Stefán B. Ólafsson fæddist á Nýlendugötu 27 í Reykjavík 6. nóvember 1949. Stefán varð bráðkvaddur 13. október 2021. Eiginkona hans er Ingunn Magnúsdóttir f. 23.september 1955. Foreldrar Stefáns voru Þóra G. Stefánsdóttir, f. 27. nóvember 1926, d. 14. júlí 2017, og Ólafur Bergsson, f. 9. janúar 1927, d. 12. júní 2008. Systur hans eru Þóra Andrea, f. 2. mars 1948, Kolbrún, f. 10. febrúar 1952, Sigrún, f. 12. mars 1957, og Pálína Sólrún, f. 4. mars 1962.

Stefán var giftur Valgerði Gunnarsdóttur, f. 11. október 1951, d. 12. febrúar 2019. Þau skildu árið 2001. Þau eiga tvær dætur. 1) Valgerður, f. 2. september 1974, eiginmaður hennar er Kristján Þór Hlöðversson, f. 3. maí 1970. Börn þeirra eru Óliver Adam og Carmen Eva. Börn Kristjáns eru Alexandra Elísabet og Jakob Ágúst. 2) Agla Marta, f. 6. maí 1976. Dóttir hennar er Andrea Agla.

Ingunn á tvo syni úr fyrra hjónabandi 1) Daníel Traustason f. 20. september 1979. Börn hans Róbert Viðar og Embla Sóley 2) Róbert Traustason, f. 6. maí 1983, eiginkona hans er Anna Einarsdóttir. Dætur þeirra eru Katrín Klara og Emilía Emma.

Stefán var húsasmíðameistari frá Iðnskólanum í Reykjavík og vann sem sölumaður hjá Andra hf. og síðan sem smiður, sölumaður og við uppsetningu á Crawford hurðum hjá Velti hf.  Stefán og fyrri eiginkona hans stofnuðu Hurðaborg árið 1989. Stefán starfaði þar sem framkvæmdastjóri þar til hann lést.

Stefán átti fjölmörg áhugamál, var vinamargur og virkur í margs konar félagsstarfi og þar má nefna Lions, Stoð, Frímúrara, JC, Hundraðhestaflagengið. Stefán stundaði ötull íþróttir s.s. reiðmennsku, golf, skíði og tennis.



Útför Stefáns fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 5. nóvember 2021, kl. 15.

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat





Hann skellihlær á meðan hann trommar með fingrunum á tréborðið utan við bústaðinn. Ég reyni líka að stappa í takt í gúmmíbomsunum mínum um leið og ég beini háþrýstisprautunni að skjólveggnum skammt frá. Takturinn í laginu minnir á lest á járnbrautarteinum. Sem aftur minnir á hjartslátt. Pabbi stillir hátalarann í botn, lítur til mín og úr augunum skín gamla glettnisblikið sem ég þekki svo vel. Svo syngur hann hástöfum viðlagið í uppáhaldsslagaranum með Rolling Stones:



Going home.



Einhvern veginn fær titill þessa lags og einstakur takturinn aðra og dýpri merkingu núna þegar ég hugsa til einna síðustu samverustundanna með pabba um nýliðna verslunarmannahelgi. Við pabbi og Inga fórum þá austur á Laugarvatn til að dytta að bústaðnum, hreinsa pallinn og grisja skóginn. Ég er svo þakklát fyrir þessa helgi, þessar stundir síðasta alvöru djammið með pabba.



Líf flestra er kaflaskipt og það er eins með okkar fjölskyldu. Minningar mínar frá fyrstu köflum lífsins eru margar tengdar æskuheimilinu á Hofgörðum og líka skemmtilegu fjölskyldubrölti við Þingvallavatn þar sem við og móðurfólkið mitt áttum bústaði. Sumardvölin þar var eins og ævintýri; við Vala systir flökkuðum að vild milli húsanna og fyrirkomulagið var eins og hjá ítalskri stórfjölskyldu þar sem börnin eru sameign. Minningar frá þessum tíma skjóta upp kollinum: pabbi að leyfa barninu mér að keyra, pabbi að smíða, pabbi að syngja og fíflast, pabbi að segja sögur. Hann var brandarakarl og alltaf í stuði. Stebbi stuð.



Það er óhætt að segja að pabbi hafi verið litríkur maður. Hann skartaði ekki bara björtustu litum regnbogans heldur þræddi allan skalann. Aðalsmerki hans var samt gleðin sem hann vildi deila með öllum. Hann fór aldrei í manngreinarálit, kom eins fram við allt fólk, á öllum aldri. Og hann talaði líka alltaf vel um aðra það hlýtur að teljast til mannkosta sem ekki allir geta státað af. Það var aldrei erfitt að finna hann í mannþröng þótt maður kæmi ekki strax auga á hann; maður rann bara á hljóðið og hlátrasköllin. Fólk hópaðist að honum því hann var mikill húmoristi, sögumaður af guðs náð sem vissi fátt skemmtilegra en að fá fólk til að hlæja. Jafnvel á viðkvæmustu stundum gat hann kallað fram bros hjá öllum, til að létta lundina.



Meðal minninga úr síðari köflum lífsins er t.d. ógleymanleg ferð okkar Andreu Öglu með pabba og Ingu til Svíþjóðar þar sem við sungum látlaust Kim Larsen-lög alla 900 km leiðina milli Köben og Stokkhólms. Pabbi gerði tilraun til að skipta um tónlist á leiðinni með því að stinga í tækið öðrum disk sem hann hafði keypt á bensínstöð í einu stoppinu. Þetta var diskur með hinum drepleiðinlegu sænsku Vikingerne. Ekki að ræða það! sögðum við og víkingavælið var kæft í fæðingu. Áfram og um alla tíð skyldi Kim Larsen vera kóngurinn! Ég minnist líka skemmtilegra stunda á kránni Puk í Köben, þar sem pabbi á yngri árum spilaði púkk af miklum áhuga milli þess sem hann vann vaktir sem hlaðmaður á Kastrup. Þar var ósjaldan skálað í bjór og snaps yfir ljúffengu smurbrauði.



Hann var bakvörðurinn minn í margs konar skilningi. Í íþróttum var hann minn öflugasti stuðningsmaður, mætti á alla handboltaleiki og það heyrðist vel í honum af hliðarlínunni! Pabbi reyndist okkur Andreu líka mikil hjálparhella síðar. Við töluðum mikið saman í síma, spjölluðum saman nokkrum sinnum í viku. Við ræddum allt milli himins og jarðar, oft um rekstur Hurðaborgar eða nýjustu ævintýri Andreu Öglu á flakki um heiminn. Oftar en ekki var þó talið leitt að handbolta eða fótbolta. Við hringdumst á bæði fyrir og eftir alla stórleiki og jafnvel líka í hálfleik! Við pabbi áttum einstakt samband. Okkar samband.



Pabbi var hagleikssmiður og mikill fagurkeri og smíðaði bæði kofa og kojur fyrir okkur systur. Ég held að honum hafi þótt vænt um að sjá að smíðaáhuginn gekk í erfðir og hann var stoltur af litla verkstæðinu sem ég kom mér upp í Hveragerði. Hann var með ólæknandi bíladellu og átti marga kagga um ævina sá flottasti var þó líklega bleiki og hvíti Crown Victoria-fornbíllinn sem vakti alls staðar mikla athygli. Hann keypti raunar aðra klassagræju með þeim bíl, stæðilegt juke-box eða glymskratta sem við notuðum óspart í bílskúrnum á Hofgörðum. Hann var elskur að börnum en ekki síður leikföngum, keypti alltaf helling af þeim fyrir barnabörnin ... og kannski smá fyrir sjálfan sig og þá á ég einkum við fjarstýrðu bílana. Hann elskaði öll farartæki; því hraðar sem þau fóru, því betra. Pabbi fór sjálfur bara almennt hratt yfir.



Fertugsafmælisveisluna mína fékk ég að halda hjá pabba og Ingu á Sunnuflötinni og þar var enginn afsláttur gefinn! Hátalararnir settir upp á þak á bílskúrnum, tjaldað í garðinum og pabbi smíðaði meira að segja sérstakan bar á stéttina utan við húsið. Svo hressilegt var partíið að löggan kom að minnsta kosti einu sinni!



Mér þótti vænt um að geta endurgoldið greiðann og haldið honum afmælisveislu hér á heimili mínu í Hveragerði þegar hann varð sjötugur fyrir tæpum tveimur árum. Þetta var nánast eins og helgarferð til útlanda þar sem margir gestanna gistu á Hótel Örk en mættu svo hingað í veisluna. Þetta var vel heppnað afmæli og mikil stemning sem náði hápunkti þegar tónlistarmaður sem var í miklu uppáhaldi hjá pabba, Magnús Sigmundsson, kom og lék nokkur lög.



Ég er þakklát fyrir allar okkar stundir, öll okkar samtöl og mun sakna pabba míns sárt.

Going home, söng hann fyrir stuttu. Við Andrea Agla sendum pabba og afa hlýjar og kærleiksríkar óskir um góða heimferð.

Þín dóttir,







Agla Marta.