér og hlusta á allar sögurnar þínar og þiggja þínar góðu leiðbeiningar og ráð. Gósenferðirnar eftir síkó og Tap þar sem ég fékk kók í gleri & prins, ófáu matarkexin og kókómjólk sem svo oft var boðið upp á hjá ömmu og lykillinn hennar að eldhúsbúrinu gleymist seint. Þegar hann var dreginn upp vissir maður að þá var von á góðu.

Þegar ég svo varð eldri og samband okkar breyttist urðum við nánari vinkonur því þú hafðir einstakt lag á því að ræða við alla eins og jafningja. Þá fóru samskiptin okkar að breytast og samtölin að verða afar skemmtileg enda ýmislegt rætt undir kaffibolla, sögur um fólk og nýjustu fréttir og skemmtilegt slúður úr sveitinni og ættingjar ekki undanskildir, meira að segja af henni mömmu minni og systrum hennar og svo hlógum við þessi ósköp. Elsku amma mín, ég á svo erfitt með að hugsa til þess að þú sért farin í draumalandið, en eitt er ég viss um að þú ert glöð að hitta langafa Sigurjón, pabba þinn sem þú misstir alltof ung og talaðir alltaf svo fallega um með trega og söknuði.

Við vorum góðar vinkonur alla tíð. Þú hafðir svo mikla ánægju af því að fylgjast með hvað á daga mína dreif í Reykjavík og seinna meir af krökkunum mínum, hlustaðir svo vel og vildir vita allt það helsta og ekki skemmdi það fyrir ef það væri eitthvað djúsí.

Amma hafði mikinn húmor og gat verið skemmtilega stríðin. Dæmi um það var eitt sinn um réttir í sveitinni, þegar ég, einu sinni sem oftar sat við eldhúsborðið í gamla húsinu á Hlemmiskeiði að borða réttasúpuna, sem auðvitað var sú besta í heimi. Þegar ég var langt komin með skál númer tvö heyrist í ömmu; " Jæja, hvernig finnst þér svo súpan Ásta mín?" Ég leit upp og sagði; "mjög ljúffeng og góð amma mín. " Jæja, heyrist þá í ömmu sem brosti kankvís; það er nú gott, því þér tókst nú aldeilis vel til með hann Lilla þinn í sumar. Ég leit upp dálítið ringluð og áttaði mig ekki alveg hvað hún var að fara með þessu og svaraði: "Hvað meinar'u?" Nú, svaraði amma, þú ert að éta hann. Við horfðumst í augu, hún með glettnisblik í augum, hló ekki upphátt, en ég fann langaleið að hún skellihló innra með sér. Þá skildi ég allt í einu að Lilli, sem hún var að vísa til var auðvitað heimaalningurinn sem hafði verið á hlaðinu allt þetta sumar. "AMMA!!" sagði ég. Hún sagði mér hlæjandi að Afa hefði fundist ég standa mig svo vel að halda lífi í lambinu að það væri synd að nota hann ekki í súpuna. Jæja hugsaði ég..eitt stig á mig!

Elsku amma það verður seint toppað hvað það var gaman að vera í kringum þig þegar eitthvað glens var í vændum og hvað þá þegar við fórum saman á böll. Eitt skiptið þegar Eiríkur frændi hélt upp á afmælið sitt inn á stóra verkstæði á Hlemmiskeiði, öllu var tjaldað til og síðan var farið á Hestakránna að dansa og svo aftur heim í eftirpartý. Ég var orðin syfjuð og ætlaði í háttinn enda hafði ég lofað að mæta í gegningar næsta morgun, en þú varst enn í stuði og fékkst mig til að fara aftur í gleðina með henni og sagðir mér að það væri þarna piltur sem væri ættaður frá Reykjum í sömu sveit. Ég var nú ekki á því, en hvernig var hægt að neita ömmu sinni þegar hún var í þessum skemmtilega gír og lét til leiðast. Amma vissi greinilega hvað mér var fyrir bestu því pilturinn sem ég kynntist þarna var hann Ingvar minn og erum við gift í dag.

Elsku Amma hvað ég sakna þín sárt en á sama tíma veit ég að þér líður betur núna.

Við kveðjum þig elsku amma mín,
í upphæðum blessuð sólin skín,
þar englar þér vaka yfir.
Með kærleika ert þú kvödd í dag,
því komið er undir sólarlag,
en minninga ljós þitt lifir.

(Halldór Jónsson frá Gili)



Þín

Ásthildur Ingibjörg Ragnarsdóttir.

Elsku Ásta amma.


Við systur erum því sammála að þú varst allt of fljót með dagsverkin þín þann 13. október síðastliðinn er þú kvaddir okkur fyrir hádegi. Það hefði kannski ekki átt að koma okkur á óvart þar sem þú hafðir haft orð á því við okkur þegar við spurðum þig hvernig í ósköpunum þú hefðir komist yfir öll þín dagsverk með svo stórt og blómlegt bú ykkar afa. Þú hafði svarað því til að þú vildir klára öll þín dagsverk fyrir hádegi því annars upplifðir þú þig sem algjöran aumingja þín orð sem við getum ekki tekið undir. Miklu frekar eiga önnur orð á borð við: skipulögð, dugnaðarforkur, skemmtileg, útsjónarsöm, fyndin, kankvís, sniðug, elskuleg, barngóð og svo miklu fleiri orð sem lýsa þér elsku amma. Þú varst mögnuð kona og okkur systrum góð fyrirmynd. Alltaf ef okkur skorti húsráð við hinu og þessu, gast þú veitt okkur þau, þú hafði svo sannarlega ráð undir rifi hverju.
Það var alltaf gott að koma til ykkar afa á Hlemmó-ið góða, alltaf tókstu okkur opnum örmum með bros á vör, sama hversu veik þú varst í seinni tíð. Sögurnar þínar og húmor léttu okkur ætíð lund. Við eigum góðar og dýrmætar minningar sem munu ylja okkur í framtíðinni og þá sérstaklega á erfiðum tímum.

Elsku amma þú sannaðir það sem allir segja, maður er aldrei tilbúin þegar kemur að kveðjustund. Þú hafðir farið ófáar ferðirnar inn á HSu, oft mjög veik en náð þér fljótt og komist heim til afa. Auðvitað vildum við að svo hefði verið í þetta sinn. En við vitum elsku amma að nú hefur færst yfir þig ró og líðan þín miklu betri. Við endum þessa hinstu kveðju til þín með broti úr ljóði sem Anna Stefanía samdi árið 2004.

Nú þegar leiðir okkar skilja,
þú farin ert á aðra braut
Þá vil ég ávallt þig minna
hversu mikinn söknuð ég hlaut.....

Ég kvaddi þig með tár á hvörmum
þú kysstir mig á vangann minn
Ég veifaði mínum örmum
því þetta var kveðjustundin
Lífið heldur áfram
en aldrei það verður sem fyr
En ávallt ég hugsa til þín
því þú verður ætíð amma mín.

Hvíldu í friði elsku hjartans Ásta amma við munum alltaf sakna þín, minning þín lifir í hjörtum okkar


Þínar dótturdætur,

Anna Stefanía Vignisdóttir Hildur Birna Vignisdóttir.